![](https://static.isu.pub/fe/default-story-images/news.jpg?width=720&quality=85%2C50)
2 minute read
64 rottugrímur
Tinna Ingimarsdóttir leikgervahönnuður
Allar rotturnar í Draumaþjófnum bera grímur, og gera þurfti alls 64 grímur fyrir sýninguna! Grímurnar eru unnar frá grunni í leikhúsinu. María búningahöfundur hannaði útlitið að grímunum í samvinnu við okkur Mathilde úr leikmunadeildinni. Mathilde leiraði form fyrir grímurnar, ólík fyrir hvern rottuhóp. Þá tók ég við og mótaði grímurnar sjálfar úr svokölluðu „worbla“-efni. „Worbla“ er plastefni úr náttúrulegum efnum sem er notað til að móta ýmislegt, m.a. skartgripi, leikmuni og hluti fyrir hlutverkaleiki. Ég byrjaði á því að hita og bræða efnið og leggja það yfir mótin. Ég mótaði sérstakt útlit fyrir hverja persónu, setti hrukkur á sumar, gerði aðrar reiðar á svipinn, einhverjar unglegar og aðrar gamlar. Því næst spreyjaði ég grímurnar í ólíkum litum, Bátarottur eru t.d. gulleitar, Safnarar grábrúnir, Étarar svartir og hvítir og Matarfjallsrottur eru í öllum regnbogans litum. Á sumar grímur festum við eyru úr leðri eða „worbla“, höfuðfat eða hárkollu. Útlit sumra rottanna tengir þær, t.d. eru mæðgurnar Eyrdís og Skögultönn báðar með fegurðarblett og svipað hár. Það er mikil áskorun að láta allt passa og virka rétt, og gaman að leita leiða til að gera grímurnar spennandi og skemmtilegar.
Það er gott að vera rotta
Já, það er gott að vera rotta, gott að vera rotta, gott að geta sett upp þetta flotta rottuglott.
Já, það er gott að vera rotta, gott að vera rotta, flott hvað nánast öllum finnst við rottur vera hott.
Með mjúkan feld og fallegt skott og fituríkan maga. Draumasmiður barna, þín bíður draumanótt! Skirilimmbimmbammbúmmbó.
Jó halló
Við erum með besta bolónesið, fær bestu dómana sem þið hafið lesið. Úldnar risarækjur beint upp úr tunnu og restarnar af diskum Jónu og Gunnu.
Hér er veisla, hér er teiti, hér er peppað partílíf.
Nóg af sykri, nóg af hveiti.
Svo saddur burt ég svíf!
Við syngjum og dönsum. Allar nætur og alla daga.
Jó halló…
Það tjúttar enginn á tóman maga.
Við verðum njósnarar
Við stöndum saman alla leið.
Þá verður rottugatan greið!
Við erum algjörir Hafnarlands-himna-rottu-vinir.
Erum besta teymi í heimi.
Já, í öllum himingeimi.
Við verðum stórar stjörnur saman þú og ég.
Við verðum njósnarar saman að eilífu.
Óvei!
En nei! Óvei!
Ég er svo grá og gúggluð að sjá. Óvei! Ósvei! Alltaf södd og samt illa stödd. Ég borða og borða og borða en er aldrei nógu feit. Ónei, óvei, ósvei.
Af hverju?
Við náðum yfir hafið, elsku mamma mín og ég og hittum þessi hérna, þau voru hræðileg. Þau sögðu okkur skrýtin og skildu okkur að. En skrýtnara var að við værum tvö, hvort á sínum stað.
Ekki gráta
Ekki gráta, ástin mín.
Allt þá verður gott.
Láttu aftur augun þín, þú yndis-rottuskott.
Þá nóttin langa líður fljótt, þá landi muntu ná.
Þá mömmu og pabba muntu skjótt að morgni aftur sjá.
Ekki gráta, ástin mín, aftur sólin skín.
Við stöndum saman alla leið þá gatan verður greið.
Þá verður rottugatan greið.
En af hverju er ég ekki velkominn?
Af hverju má ég ekki vera hér?
Þau segja að ég sé öðruvísi. Öðruvísi en hvað?
En barn er barn sama hvar í heimi það er.