Vefrit starfsmanna LRH

Page 2

Sævar Stefánsson rannsóknarlögreglumaður man tímana tvenna:

„Fannst nýja lögreglustöðin vera afskaplega stór“

Það var auðvitað mikill munur á gömlu og nýju aðstöðunni, líkt og sjá má á þessum myndum. Önnur tekin í Pósthússtræti en hin á Hverfisgötu.

„Það var mjög mikil breyting að flytja hingað á Hverfisgötuna úr Pósthússtrætinu. Aðstaðan var auðvitað á allan hátt betri, við fengum t.d. fataskápa og gátum farið í sturtu. Það var nú ekki í boði á gömlu stöðinni enda þröngt þar á þingi og allir lögreglumenn nánast í einum hnapp. Nýja lögreglustöðin var svo gott sem fullbúin þegar við fluttum inn. Kaffistofan var tilbúin og líka setustofan og það var nú aldeilis munur á þessum vistaverum í samanburði við þær gömlu,“ segir Sævar Stefánsson rannsóknarlögreglumaður þegar hann rifjar upp þau merku tímamót þegar lögreglan flutti í nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar við Hverfisgötu 113-115 í Reykjavík þann 4. nóvember árið 1972. „Okkur yngri mönnunum þótti frekar spennandi að flytja úr lögreglustöðinni við Pósthússtræti 3 og á Hverfisgötuna. Þeir eldri voru hins vegar dálítið kvíðnir og fannst nýja lögreglustöðin vera afskaplega stór. Svo stór reyndar að þeir skildu ekki alveg hvað átti að gera við allt þetta húsnæði. En flutningarnir gengu ágætlega fyrir sig og samheldnin á meðal lögreglumannanna var áfram jafn mikil og

hún hafði verið á gamla staðnum. Það breyttist ekkert.“ Á þessum tímamótum lögreglunnar má segja að Sævar hafi ennþá verið nýliði í starfi. ÓRÁÐINN MEÐ FRAMTÍÐINA „Ég byrjaði sem héraðslögreglumaður á Blönduósi, en fór svo í bæinn og var óráðinn með framtíðina. Haustið 1971 var ég sölumaður hjá Ræsir en hitti þá Guðmund Hermannsson, aðstoðaryfirlögregluþjón og síðar yfirlögregluþjón, en hann færði þetta í tal, þ.e. lögreglustarfið. Það varð síðan úr að ég sendi inn umsókn og var fljótlega kallaður í viðtal þar sem þeir Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri og yfirlögregluþjónarnir Óskar Ólason og Bjarki Elíasson lögðu fyrir mig spurningar. Þeim hlýtur að hafa litist ágætlega á piltinn því ég var ráðinn og fékk inngöngu í lögregluna. Í framhaldinu sagði ég upp sölumannsstarfinu og tók sæti í Lögregluskólanum. Og þann 10. desember 1971, eftir að hafa lokið fyrri önninni í skólanum var ég kominn í lögreglubúninginn og farinn út á götu að sinna verkefnum í jólaösinni í Reykjavík.“

Sævar segir þetta hafa verið eftirminnilegt tímabili en hann var á svokallaðri millivakt þetta tæpa ár sem hann var á lögreglustöðinni í Pósthússtrætinu. Aðbúnaðurinn var kannski ekki upp á marga fiska en menn létu það ekki á sig fá. „Kaffistofan á gömlu lögreglustöðinni var ekki stór. Í henni var skenkur og tveir bekkir og menn gátu því lagt sig ef svo bar undir. Í kaffistofunni voru líka tvö borð. Á öðru var spilað á spil en á hinu var teflt. Á hæðinni var líka herbergi en þar inni var unnið við skýrslugerð og teikningar. Vissulega var þetta þröngt en svona var þetta bara. Ég man að Guðmundur Hermannsson og Bjarki Elíasson deildu herbergi á efri hæðinni en þar uppi var líka skrifstofa Sigurjóns lögreglustjóra. Reyndar voru Guðmundur og Bjarki ekki aðeins í sama herberginu heldur máttu þeir einnig gera sér að góðu að nota sama skrifborðið.“ HÁTT TIL LOFTS OG VÍTT TIL VEGGJA Það gat orðið nokkuð hávaðasamt á lögreglustöðinni en Sævar segir að þar hafi oft verið erilsamt á daginn. Trégólf var á stöðinni og það dró víst lítið úr hávaðanum. SÍÐA

2


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.