AÐALNÁMSKRÁ GRUNNSKÓLA – ALMENNUR HLUTI 2011 – GREINASVIÐ 2013
TENGSL SKÓLASTIGA
15
Meðal meginatriða nýrrar menntastefnu, sem mótuð var með gildistöku laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla 2008, var að auka svigrúm, sveigjanleika og samfellu á milli skólastiga og innan hvers skólastigs. Lögð er áhersla á að grunnskólinn komi betur til móts við ólíkar þarfir barna en það kallar á að svigrúm í skipulagi náms sé aukið, þ.m.t. námslengd og skil milli skólastiga. Helstu markmið samstarfs og tengsla milli skólastiga eru að skapa samfellu í námi barna, koma til móts við þarfir þeirra og stuðla að markvissari uppbyggingu náms. Einnig er markmiðið að treysta gagnkvæma þekkingu og skilning á starfi kennara og námi nemenda og stuðla að vellíðan og öryggi barna þegar þau flytjast milli skólastiga.
15.1
Tengsl leik- og grunnskóla
Til þess að koma til móts við ólíkar þarfir barna þarf svigrúm í skipulagi náms, þ.m.t. námslengd. Börn geta, með heimild skólastjóra grunnskóla, hafið grunnskólanám fyrir 6 ára aldur. Áður en slík ákvörðun er tekin er brýnt að starfsfólk viðkomandi leikskóla og grunnskóla og foreldrar hafi fjallað um málið. Samkvæmt lögum um leikskóla og grunnskóla ber sveitarfélögum að koma á samstarfi milli leik- og grunnskóla. Í skólanámskrám skal gera grein fyrir samstarfinu og hvernig standa skuli að aðlögun barna og færslu milli skólastiga. Skólaganga barna á að mynda samfellu þannig að reynsla og nám á fyrri skólastigum nýtist á þeim næstu. Þegar börn byrja í grunnskóla þarf að byggja á fyrra námi og reynslu þeirra úr leikskólanum. Sú hæfni, sem börnin öðluðust í leikskóla,
74