Mennta- og menningarmálaráðuneyti
22
NÁTTÚRUGREINAR
Gerð er grein fyrir menntagildi og megintilgangi náttúrugreina í þessum kafla. Tekið er mið af þeim sex grunnþáttum sem fjallað er um í 2. kafla, áhersluþáttum í námi sem fjallað er um í 6. kafla og lykilhæfni sem skilgreind er í kafla 9.4 og 18. kafla. Sett eru fram hæfniviðmið við lok 4., 7. og 10. bekkjar. Í framhaldi er fjallað um kennsluhætti og námsmat. Tekur sú umfjöllun mið af þeim áherslum sem birtast í hæfniviðmiðunum. Á grundvelli hæfniviðmiða eru kennsluaðferðir, námsefni og matsaðferðir valdar og skal gera grein fyrir þeim í skólanámskrá viðkomandi skóla. Í lok kaflans eru sett fram matsviðmið sem nýtt skulu eftir því sem við á, til að lýsa hæfni nemanda við lok grunnskóla.
22.1
Menntagildi og megintilgangur náttúrugreina
Íslendingar þurfa, sem hluti af samfélagi þjóða, að vera meðvitaðir um að tækni, mannlegar ákvarðanir og gjörðir hafa áhrif á sameign allra jarðarbúa, nú og til framtíðar. Allir eiga að geta tekið virkan þátt í samfélagi, þar sem umræður og ákvarðanir hversdagsins grundvallast á upplýstum og gagnrýnum viðhorfum. Í náttúrugreinum þarf þekkingu, leikni og hæfni til að svo geti orðið. Undir náttúrugreinar í grunnskóla heyra m.a. náttúrufræði, eðlisvísindi, jarðvísindi, lífvísindi og umhverfismennt. Námið fléttar saman efnisþætti náttúrugreina og viðmið sem varða eflingu ábyrgðar á umhverfinu, vinnubrögð og gildi náttúrugreina, nýsköpun og hagnýtingu þekkingar og getu til aðgerða. Náttúrugreinar stuðla að þekkingu, virðingu, ábyrgð og einstakri upplifun nemenda. Við skipulagningu náttúrugreina
167