5 minute read

,,Ef eitthvað á að vera varanlegt, verður það að vera ánægjulegt’’

Indíana Nanna Jóhannsdóttir, stofnandi og yfirþjálfari GoMove Iceland hefur síðastliðið ár unnið að nýju netnámskeiði. Hún vill fræða þátttakendur um mataræði, svefn og öndun á einfaldan og mannlegan máta og aðstoða þá við að elda, sofa og anda betur. Námskeiðið er 28 dagar og er hugsað fyrir alla sem hafa áhuga á að gera aðeins betur þegar kemur að þessum grunnstoðum heilsunnar.

Sem þjálfari er mitt helsta hlutverk að auka sjálfstraust fólks á æfingum. Þegar kemur að mataræði, svefni og öndun snýst þetta um nákvæmlega sama hlutinn: Að auka sjálfstraust og kunnáttu einstaklingsins.

Við getum ekki gengið í gegnum lífið, gjörsamlega ómeðvituð um mataræði okkar. Sérstaklega ekki í dag þar sem sölumarkmið og framleiðslugeta fyrirtækja vega oft þyngra en að búa til næringarríka afurð sem er góð fyrir okkur neytendur. Það sem við veljum sem næringu hefur þar að auki ekki bara áhrif á okkur sjálf, heldur líka afkomendur okkar og afkomendur þeirra.

Það er enginn með allt á hreinu þegar kemur að mataræði, svefni eða öndun. En ég vil ýta við fólki og fá það til að hugsa öðruvísi um hlutina. Stundum þarf maður bara smá aðhald og hvatningu til að taka loksins ákvörðun um eitthvað sem okkur hefur lengi langað til að vinna betur í eða bæta. Það er enginn með allt á hreinu þegar kemur að mataræði, svefni eða öndun.

Ekki vera alveg sama en ekki hugsa of mikið heldur

Í lífinu almennt er ég frekar létt, ljúf og kát. Ég reyni að taka hlutunum ekki of alvarlega en það þýðir ekki að mér sé alveg sama. Mér er nefnilega mjög annt um mína heilsu og heilsu fólksins í kringum mig.

Þetta er nákvæmlega ástæðan fyrir því að ég setti saman námskeiðið. Mig langaði til að aðstoða aðra við að auka lífsgæði sín. Mér þykir gaman að gefa öðrum hugmyndir og deila því sem ég er að uppgötva hverju sinni. Þetta námskeið er bara skipulögð samantekt á því öllu saman.

Getum gert betur og haft gaman að því

Sem ágætlega meðvitaður einstaklingur og áhugamanneskja um mat og mataræði þá renni ég oft augunum í kringum mig og tek eftir því sem fólk er að versla inn. Ég vona að þú dæmir mig ekki of mikið fyrir þessa hegðun en það er bara þannig að um leið og maður fær áhuga á einhverju þá tekur maður meira eftir því í kringum sig.

Oft held ég að fólk viti bara hreinlega ekki að það geti gert betur, fyrir sig og sína. Það er kannski að kaupa inn vöru sem er mikið markaðssett sem heilsuvara en svo er hún það því miður ekki. Meðvitaður einstaklingur gæti snúið vörunni við, lesið innihaldslýsinguna og séð að það er hægt að velja betur.

Mig langar til að kenna fólki einfaldar þumalputtareglur og aðferðir til að gera aðeins betur og í kjölfarið líða aðeins betur líka. Án þess að farið sé út í öfgar eða sett séu of mikil höft. Við færum frekar fókusinn yfir á alvöru mat en að einblína á það sem við viljum forðast.

Einfaldar þumalputtareglur sem allir geta tileinkað sér

Í upphafi námskeiðsins fá allir aðgang að Leiðarvísi (handbók). Ég vil gefa fólki mannlegar og einfaldar þumalputtareglur sem það getur í alvöru tileinkað sér. Allt eru þetta þumalputtareglur sem ég sjálf fylgi almennt í mínu lífi, án þess að taka þær of alvarlega, því jú lífið gerist og það er ekki hægt að vera alltaf 100%. Dæmi:

Verslaðu ferskvöru í jaðri matvöruverslana, forðastu frekar miðjuna þar sem unnu vörurnar eru

Borðaðu alvöru mat

Eldaðu þig í gang

Borðaðu máltíðir, minnkaðu eða hættu snarlinu

Gæði fram yfir magn

Svona virkar námskeiðið

Netnámskeiðið sjálft er 28 dagar eða 4 vikur.

Fyrsta vika námskeiðsins (Dagur 1-7)

Fer í að kynnast og leggja grunn. Allir fá Leiðarvísinn í hendurnar og byrja að kynna sér hann. Við byrjum á hausnum og hugarfarinu, búum til kvöld- og svefnrútínu og förum almennt yfir matarinnkaup og það hvernig við setjum tóninn fyrir vikuna og daginn okkar.

Þrjár vikur þar á eftir (Dagur 8-28)

Fara í framkvæmd. Þá mun ég skora á þig að fara eftir Leiðarvísinum og leggja áherslu á alvöru mat, vinna í að auka gæði svefnsins þíns og að prófa þig áfram með einfaldar öndunaræfingar.

Þú getur skráð þig og fundið allar upplýsingar um námskeið Indíönu á heimasíðunni www.gomove.is

N-Á-S-T formúlan

Þegar kemur að mataræðishlutanum munum við leggja áherslu á að fylgja svokallaðri N-Á-S-T formúlu sem ég setti saman fyrir námskeiðið.

1. Næring

Líkamleg næring: Alvöru matur nærir okkur almennilega og gefur okkur orku. Mikið unninn matur eða nammi er í raun ekki matur því hann inniheldur litla eða enga næringu.

Félagsleg næring: Matur á að næra kroppinn en líka sálina. Matur er félagslegt fyrirbæri. Eldaðu máltíð með fólkinu þínu og njóttu hans í góðum félagsskap.

2. Ánægja

Nærðu sálina jafn mikið og kroppinn. Ef eitthvað á að vera varanlegt verður það að vera ánægjulegt. Alveg eins og hreyfing, þú endist ekki í einhverju sem þér þykir leiðinlegt.

Matur á að vera seðjandi en hann á líka að vera ánægjulegur og fullnægjandi. Risaskál af þurru salati gæti gert mig sadda (efa það samt), en það væri ekki sérlega ánægjuleg eða fullnægjandi máltíð. Stundum þarf ekki meira en avókadó, smá pestó og hnetur og þá er máltíðin orðin bæði ánægjuleg og fullnægjandi.

3. Sedda

Þú átt ekki að þurfa að vera stanslaust borðandi og það ruglar í líkamsstarfseminni og blóðsykrinum ef þú ert stanslaust að áreita kerfið þitt og meltinguna með mat.

Fólk er oft hrætt við að borða sig satt. En það er mikilvægt að gera það svo þú farir ekki að leita í kexskúffuna hálftíma eftir mat. Sedda er lykillinn. Hér skiptir máli að huga að samsetningu máltíða. Prófaðu að setja fókusinn yfir á prótein, góða fitu og trefjar í bland við kolvetnin, sérstaklega í fyrstu máltíð dagsins. Það endist þér lengur. Matur sem gefur góða seddu, inniheldur góða fitu og mikla næringu: Rautt kjöt, feitur fiskur, hnetur, feitar mjólkurvörur, egg, fræ og góðar olíur.

4. Tilfinning

Hlustaðu á líkamann. Hvað er hann að segja þér? Hvernig líður þér af matnum sem þú borðar? Líkaminn þinn er oftast besti læknirinn. Hann er duglegur að segja þér hvað hentar og hvað ekki.

This article is from: