4 minute read
Heilsan er í okkar eigin höndum (að mestu leyti)
Heilsan er okkur öllum dýrmæt þar sem við viljum vera hraust, hafa næga orku í allt sem okkur langar að gera og að okkur líði vel í eigin skinni.
Því miður lendum við mörg hver á einhverjum tímum lífsins í veikindum eða slysum sem hafa áhrif á þessa þætti, ýmist tímabundnum eða langvarandi. Þegar það gerist höfum við vanist því að leita til heilbrigðiskerfisins eftir aðstoð við að ná heilsu á ný. Við langvarandi heilsubrest af hvaða toga sem er förum við reglulega til sálfræðinga, sjúkraþjálfara, hjúkrunarfræðinga eða lækna til að fylgjast með stöðu veikindanna og fá ráð og lyf til þess að bæta stöðuna eða koma í veg fyrir að hún versni.
Heilbrigðiskerfið hefur því að mestu leyti verið „sjúkdómakerfi“, þ.e.a.s. hefur einbeitt sér að viðbrögðum við því þegar sjúkdómar hafa komið upp. Eina almenna undantekningin frá því hefur verið mæðra- og ungbarnaeftirlit þar sem fylgst er með heilbrigðum einstaklingum og þeir studdir til að koma í veg fyrir sjúkdóma eða fylgikvilla. Fyrirkomulag mæðra- og ungbarnaeftirlits á Íslandi hefur leitt til þess að ungbarnadauði og veikindi á meðgöngu og kringum fæðingu er með því lægsta í heiminum. Það er mjög athyglisvert að við höfum ekki notað sömu nálgun fyrirbyggjandi stuðnings í meira mæli á öðrum sviðum í heilbrigðiskerfinu. Af hverju skyldi það vera?
Djúpstæð og gagnreynd þekking á virkni fyrirbyggjandi lífsstílsaðgerða er frekar ný af nálinni. Vissulega hafa í gegnum tíðina verið gefnar út ráðleggingar um hollan lífsstíl en aðeins á síðustu 20 árum hafa raunverulega góðar sannanir fyrir gildi þeirra komið fram. Að sama skapi hafa ráðleggingar sem á einum tíma þóttu góðar verið afsannaðar. Ákveðnir rauðir þræðir hafa alltaf verið til staðar í lífsstílsráðleggingunum; hreyfing, hvíld, mataræði og líkamsþyngd hafa verið lykilþættir en ráðleggingunum hefur verið ætlað að stöðva framrás sjúkdóma sem þegar eru komnir fram. Þær hafa miðað að því að lækka of háan blóðþrýsting, lækka blóðsykur hjá sykursjúkum eða kólesteról hjá einstaklingum með kransæðasjúkdóm.
Áherslan á að halda sjúkdómum í skefjum í heilbrigðiskerfinu með t.d. lífsstílsráðleggingum sem draga úr alvarleika þeirra, hefur skilað okkur auknum lífslíkum og eru þær með því mesta í heimi á Íslandi og ber að þakka fyrir það. Því miður er það þó svo að flestir glíma við skert lífsgæði tengd sjúkdómum a.m.k. síðustu 10 ár ævinnar. Á sama tíma hefur kostnaður heilbrigðiskerfisins aukist hratt og nú er svo komið að Ísland, eins og önnur Vesturlönd, mun ekki geta staðið undir áframhaldandi vaxandi kostnaði samfara öldrun þjóðarinnar á næstu 10 til 20 árum. Núverandi fyrirkomulag mun því ekki duga til framtíðar. Hvað er þá til ráða? Hvernig getum við breytt áherslum með það að markmiði að við verðum hraust lengur og höldum kostnaði við heilbrigðiskerfið í skefjum til framtíðar? Lausnin liggur i fyrirbyggjandi heilbrigðiskerfi.
Við fæðumst öll með mismunandi tilhneigingu til að fá sjúkdóma en við getum haft mikil áhrif á heilsuna sama hver hin undirliggjandi tilhneiging er. Sem dæmi má nefna er talið að koma megi í veg fyrir a.m.k. þriðjung krabbameina með hollu mataræði og reglulegri hreyfingu. Sem þumalputtaregla er það sjöfalt dýrara að meðhöndla sjúkdóm eftir að hann er kominn upp en að greiða fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir.
Fimm þættir í heilbrigðum lífsstíl hafa samkvæmt rannsóknum mest áhrif á heilsu okkar til framtíðar: Reykleysi, mataræði, streita, líkamsþyngd og hreyfing.
Sem betur fer eru nánast allir vel meðvitaðir um skaðsemi reykinga og mikil árangur hefur náðst í að minnka þær í öllum aldurshópum þar sem nú reykja um 10% Íslendinga samanborið við um 30% um 1990.
Ýmsar áherslur í mataræði hafa sýnt sig bæta heilsu en tvennt virðist hafa mest áhrif, annars vegar að forðast sykur og einföld unnin kolvetni og hins vegar að neyta meira en fimm skammta af ávöxtum og grænmeti á dag. Í rannsókn þar sem könnuð voru áhrif hreyfingar á andlega líðan kom í ljós að hollt mataræði samkvæmt þessum ráðleggingum fækkaði einstaklingum með þunglyndi.
Streitulosun hefur sýnt sig hafa mikil áhrif á hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Slökun eða hugleiðsla einungis 10 mínútur á dag er nóg til að ná fram verulegum áhrifum á blóðþrýsting og magn streituhormóna sem geta leitt til sjúkdóma.
Offita er veruleg heilsuógn og eykur líkur á margvíslegum sjúkdómum allt frá hjarta- og æðasjúkdómum og krabbameini til þunglyndis og kvíða. Mjög mikilvægt er að halda líkamsþyngdarstuðli undir 30.
Regluleg hreyfing sem nemur 150 mínútna röskri göngu á viku eða meira hefur sýnt sig að ekki bara bæta líkamlega heilsu heldur hefur líka veruleg áhrif á andlega líðan. Fyrir einstaklinga með hækkaðan blóðsykur og forstig sykursýki hefur hreyfing sýnt sig vera um tvöfalt árangursríkari til að forðast að fá áunna sykursýki heldur en meðferð með algengu sykursýkislyfi. Svipaðar niðurstöður hafa fengist þegar borinn er saman árangur af því að forðast einföld kolvetni við lyfjameðferð.
Að mörgu er að hyggja þegar heilsan er annars vegar en við getum öll verið sammála um að ákjósanlegast sé að búa við góða heilsu og hafa næga orku í leik og starfi. Heilbrigður lífsstíll sem byggir á reykleysi, hollu mataræði, streitulosun, líkamsþyngd undir 30 í líkamsþyngdarstuðli og reglulegri hreyfingu er lykilinn til þess. Við vitum í dag að þessir þættir eru mjög áhrifaríkir og ef við byggjum upp heilbrigðiskerfi kringum þær áherslur munum við geta forðast stóran hluta þeirra langvinnu sjúkdóma sem Íslendingar þurfa að kljást við í dag á sama tíma og við munum spara himinháar fjárhæðir. Ef við tökum þessar ráðleggingar til okkar sem einstaklingar meðan við erum ekki komin með sjúkdóma er heilsan að mestu leyti í okkar eigin höndum.