2 minute read

Búum til gæðastundir um jólin

Ásdís Ragna Einarsdóttir grasalæknir leggur mikið upp úr hollustu og góðum venjum, en mælir einnig með því að njóta aðventunnar með góðum mat og gæðastundum

grasalaeknir.is asdisgrasa „Jólamánuðurinn er í sérstöku uppáhaldi hjá mér þar sem ég á afmæli viku fyrir jól,“ segir Ásdís. Þegar hún hugsar til baka standa jólaboð fjölskyldunnar upp úr. „Þá hittumst við öll frændsystkinin með nýja dótið okkar sem við höfðum fengið í jólagjöf ásamt því að gæða okkur á allls konar jólabakkelsi hjá ömmu og afa.“ Ásdís er mikill sælkeri. Aðspurð að því hvað þarf að vera til heima hjá henni í aðdraganda jóla, svarar hún: „Það verður að vera til nóg af dökku gæðasúkkulaði. Annars finnst mér gott að eiga nóg til af „gourmet“ ostum og öðru girnilegu matarkyns í ísskápnum. Fyrir hina í fjölskyldunni þá eru hnetusmjörssmákökur og lakkrístoppar ómissandi.“ Á aðfangadagskvöld borðar fjölskyldan alltaf kalkún með öllu tilheyrandi.

Þótt sjálfsagt sé að gera vel við sig á aðventunni, má ekki gleyma hollustunni, segir Ásdís. „Mikilvægt er að hafa jafnvægi í deginum og halda okkur við góðu venjurnar og muna t.d. eftir grænmeti og ávöxtum. Reynum að borða reglulega yfir daginn til þess að halda blóðsykrinum í jafnvægi svo við dettum síður í óhollustu og ofát.“

Til þess að geta notið aðventunnar í rólegheitum, mælir Ásdís með því að hefja jólaundirbúninginn snemma. „Það er t.d. hægt að panta jólagjafir á netinu. Svo þarf heldur ekki að gera allt fyrir jólin, aðal- málið er að búa til fleiri gæðastundir með fjölskyldu og vinum, fara á jólatónleika og ýmsa skemmtilega jólaviðburði. Það er líka gott að halda sig við æfingarútínuna sína í desember og fara í langa göngutúra með uppáhaldsfólkinu sínu. Hreyfing hjálpar til við að draga úr streitu sem getur fylgt jólunum.“

Þegar kemur að jólabakstri hefur Ásdís gaman af því að hollustuvæða hefðbundnar jólauppskriftir og færa þær í nýjan búning. „Ég legg mikið upp úr því að nota gæðahráefni og velja hollari sætuefni og hefur úrvalið sjaldan verið betra af hollum vörum fyrir jólabaksturinn.“ Ásdís deilir einni af sinni uppáhaldsuppskriftum með lesendum. „Þetta eru ljúffengir kókostoppar, einföld og fljótleg uppskrift sem ég er aðeins búin að hollustuvæða. Njótið vel!“

Kókóstoppar

2 stórar eggjahvítur (60 ml) ¼ bolli hunang frá MUNA 5 dropar French vanilla stevía frá Now 2 bollar kókósmjöl frá MUNA ½ bolli súkkulaðidropar frá Cavalier ¼ tsk sjávarsalt

Hitið ofninn í 165°C. Setjið eggjahvítur, hunang, stevíu og salt í skál. Setjið skálina ofan í pott með sjóðandi vatni (yfir vatnsbaði). Hrærið innihaldsefnunum vel saman í 5 mínútur þar til blandan fer að freyða og er orðin heit viðkomu. Bætið kókósmjöli saman við og hrærið vel þar til deigið er orðið þykkt. Mótið kúlur með skeið, rúmlega 1 msk., og raðið á bökunarpappír á ofnplötu. Bakið kókóstoppana í 15-20 mínútur og fylgist með svo þeir brúnist ekki um of. Látið kólna á ofnplötu. Bræðið súkkulaði og dýfið botninum á kókóstoppunum í súkkulaðið þannig að nái aðeins upp á kantana. Setjið þá aftur á bökunarpappírinn og leyfið þeim að kólna í 5 mínútur inni í ísskáp á meðan súkkulaðið stífnar. Gott er að setja smá bráðið súkkulaði yfir kókóstoppana. Kókóstopparnir geymast í boxi í kæli í eina viku og í frysti í þrjá mánuði.

This article is from: