3 minute read
Ítalskar jólahefðir
from Jólablað Nettó 2021
by Nettó
Stórsöngvarinn Kristján Jóhannsson bjó á Ítalíu í tugi ára ásamt konu sinni Sigurjónu Sverrisdóttur. Þau hafa bæði gaman af því að elda og þótt þau haldi í íslenskar jólahefðir ber matseldin á jólunum einnig ítalskt yfirbragð.
„Ég var á Ítalíu í nærri 40 ár, frá því að ég var 27 ára gamall,“ segir Kristján. „Sigurjóna kom á eftir en við höfum verið saman í 37 ár.“ Jólahald heimilisins er sambland af íslenskum og ítölskum jólahefðum. „Þegar við bjuggum á Ítalíu fengum við hangikjöt sent, en ein jólin fór það ekki betur en svo að hundurinn náði í hangikjötið og kláraði það!“
Þorláksmessa er fjölskyldunni mikilvæg. „Hvort sem við erum á Ítalíu eða hér komum við alltaf saman á Þorláksmessukvöld.“ Kristján á stóra fjölskyldu. „Núna eru þetta 12-14 manns með börnum, eiginmönnum og -konum, kærustum, vinum og barnabörnum. Og þetta er rétt að byrja!“ Kristján hlær. „Á Íslandi kaupi ég norðlenskt hangikjöt, að sjálfsögðu – ég kaupi það í kjötborðinu í Nettó í Mjódd því þar hef ég alltaf fengið gott hangikjöt – og sýð til að fá jólailm í húsið. Síðan sest þessi mikli hópur við langborð og sker laufabrauð – auðvitað frá Kristjánsbakaríi!“ Þessi jólahefð hefur verið í hávegum höfð í tugi ára. „Svo gerum við það, að ítölskum og þýskum, eða evrópskum sið, fullorðna fólkið, að við drekkum glögg á meðan. Þegar við héldum jólin á Ítalíu og erfitt var að fá hangikjöt og laufabrauð, snæddi fjölskyldan ítalska jólamáltíð á Þorláksmessu. „Þá borðuðum við baccala, saltaða þorskhnakka, léttari mat til þess að undirbúa okkur fyrir allt kjötátið. Og þetta er einmitt uppskriftin sem ég vil deila með ykkur, að söltuðum þorskhnökkum,“ segir Kristján og bætir kíminn við: „Sem eru þeir bestu í heimi hér!“ Kristján mælir með því að hafa „bjór eða hvítvín sér við hlið“ meðan á matseld stendur.
Baccala, saltaðir þorskhnakkar
Fyrir 6-8
1 kg saltaðir þorskhnakkar með roði (einnig hægt að fá roðlausa) 2 laukar, fínt saxaðir 5-6 hvítlauksrif, pressuð eða fínt söxuð 2 stk. ferskur chili-pipar, í fjórum ræmum (óþarfi að fræhreinsa) 6-8 svartar ólífur, fínt saxaðar 1-2 dósir hakkaðir tómatar frá Mutti ½ bolli ólífuolía 2 msk. smjör 1 bolli matarhvítvín Ítalskt sjávarréttakrydd frá Pottagöldrum
Í sósuna:
½ l rjómi 1 sjávarréttateningur 1 kúfuð msk. karrý Salt og pipar eftir smekk
Meðlæti:
Kartöflur, meðalstórar (rauðar íslenskar eða gullauga) Bráðið smjör til að velta kartöflunum upp úr 1 búnt steinselja eða kóríander, fínsöxuð
Stillið ofninn á 200°C. Þvoið fiskinn vel upp úr köldu vatni. Hellið olíu og hvítvíni í ofnfast fat. Setjið smjörklípu ofan í fatið. Stráið síðan söxuðum lauk og hvítlauk í botninn ásamt chili-pipar ræmum. Leggið þorskinn ofan á og látið roðið snúa niður. Kryddið hann vel með sjávarréttakryddinu. Makið tómötum yfir fiskinn (það er smekksatriði hversu mikið er notað, 1 dós gæti dugað). Stráið að endingu söxuðum ólífum yfir. Eldið fiskinn í ofni í 25-30 mínútur. Hann má aðeins brúnast en ekki þorna.
Þegar fiskurinn er fulleldaður, takið hann gætilega upp, látið vökvann renna af honum og setjið á annað fat með tómötunum sem eru ofan á. Lækkið ofninn í 100°C og stingið fiskinum aftur inn til að halda honum heitum. Hellið soðinu úr fatinu yfir í pott og munið að skafa botninn vel til að ná öllu kryddinu. Látið suðuna koma upp og hrærið síðan rjómanum saman við. Látið malla í nokkrar mínútur við vægan hita þar til allt hefur blandast saman. Í lokin er súputeningurinn settur út í. Smakkið sósuna til og saltið ef þarf. Piprið og kryddið með karrýi eftir smekk.
Berið fram með soðnum kartöflum (ekki mauksoðnum, heldur „al dente“), veltið upp úr bráðnu smjöri og stráið saxaðri steinselju eða kóríander yfir. Best er að drekka þurrt freyðivín (vel kælt) eða gott hvítvín með réttinum.
Ítölsk jólakaka
Panettone eða pandoro-kaka (fást í Nettó) Freyðivín eða Grand Mariner
Þessi kaka er „lífsspursmál“ á jólunum hjá fjölskyldu Kristjáns. Panettone er með ávöxtum og pandoro meira eins og sandkaka. Kaupið kökuna tilbúna. Á meðan fiskurinn er í ofninum, skerið kökuna þversum í sneiðar. Hellið freyðivíni eða Grand Mariner yfir til að mýkja þær.
Með kökunni er gott að borða ítalskt ávaxtasalat, en það þarf að undirbúa fyrr um daginn.
Macedonia ávaxtasalat Sigurjónu
Pera eða epli Appelsína (safarík) Jarðarber Bláber Sellerí (má sleppa) Safi úr einni sítrónu 1 glas hvítvín Skerið ávextina og jarðarberin í bita og setjið í skál ásamt bláberjum. Ef þið finnið gott sellerí, saxið hluta stilksins örfínt og stráið yfir. Hellið víninu yfir. Setjið sellófan yfir skálina og látið hana bíða í tvo tíma, í kæli eða úti á svölum, þannig að ávextirnir nái að drekka í sig safann og vínið.
Berið fram með þeyttum rjóma eða góðum ís og gott er að fá sér kaffi og koníak á eftir.