Júní 2017
Silja Jóhannesdóttir
Inngangur Á haustmánuðum 2016 var ákveðið að fara af stað með þróunarverkefni sem laut að því að vinna ull með öðruvísi hætti en gert er í dag og fá miklu mýkra íslenskt ullarband en hefur verið framleitt hingað til. Stofnuð var verkefnastjórn á svæðinu sem samanstendur af Einari Ófeigi Björnssyni formanni Búnaðarsambands Norður- Þingeyinga, Kristjáni Þórhalli Halldórssyni Byggðastofnun, Sigurlínu Jóhannesdóttur bónda og fyrrum ullarmatsmanni, Silja Jóhannesdóttur verkefnastjóra Öxarfjarðar í sókn og Birni Víkingi Björnssyni framkvæmdastjóra Fjallalambs. Í samvinnu við nemendahóp úr HR sem leiddur var af Páli Kr. Pálsson framkvæmdastjóra Glófa ehf. var gerð viðskiptaáætlun sem miðaði að framleiðslugetu upp á xxx kíló af mjúkri ull. Á sama tíma var sótt um styrk í verkefnið „Öxarfjörður í sókn“ til að fara í heimsókn til Belgíu þar sem er lítil heimaverksmiðja og vinnsluaðferðir gætu reynst nýtilegar við að fá mýkri ull. Einnig var sótt um styrk til að láta vinna prufur við sömu verksmiðju til að sjá útkomuna. Eftirfarandi skýrsla er unnin úr niðurstöðum ferðarinnar en Sigurlína Jóhannesdóttir og Steinþór Friðriksson bóndi að Höfða fóru til Belgíu í júní 2017. Einnig er fjallað í skýrslunni hver næstu skref gætu verið.
Aðstaða Frederique Bagoly rekur litla ullarverksmiðju í Namur í Belgíu. Heimasíðan hennar er hér. Verksmiðjan er í gömlu fjósi eða hlöðu og hún hefur aðlagað húsnæðið að verksmiðjunni afar lítið. Einangrun er t.d. ekki enn til staðar. Þvottaaðstaðan er í um 50 fm. Herbergi á jarðhæð. Þar er þvottavél sem er hólfuð í þrjú hólf og tekur hvert hólf þrjú kíló. Þvottavélin er um 1000 lítra pottur. Þar inni er einnig viðarbrennari og vél til að hreinsa vatn en það er óþarfi á Íslandi. Þar inni geymir hún líka óhreina ull. Óhreina ull geymir Mynd 1- Þvottavélin hún í pappakössum. Mikilvægt er að geyma hana alls ekki í plasti þar sem plast gerir það að verkum að fitan leitar inn í ullina og gerir hana gula. Rekkar til að þurrka standa á jarðhæð líka en þeir standa út við vegg og þar er hægt að opna út. Upp á næstu hæð eru tvö herbergi með vélum ásamt lokuðum klefa sem tætta ullin fer í. Í öðru herberginu er spunavél sem spinnur einfaldan þráð uppúr bláu tunnunum.. Í hinu herberginu tætari, þæfingavél (sem einnig getur flokkað hár eftir grófleika), kembivél (sem býr til þráð, lyppu eða þæfir), 2 fyrir 1 vél, sem teygir á þræðinum, tekur upp í sig 2 þræði og teygir á þeim þannig að úr verði einn, spunavél sem var notuð til að tvinna, gufuvél og hesputré. Þar er einnig gömul vigt til að vigta ullina inn í tætingarvélina. Vinnsla Mynd 2- Tætarinn
Frederique vinnur úr ull en einnig úr allskonar hárum, kanínu og hunda svo að eitthvað sé nefnt. Okkar markmið var að kynnast ullarvinnslunni og hún sýndi ferlið við það. Byrjað er á að þvo ullina og er það gert í þvottaherberginu. Ullin er þvegin tvisvar, fyrst í endurunnu vatni en svo í nýju vatni. Við þvottinn er notuð sápa sem er kanadísk. Þetta er iðnaðarsápa, náttúruvæn en drepur allar bakteríur. T.d. mætti nota þessa sápu við að þrífa grill. Mynd 3- Þurrkrekkinn Hitastig við þvott eru 55° við íslenska ull en 65° við
aðra ull og annarskonar hár. Svo er ullin skoluð og sett á þurrkrekka. Rekkinn er viðarrekki með hæsnaneti í botninum svo að vatn hripar þar niður. Það tekur tvo til fjórtán daga að þurrka ullina en það fer eftir þurrki úti við. Hún notar náttúrulega þurrkun. Eftir þurrkun er ullin sett í tætara og kemur þá ullin út eins og kvoða eða ullarfiða. Þegar vélin er mötuð á ullinni þarf að vanda vel til verka. Ef ullin er of þétt í sér eða flókin, slær rafmagninu frekar út áður en tætarinn fer að slíta hár. Þegar ullin kemur út úr vélinni er úðað yfir hana jurtaolíu til að afrafmagna hana. Ullinni er blásið beint inn í herbergi og það sem fer inn í herbergi á hverjum tíma fyrir sig getur verið með öðruvísi áferð en næsta lota. Þá má pakka ullinni í plast því fitan er farin að svo miklu leyti eftir þvottinn. Að þessu loknu eru tvær leiðir í boði: a) Setja ullina í þæfingarvél. Úr því ferli kemur einhver konar voð. Eða látið vélina flokka hárin eftir grófleika. Þessi vél getur unnið úr 1 kg. Á klukkutíma b) Setja ullina í kembivélina, sem mótar þráðinn eða býr til lyppur. Það er mikil nákvæmnisvinna. Hún tekur ekki 52 grömm af ull, hún tekur 50 grömm. Þetta magn setti hún milli merkja á færibandinu. Þetta er allt gert í höndum og við hliðina er vigt til að vigta þetta nákvæmlega. Þetta er gert svo að þráðurinn sem kemur út verði sá sami að þykkt. Úr þessari vél fer þráðurinn í hólka og fer þaðan í aðra notkun. Hólkarnir koma í veg fyrir að þráðurinn flækist. Þessi vél getur skilað ullinni í „lyppur“ en það er afurð sem spunafólk spinnur úr.
Mynd 4- Mótunarvélin
Þá tekur við“ 2 fyrir 1 vélin“ eftir að mótaður hefur verið þráður. Þar er teygt á hárunum og það fara tveir þræðir inn í vélina í einu og það sem var áður einfaldur 10 metra langur þráður
verður tvöfaldur 25 metra langur þráður. Síðasta skrefið er spuninn. Spunavélarnar voru tvær, önnur til að spinna einfaldan þráð og hin til að tvinna, það er að vinda tvo þræði saman. Þá verður ekki snúningur á voðinni þegar búið er að prjóna úr garninu. Ef garnið endar sem einn spunninn þráður er notuð gufuvél en það kemur í veg fyrir að það snúist upp á flíkina þegar búið er að prjóna úr garninu.
Áður en garnið er sent viðskiptavinum er það sett á kóna eða vafið uppá hesputré. Engin litun fer fram í verksmiðjunni.
Mynd 5- Spunavélarnar tvær
Á mynd sex má sjá hvernig ferlið var í verksmiðjunni í Belgíu.
Mynd 6- Verksmiðjuferlið
Framleiðni Verksmiðjan skilar að jafnaði fjórum kílóum af garni á dag. Það hefur áhrif á framleiðslugetuna að verksmiðjan vinnur úr margvíslegri ull og hárum auk þess að taka á móti mörgum tegundum af fjárull frá mörgum eigendum þannig að oft þarf að hreinsa vélarnar algörlega hár fyrir hár. Um 90% af vinnunni í verksmiðjunni er að vinna ull fyrir viðskiptavini en 10% fer í að framleiða fyrir þau sjálf. Tveir aðilar vinna við verksmiðjuna í dag. Umræður Verksmiðjan sem Bagoly hefur komið upp í Belgíu er með litla framleiðslugetu og hentar prýðilega fyrir fjölskyldu eða eitt sauðfjárbú til að vinna bestu ullina. Hér á landi þyrfti ekki allan þann tækjabúnað sem Bagoly var að nota í Belgíu. Það þarf ekki vél þar sem hár voru flokkuð eftir grófleika, íslenska ullin er blanda af togi og þeli og ætti að fá að halda því.
Úti voru tvær spunavélar en líklegt er að það þurfi bara eina slíka. Það þyrfti að heimfæra þvottinn og þurrkunina að íslenskum aðstæðum því hér á landi þarf ekki að endurnýta vatn né að hita það upp með viðarkatli. Einnig er ekki hægt að treysta á sama þurrk hér og úti þar sem veður býður ekki upp á það. Hér þyrfti að koma upp þurrkherbergi. Mikilvægt er að læra af uppsetningunni úti en þar fór mikill tími að færa ull á milli staða og jafnvel á milli hæða. Skoða vel flæði á milli véla svo að framleiðni sé betri og minni handavinna við ferlið. Gera ferlið sjálfvirkara. Í heild þyrfti líklega um 40 fm. þvottaherbergi og um 90 fm. vinnslusal. Það þarf þvottavél, þurrkherbergi með blásara, tætara, kembivél, „ 2 fyrir 1 „ vél, gufuvél, spunavél og vél sem vinnur upp þráð. Það þarf samt að skoða vel því óvíst er að það þurfi spunavél þegar vinna á íslenska ull og skoða jafnvel í staðinn hvernig plötulopi er framleiddur. Svo mætti velta fyrir sér hvort að nota mætti þvottavélina til að lita með náttúrulegum litagjöfum. Það væri styrkur fyrir þetta hérað að setja upp ullarþvott og plötulopaverksmiðju sérstaklega ef það yrði sýnilegt ferðamönnum og myndi þannig efla afþreyingarmöguleika á svæðinu. Mikilvægt er þó að marka sérstöðu og það myndi vinnslan svo sannarlega gera ef hér væri hrein íslensk ull svo mjúk að allir gætu gengið í henni ásamt því að þetta sauðfjársvæði er hreint. Næstu-skref Gera þarf raunhæfa kostnaðaráætlun fyrir svona litla verksmiðju. Hafa samband við þá sem eru í þessari vinnu í dag t.d. félagið Systur, Uppspuna fyrir sunnan og fleiri. Í því ferli þarf að huga að því að ef margir eru að fara af stað í slíkt og nýta lambsull hvort að stærri aðilar á markaðnum myndu neita að taka við eldri ull án þess að fá lambsullina með. Það þarf að gera sér grein fyrir framleiðendum og kostum og göllum þess að kaupa notaðar vélar. Einnig þarf að skoða möguleika á fjármögnun á slíkjum vélum. Styrkir, lán til uppbyggingu byggða og fleira því að lútandi. Niðurstaða Viðskiptaáætlunin sem gerð var í byrjun sýndi að ekki var grundvöllur fyrir stórri verksmiðju á svæðinu þar sem að svæðið gat ekki mætt þörf fyrir þá framleiðsluþörf sem slík verksmiðja þyrfti. Þá var ákveðið að hugsa þetta á minni skala og að afla svæðinu kunnáttu í þessum málum fyrir áhugasama framkvæmdaaðila seinna. Ferðin gef góða innsýn í þessa ferla og ágætis hugmynd um það sem þarf til að starta slíkri mini mill. Þessari skýrslu er ætlað að vera samantekt á því sem kom þar fram og áhugasömum til styrkingar í framkvæmd ef hún er fyrirhuguð. Skýrslan er byggð á upplýsingum frá Sigurlínu Jóhannesdóttur og Steinþóri Friðrikssyni.
Silja Jóhannesdóttir, verkefnastjóri Öxarfjarðar í sókn