4 minute read
Svona eru menn
Sr. Þór Hauksson
sóknarprestur í Árbæjarsókn
Svona eru menn
Lag og texti „Svona eru menn“ tón, texta og söngvaskáldsins KK kom upp í huga minn þegar ég settist niður við að setja á blað þessa hugleiðingu þessa aðventuna. Manneskjan í sínum breyskleika á göngu til móts við jólahaldið hefur í aldana rás tekið á sig ýmsar myndir. Einhverjar framkallaðar og aðrar ekki heldur geymdar í snjáðum kössum hugans. „Það hallaði að aðfangadagskvöldi seint á þriðja áratug síðustu aldar. Mamma búin að klæða okkur systkinin í okkar bestu föt. Leiðin lá niður að höfn. Þegar þangað var komið skimuðum við eftir skipunum sem lágu við ankeri fyrir utan hafnarmynnið. Í minningunni var veðrið gott. Fjöldi fólks var saman komið á hafnarbakkanum í sömu erindagjörðum og mamma og við systkinin. „Þarna er pabbi” hrópaði bróðir minn og benti og mér fannst ég koma auga á pabba í órafjarlægð. Ég vildi svo mikið sjá pabba og svaraði því til að ég hafi líka komið auga á hann, en ég var ekki viss. Allavega var pabbi um borð í einhverjum af þessum bátum og kastaði kveðju til okkar. Þegar við röltum heim á Ránagötuna byrjuðu kirkjuklukkur Dómkirkjunnar að hringja inn jólin. Alltaf þegar ég heyri aftansöng útvarps frá Dómkirkjunni er ég lítil stelpa með rauða slaufu í hárinu og vinka til pabba og sjómannanna í bátunum fyrir utan hafnarmynnið ein jól æsku minnar. Ég grét, systir mín og bróðir og mamma hélt fast í hendurnar á okkur. Það var gott að koma heim í hlýja stofuna sem mamma opnaði og dýrðin blasti við okkur, jólatréð og gjafirnar lúrðu undir leyndardómsfullar. Hlýtt á aftansöng í útvarpinu. Þögnin og kyrrðin yfirtók huga. Þegar þarna var komið var augljóst að móðir mín heitin var á valdi minninganna mitt í smákökubakstrinum dagana fyrir ein jól æsku minnar. Ég skynjaði árunum seinna sem fullorðinn maður að móðir mín átti erfitt með að rifja upp æskujólin sín en um leið var það hennar leið að sættast við það liðna. Óréttlætið að fá ekki hafa pabba sinn heima ein jólin, skyggði á þau jólin sem fjölskyldan var sameinuð á aðfangadagskvöldi. Þannig er það með okkur mörg þegar jólahátiðin nálgast að við förum fetið frá loga minninga liðina jóla. Leyfum okkur um stund að horfa um öxl á það góða sem var. Við þekkjum jólafrásöguna, persónur og leikendur, hirðana, vitringana, ungu hjónunum sem var úthýst og fengu skjól í fjárhúsi og barn fæddist í heim sem getur verið grimmur og miskunnarlaus, fjölskyldum sundrað. Auður stóll við jólaborðið, ástvinamissir, lönd og höf skilja að og þegar þetta er skrifað þarf það ekki til nema landshluta á kóvidtímum. Orð og hugmyndir klæðast nýjum búningi enn ein jólin að því er virðist. Talað um að hver og einn þurfi að hugsa um og búa til sína eigin jólakúlu eða jólabúbblu. Njóta rafrænna samverustunda heyrist sagt. Eitthvað sem var okkur framandi fyrir aðeins tveimur árun síðan en virðist komið til að vera enn ein jólin, en samt ekki. Víst má segja að þögnin og kyrrðin í þeirri merkingu sem við allrajafna skilgreinum hana sé allsráðandi. Á jólum er hún aldrei eins ráðandiþögnin. Hljóðlega hvarflar hugur til fyrstu jóla okkar sem berum gæfu til að minnast með hlýju og þögn. Jólin vegmóð eru að ganga í garð með öllu tilheyrandi, Ora grænum baunum, rauðkáli og rjómasósu, steik og heimatilbúnum ís, samveru fjölskyldu. Tilveran öll við það að bresta í að vera frjálsleg í fasi eins og segir í einu af mörgum jólalögunum sem dúndrað er út úr viðtækjum okkar. Óttinn er þarna líka í myrkrinu sem þrengir sér að eins og boðflenna. Á pari við Vitfirringana þrjá sem eru á leiðinni eins og stúlkan litla um árið sagði við móður sína og horfði óttaslegin út um stofugluggann. Aðspurð sagðist hún að presturinn í kirkjunni hafi sagt frá þeim. Atburðurðinn á Betlehemsvöllum er sístæður í huga á sér ekki mörk tíma heldur bregður birtu vonar um að fá að ganga með hirðunum á Betlehemsvöllum að jötu drauma okkar og væntinga, þér er boðið að vera með. Þú ert ekki gleymd/ur. Því verður ekki á móti mælt að fyrir einhverja kann að vera djúpt á jötu væntinga hugans á veirutímum þeim sem við lifum í dag, finnum ekki til sáttar. Sátt Guðs við okkur mennina var að sonur hans fæddist. „Sjá, ég boða yður mikin fögnuð, yður í dag er frelsari fæddur...” voru meðal annars orð englana á Betlehemsvöllum. Þessi orð þetta skúbb er ekki endilega að fá heilsíðu fjölmiðla eða fyrsta frétt í útvarpi eða sjónvarpi. Ef við leggjum okkur fram getum við á jólum heyrt andardrátt lífsins sem gleymir okkur ekki heldur færir okkur sanninn um að hið veika og smáa í hverju og einu okkar nær að lyfta af sér oki hversdagsleikans og myrkursins sem umlykur okkur og birta vonarinnar nær að snerta okkur smáum fingrum. Við gleymum ekki hverju öðru því við erum ekki gleymd. Inntak jólana er að ég man þig. Engin er svo smár eða svo stór að geta ekki leyft sér að gleðjast á jólum með glöðum. Guð gefi þér og þínum gleðileg jól.