6 minute read
Mig langaði til að efla mig í starfi
Jóna Rúna Erlingsdóttir er verkstjóri í saltfiskvinnslu Vísis í Grindavík. Hún vann hefðbundin störf í vinnslunni í nokkur ár áður en hún ákvað að skella sér í gæðastjórnunarnám í Fisktækniskólanum. Eftir námið fékk hún stöðu sem gæðastjóri hjá fyrirtækinu og núna ný orðin verkstjóri. Stór hluti starfsfólksins er erlent vinnuafl sem hefur búið í Grindavík í lengri eða skemmri tíma. Hún er mikil íþróttakona og starfar í tveimur kórum. Því var hvíslað að blaðamanni af innfæddum Grindvíkingi að hún hefði einstaklega fallega söngrödd.
„ É g byrjaði að vinna hjá Vísi árið 2008 og fer svo í fisktækniskólann árið 2015. Ég fékk mikla hvatningu frá fyrirtækinu til að fara í námið og er ég þakklát fyrir það. Ég var búin að vinna sjö ár á „gólfinu” og því komin tími til að gera eitthvað annað og fór ég að fá löngun til að ná mér í einhverja menntun og efla mig í starfi. Ég fór ekki í framhaldsskóla á sínum tíma þannig að ég var ekki með mikinn grunn. Ég vissi að þetta nám var að byrja hér og ekki var verra að skólinn er staðsettur hér í Grindavík. Ég var í fyrsta hópnum sem gat tekið gæðastjórnunarnámið í skólanum. Við vorum um tólf í mínum bekk og helmingurinn konur. Að námi loknu fékk ég stöðu sem gæðastjóri og núna er ég nýtekin við sem verkstjóri í saltfiskvinnslunni,”segir Jóna Rúna. Fisktækniskóli Íslands menntar fólk til starfa við fiskveiðar, fiskvinnslu og fiskeldi. Grunnnámið í fisktækni er tveggja ára námsbraut. Einnig
Hér er Jóna Rúna með fjölskyldunni við fjallið Þorbjörn rétt fyrir utan Grindavík. Myndin var tekin í tilefni af fermingu Andra Daða í fyrra sem er lengst til vinstri á myndinni, næstur er Óðinn Lár svo Jón Björn maðurinn hennar og synirnir Jökull Orri og Ívar Örn.
Jóna Rúna og Jón Björn í kórferðalagi með kirkjukórnum í Þýskalandi í bænum Garmisch-Partenkirchen.
stendur til boða að taka framhaldsnám í gæðastjórnun, fiskeldi og Marel-vinnutækni. Skólinn býður einnig upp á ýmis sérsniðin námskeið fyrir einstaklinga og fyrirtæki. „Ég átti mér draum á yngri árum að fara í myndlistarskólann en áhugi minn á sjávarútveginum jókst mikið eftir að hafa tekið gæðastjórnunarnámið og ef ég held áfram í námi mun ég fara í eitthvað nám sem nýtist mér á þeim vettvangi.”
Vinnusamt og duglegt fólk
Starfsfólk vinnslunnar er flestir af erlendum uppruna og koma frá löndum eins og Tælandi, Serbíu, Póllandi og Afríku. Stór hluti þeirra kom til Grindavíkur árið 2014 þegar starfsstöðvar fyrirtækjarins lokuðu á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík. Jónu Rúna segir starfið sitt mjög gefandi og mjög skemmtilegt að kynnast fólki af ýmsum þjóðarbrotum. „Þetta er allt mjög duglegt og vinnusamt fólk en stundum koma upp vandamál sem tengjast þá oftast tungumálaörðugleikum. Það kemur fyrir að misskilningur verði milli starfsfólksins eða við verkstjórana en þau mál eru alltaf leyst þó það taki stundum smá tíma. „ Við notum stundum látbragð og handahreyfingar til útskýringar ef á þarf að halda. Gæðastjórinn okkar er pólsk og talar mjög góða íslensku og hér starfa margir Pólverjar þannig að það hjálpar okkur mikið ef eitthvað kemur upp á í samskiptum. Þeir sem hafa verið hér lengst geta talað ágæta íslensku og hjálpa okkur þá við að túlka.” Hún segir að flestir viti sitt hlutverk og hvers er ætlast til af þeim og yfirleitt gangi allt mjög vel fyrir sig en stundum koma upp smá knökrar vegna ólíkra sjónamiða og menningar og nefnir Jóna Rúna eitt slíkt dæmi. „Starfsfólkið ber yfirleitt mikla virðingu fyrir yfirmönnum og því verða stundum árekstrar þegar nýtt starfólk byrjar hjá okkur því þá biðjum
Jóna Rúna er mikil íþróttakona og æfir í Crossfitstöðinni í Grindavík.
við stundum vant starfsfólk að kenna þeim því við önnum því oft ekki sjálf en þetta fyrirkomulag fer stundum illa í suma því mörgum finnst að yfirmennirnir eigi að sjá um kennsluna því þeir stjórni og kunni hlutina betur.”
Ánægð með sveigjanlegan vinnutíma
Saltfiskvinnsla Vísis hefur verið í sama húsinu í Grindavík síðan fyrirtækið var stofnað árið 1965. Miklar tæknibreytingar hafa átt sér stað síðan þá og búnaðurinn því tekið miklum breytingum frá þeim tíma. Mikið rannsóknar og þróunarstarf hefur verið unnið til þess að verkunin varðveiti gæði hráefnisins sem best. Framleiðslan er því mjög tæknivædd eins og í frystihúsunum. Afurðirnar eru seldar á markaði á Spáni, Grikklandi og Ítalíu. Núna vinna um fimmtíu og fimm manns í vinnslunni, tveir verkstjórar og einn gæðastjóri. Jóna Rúna er nýtekin við sem verkstjóri og er enn að aðlagast nýju starfi. Hún er stundum mikið ein með börnin og því gott að geta haft sveigjanlegan vinnutíma og er hún ánægð með hversu vel fyrirtækið kemur til móts við sig að því leyti. „Maðurinn minn er vélstjóri á bátnum Dúdda Gísla og er því oft töluvert í burtu frá heimilinu. Við eigum fjóra stráka og því er nóg að gera og því gott að geta stundum hætt fyrr á daginn og unnið þá aðra daga lengur.”
Vildi geta sinnt áhugamálunum betur
Jónu Rúnu finnst finnst frábært að til sé félag kvenna í sjávarútvegi. Hún hefur ekki gefið sér mikin tíma til að sækja fundi en langar til að gera meira af því en hún fylgist vel með í gegnum netið. Félagið var stofnað árið 2013 og er það markmið félagsins að gera konur sýnilegri bæði innan sjávarútvegsins og utan og einnig að fá fleiri konur til liðs við sjávarútvegsfyrirtæki. Jóna Rúna á mörg áhugamál en segist ekki alveg geta sinnt þeim eins vel og hún vildi „ég væri til í að hafa aðeins fleiri tíma í sólahringnum,” segir hún og hlær. Jóna Rúna er mikil íþróttakona, á hennar yngri árum var hún í fimleikum og fótbolta og prófaði líka badminton í Keflavík þar sem hún ólst upp fram að unglingsárum en hún flutti svo til Grindavíkur þegar hún var 15 ára og hélt þá áfram í fótbolta í nokkur ár. Hún kynntist svo Crossfit fyrir um 1 ½ ári síðan sem hentar henni mjög vel. „Crossfitstöðin hér er mjög góð hér og fer ört stækkandi, ég reyni að fara eins oft og ég get. Svo er ég í tveim kórum, kirkjukórnum og kvennakór sem stofnaður var í janúar 2019. Við vorum nokkrar stelpur sem höfðum gaman af að syngja og við fengum söngkonuna Bertu Dröfn Ómarsdóttur með okkur í lið sem er kórstjóri hjá okkur. Það er alltaf að fjölga í kórnum sem er ánægjulegt. Svo hef ég mjög gaman af því að mála myndir en hef lítinn tíma fyrir þá iðju eins og er. Svo höfum við fjölskyldan verið mjög dugleg að ferðast innanlands með fellihýsið okkar en gerðum undantekningu á því þetta sumarið því við erum að taka húsið okkar í gegn og mikill tími farið í það,”segir Jóna Rúna að lokum.