4 minute read
Jafnrétti er fjölbreytt og síbreytilegt
GREIN Katla Ársælsdóttir
MYND Helga Lind Mar
Advertisement
Bryndís Ólafsdóttir er 24 ára nýútskrifaður mannfræðingur en Bryndís situr í jafnréttisnefnd SHÍ. Blaðamaður Stúdentablaðsins spurði Bryndísi spjörunum úr varðandi störf og sigra nefndarinnar.
Jafnréttisnefnd SHÍ vinnur hart að því að standa vörð um jafnrétti innan Háskóla Íslands og hefur það markmið að gera skólann að opnu og öruggu svæði fyrir okkur öll.
Aðspurð hverjir helstu sigrar jafnréttisnefndarinnar væru síðustu ár segist Bryndís vera mjög hamingjusöm að sjá að aðgengismál hafa verið í forgrunni. „Stúdentar sem sækja nám við háskólann eru stór og fjölbreyttur hópur og það er nauðsynlegt að geta boðið öllum þessum hópum upp á viðunandi námsaðstæður. Það er augljóst að stúdentar vilja betrumbæta háskólann okkar. Samkvæmt ársskýrslu SHÍ frá starfsárinu 2012-2013 lagði nefndin mikla áherslu á kynningu leiðarlína innan háskólans en umræða um bætt aðgengi fyrir blinda nemendur innan skólans hafði verið mikið til umræðu það ár sem og fyrri starfsár. Það er ánægjulegt að líta aftur á baráttu fyrir bættum hag stúdenta og upplifa að vel sé tekið í málin en í háskólanum í dag eru upphleyptar og stöðugar leiðarlínur víðs vegar á háskólasvæðinu,” segir Bryndís.
Þegar staða jafnréttismála er rædd telur hún mikilvægt að taka til kynna að jafnrétti sé ekki einungis eitt markmið. Jafnrétti sé að mestu leyti huglægt hugtak sem þarf að taka sem slíku. „Þó svo að það er gjarnan hægt að finna mörg þemu í leit okkar að jafnrétti þá má sjá að þau þemu eru fjölbreytileg og krefjast aðlögun með samfélaginu á hverjum tíma fyrir sig,” segir hún.
Aðspurð hvar henni finnist íslenskt samfélag standa í jafnréttismálum finnst Bryndísi samfélagið standa sig yfir höfuð ágætlega. „Hér á landi hafa flestir tök á námi, vinnu og almennilegri heilsugæslu. Aðgengi til kosninga er að minni þekkingu gott og íslenskt samfélag hefur í gegnum tíðina boðið erlent fólk sem hér vill setjast að, velkomið,” segir hún. Bryndís bætir við að þó svo að hún telji okkur standa ágætlega í þessum helstu þemum, þá þurfum við samt sem áður að aðlaga hegðun okkar og gildi að samfélaginu eins og það þróast. Með því getum við enn sagt að við stöndum okkur vel í jafnréttismálum.
„Um þessar mundir má sjá dæmi um málefni hælisleitenda og þeirra sem hingað sækja í leit að alþjóðlegri vernd megi verulega bæta. Í lok septembermánaðar síðastliðins stóð til að vísa sex manna fjölskyldu úr landi sem hafði hér dvalið í yfir tvö ár á meðan málsmeðferð þeirra stóð yfir. Þrátt fyrir að yfirvöld töldu sig fara eftir löggjöfinni, tók íslenska þjóðin þetta hreinlega ekki í mál og mættu til mótmæla fyrir utan Alþingishúsið, fjölskyldunni til stuðnings. Það var augljóst að þjóðin vildi veita þessari fjölskyldu vernd þrátt fyrir ákvarðanir yfirvalda. Í mínum augum var þetta skýrt. Hér kallar þjóð á uppfærða löggjöf, þar sem að sú sem er í gildi byggist á úreltum gildum. Það er nauðsynlegt að við látum öll í okkur heyra þar sem að samfélagið þróast hraðar en reglugerðir og það er sameinuð rödd okkar sem skapar jafnréttisgildin sem við viljum fara eftir,” segir Bryndís.
Hvað varðar stöðu háskólans í jafnréttismálum segir Bryndís að hún telji skólann bjóða nemendum upp á gild og gefandi tækifæri en að sama skapi felist jafnréttið sjálft í utanumhaldi nemendanna. „Þó að það sé yfir höfuð fínt aðgengi fyrir fatlaða innan háskólans er þekkt að ekki allar byggingarnar hafi tök á því að bjóða upp á til dæmis lyftur eða hjólastólaaðgengi. Þó er hér vert að nefna að nýrri byggingar háskólans á borð við Veröld eru til fyrirmyndar,” segir hún. Jafnframt bendir Bryndís á að þó svo að skólinn sjái vel um erlenda nemendur sem eru skráðir í nám þá sé nauðsynlegt að bjóða þeim upp á viðunandi stuðning og að þeim skuli veitt gagnleg hjálpartól, til að mynda orðabækur. Bryndís bætir því jafnframt við að það skipti máli að vera gagnrýnin og taka breytingum opnum örmum. „Til þess að halda jafnréttinu er mikilvægt að við styrkjum innri stoðir stofnanarinnar þannig að við bjóðum í raun upp á gagnsæja og jafnrétta þjónustu,” segir hún.
Aðspurð hvað hún haldi að standi helst í vegi fyrir því að jafnréttismál komist í gegn segir Bryndís að jafnréttismál kalli oft á kerfislæga breytingu sem gæti virst yfirþyrmandi. Þegar komi að því að innleiða bætt vinnubrögð sé nauðsynlegt að skapa raunhæfa starfsáætlun og reyna að taka ekki á of mörgu í einu. Smáar breytingar geti á endanum kollvarpað uppsetningu kerfana og margar hendur vinni jafnframt létt verk.
Það er nóg framundan hjá nefndinni. Á næstu vikum ætla þau að kynna viðburði á vegum þeirra. Þrátt fyrir að allt sé með breyttu sniði í ár segir Bryndís að enn sé hægt að hlakka til jafnréttisdagana í ár og að þeir muni taka á sig skemmtilegt snið. Við hvetjum öll að fylgjast vel með því!
Aðspurð hvað Bryndís telur vera þau jafnréttismál sem hún myndi vilja sjá unnin innan háskólans. Hún segir að hún vilji vinna að bættri upplifun erlendra nemenda og þeirra sem tala íslensku sem annað mál. Hún bætir við að nefndin vilji einnig passa að aðgengismál séu enn þá í fyrirrúmi þrátt fyrir takmarkanir að aðgengi skólans. „Við viljum fagna fjölbreytileikanum og innleiða uppfærða kynskráningu í háskólanum og við tökum herferð stúdentaráðs fyrir rafrænum prófum þetta árið fagnandi,” segir Bryndís.
Að lokum vill Bryndís koma því á framfæri að jafnrétti sé ekki einungis eitt fyrirbæri, heldur fjölbreytt og síbreytilegt. „Til þess að gera okkar besta í því að skapa samfélag byggt á jafnrétti er nauðsynlegt að við opnum umræðu fyrir jafnréttismálum. Það er grundvallaratriði að við getum sett fram spurningar, vangaveltur og tekið við gagnrýni þegar að við erum að læra um jafnrétti sem og önnur mál. Það er alltaf hægt að læra og það er alltaf hægt að spyrja. Við þurfum bara að ýta undir opinskátt og gegnsætt samfélag,” segir hún.
Hún ítrekar einnig mikilvægi þess að allir fari varlega og noti grímur!