5 minute read
Tungumál og mannúðarstörf
GREIN Anna María Björnsdóttir
MYNDIR Aðsendar
Advertisement
Blaðamaður Stúdentablaðsins hitti Hrafnhildi Sverrisdóttur á fjarskiptaforritinu Zoom til þess að ræða reynslu hennar við störf hjá Rauða krossinum. Hrafnhildur útskrifaðist með BA í frönsku frá Háskóla Íslands árið 2000, þá stundaði hún einnig meistaranám í alþjóðasamskiptum með áherslu á mannréttindi. Hrafnhildur býr yfir mikilli reynslu af vettvangi en hún hefur sinnt mannúðarstörfum víða um heim fyrir Rauða krossinn á Íslandi, Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC), Sameinuðu þjóðirnar og fleiri stofnanir. Í dag sinnir Hrafnhildur alþjóðlegum þróunar- og mannúðarverkefnum hjá Rauða krossinum á Íslandi.
Í HVERJU FELST STARF HJÁ RAUÐA KROSSINUM?
Aðspurð hvað varð til þess að Hrafnhildur ákvað að hefja störf hjá Rauða krossinum segir hún það hafa verið frönskuna sem leiddi hana inn í starfið. Hún hafði unnið áður erlendis, bæði í Kósovó hjá Sameinuðu þjóðunum og sem starfsnemi hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, og hana langaði aftur út: ,,kunningi minn minnti mig á Rauða krossinn svo ég lét til leiðast. Ég hafði samband og var komin í viðtal daginn eftir.“ Áður en Hrafnhildur vissi af var hún komin til Genfar í höfuðsstöðvar Alþjóðaráðs Rauða krossins í viðtalsferli þar sem hún fór í gegnum tungumálapróf, viðtöl og verkefnavinnu. Alþjóðaráðið leggur gríðarlega áherslu á frönskukunnáttu þar sem stór hluti þeirra landa sem stofnunin starfar í eru frönskumælandi. Alls er tungumálið talað í 29 löndum um allan heim, þar af eru 26 í Afríku, það er því varla furða að frönskumælandi einstaklingar eru eftirsóttir starfskraftar af hjálparstofnunum. Þetta gekk upp hjá Hrafnhildi og innan skamms var hún komin til Fílabeinsstrandarinnar sem almennur sendifulltrúi. Hún dvaldist í rúmt ár á Fílabeinsströndinni og svo annað ár í Búrúndí við sama starf.
Almennur sendifulltrúi hjá Rauða krossinum sinnir til að mynda heimsóknum til fanga, kannar aðbúnað og meðferð þeirra. Einnig sinnir hann leitarþjónustu en Alþjóðaráð Rauða krossins rekur gagnagrunn fyrir einstaklinga sem hafa orðið viðskila í vopnuðum átökum, sem gerir Rauða krossinum kleift að finna fólk úti um allan heim. Til verka almenns sendifulltrúa falla einnig fræðslustörf fyrir hermenn, lögreglumenn og uppreisnarhópa varðandi Genfarsamningana eða mannúðarlögin, oft kölluð ,,lög í stríði“, sem hafa það hlutverk að vernda almenna borgara og eignir. Hrafnhildur sinnti einnig almennu hjálparstarfi, dreifingu hjálpargagna og matvæla til þolenda átaka auk þess sem hún skipulagði fræðslufundi með kollegum sínum um mannúðarlögin fyrir hermenn og uppreisnarmenn. ,,Þetta var eitt af mínum uppáhalds verkefnum þó að ég hafi verið mjög stressuð á fyrstu fundunum, sem fóru auðvitað fram á frönsku.“ Henni þótti áhugavert að spjalla við einstaklinga sem báru vopn, um það sem má og má ekki í stríði lögum samkvæmt.
DÝRMÆT REYNSLA SEM BYGGIR Á STÖÐUGUM LÆRDÓMI
Þau voru mörg áhrifamikil augnablikin sem Hrafnhildur átti en hún minnist sérstaklega þeirra sem hún átti með fólki: ,,þá samræður og sögur um líf [þeirra] og reynslu,“. Oft var um erfiðar lífsreynslur að ræða, til að mynda barnsmissi, enlíka gleðilegar stundir þar sem þau gátu aðstoðað einstaklinga, til dæmis við að sameina fjölskyldur en það voru alltaf stór augnablik bæði fyrir fjölskyldurnar og sendifulltrúana: ,,maður sat kannski með titrandi höku og horfði á, þar sem foreldrar voru að hitta börnin sín eftir margra mánaða, jafnvel ára, aðskilnað vegna átaka.“
Hrafnhildur nefnir ákveðið atvik sem hefur ávallt setið eftir frá því að hún starfaði í Afganistan fyrir friðargæsluna: ,,þá var ég svo heppin að fá að setjast niður með afgönskum konum í þorpinu þeirra, þar sem þær leyfðu mér að vera með í sínum umræðum um fæðingar.“ Þær ræddu hvernig fræðslunámskeiðið sem þær höfðu setið með fagmenntaðri ljósmóður hafði gert þær betur í stakk búnar til að takast á við fæðingar barna í þorpinu. Þær tvinnuðu umræðurnar saman við reynslu sínar fyrir námskeiðið og að sögn Hrafnhildar: ,,var þetta alveg magnað!“ Þarna fékk hún innsýn í heim afganskra kvenna sem utanaðkomandi hafa yfirleitt fremur takmarkað aðgengi að, fékk að sitja með þeim í afskekktu þorpi og hlýða á reynslusögur þeirra um fæðingar, hvernig þær fóru fram og hvert viðhorf samfélagsins var til þeirra.
Aðspurð hvað henni þótti erfiðast við störf sín nefnir Hrafnhildur að horfa upp á ástvinamissi, þá sérstaklega barna. ,,Mér hefur alltaf þótt erfiðast að eiga samtal við mæður sem hafa misst börn sín, jafnvel fleiri en eitt. Til dæmis vegna átaka eða sjúkdóma sem við á Íslandi þurfum lítið að hafa áhyggjur af.“ Sjúkdómar sem eru jafnvel læknanlegir en vegna skorts á læknisþjónustu falla mörg börn fyrir hendi þeirra. ,,Það kemur við hjartað í manni.“
Öll þessi reynsla hefur þó verið Hrafnhildi gríðarlega dýrmæt og byggir á stöðugum lærdómi. ,,Maður á samskipti við fólk af ólíkum uppruna með ólíkar skoðanir og væntingar til lífsins. Og það er mjög dýrmætt að hafa fengið að upplifa það sem ég gerði á þessum tíma í gegnum Rauða krossinn og önnur verkefni,“ segir hún. Og ekki þykir henni verra að eiga heimboð frá vinum úti um allan heim, sem er eitt og sér ómetanlegt. Reynslan hefur víkkað sjóndeildarhring hennar og ýtt undir réttlætiskenndina: ,,ég á mjög erfitt með að horfa upp á óréttlæti,“ segir Hrafnhildur.
TUNGUMÁLAKUNNÁTTA LYKILATRIÐI Í MANNÚÐARSTÖRFUM
Að lokum var Hrafnhildur spurð hvort hún hefði eitthvert ráð fyrir ungt fólk sem vill leiðast út í hjálparstörf. Hrafnhildur mælir hiklaust með því að læra tungumál önnur en ensku, þá frönsku, spænsku, rússnesku eða arabísku til að nefna dæmi. Öll þessi tungumál munu koma að góðum notum hafi maður áhuga á því að starfa að mannúðar- og þróunarstörfum erlendis. ,,Ég get sagt það með fullri vissu að ef ég væri ekki frönskumælandi þá hefði ég ekki fengið starfið hjá Rauða krossinum.“ Tungumálakunnáttan ýtir ekki einungis undir atvinnutækifæri heldur er einnig lykilatriði að samfélagslegum skilningi: ,,að skilja tungumál landsins sem þú starfar í færir þig mun nær þjóðarsálinni og gefur dvöl þinni meira gildi,“ segir Hrafnhildur og bætir við að fólk hafi mun meiri skilning á lífi og líðan fólks í samfélaginu sem gerir veruna innihaldsríkari.
Hrafnhildur talar einnig um að vera undirbúinn fyrir að vera stundum einmana og gera ráð fyrir því að fólk hugsi ekki eins og maður sjálfur. ,,Þú ert væntanlega að fara að starfa í landi þar sem hugsunarháttur fólks, skoðanir og gildi eru allt önnur en þín eigin.“ Hún mælir með að fara inn í starfið með opnum huga, fylgja öryggisreglum og njóta.