2 minute read

Eigðu alþjóðleg jól

GREIN Emily Reise, Alþjóðafulltrúi SHÍ

ÞÝÐING Hólmfríður María Bjarnardóttir

Advertisement

Tíminn er kominn. Dagarnir eru farnir að lengjast. Mariah Carey er að þiðna og við teljum niður dagana þangað til Colin Firth fer til Portúgal og verður ástfanginn af ráðskonunni sinni, Aureliu. Þú veist hvaða tíma ég er að tala um - þetta eru jólin!

Þetta er líka tíminn þar sem alþjóðlegir heimshornaflakkarar snúa aftur til sinna heimalanda til þess að vera með fjölskyldunni og nánum vinum - eini tími ársins þar sem öll koma saman og deila sögum af annars fjarlægum lífum sínum. Þú hittir gamla vini og veltir fyrir þér hvort þið mynduð enn þekkjast ef ekki væri fyrir þessi skyldu-jólaboð. Endurfundir við fjölskylduna sem elskar þig skilyrðislaust og fyrirgefur þér fyrir að hafa ekki verið í betra sambandi, þó þú hafir lofað því síðustu jól.

En í ár ertu strand í ólgandi hafsjó kórónuveirusmita; öldurnar velkjast um og hindra að þú náir að festa akkeri í þinni heimahöfn og því missir þú af jólahefðunum: sömu jólalögin sem hljóma endurtekið í bakgrunni, endalaus jólaboð, göngutúrar til þess gerðir að nýta þessa örfáu klukkutíma af dagsbirtu, þriggja daga matreiðsluævintýri, laumupúkaleg innpökkun á síðustu stundu - og svo framvegis, endalaust, ár eftir ár.

Svona er þetta á hverju ári: barnsleg tilhlökkun í bland við þungmeltanlegan mat - sem endar oftar en ekki á stöðugum flökurleika, þér eldra fólk dæmir lifnaðarhætti þína - sama hverjir þeir kunna að vera. Ef þú ert á lausu ættirðu að finna þér einhvern; ef þú ert í sambandi ættirðu að nýta tímann og hitta fleiri, ef þú ert í skóla og/eða vinnu ættirðu að slaka aðeins á og ef þú lifir í núinu ertu kærulaus. Orkan sem fer í að reyna að halda sér saman í slíkum samtölum eldir þig um mörg ár á núinu en það verður allt þess virði þegar á kvöldið líður og fjölskylduslúðrið kemur upp á yfirborðið með smá hjálp frá votum veigum - sérstaklega ef þú nærð að halda þig einum drykk á eftir og getur þannig lagt leyndarmálin á minnið og geymt þau sem skotfæri, sem þú munt þó aldrei nota.

En í ár er þessi kunnuglegi glundroði langt undan og í hans stað komin ný, framandi óreiða. Árið hefur einkennst af óvissu og slíkt getur verið kvíðavaldandi, sérstaklega þegar þú reynir að feta þig í gegnum þegar ófyrirsjáanlegt líf, hvað þá í miðjum heimsfaraldri. Það er ekki ólíklegt að þetta láti þig þrá hefðbundið jólahald meðan þú reynir að finna út hvernig þessi jól verða eiginlega.

Ég verð að taka undir kór sjálfshjálparráða sem netið hefur hent í þig alveg frá fyrstu samkomutakmörkunum: líttu á þetta sem tækifæri! Það hjálpar ekki að velta sér upp úr skorti á þínum venjulegu jólahefðum og lenda þannig í vonlausri tilvistarkreppu. Það mun ekki skila sér í kunnuglegum umræðum við jólaborðið.

Við ættum öll að gefa hvert öðru smá pásu. Þó svo að þú saknir allra heima núna, skaltu nýta þetta sem tækifæri til þess að gera næstu jól enn betri. Hugsaðu um allt sem þú elskar við jólin heima, leyfðu barnslegum spenningnum að byggjast upp og brjótast út næst þegar þú ferð heim. Í millitíðinni geturðu eytt tíma með vinum þínum - fjölskyldunni sem þú hefur valið þér hér - og búið til nýjar hefðir. Fáðu þér heitt súkkulaði og horfðu á fáránlegan dans Hugh Grant gegnum þingið. Þetta er yndislegasti tími ársins eftir allt saman.

This article is from: