3 minute read
Að sitja í festum á 21. öld
GREIN Karitas M. Bjarkadóttir
Advertisement
Síðasta haust flutti maki minn til Þýskalands undir því yfirskini að læra stærðfræði í tvö til þrjú ár. Ég hef túlkað það sem tækifæri til að upplifa þessa einstöku hefð íslenskra kvenna og kynnast þannig raunveruleika kynsystra minna á þann hátt sem aðeins er hægt í gegnum lífið sjálft. Þetta er samt ekki eintómur dans á rósum, jafnvel þó það virðist sjarmerandi í fyrstu að sitja heima við útsaum og horfa dreymin út um gluggann, bíðandi eftir því að verða sameinuð með ástinni sinni á ný. Þvert á móti eru fjarsambönd heilmikil vinna, þetta geta öll þau sem ég þekki í þessari stöðu kvittað fyrir. Í kringum mig virðast sífellt fleiri vera í þessari stöðu og þess vegna finnst mér upplagt að ausa úr mínum fjarsambandsviskubrunni, ef ske kynni að það gildi um einhverja lesendur Stúdentablaðsins, og gjöriði svo vel.
FINNIÐ TAKTINN
Hvernig hentar ykkur best að heyrast? Eitt langt spjall í myndbandsspjalli á dag, mörg stutt í síma eða eitthvað þar á milli? Er tímamismunur sem þarf að taka með í reikninginn, og hvernig viljið þið tækla hann? Það er mikilvægast í þessu öllu saman að báðir aðilar séu sáttir við fyrirkomulagið. Ef þið finnið að það sem þið eruð að gera núna gengur ekki upp, breytið þá til!
NÝTIÐ TÍMANN
Í því álagssamfélagi sem við búum í er normið að vera upptekin. Þess vegna getur stundum verið erfitt að standa við þann tíma sem þið hafið tekið frá fyrir spjall alla daga og það er um að gera að nýta tímann. Hringið á meðan þið eruð í strætó, að labba í búðina eða í mat í vinnunni. Búið til tíma og rými fyrir hvort annað.
EKKI GLEYMA STEFNUMÓTUNUM
Það er vel hægt að fara á deit í gegnum tölvuna, til dæmis með því að panta ykkur einhvern góðan take-away mat og opna rauðvínsflöskur í sitthvoru landinu, en borða saman. Eða setja á ykkur maska og taka saman dekurkvöld, horfa á bíómyndir og þætti í gegnum þar til gerð forrit í tölvunni eða spila í gegnum netið. Chrome viðbótin TeleParty gerir fólki til dæmis kleift að horfa samtímis á Hulu, Netflix, Disney+ eða HBO og ég mæli eindregið með að finna ykkur þætti til að horfa á saman. Einn Gilmore Girls fyrir háttinn með makann í myndbandsspjalli í hinum glugganum í tölvunni er ekki alveg eins og að kúra saman yfir sjónvarpinu, en það er samt notaleg leið til að ljúka deginum.
VITIÐ HVENÆR ÞIÐ HITTIST NÆST
Það hjálpar ótrúlega mikið að vita nákvæmlega hvenær þið sjáist næst. Þá er hægt að telja niður dagana og hafa eitthvað til að hlakka til, og þó það séu einhver skekkjumörk á dagsetningunni þá eruð þið að minnsta kosti ekki í lausu lofti í fjarsambandslandi. Þetta er það atriði sem COVID hefur leikið hvað mest grátt en er líka eitt mikilvægasta atriðið, að mínu mati.
LEYFIÐ YKKUR AÐ VERA KJÁNALEGT KÆRUSTUPAR
Það er ekkert sem fjarsambandspör eiga meira skilið fyrir alla þeirra vinnu og þrautseigju en að fá bara að vera kjánalegt og klisjukennt par í friði. Skoðið myndir af hvoru öðru og setjið einhverja sæta í opnuskjáinn á símanum ykkar. Látið mála af ykkur mynd til að hengja upp inni hjá ykkur eða prentið út myndir í sama tilgangi. Kaupið fjarsambandsarmbönd sem titra þegar hinn aðilinn snertir sitt, til að segja að þið hugsið til hvors annars. Það skiptir í grunninn ekki máli, gerið það sem hjálpar ykkur að muna hvers vegna þetta er allt þess virði.
ALLT TEKUR ENDA
Í langflestum tilfellum eru fjarsambönd tímabundin lausn. Reynið að muna að þetta tekur enda og fyrr en varir verðið þið í sama landshluta og maki ykkar. Það þarf ekki meira.