4 minute read
Ritstjóraspjall
Flugdrekinn sem hrifsaði framtíðardraumana
Sum augnablik lifa í minningunni þótt árin líði, virka jafnvel saklaus og ómerkileg þegar þau koma upp en útskýra seinna eitthvað sem engan grunaði á þeim tímapunkti. Þetta augnablik var þannig. Tvær hamingjusamar vinkonur fóru í göngutúr á páskadag þegar öldin var önnur og í kjölfarið fór líf annarrar þeirrar á flug, tók svo dýfu og fór aftur á flug, hún varð eins og flugdreki í roki sem flýgur stjórnlaust um himininn upp og niður og steypist á endum niður í jörðina laskaður. Tjaslað saman og er svo aftur reynt að koma á loft sem getur reynst þrautin þyngri.
Advertisement
Þennan páskadag skartaði veðrið sínu fegursta, sól skein í heiði, það var logn og frost svo það brakaði hressilega í snjónum við hvert skref. Vinkona mín var lífsglöð, listræn og klár, það var alltaf fjör í kringum hana. Við þurftum mikið að spjalla og gengum lengi, byggingarkranar gnæfðu yfir okkur um allt í hverfi sem var að rísa hratt. Við komum að flennistóru auglýsingaskilti með mynd af brosandi fasteignasala sem var að selja íbúðirnar í húsinu sem var að rísa fyrir aftan það. Vinkona mín nam staðar, horfði á skiltið í smástund og sagði svo glöðum rómi að þessi stóra blokk væri örugglega fullkomin fyrir Bill Gates vin hennar! Hún var mjög sannfærandi þegar hún útskýrði fyrir mér hvernig þau þekktust, sagði að hann væri frábær gaur og að hún hefði lofað að hjálpa honum að finna hús á Íslandi. Ég varð orðlaus, þekkti vinkona mín Bill Gates og hafði aldrei nefnt það við mig fyrr? Því næst tók hún upp símann og ætlaði að hringja í fasteignasalann, segja honum að hún væri líklega með kaupanda að öllum íbúðunum í blokkinni. Mér fannst þetta eitthvað undarlegt en hún var svo spennt og sannfærandi, gat verið að hún og Bill væru svona góðir vinir að hún væri að leita að húsnæði fyrir hann á Íslandi? En það var jú páskadagur og ég sagði henni að fasteignasalinn væri örugglega í fríi, hún samþykkti það og við héldum áfram að ganga eins og ekkert hefði í skorist. Ekki löngu seinna frétti ég að vinkona mín væri komin á geðdeild, hefði farið í maníu og væri veik. Þá áttaði ég mig á því að Bill var ekki raunverulegur vinur hennar, manían var byrjuð að krauma daginn sem Bill og blokkin áttu hug hennar.
Í mörg ár á eftir var vinkona mín inn og út af geðdeild, það var erfitt að horfa upp á unga efnilega vinkonu hverfa inn í heim sem ég skildi ekki. Hún var samt alltaf sami húmoristinn, þrátt fyrir áföllin sem dundu á henni næstu árin meðan sjúkdómurinn fór með hana upp og niður eins og stjórnlausan flugdreka í roki. Í dag er hún öryrki en kvartar aldrei, hefur fundið hamingjuna á nýjan hátt og segist vera þakklát starfsfólkinu í geðinu sem hefur hjálpað henni í gegnum árin. Vinkona mín er með geðsjúkdóm sem bankaði upp á þegar hún var ung og efnileg og átti framtíðina fyrir sér. Hún ætlaði sér stóra hluti og allir höfðu trú á henni, draumar hennar myndu örugglega rætast hún var svo hæfileikarík og dugleg. En sjúkdómurinn hrifsaði af henni lífið á vissan hátt.
Það ætlar enginn að fá geðsjúkdóm, það ætlar enginn að veikjast og horfa á framtíðardrauma sína verða að engu. Neyðast til að aðlagast breyttum aðstæðum með geðsjúkdóm í fanginu sem getur verið þungur baggi að bera ár eftir ár eftir ár.
Í þessu tölublaði er geðþema. Helga Sif Friðjónsdóttir segir frá nýju meistaranámi í geðhjúkrun sem hefst í haust, hún segir að geðheilbrigði og efling þess verði viðfangsefni til framtíðar og að hjúkrunarfræðingar sem starfa við geðhjúkrun á Íslandi séu allajafna eldhugar sem vinni magnað starf á hverjum degi. Birna Óskarsdóttir hjúkrunarfræðingur og teymisstjóri segir frá teymi sem er ætlað að þjónusta fólk með alvarlegan geð- og fíknivanda á vettvangi og heitir Laufey eftir ömmu sem bjó í Grjótaþorpinu og var þekkt fyrir að berjast fyrir réttlæti lítilmagnans. Undirrituð hitti líka þær stöllur, Hrönn Stefánsdóttur og Ragnheiði Eiríksdóttur en þær eru hjúkrunarfræðingar í DAM-teymi göngudeildar lyndisraskana LSH Kleppi og spjallaði við þær um þverfaglegt teymi sem þjónustar fólk með langvarandi og djúpstæðan tilfinningalegan óstöðugleika. Katrín Brynjarsdóttir segir svo frá morgunvakt á meðferðardeild geðrofssjúkdóma og Ingibjörg Jónsdóttir, prófessor í lífeðlisfræði, er í viðtali um kulnun. Þetta og margt fleira fyllir síður sumarblaðsins og vona ég að þið, kæru hjúkrunarfræðingar, njótið þess að drekka í ykkur fróðleik og fræðigreinar í sól og sumaryl.
Að lokum vil ég óska Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur hjúkrunarfræðingi hjartanlega til hamingju með heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu sem hún var sæmd fyrir störf í þágu heilbrigðisþjónustu og baráttu við COVID-19. Ragnheiður var í viðtali í síðasta tölublaði og þar sagði hún að sitt mottó í lífinu væri að brosa og gefa frá sér jákvæða strauma.
Eitt bros getur svo sannarlega dimmu í dagsljós breytt. Gleðilegt sumar og hafið það sem allra best!
Tímarit hjúkrunarfræðinga Suðurlandsbraut 22, 108 Reykjavík s. 540 6400 hjukrun.is Útgefandi: Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Sigríður Elín Ásmundsdóttir Ritnefnd: Kristín Rósa Ármannsdóttir, Sölvi Sveinsson, Þorgerður Ragnarsdóttir Ritstjóri ritrýndra greina: Þóra Jenný Gunnarsdóttir Ritnefnd ritrýndra greina: Hrund Scheving Thorsteinsson, Sigrún Sunna Skúladóttir, Þorbjörg Jónsdóttir, Kristín Linda H Hjartardóttir, Páll Biering Yfirlestur: Ragnheiður Linnet Auglýsingar: Erna Sigmundsdóttir - sími 821 2755 Hönnun og umbrot: Þorbjörg Helga Ólafsdóttir Prentun: Ísafoldarprentsmiðja