4 minute read

Viðtal – Helga Sif Friðjónsdóttir, sérfræðingur í geðhjúkrun og klínískur lektor við Hjúkrunarfræðideild HÍ, segir frá nýju meistaranámi í geðhjúkrun sem hefst í haust

Nýtt meistaranám í geðhjúkrun

Viltu bæta geðheilsu landsmanna og verða virkur þátttakandi í þróun geðheilbrigðisþjónustu til framtíðar? Á heimasíðu Háskóla Íslands tekur þessi setning á móti þeim sem vilja kynna sér þetta nýja meistaranám sem er vistað hjá Hjúkrunarfræðideild HÍ.

Advertisement

Viðtal og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Við spurðum dr. Helgu Sif Friðjónsdóttur aðeins út í meistaranámið en hún er sérfræðingur í geðhjúkrun og klínískur lektor við Hjúkrunarfræðideild HÍ, auk þess að starfa á göngudeild fíknigeðdeildar á geðþjónustu Landspítala.

Hvers vegna var ákveðið að bjóða upp á meistaranám í geðhjúkrun? Geðheilbrigði og geðheilbrigðisþjónusta hefur verið mikið í umræðunni undanfarin misseri og ítrekað bent á að efla þurfi geðheilbrigðisþjónustu, á öllum stigum heilbrigðisþjónustu sem og í annarri velferðarþjónustu, og að öll þjónusta þurfi að vera notendamiðuð og valdeflandi. Samfélagsumræðan hefur leitt til þess að eðlilegt þykir nú að leita sér aðstoðar með geðrænar áskoranir og einskorðast sú aðstoð ekki við tiltekna fagstétt. Því hefur samhliða umræðunni verið þrýstingur frá hjúkrunarfræðingum og stofnunum sem veita geðheilbrigðisþjónustu á að skapa tækifæri til aukinnar menntunar og þjálfunar í geðhjúkrunarfræði. Meginmarkmið framhaldsnáms í geðhjúkrunarfræði er að mæta þörfum notenda og aðstandenda í sem víðasta samhengi, út frá batamiðaðri hugmyndafræði og valdeflingu. Viðfangsefnin eru og verða ærin til framtíðar í geðheilbrigðismálum og munu hjúkrunarfræðingar með framhaldsmenntun í geðhjúkrun gegna veigamiklu hlutverki í uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu, bæði úti í samfélaginu og innan stofnana.

Hvernig er námið uppbyggt? Meistaranám í geðhjúkrun er 120 einingar. Námið er fullt nám í tvö ár, með 60 ECTS á fyrra ári, sem er jafnframt launað starfsnám en 40 ECTS eru kenndar á seinna ári. 20 ECTS einingar geta fengist metnar. Námið er sveigjanlegt

Helga Sif Friðjónsdóttir stendur fremst á myndinni, þá Jóhanna Bernharðsdóttir, Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir og Gísli Kort Kristófersson. Þetta er hópurinn sem kom meistaranámi í geðhjúkrun á koppinn. Stolt og spennt að taka á móti nemendum sem hefja nám í haust.

með reglulegum staðlotum á námstímanum við HÍ, HA, auk klínískra námskeiða á Landspítala.

Hvaða tækifæri getur námið haft í för með sér? Að námi loknu opnast fjölbreytt tækifæri til að takast á við margvíslegar áskoranir til að bæta geðheilsu fólks á öllum aldri. Framsæknir hjúkrunarfræðingar geta stefnt að sérfræðiréttindum í geðhjúkrun, starfað í teymum

„ … það mun áfram vera þörf fyrir sérfræðinga í geðhjúkrun í allri heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með geðrænar áskoranir en ég tel að við eigum líka eftir að finna nýja farvegi og leiðir til að sinna geðhjúkrun.“

eða sjálfstætt við að veita samtalsmeðferðir til einstaklinga, hópa og fjölskyldna. Hjúkrunarfræðingar geta að loknu námi starfað á fjölbreyttum vettvangi og haft afdrifarík áhrif til geðræktar og góðrar geðheilsu þjóðarinnar.

Með hvaða hætti bætir þetta nám hugsanlega geðþjónustu á Íslandi? Hjúkrunarfræðingar sem hafa farið í gegnum meistaranámið hafa einstaka þekkingu sem brúar bilið, bæði milli notenda og þjónustuveitenda, sem og milli ólíkra fagstétta innan geðheilbrigðisþjónustunnar. Geðhjúkrunarfræðingar eru því ómissandi í þverfaglegu teymi því menntun þeirra og hæfni gerir þá eftirsóknarverða málastjóra, meginmeðferðaraðila eða teymisstjóra. Í náminu verður lögð áhersla á klíníska þekkingu og færni, fagmennsku, rannsóknarfærni og sjálfstæði svo þeir sem útskrifast úr náminu geta í samvinnu við notendur og aðstandendur veitt heildræna geðhjúkrun. Þannig mun námið efla gæði og auka framboð geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi til framtíðar.

Hver er staða geðhjúkrunar á Íslandi í dag? Að mínu mati hefur geðhjúkrun verið í lægð á Íslandi undanfarin ár hvað varðar tækifæri til sérhæfingar og hæfniþjálfunar með því móti sem þetta meistaranám býður upp á. En þeir hjúkrunarfræðingar sem starfa við geðhjúkrun á Íslandi eru allajafna eldhugar og vinna alveg hreint ótrúlega magnað starf á hverjum degi sem oft fær ekki viðeigandi viðurkenningu. Margir þeirra hafa svalað sínum fróðleiksþorsta með því að fara á ráðstefnur og vinnustofur erlendis eða hérlendis. Núna skapast tækifæri til menntunar og klínískrar þjálfunar hér á landi, þessi meistaragráða mun auka möguleika þeirra sem henni ljúka til starfsþróunar og veitingu sérfræðiréttinda í geðhjúkrun. Hver er framtíðarsýn geðhjúkrunar? Framtíðarsýnin að mati okkar sem höfum unnið að því að koma náminu af stað er að innan nokkurra ára starfi geðhjúkrunarfræðingar og sérfræðingar í geðhjúkrun í mismunandi hlutverkum innan geðheilbrigðisþjónustu stofnana. Í til að mynda geðheilsuteymum heilsugæslu eða grunnþjónustu heilsugæslu, í skólahjúkrun og heimahjúkrun og annarri heilbrigðisþjónustu veittri í nærumhverfi. Einnig að geðhjúkrunarfræðingar vinni við nýsköpun og rannsóknir tengdum geðheilbrigðismálaflokknum.

Ef vel ætti að vera hvað vantar þá marga sérfræðinga í geðhjúkrun á Íslandi? Ég er þeirrar skoðunar að við sem samfélag séum stödd á þeim stað að geðheilbrigði og efling þess verði viðfangsefni okkar til framtíðar. Ég á við að það mun áfram verða þörf fyrir sérfræðinga í geðhjúkrun í allri heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með geðrænar áskoranir en ég tel að við eigum líka eftir að finna nýja farvegi og leiðir til að sinna geðhjúkrun. Til dæmis sé ég fyrir mér að sérfræðingur í geðhjúkrun geti starfað innan íþróttafélags þar sem viðfangsefnið væri geðrækt þeirra sem æfa með félaginu. En til að gefa einhverja mynd þá var gerð þarfagreining á geðþjónustu Landspítala og þar reiknast okkur til að það vanti nú þegar til starfa 12 sérfræðinga í geðhjúkrun. Þá er hvorki talin þörf barna- og unglingageðdeildar né annarra þjónustueininga spítalans. Svo það verða næg tækifæri til framtíðar fyrir þá sem útskrifast úr meistaranáminu.

Námsstjórn meistaranáms í geðhjúkrun, á myndina vantar Kristínu Lindu Hjartardóttur.

This article is from: