6 minute read

Vaktin mín, Katrín Brynjarsdóttir segir frá morgunvakt á meðferðardeild geðrofssjúkdóma

Vaktin mín

Katrín Brynjarsdóttir

Advertisement

hjúkrunarfræðingur á meðferðargeðdeild geðrofssjúkdóma, 33A

Morgunvakt á meðferðardeild geðrofssjúkdóma

Umsjón: Sigríður Elín Ásmundsdóttir / Myndir: Úr einkasafni

Meðferðargeðdeild geðrofssjúkdóma er 16 rúma legudeild sem skiptist í 10 bráðapláss og sex endurhæfingarpláss. Deildin var opnuð í janúar 2022, þegar geðrofsteymi móttökugeðdeildar og sérhæfð endurhæfingargeðdeild sameinuðust í eina deild. Deildin tekur á móti sjúklingum með bráðan og alvarlegan geðrænan vanda og sinnir jafnframt endurhæfingu fólks með geðrofssjúkdóma og algengar fylgiraskanir eins og kvíða, þunglyndi og vímuefnavanda (tvígreiningarvandi). Mikil áhersla er lögð á teymisvinnu á meðferðargeðdeild geðrofssdjúkdóma.

Ég hóf störf á geðsviði LSH sumarið 2020, eftir þriðja námsárið mitt í hjúkrun. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á geðsviðinu og einnig störfum sem tengjast áfengis- og vímuefnavandamálum. Ég ákvað þess vegna að sækja um á sérhæfðri endurhæfingargeðdeild sem var á þeim tíma staðsett á Kleppsspítala og var þá endurhæfingardeild sem sinnti einstaklingum með tvígreiningar. Eftir að ég hóf störf þar vaknaði enn meiri áhugi hjá mér á geðhjúkrun og þeirri vinnu sem felst í starfinu.

Í þessari dagbókarfærslu fer ég yfir morgunvakt á virkum degi. Það er mikið um útskriftir, innlagnir, fjölskylduvinnu og meðferðarviðtöl. Áhersla er lögð á teymisvinnu svo vaktin gangi eins áreynslulaust fyrir sig og hægt er miðað við álag og aðstæður.

Morgunvaktin byrjar saman inni á vaktherbergi og þar er munnlegt rapport. Mér finnst gott að byrja morgunvaktir á því að fá mér kaffibolla á meðan rapporti stendur. Farið er yfir hvernig kvöldið áður gekk fyrir sig, frekari breytingar á andlegri líðan skjólstæðinga og hvort það sé eitthvað sem þarf að hafa í huga varðandi skipulag morgunvaktarinnar.

Eftir rapport fer ég inn á lyfjaherbergi til þess að skoða lyfin fyrir vaktina. Verið er að prófa nýja verkferla á deildinni og koma lyfjatæknar til að taka saman morgunlyfin. Ég sest við tölvuna og fer yfir lyfin hjá hverjum og einum svo ég hafi betri yfirsýn. Ég sé að þrír skjólstæðingar eru skráðir á forðasprautu og skrái það hjá mér. Eftir þessa yfirferð les ég mig aðeins til um skjólstæðingana sem ég er skráð á, en þeir eru tveir á þessari vakt. Ég undirbý mig svo fyrir morgunfund og les mig til um breytingar og annað sem þarf að taka fyrir á þeim fundi.

Þegar búið er að undirbúa morgunlyfin fer ég með þau til skjólstæðinganna, býð þeim góðan daginn og kanna líðan þeirra. Mér finnst mjög gott að nota lyfjagjafatímann á morgnana til að opna daginn með mínum skjólstæðingunum þann daginn.

Morgunfundurinn er haldinn með öllum meðferðaraðilum deildarinnar, sem eru læknar, hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar, sálfræðingar og ráðgjafar. Farið er yfir hvern og einn skjólstæðing og hvaða meðferðaleiðir eru nýttar. Ég mætti á fundinn þegar komið var að því að ræða mína skjólstæðinga en þennan dag var fyrirhuguð útskrift hjá öðrum skjólstæðingi mínum og var farið yfir þá þætti sem þyrfti að undirbúa fyrir útskrift.

Læknir á vaktinni bað mig um að taka saman lyf fyrir fjóra daga fyrir skjólstæðing minn sem átti að útskrifast svo hann fengi lyfjarúllu með sér heim. Fór ég þá inn á lyfjaherbergi og byrjaði að undirbúa lyfjatiltekt.

Stuttu seinna talaði ég við skjólstæðinginn og móður hans, gaf honum síðustu vítamínsprautuna sem hann var skráður á og lyfin til þess að taka með heim. Læknirinn

,,Við leggjum mikla áherslu á fjölskylduvinnu og erum í miklum samskiptum við fjölskyldur skjólstæðinga ef þeir veita okkur leyfi til þess.“

var búinn að fara yfir það helsta fyrir útskriftina og fór ég í kjölfarið aðeins yfir lyfjamálin með þeim. Ég óskaði þeim góðs gengis, skráði útskriftina og útskrifaði hann af deildinni.

Klukkan 11 var ég að fara hitta fjölskyldu fyrir stuðning. Við leggjum mikla áherslu á fjölskylduvinnu og erum í miklum samskiptum við fjölskyldur skjólstæðinga ef þeir veita okkur leyfi til þess. Þetta var fyrsti stuðningurinn sem ég veitti þessari fjölskyldu og snérist hann aðallega um að kortleggja þann stuðning sem fjölskyldan þurfti mest á að halda og farið aðeins dýpra í þeirra hlutverki í kringum veikindi skjólstæðingsins.

Eftir fundinn var komið að hádegismat, starfsfólk borðar að mestu í matsalnum með skjólstæðingum til að stuðla að frekari meðferðarsambandi. Það þarf samt alltaf að vera starfsmaður á ganginum ef eitthvað kemur upp á og vera til taks ef skjólstæðingar þurfa aðstoð.

Eftir matartímann talaði ég við einn skjólstæðing sem er skráður á forðasprautu. Ég vissi að sjá aðili vildi fá

Ólafur Haukur, Faith Igcalinos Tao, Katrín og Jóna Kolbrún. sprautuna sem fyrst þannig ég lét hann vita af sprautunni áður en ég gerði hana tilbúna. Helstu forðasprautur sem eru notaðar heita Trilafon, Xeplion og Zypadhera. Á þessum degi vorum við að nota Xeplion og Zypadhera. Þegar forðasprautur eru gefnar þarf að fylgjast vel með lífsmörkum og almennri líðan skjólstæðings, sérstaklega varðandi Zypadhera. Tekin eru lífsmörk fyrir og eftir gjöf og svo er eftirlit í þrjár klukkustundir eftir gjöf. Forðaspauta er tegund geðrofslyfja, hún hentar sumum betur heldur en að taka lyf um munn og þjónar sama tilgangi. Sprautan er gefin á tveggja til fjögurra vikna fresti og á þeim tíma heldur hún styrkleika lyfsins í líkamanum jöfnum.

Ég fór að undirbúa forðasprautuna en þar sem það voru fleiri skjólstæðingar skráðir á sprautu þennan morgun var ég búin að fá annan hjúkrunarfræðing til þess að aðstoða mig. Sprautan sem ég var að undirbúa var Zypadhera og getur tekið smátíma að undirbúa hana vegna margra skrefa sem þarf að fylgja til að blanda lyfið. Svo fór ég yfir þá verkferla sem þarf að sinna fyrir og eftir gjöf Zypadhera og gaf sprautuna.

Vaktstjóri lét mig vita að það væri fyrirhuguð innlögn og bað mig um að sjá um hana. Innlagnir koma aðallega frá bráðamóttöku geðsviðs en geta einnig komið frá öðrum deildum eða teymum sem vinna á göngudeild Kleppsspítala. Búið var að gera herbergið klárt og ég fór að undirbúa móttökublaðið og talaði við ráðgjafa sem gat verið með mér að taka á móti skjólstæðingnum.

Klukkan var að ganga í 14 þegar skjólstæðingurinn kom, ég fylgi honum inn á herbergi og tók innskriftarviðtal við hann. Það var stutt þar sem skjólstæðingurinn var að koma í bráðainnlögn, ég fékk helstu upplýsingar og tók lífsmörk. Innskriftaviðtalið þróaðist út í stuðningsviðtal en við leggjum mikla áherslu á stuðning á deildinni og fara allir starfsmenn hennar á námskeið til þess að geta veitt stuðningsviðtal.

Ég innskrifaði skjólstæðinginn og skráði í Söguna það helsta sem þyrfti að koma fram og skráði niður teymi í kringum skjólstæðinginn. Í teymi hjá skjólstæðingum í bráðafasa er ábyrgur læknir og hjúkrunarfræðingur. Ráðgjafi aðstoðaði skjólstæðinginn við að koma sér vel fyrir inni á herbergi og sýndi honum deildina.

Ég er skráð sem málastjóri hjá einum skjólstæðingi í endurhæfingu. Því fylgir að ég aðstoða hann í gegnum endurhæfingu og skipulegg hana eftir óskum skjólstæðingsins. Endurhæfingin hefur gengið vel og er hann kominn í útskriftarfasa. Ákveðið var að undirbúa þrepaplan sem deildin gæti haft til hliðsjónar, sem skipulag fyrir komandi útskrift. Ég fór í það að undirbúa þrepaplanið.

Það styttist í lok vaktarinnar, ég fer yfir daginn; hvort ég eigi eftir að klára einhver verkefni eða ganga frá svo ég skili morgunvaktinni almennilega frá mér. Ég skrái í Sögukerfið það helsta í kringum mína skjólstæðinga og hnýtti lausa enda.

Vaktstjórinn bað mig um að halda rapportið fyrir kvöldvaktina sem ég gerði og ég endaði á því að þakka öllum sem voru á vaktinni fyrir góða vakt, það finnst mér mikilvægt.

This article is from: