24 // VÍKURFRÉTTIR Á SUÐURNESJUM Í 40 ÁR
fimmtudagur 2. apríl 2020 // 14. tbl. // 41. árg.
VÍKURFRÉTTIR FENGU NOKKRA SUÐURNESJAMENN TIL AÐ HALDA DAGBÓK Í EINN DAG
Dagbók Önnu Sigríðar
Vaknaði um átta og bjó til hafragraut fyrir okkur hjónin. Ég byrja alla daga á hafragraut með bláberjum og mjólk og tek inn lýsi og fjölvítamín. Góður kaffibolli rann svo ljúft niður með Mogganum. Dagurinn hófst á morgungöngu meðfram sjónum, það var bjart úti og veðrið yndislegt. Ég baka mikið þessa dagana og gott er að hafa gróft brauð í hádeginu beint úr ofninum, ég fæ krakkana alltaf til að borða gróft brauð ef það er nýtt og þannig fá þau trefjar fyrir daginn, ég læt upppskriftina fylgja, hún er svo auðveld og allir geta bakað þetta. Á þessum skrítnu tímum er ég með fjögur börn í fjarkennslu, þrjú eru í grunnskóla og einn í framhaldsskóla. Þetta gengur nokkuð vel og kennararnir halda þeim alveg við efnið, virkilega skemmtilegt að börnin eru að fá nýja reynslu af lærdómi eða nýrri tækni til að læra. Ég vona nú samt að þau komist í skólann eftir páskana því stutt er eftir af skólaárinu. Eftir að líkamstæktarstöðvarnar lokuðu tók við meiri hreyfing úti og einnig heimayoga, nóg er af framboði á netinu. Ég skellti mér í frábæran ONLINE yogatíma með Heiðbrá Björns yogakennara sem býður öllum að vera með daglega í yoga. Tók nokkur símtöl út á land, mikilvægt að heyra í foreldrum og vinum reglulega eða aðeins meira núna en vanalega til að deila sögum af lífinu í dag, það er svo margt annað sem fólk er að gera heldur en vanalega. Fór svo með dætrum mínum í góðan
göngutúr um miðjan daginn og við enduðum í hellinum hjá Skessunni, það er alltaf gaman að kíkja á hana. Ég ætlaði að vera extra dugleg og fara að flokka úr skápunum, en ég náði að fara í Byko og kaupa þrjá glæra kassa til að nota í flokkunina en ekkert fór í þá þennan dag, á morgun sagði sá lati. Eftir kvöldmat fór ég svo í kvöldgöngu með kallinum, það er ágætt að hreyfa sig eftir kvöldmat ef veðrið er gott áður en sófinn er tekinn með Netflix þáttum, en ég horfði einmitt á frábæran þátt þetta kvöldið English Game, mögnuð þáttaröð um upphaf knattspyrnunnar. Annars er ég að lesa góðar bækur og nýfarin að hlusta á rafbækur, er núna að hlusta á ævisögu Abraham Lincolns og hún er áhugaverð. Góðar stundir Anna Sigríður Jóhannesdóttir Bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ
... það er ágætt að hreyfa sig eftir kvöldmat ef veðrið er gott áður en sófinn er tekinn með Netflix þáttum ...
Uppskrift
Skyrbrauð með sesamfræum 3 dl gróft spelt hveiti 1 dl haframjöl 1 dl skyr 2 tsk salt 1 dl sesamfræ ½ dl sólkjarnafræ 1 msk hunang 3 dl vatn 4 tsk lyftiduft Öllu blandað saman í skál, sett í form klætt með bökunarpappír. Bakað í ca 40 mín við 200 gr.
Njótið!