9 minute read

Inga Jara Jónsdóttir, Árborg

Heimanámsþjálfun: Framlag foreldra og/eða forráðamanna

Þá er ég komin að upphafinu með þessum skrifum mínum. Þið sem hafið fylgt mér frá upphafi vitið að þessi skrif fóru af stað vegna áskorana sem ég hafði fengið frá foreldrum/forráðamönnum sem óskuðu eftir því að ég myndi taka saman nokkur atriði sem myndu gagnast heima fyrir þegar kemur að þjálfun í námi, einmitt vegna þess að ég hef verið að taka að mér að aðstoða ákveðinn nemendahóp með heimanámsþjálfun.

Tilgangur skrifanna er tvíþættur af minni hálfu í því samhengi. Ég er að leitast við að svara tveimur spurningum:

1. Hvaða vitneskju og skilning þarf foreldri/forráðamaður að hafa um hugtök og aðferðir í námi til þess að aðstoða við heimanámsþjálfun? 2. Hvað getur foreldri/forráðamaður gert til þess að aðstoða barnið sitt í námi heimafyrir? Á þessum tímapunkti myndi ég klárlega benda öllum foreldrum og/eða forráðamönnum á að framlag ykkar til barnsins ykkar í formi hvatningar og stuðnings í námi og námstengdum venjum mun skila sér til lengri tíma, til framtíðar! Þó svo þið náið ekki tökum á því að aðstoða barnið heima fyrir í sértækum námstengdum þáttum (t.d. reikna tiltekið stærðfræðidæmi, útskýra viðtengingarhátt þátíðar, o.s.frv.) þá getið þið búið til jákvætt og hvetjandi námsumhverfi heima. Það að vera til staðar fyrir barnið, sýna því stuðning og hvetja það áfram leiðir til árangurs í námi (Scholarly Research on what Aspects of Parent Support Affects Education).

Sú hugsun um að barn hafi stuðning og hvatningu heima fyrir í námi kemur djúpt úr mínu eigin hugskoti. Þaðan kom drifkrafturinn sem leiddi til þess að ég fór að aðstoða nemendur með heimanám. Reynslan hefur sýnt mér aftur og aftur að barn sem finnur fyrir stuðningi og hvatningu í námi upplifir að það skiptir máli, að framlag þess skiptir máli og að nám þess skiptir máli.

Við sem hlúum að börnum okkar og kennarar sem hlúa að nemendum sínum eru að sá fræjum. Það er mikilvægt að átta sig á því að nám er langtímaferli og að fræin sem við sáum uppskera börnin ekki fyrr en löngu seinna. Sama gildir um foreldrahlutverkið, við sjáum oft ekki afrakstur uppeldis okkar fyrr en börnin eru orðin unglingar og jafnvel fullorðin.

Einmitt um þessar mundir er elsta barnið mitt að ljúka grunnskólagöngu sinni eins og svo mörg önnur börn. Uppskeruhátíð margra þeirra fræja sem við hjónin sáðum fer fram núna. Nú bíðum við spennt eftir því að heyra hvort barnið okkar kemst í þann framhaldsskóla sem því langar helst að sækja. Við finnum fyrir þakklæti barnsins okkar núna! Það er núna sem barnið okkar er að átta sig á því að staðfesta þess og seigla í námi, ásamt staðfestu okkar foreldranna, að hafa staðið föst við bakið á barninu okkar og sagt við það: „Okkur er ekki alveg sama ...,“ þegar barnið okkar reyndi að komast undan hlutum í námi og notaði setningar á borð við: „Mér er alveg sama ...,“ er að skila sér.

Ég vil þakka öllum þeim foreldrum sem hafa sett sig í samband við mig eftir að þessi skrif hófust, sem og kennurum. Mér finnst gott að heyra reynslusögur af því hvernig ykkur gengur. Nám barna skiptir mig máli og í hvert einasta sinn sem ég tek við nýjum nemendahópi myndast tengsl sem leiða til þess að ég hlakka til að mæta til starfa á hverjum degi. Allir geta lært! Það er mikilvægt að trúa því og gefast aldrei upp. Ég segi alltaf: „Það er til lausn við öllum vandamálum, finnum hana eða búum hana til!“

Kæra foreldri og/eða forráðamaður, alls ekki ætlast til þess að skólinn sjái einn og eingöngu um nám barnsins þíns, framlag þitt er dýrmætt og skiptir öllu máli í framtíð barnsins þíns (um hlutverk foreldra grunnskólabarna er hægt að lesa sér meira til um í bókinni Skóli og skólaforeldrar eftir Nönnu K. Cristiansen).

Notum sumarið í lestur, það skiptir máli!

Jóhanna Helgadóttir, grunnskólakennari, mannauðsráðgjafi og verkefnastjóri.

Tækifæri til breytinga

Alþingi hefur nú lokið störfum þetta árið og þingmenn eru farnir á heimaslóð til þess að undirbúa kosningarnar í haust. Flestir flokkar hafa komið fram með lista með örfáum undantekningum þó. Mismunandi aðferðum hefur verið beitt við uppstillingu á lista og sitt sýnist hverjum um þær.

Eitt er þó víst að hvert sem fyrirkomulagið er þá er aldrei hægt að gera svo að öllum líki. Þegar eftirspurn eftir sætum á lista er meiri en framboð sitja alltaf einhverjir eftir með sárt ennið sama hvaða aðferðum er beitt. Það hefur komið upp óánægja með fyrirkomulag og niðurstöðu í öllum flokkum þrátt fyrir að einhverjir hreyki sér af því að hafa valið lýðræðislegustu aðferðina sem oft á tíðum hefur í för með sér mikla smölun í flokka og veruleg fjárútlát fyrir frambjóðendur.

Horft til framtíðar

Nú er hins vegar komið að því að línur verði skerptar og kjósendur verði upplýstir um þau áhersluatriði sem flokkarnir standa fyrir. Það verður verkefnið fram að kosningum.

Samfélagið stendur ekki vel eftir Covid-faraldurinn þar sem allar þær aðgerðir sem ríkisstjórnin fór í voru teknar að láni. Þær skuldir verða ekki greiddar með stöðugleikaframlagi „vogunarsjóða“ eins og gerðist eftir bankahrunið.

Þessar skuldir þarf ríkissjóður, og þar af leiðandi almenningur, að greiða.

Því er mikilvægt að við gerum eitthvað annað nú en við höfum hingað til gert. Eitthvað sem felur í sér breytingar til framtíðar sem leitt geta til aukinnar velferðar almennings og aukins stöðugleika. Miðað við framsetningu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr virðist ekkert slíkt í kortunum.

Talað er um þjóðhagsvarúðartæki sem hafa ekkert annað í för með sér en gjaldeyrishöft (til verndar krónunni) í takt við nýja tíma eins og fjármálaráðherra kallar það. Þá er einnig rætt um afkomubætandi aðgerðir sem eru fínni orð yfir skattahækkanir og niðurskurð.

Ef við ætlum okkur að komast út úr endalausri hringrás þenslu og samdráttar sem leiðir alltaf til þess að almenningur þarf að axla byrðarnar, þá þurfum við að feta nýjar slóðir.

Að láta úrtöluraddir, hræðsluáróður og sérhagsmuni ráða för á ekki að vera í boði.

Tækifærið er núna.

Guðbrandur Einarsson, oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum.

Eru græn svæði Reykjanesskagans í sorpinu?

Það heitasta í umræðunni í dag er Hringrásargarðurinn sem kynntur var á dögunum en inni í honum er svokölluð Þjóðarbrennsla.

Hringrásargarður er mjög gott framtak og er í raun stórgóð hugmynd.

Ég veit ekki með ykkur en ég er alfarið á móti því að byggja hér þjóðarbrennslu. Þessi framkvæmd er dýr, það er hægt að fara í aðra kosti sem ég skýri frá hér að neðan sem eru mun ódýrari, hagkvæmari og umhverfisvænir.

Það er mér óskiljanlegt af hverju við hér á Suðurnesjum ættum að fjárfesta í annarri sorpbrennslu þegar sú sem við erum með er fullnægjandi fyrir okkur. Er einhver þörf fyrir okkur að vera með sorpbrennslu Íslands?

Ef þessi sorpbrennsla Íslands verður að veruleika verður aukin umferð flutningabíla á Reykjanesbrautinni eða því sem nemur um 10.000 Toyota Yaris bílum á hverjum degi.

Kostnaðurinn við að byggja svona brennslu er um 26 milljarðar. Ég veit ekki hvort þið lesendur gerið ykkur grein fyrir hversu mikið þetta er en til samanburðar þá eru heildar skuldir Reykjanesbæjar um 43 milljarðar.

Fjármögnun á verkefninu er nokkuð óljós en ég hef heyrt því fleygt fram að sveitarfélögin sem koma að Kölku

FYRIR

HÁÞRÝSTIÞVOTTUR

Tökum að okkur að háþrýstiþvo hús, innkeyrslur og fleira. Öflug tæki og fagleg þjónusta. Fáðu verðtilboð í síma 8935574 . EFTIR

muni keyra verkefnið áfram ef af þessu verður og muni stofnfé muni koma þaðan frá.

Einnig er talað um að fá lán hjá lífeyrissjóðum og/eða fjárfestum fyrir rest.

Sama hvernig fer þá munu bæjarsjóðir viðkomandi sveitarfélaga þurfa að gangast í ábyrgðir fyrir þessu verkefni, nema ef þetta verkefni verði alfarið í einkaframkvæmd, sem ég sé ekki gerast.

Ef sami eignarhlutur væri á þjóðarbrennslunni og er í dag á Kölku þá er hlutur Reykjanesbæjar um 73%. Auknar skuldir bæjarins við þessa einu framkvæmd yrði þá um nítján milljarðar.

Verandi nýkomin undan eftirlitsnefnd sveitarfélaga þá finnst mér ekki fýsilegt að auka skuldir bæjarins um nítján milljarða.

Í umræðunni um Kölku og sameiningaráform við Sorpu fyrir nokkru þá fór ég á stjá til þess að athuga hvaða aðrir kostir væru mögulegir.

Ég tel að ákveðin þjónusta eigi að vera á hendi sveitarfélaga á Suðurnesjum, ein af þeim er úrvinnsla á sorpi. Í leit að öðrum kostum komst ég í samband við framkvæmdastjóra Moltu, Kristján Ólafsson, en Molta er moltugerð á Norðurlandi sem er með um 27.000 íbúa í sinni þjónustu sem er svipaður íbúafjöldi og er á bakvið þá sem nýta Kölku í dag.

Molta hefur um það bil 12.000 tonna framleiðslugetu á ári og taka á móti um 6.000 tonnum af úrgangi og er því ekkert til fyrirstöðu að hér á Suðurnesjum geti álíka stöð haft sömu framleiðslugetu og Norðanmenn ef ekki meiri.

Talað hefur verið um að allt að 40% af úrgangi sé nothæft til moltugerðar og er ekkert því til fyrirstöðu að við getum ekki náð því markmiði hér á Suðurnesjum.

Með 40% nýtingu sem færi í moltugerð þá þýðir það að í 13.000 tonna brennslustöð Kölku sem er við það að fullnýtast léttum við á þeirri stöð um 5.200 tonn.

En þó getum við velt því fyrir okkur hver ávinningurinn við moltugerð yrði hér á Suðurnesjum. Kostnaður við að byggja þessa stöð er um 500–700 milljónir samkvæmt heimildum frá framkvæmdastjóra Moltu. Moltugerðarstöð er því töluvert ódýrari kostur en að byggja nýja sorpbrennslu, það er ef við miðum við vinnslu per tonn. Enn fremur getum við búist við um tuttugu störfum á byggingartímanum, þá má búast við fjórum til sex stöðugildum þegar að stöðin er komin í gang.

Þó er annar ávinningur við moltugerð, það er að efnið sem kemur úr moltugerðinni er hægt að nota í að rækta upp Reykjanesskagann og bæta þar með land sem er örfoka land.

Hægt væri að horfa á allan skagann sem heild og gera útivistarsvæði með tiltölulega ódýrum hætti út um allan Reykjanesskagann.

Þar má nefna að hægt væri að byggja upp útsýnissvæði fyrir norðurljósaaðdáendur á gamla Rockville-svæðinu og koma þar upp norðurljósamiðstöð Íslands.

Svæði, sem um er rætt, er í dag að mestu notað fyrir fólk sem fer með hunda sína þangað, en þó hefur verið mikið af óþrifnaði á svæðinu, og með uppbyggingu á svæðinu má því koma í veg fyrir þeim óþrifnaði sem þekkist á svæðinu í dag.

Hægt væri að vera með alls kyns gróðursvæði um Reykjanesskagann, þar má nefna svæði sem fjölskyldufólk gæti komið saman, farið í lautarferðir, grillað saman og jafnvel haldið kvöldvökur.

Því mælir margt með því að Suðurnesjamenn komi sér saman og byggi hér upp útivistarsvæði, bæði fyrir íbúa sína og ferðamenn, innlenda jafnt sem erlenda.

Auðvelt væri að byggja upp tjarnir á Reykjanesskaganum fyrir fuglalíf sem myndi blómstra þar í kring og ég tala nú ekki um öll þau skógræktarfélög sem gætu fengið úthlutað skipulögð svæði til þess að rækta upp og færa síðan sveitarfélögunum til notkunar að ræktunartímabilinu loknu.

Hér er því verið að tala um að rækta upp Reykjanesskagann með úrgangi sem hefur verið breytt í moltu öllum íbúum Reykjaness til hagsbóta.

This article is from: