Mikilvægt er að marka stefnu um hvernig tryggja megi fæðuöryggi þjóðarinnar. Í því felst að sett séu markmið um getu innlendrar matvælaframleiðslu til að takast á við skyndilegar breytingar á aðgengi að innfluttri matvöru og aðföngum þannig að fæðuöryggi þjóðarinnar sé tryggt.
Landbúnaðarháskóli Íslands:
Hver er staða fæðuöryggis á Íslandi? Erla Sturludóttir Guðni Þorvaldsson Guðríður Helgadóttir Ingólfur Guðnason Jóhannes Sveinbjörnsson Ólafur Ingi Sigurgeirsson Þóroddur Sveinsson
Umræða um fæðuöryggi þjóðarinnar hefur ekki alltaf verið áberandi. Eftir efnahagshrunið 2008 og aftur núna í heimsfaraldri COVID-19 hafa spurningar vaknað um hvernig því sé háttað. Íslendingar eru mjög háðir innfluttum matvælum og aðföngum til matvælaframleiðslu. Því er eðlilegt að spurningar vakni um hvort og hvernig við gætum framfleytt okkur ef innflutningsleiðir lokuðust.
Í áhættumatsskýrslu fyrir Ísland sem kom út árið 2009 kemur fram að staða fæðuöryggis Íslendinga er veikari en nágrannaþjóðanna. Geta til fjölbreyttrar matvælaframleiðslu sé takmörkuð vegna legu landsins og flutningsleiðir langar yfir hafið. Þar segir að ýmislegt, svo sem heimsfaraldrar og stríðsátök, geti leitt til raskana á innflutningi. Þá gæti efnahagshrun einnig orðið til þess að Íslendingar hefðu ekki lengur ráð á að flytja matvæli og aðföng til landsins. Hvað er fæðuöryggi? Fæðuöryggi er sagt vera til staðar þegar allt fólk hefur ávallt raunverulegan og efnahagslegan aðgang að nægum, öruggum og næringarríkum matvælum til að uppfylla næringarþarfir sínar með frjálsu 44
fæðuvali, til að geta lifað virku og heilsusamlegu lífi. Matvælaframleiðslan þarf því að vera sjálfbær til að fólk hafi ávallt aðgang að fæðu. Ekki má ganga á auðlindir og vistkerfi sem standa undir matvælaframleiðslu þannig að framleiðslan minnki með tíma. Framleiðslan þarf að vera nægilega fjölbreytt til að uppfylla næringarþarfir fólks. Allir framleiðsluferlar þurfa að vera þannig að matvælin séu örugg til neyslu, þ.e. að matvælaöryggi sé til staðar. Heilnæmi matvælanna og heilbrigði plantna og dýra sem heyra undir matvælaframleiðsluna eru lykilatriði sem skipta neytendur sífellt meira máli. Ágæt staða innlendu framleiðslunnar réttlætir tilvist hennar. Ágætt dæmi er íslensk framleiðsla alifuglakjöts.