Stóraukin umsvif á tíu árum Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því undirritaður settist fyrst í ritstjórastól Bændablaðsins fyrir tíu árum á sjálfan bóndadaginn 25. janúar 2011. Var þá tekið við blaði sem gefið var út tvisvar í mánuði í 11 mánuði á ári. Ljóst þótti að Bændablaðið átti talsvert inni á íslenskum fjölmiðlamarkaði og að hægt væri að efla hag þess.
Til að freista þess að auka vinsældir Bændablaðsins og breikka lesendahópinn langt út fyrir raðir bænda, var haldið í þá vegferð að bjóða upp á aukið efni og fjölbreyttara efnisval. Talið var að þetta væri hægt þótt starfsmannafjöldi væri ekki mikill, eða tveir blaðamenn auk ritstjóra í fullu starfi og auglýsingastjóra. Samfara þessari útgáfu stýrði yfirmaður útgáfusviðs Bændasamtakanna margháttaðri útgáfustarfsemi kynningar- og fræðsluefnis fyrir samtökin sem blaðamenn komu einnig að. Árangurinn lét ekki á sér standa og sést það vel þegar skoðaðar eru tölur um þróun á síðufjölda og upplagi blaðsins sem og lestrarmælingar Gallup á undanförnum árum. Þar hefur blaðið náð því að verða langvinsælasti prentmiðillinn á landsbyggðinni og var fyrir COVID-19 komið í annað sætið á landsvísu. 2011 - Strax á árinu 2011 var upplag blaðsins aukið í 22.200 eintök, en það var 20.500 eintök á árinu 2010. Fyrsta blað ársins var einungis 28 síður en blaðsíðunum fór fjölgandi þegar leið á árið. Þá jókst prentaður blaðsíðufjöldi úr 780 síður árið 2010 í 888 síður árið 2011. Útgáfudagar voru eftir sem áður 22 á árinu. Jólablaðið þetta ár var 56 síður en hafði verið 36 síður árið áður. 2012 - Á árinu 2012 var ákveðið að hætta sumarlokun í einn mánuð. Útgáfan jókst því í 24 tölublöð á ári. Þegar komið var fram í ágúst var ljóst að aukin eftirspurn var eftir blaðinu og var dreifistöðvum fjölgað og upplag aukið í 24.000. Prentaður blaðsíðufjöldi var í árslok kominn í 1.056 sem var um 19% aukning á milli ára. Samhliða þessu fjölgaði auglýsingum og tekjur jukust. 2013 - Enn jukust vinsældir Bændablaðsins og strax í ársbyrjun 2013 var upplag á hverju tölublaði aukið í 28.000 eintök. Prentaður síðufjöldi fór úr 1.065 í 1.232, sem er aukning upp á um 16%. Í maí 2013 var upplagið enn aukið í 30.000 og aftur um miðjan ágúst í 31.000 eintök. Í október það sama ár var síðan farið í fjöldreifingu og upplagið þá 65.000 eintök. 6
2014 - Haldið var áfram á sömu braut með 31.000 eintaka upplagi. Um miðjan ágúst var upplagið aukið enn frekar, eða í 32.000 eintök. Þegar árið var gert upp var blaðsíðufjöldi nánast sá sami og árið áður, eða 1.220 síður. Þátttaka í lestrarkönnun Gallup á síðari hluta ársins sýndi að Bændablaðið var orðið langvinsælasti prentmiðillinn á landsbyggðinni. Þá var vefsíða Bændablaðsins, bbl.is, opnuð á veraldarvefnum í byrjun júní 2014. 2015 - Á árinu 2015 var upplagið áfram að jafnaði 32.000 eintök. Blaðsíðufjöldinn á árinu reyndist vera 1.416, sem þýddi um 16% aukningu á milli ára. Jólablaðið þetta ár fór í 88 síður. Í nóvember fór blaðið auk þess í fjöldreifingu í 60.000 eintökum. Fyrir Búnaðarþing 2015 var ákveðið að gefa út nýjan miðil, Tímarit Bændablaðsins. Leit fyrsta tölublað tímaritsins dagsins ljós við opnun Búnaðarþings í byrjun mars og vakti strax mikla athygli. Var það 100 síðna rit sem gefið var út í um 7.000 eintökum. 2016 - Haldið var af stað inn í árið 2016 með 32.000 eintaka dreifingu á landsvísu. Í þrem tilvikum var þó farið út í aukna dreifingu, eða í 33.000, 37.000 og 58.000 eintökum. Heildarblaðsíðufjöldi ársins reyndist vera 1.472 síður sem var aukning upp á um 4%. Fór blaðið aldrei niður fyrir 56 síðna stærð þetta ár. Annað tölublað Tímarits Bændablaðsins leit dagsins ljós við opnun Búnaðarþings 2016 og var 116 blaðsíður og í 8.000 eintökum 2017 - Þegar árið var gert upp kom í ljós að blaðsíðufjöldinn var nákvæmlega sá sami og árið áður, eða 1.472 eintök. Tímaritið kom einnig út eins og árið áður og að þessu sinni var það 104 blaðsíður. Stærðin á blaðinu í samtals 1.472 blaðsíðum yfir árið. 2018 - Bændablaðið hélt sínu striki í 32.000 eintökum að jafnaði á árinu 2018. Heildarblaðsíðufjöldi ársins reyndist vera svipaður og tvö árin þar á undan, eða 1.444 síður. Áfram var svo haldið úti vefsíðu blaðsins.
Vinsældir blaðsins náðu nýjum hæðum og reyndist það vera með 45,6% lestur á landsbyggðinni samkvæmt könnun Gallup á meðan helstu keppinautarnir voru með um 24 og 22% lestur. Tímarit Bændablaðsins kom út tvisvar árið 2018. Fyrst fyrir Búnaðarþing og þá í 116 síðum. Í október var síðan gefið út annað tölublað þetta ár vegna Landbúnaðarsýningar í Laugardalshöll sem heppnaðist einstaklega vel. Það rit var 100 blaðsíður að stærð. 2019 - Haldið var uppteknum hætti þó búist væri við samdrætti í þjóðfélaginu. Bændablaðið hélt þó sínu á auglýsingamarkaði og tekjum og heildarblaðsíðufjöldinn var 1.424 síður. Hundrað síðna tímarit var gefið út fyrir Búnaðarþingið og vefsíða endurbætt. Hlaðan, hlaðvarp Bændablaðsins (podcast) hóf útsendingar 2019 að frumkvæði Tjörva Bjarnasonar. Þar er boðið upp á afar fjölbreytta þætti með landbúnaðartengdu efni. Hlöðunni er stýrt af starfsfólki Bændablaðsins og útgáfusviðs BÍ. 2020 - Þetta var eitt undarlegasta ár lýðveldissögunnar vegna tilkomu heimsfaraldurs kórónaveiru, COVID-19. Bændablaðið hélt inn í árið með óbreyttu sniði í 32.000 eintökum, en allt eins var búist við hruni á auglýsingamarkaði þegar COVID-19 gerði vart við sig í febrúar. Bændablaðinu tókst þó að halda sínu að mestu, þrátt fyrir að margir af helstu dreifingarstöðum blaðsins væru lokaðir mánuðum saman. Í heild var blaðið 1.408 síður á þessu COVID-19 ári. Einnig tókst að koma út Tímariti Bændablaðsins upp á 86 síður á árinu. 2021 - Haldið er með óbreyttum krafti inn í árið 2021 með Bændablaðið og tengda miðla. Þrátt fyrir mikla óvissu vegna COVID-19 verður ekkert gefið eftir. Eins og hér sést hafa umsvifin aukist verulega á tíu árum þótt starfsmannafjöldinn sé enn sá sami og 2011. Höldum ótrauð áfram veginn til góðra verka. Hörður Kristjánsson, ritstjóri Bændablaðsins.