FRÉTTABRÉF
BORGARBYGGÐAR 20. tbl. 9. árg. Mars 2015
Brekkufjall, Skessuhorn og Tungukollur skarta sínu fegursta í vetrarbúningnum.
Ljósmynd Guðrún Jónsdóttir
Með hækkandi sól styttist í fuglasöng Nú er veturinn að baki og vorið nálgast óðfluga. Með hækkandi sól færist líf yfir og nú styttist í fuglasöng og vorverkin. Það er mikið um að vera í sveitarfélaginu og ánægjulegt að fylgjast með þeim fjölmörgu verkefnum og málum sem unnið er að víða um héraðið. Í vetur hafa verið haldnir nokkrir íbúafundir og sveitarstjórn hefur reglulega boðað til opinna viðtalstíma. Frá því í nóvember hefur þremur byggingarlóðum verið úthlutað í Borgarnesi og framkvæmdir eru nú þegar hafnar við byggingu fjölbýlishúss við Arnarklett. Gott lóðaframboð er í sveitarfélaginu og með nýrri og breyttri gatnagerðagjaldskrá með 30% meðaltalslækkun er bundnar vonir við enn frekari uppbyggingu. Sóknarfæri eru sýnileg í greinum tengdum ferðaþjónustu í sveitarfélaginu, kraftur og bjartsýni einkennir nú umræðuna um uppbyggingu í ferðaþjónustu. Háskólarnir hafa verið mikið til umræðu á síðasta ári, sérstaklega Landbúnaðarháskóli Íslands. Mennta- og menningamálaráðherra hefur skipað starfshóp til að skoða faglegan og fjárhagslegan ávinning af sameiningu Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Hólum og Háskólans á Bifröst. Kolfinna Jóhannesdóttir sveitarstjóri er fulltrúi Borgarbyggðar í hópnum.
Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur í vetur leitað leiða til að hagræða í rekstri sveitarfélagsins. Það er lögbundið hlutverk sveitarfélagsins að sjá til þess að íbúar njóti góðrar grunnþjónustu og að faglegt starf leik- og grunnskóla sé tryggt. Í vetur hefur m.a. verið unnið að hagræðingu í rekstri stofnana sveitarfélagsins með skipulagsbreytingum og nú þegar hafa skattar og gjöld verið hækkuð umtalsvert. Gert er ráð fyrir að hagræða þurfi í rekstri sem svarar 3-5% af útgjöldum. Tveir vinnuhópar skipaðir fulltrúum úr sveitarstjórn eru að störfum til að greina hagræðingarmöguleika og er gert ráð fyrir að þeirri vinnu verði lokið um miðjan apríl. Vinna við hagræðingu í rekstri er vandasamt verk. Hlutverk sveitarfélagsins er að veita íbúum þess sem besta þjónustu. Vinnuhóparnir hafa að leiðarljósi að ávinningurinn sé fjárhagslegur og auk þess sé tryggt að hann standist út frá faglegum sjónarmiðum. Hóparnir leita fyrst og fremst leiða sem geta leitt til varanlegs sparnaðar í rekstri þannig að tækifæri skapist til að bæta þjónustu og styðja faglegt starf. Tillögurnar verða unnar í samráði við íbúa. Hluti af þeirri vinnu felst í samtali við starfsmenn og stjórnendur og boðað verður til íbúafundar mánudaginn 30. mars nk. Ég hvet alla íbúa til að koma og
Guðveig Eyglóardóttir formaður byggðaráðs - mynd 20
taka þátt í umræðum. Í vetur tók til starfa íþrótta- og tómstundaskóli sem UMSB hefur umsjón með. Það er ánægjulegt að heyra af góðum viðtökum sem starf tómstundskólans hefur fengið hjá börnum og foreldrum. Eitt af markmiðum verkefnisins er að jafna tækifæri barna til að stunda tómstundir og leyfa þeim að kynnast fjölbreyttum tómstundum. Það er mikill auður í því fólki sem býr í sveitarfélaginu og þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem hér starfa. Við getum verið stolt af því að búa í Borgarbyggð - hér er allt sem þarf!