BROS Fréttabréf Janúar 2014
Ágætu foreldrar – bestu þakkir fyrir gott samstarf og samveru á liðnu ári. Nýtt ár byrjaði með 3 daga námskeiði starfsfólks í verkefninu ”Leiðtoginn í mér” sem er leiðtogahugmyndafræði byggð á bók Steven R. Covey ”7 venjur til árangurs”. Það helsta sem verkefnið getur gert fyrir okkur er m.a. að efla leiðtogafærni barna og starfsfólks, efla félagslega færni, auka tilfinningagreind, auka færni í mannlegum samskiptum, virkja viljann til að taka þátt í leik og starfi, bæta námsárangur, auka starfsgleði, gera vinnubrögð starfsfólks skilvirkari og stuðla að öruggu og hvetjandi skólaumhverfi þar sem hver og einn fær að njóta sín. Almenn ánægja var með námskeiðið og mun þessi hugmyndafræði án efa hafa góð áhrif á skólasamfélagið okkar. Vinnustundir og annað skipulagt starf er komið í fastar skorður og að auki verður ýmis skemmtileg tilbreyting á næstunni: Bóndadagurinn er föstudaginn 24. janúar, þann dag verður Þorragleði í leikskólanum. Allir eru hvattir til að koma í einhverri lopaflík, í hádeginu verður grjónagrautur og þorrasmakk og börnin verða með víkingahjálma sem þau hafa útbúið. Ömmur, afar og aðrir áhugasamir eru boðnir velkomnir kl. 9.30-10.30 til að fylgjast með leikskólastarfinu, söngstund verður í salnum kl. 10.00. Dótadagur er föstudaginn 31. janúar, þá mega börnin koma með leikfang að heiman í leikskólann. Árleg Tannverndarvika Embættis landlæknis verður 3. – 7. febrúar, nánari dagskrá auglýst fljótlega. Dagur leikskólans er 6. febrúar ár hvert og verður að sjálfsögðu haldið uppá daginn eins og áður. Þennan dag árið 1950 var fyrsta félag leikskólakennara stofnað og er þetta í sjöunda sinn sem dagurinn er haldinn hátíðlegur á Íslandi, tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskóla og kynna starfið út á við. Samstarf leik- og grunnskóla; Sjónarhóll Að venju verður nóg að gera hjá elstu börnunum á vorönninni, þar sem þeirra leikskólagöngu er senn að ljúka og við tekur 10 ára grunnskólaganga. Föstudaginn 17. janúar er fundur með foreldrum og starfið kynnt en börnin fara m.a. í heimsóknir í grunnskólann, taka þátt í vorskóla, dvelja í tómstundaskólanum, halda útskrift, fara í útskriftarferð o.fl. Starfsmannahald Eins og áður hefur komið fram er Gerða hætt og Halldóra matráður byrjuð, við bjóðum hana velkomna til starfa. 1. febrúar kemur Thelma úr fæðingarorlofi, hún verður að vinna í afleysingum fyrir hádegi og bjóðum við hana velkomna aftur.