Frettabréfið Bros

Page 1

BROS Fréttabréf Janúar 2014

Ágætu foreldrar – bestu þakkir fyrir gott samstarf og samveru á liðnu ári. Nýtt ár byrjaði með 3 daga námskeiði starfsfólks í verkefninu ”Leiðtoginn í mér” sem er leiðtogahugmyndafræði byggð á bók Steven R. Covey ”7 venjur til árangurs”. Það helsta sem verkefnið getur gert fyrir okkur er m.a. að efla leiðtogafærni barna og starfsfólks, efla félagslega færni, auka tilfinningagreind, auka færni í mannlegum samskiptum, virkja viljann til að taka þátt í leik og starfi, bæta námsárangur, auka starfsgleði, gera vinnubrögð starfsfólks skilvirkari og stuðla að öruggu og hvetjandi skólaumhverfi þar sem hver og einn fær að njóta sín. Almenn ánægja var með námskeiðið og mun þessi hugmyndafræði án efa hafa góð áhrif á skólasamfélagið okkar. Vinnustundir og annað skipulagt starf er komið í fastar skorður og að auki verður ýmis skemmtileg tilbreyting á næstunni:  Bóndadagurinn er föstudaginn 24. janúar, þann dag verður Þorragleði í leikskólanum. Allir eru hvattir til að koma í einhverri lopaflík, í hádeginu verður grjónagrautur og þorrasmakk og börnin verða með víkingahjálma sem þau hafa útbúið. Ömmur, afar og aðrir áhugasamir eru boðnir velkomnir kl. 9.30-10.30 til að fylgjast með leikskólastarfinu, söngstund verður í salnum kl. 10.00.  Dótadagur er föstudaginn 31. janúar, þá mega börnin koma með leikfang að heiman í leikskólann.  Árleg Tannverndarvika Embættis landlæknis verður 3. – 7. febrúar, nánari dagskrá auglýst fljótlega.  Dagur leikskólans er 6. febrúar ár hvert og verður að sjálfsögðu haldið uppá daginn eins og áður. Þennan dag árið 1950 var fyrsta félag leikskólakennara stofnað og er þetta í sjöunda sinn sem dagurinn er haldinn hátíðlegur á Íslandi, tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskóla og kynna starfið út á við. Samstarf leik- og grunnskóla; Sjónarhóll Að venju verður nóg að gera hjá elstu börnunum á vorönninni, þar sem þeirra leikskólagöngu er senn að ljúka og við tekur 10 ára grunnskólaganga. Föstudaginn 17. janúar er fundur með foreldrum og starfið kynnt en börnin fara m.a. í heimsóknir í grunnskólann, taka þátt í vorskóla, dvelja í tómstundaskólanum, halda útskrift, fara í útskriftarferð o.fl. Starfsmannahald  Eins og áður hefur komið fram er Gerða hætt og Halldóra matráður byrjuð, við bjóðum hana velkomna til starfa.  1. febrúar kemur Thelma úr fæðingarorlofi, hún verður að vinna í afleysingum fyrir hádegi og bjóðum við hana velkomna aftur.


Heilsueflandi leikskóli – það helsta:  Byrjað var að tannbursta 6. janúar og gengur það mjög vel.  Starfsfólkið er búið að fara yfir gátlistana og stendur leikskólinn sig að flest öllu leyti mjög vel, unnið verður að því sem uppá vantar. Eitt af því var að leikskólinn ætti að leggja áherslu á að börn, foreldrar og starfsfólk noti endurskinsmerki, hjálm og annan viðeigandi öryggisbúnað við göngu og hjólreiðar – því er hér með komið á framfæri og allir hvattir til að hafa öryggisbúnað í lagi.  Stefna leikskólans í mataræði er nú tilbúin og aðgengileg á heimasíðu leikskólans klettaborg@borgarbyggd.is  Starfsfólk leikskólans mun í þriðja sinn taka þátt í Lífshlaupinu sem er 5.-25. febrúar. Áhugasamir geta fylgst með gengi liðsins á lifshlaupid.is – Vinnustaðakeppni – Leikskólinn Klettaborg. Liðið heitir að sjálfsögðu Hreystikropparnir  Uppeldisnámskeið fyrir foreldra Boðið verður upp á uppeldisnámskeiðið „Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar“ fyrir foreldra hér í leikskólanum. Á námskeiðinu er lögð rík áhersla á notkun jákvæðra aðferða í uppeldi, á gildi fyrirmynda, markvissa kennslu æskilegrar hegðunar og nauðsyn fyrirhyggju, skipulags og samkvæmni uppalenda. Námskeiðið byggir á “Uppeldisbókinni – að byggja upp færni til framtíðar” sem gefin hefur verið út í íslenskri þýðingu Gyðu Haraldsdóttur og Matthíasar Kristiansen. Eins og áður munu Steinunn leikskólastjóri og Anna Stína deildarstjóri halda námskeiðið sem verður 4 skipti frá kl. 16.30-18.30, eftirtalda miðvikudaga 12., 19., 26. febrúar og 5. mars. Kostnaður er kr. 5.000,- fyrir báða foreldra og kr. 3.000,- fyrir annað foreldri, Uppeldisbókin er innifalin í verði. Mikilvægt er að báðir foreldrar mæti til þess að námskeiðið nýtist vel og þeir fái góðar hugmyndir um uppeldi sem virkar. Áhugasamir skrái nafn og kennitölu á klettaborg@borgarbyggd.is, í síðasta lagi 31. janúar n.k. Nýtt símanúmer í Klettaborg Verið er að vinna að breytingu í símamálum hjá Borgarbyggð. Tilgangurinn er að lækka símakostnað hjá sveitarfélaginu og að símkerfið verði meiri heild. Þetta þýðir að breyta þarf númerum í nokkrum stofnunum og er Klettaborg ein af þeim, nýtt símanúmer verður: 433-7160. Í nokkurn tíma verður þó hægt að hringja áfram í gamla númerið en þá flyst símtalið sjálfkrafa yfir á nýja númerið. Í lokin eru foreldrar minntir á að þeir eru alltaf velkomnir að koma inná deild og fylgjast með barninu, spjalla og kynnast starfinu. „Virkir foreldrar – betri leikskóli“ 

Gullkorn....  ”Ég er svo duglegur að ég get sko orðið kennari þegar ég verð stór”   Barn 1: ”ég er sporðdreki”, Barn 2: ”ég er manneskja”, Barn 3: ”ég er Mjallhvít”   ”Mamma mín segir að ég sé blómið hennar, það er svo indælt að vera blóm”  Útgefandi: Leikskólinn Klettaborg, Borgarnesi Ábyrgðarmaður: Steinunn Baldursdóttir leikskólastjóri


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.