Fréttabréf
3. tbl. skólaárið 2013—2014 Nýr skólastjóri Signý Óskarsdóttir hefur verið ráðinn skólastjóri Grunnskólans í Borgarnesi og kemur til starfa í grunnskólann frá Háskólanum á Bifröst þar sem hún hefur starfað og stundað nám á liðnum árum, nú síðast sem framkvæmdastjóri kennslu og þjónustu. Ráðning hennar markar tímamót í sögu grunnskólans þar sem hún verður fyrsta konan til að stýra honum frá upphafi. Signý hefur réttindi sem grunn- og framhaldsskólakennari og hefur meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Hún starfaði við kennslu í 6 ár við Grunnskólann á Djúpavogi þar sem hún bar einnig ábyrgð á tölvuveri og bókasafni í nokkur ár. Hún gegndi tímabundið starfi sveitarstjóra Djúpavogshrepps og stöðu framkvæmdastjóra heilsugæslunnar á Djúpavogi og Breiðdalsvík auk þess sem hún hefur síðustu ár sinnt krefjandi störfum á Bifröst. Meðal verkefna þar má telja umsjón með fjarnámi, gæðastjórnun, kennsluráðgjöf og nú síðast framkvæmdastjórn á háskólaskrifstofu. Signý situr í tveimur hópum sérfræðinga sem tilnefndir eru af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og hafa það hlutverk, í stuttu máli, að innleiða, miðla og efla verklag í kringum mat á gæðum náms og kennslu á háskólastigi. Signý mun taka við starfi skólastjóra um áramót en er nú þegar farin að setja sig inn í dagleg störf og hefur mætt á fundi með stjórnendum og starfsfólki skólans. Starfsfólk Grunnskólans í Borgarnesi þakkar Kristjáni Gíslasyni fyrir óeigingjörn störf í þágu skólans undanfarin 15 ár um leið og honum er óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi. Einnig fær Hilmar Már Arason þakkir fyrir vel unnin störf í afleysingu skólastjóra það sem af er skólaárinu.
Dagskráin í desember Stundatöflur nemenda munu halda sér nú í desember að frátöldum 20. desember. Þá hefst skóli kl. 9:00. Skólabíll innanbæjar mun fara kl. 8:40 og 8:55 úr Bjargslandi. Skólabílar úr dreifbýli fara 1 klst. seinna af stað en venjulega. Stofujól verða kl. 9:00, undir stjórn umsjónarkennara. Kl. 10:20 höldum við niður í íþróttamiðstöð þar sem litlu jólin verða haldin hátíðleg með leik og dansi. Foreldrar eru boðnir velkomnir í íþróttamiðstöðina á þessum tíma til að gleðjast með okkur. Reiknað er með að þessum skóladegi ljúki um 12:00. Skóli mun svo hefjast að nýju samkvæmt stundatöflu mánudaginn 6. janúar. Starfsfólk mætir til starfa föstudaginn 3. janúar.
Tómstundaskólinn Skjólið Síðasti dagurinn sem Skjólið er opið er fimmtudagurinn 19. desember og opnar það aftur mánudaginn 6. janúar.
Niðurstöður samræmdra prófa Niðurstöður samræmdra prófa voru góðar nú í haust. Nemendur voru við eða yfir landsmeðaltali í fjórum af sex greinum þar sem meðaleinkunnir voru gefnar upp. Í fimm prófum af sex var skólinn yfir meðaleinkunn landsfjórðungsins. Af 81 nemanda sem tóku próf voru 15 nemendur með raðtöluna 90 eða hærri, þ.e. 90% nemenda á landsvísu voru með lægri einkunn. Ánægjulegt var að sjá útkomu nemenda í tíunda bekk en þeir höfðu hækkað meðaltal raðtölu bekkjarins um 50% frá því í fjórða bekk.
100 ár frá vígslu skólahúsnæðis Fyrir rúmum 100 árum, 8. nóvember 1913 var nýtt barnskólahús vígt í Borgarnesi. Af þessu tilefni voru fengin tvö skáld sem þá voru í miklum metum þeir Guðmundur Guðmundsson og Valdimar Briem til að yrkja vígsluljóð sem sungin voru við skólavígsluna (hægt að nálgast þau á heimsíðu skólans). Þetta skólahús stendur enn og er fremsti (vestasti) hluti félagsmiðstöðvarinnar Óðals. Í bókinni Hundrað ár í Borgarnesi
sem Jón Helgason skráði segir að skólavígslan þótti hinn mesti viðburður. Allir Borgarnesingar sem vettlingi gátu valdið flykktust í nýja skólahúsið, fyrstu sameign þeirra allra.
Mannabreytingar Frá og með áramótum koma þrír nýir starfsmenn til starfa við skólann. Það eru Signý Óskarsdóttir skólastjóri, Guðmundur Jónsson húsvörður og nýr kennari í eldri deild skólans, sem á eftir að ráða. Bjóðum við þetta nýja fólk velkomið til starfa í öflugan hóp starfsfólks skólans. Þeir sem láta af störfum eru Kristján Þ. Gíslason skólastjóri, Gísli Halldórsson húsvörður og Hólmfríður Sigrún Gylfadóttir kennari. Þökkum við þeim fyrir vel unnin störf fyrir skólann og óskum þeim velfarnaðar í þeim verkefnum sem þau taka sér fyrir hendur.
Framkvæmdir Nú á haustdögum hefur verið haldið áfram að sinna brýnustu viðhaldsverkefnum í skólanum. Má þar helst nefna: Stofa 12, miðrýmið á miðstiginu, sérfræðingaherbergið, vinnuherbergi kennara og kaffistofa starfsfólks var dúkalögð í vetrarfríinu. Sírennsli var sett á kalda vatnið svo nú á það að vera orðið betra
til drykkjar. Eldavélar í heimilisfræðistofu voru endurnýjaðar. Leiktæki í tengslum við vinaliðaverkefnið keypt. Stórri klukku verður komið fyrir í vinnuherbergi kennara svo nemendur geti fylgst með tímanum í útivistinni. Fyrir þetta ber að þakka og mikilvægt er að haldið verði áfram með markvissum hætti á sömu braut. Skólahúsnæðið og búnaður verður að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til nútíma skóla. Til að svo megi verða er mikilvægt að unnin verði framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir skólann sem hafi það að markmiði að bæta aðstæður í skólanum til lengri tíma. Við gerð slíkrar áætlunar þurfa raddir allra aðila skólasamfélagsins að heyrast og áætlunin þarf að taka mið af þeim.
Upplýsingastreymi til foreldra Í byrjun nóvember var stofnuð facebook síða fyrir skólann. Þar eru komnar inn ýmsar myndir af viðburðum úr skólastarfinu. Undirtektir hafa verið frábærar og „umferð“ um síðuna er mikil. Sem dæmi má nefna að um 320 manns höfðu farið inn á frétt sem Hólmfríðar Ólafsdóttir kennari setti inn um heimsókn leynivinar, sólarhring eftir að hún birtist og rúmlega 800 manns hafa skoðað myndir tengdar Vinaliðadansinu. Við höfum uppfært heimasíðu skólans og einfaldað. Breytt uppsetningu og framsetningu Fréttabréfs skólans sem kemur út einu sinni í mánuði. Í það geta allir í skólasamfélaginu skrifað greinar. Við höldum áfram að gefa út Vikufréttarnar, enda bara fengið jákvæð viðbrögð við þeim. Skólaráð hefur fundað einu sinni í mánuði og hægt er að nálgast fundargerðir ráðsins á heimasíðu skólans. Margir kennarar senda foreldrum tölvupósta með upplýsingum um hvað er um að vera í þeirra kennslu, sumir vikulega en aðrir óreglulega. Ber að þakka kennurum fyrir þessa upplýsingagjöf sem upplýsir foreldra betur um það góða starf sem unnið er undir merkjum skólans. Jólasamvera Ef veður leyfir þá ætlum við í skólanum að eiga saman notalega jólasamveru í Skallagrímsgarði þriðjudaginn 17. desember kl. 8:30. Vinabekkirnir fara saman og nemendur verða með krukkur með kertum í. Sungin verða jólalög, drukkið heitt súkkulaði og piparkökur snæddar. Nemendur eru beðnir um að koma með krukkur undir sprittkerti og glös fyrir súkkulaðið. Velunnarar skólans eru boðnir velkomnir.
Stjórnendur og starfsfólk skólans óska íbúum Borgarbyggðar gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Þökkum ánægjulegt og gott samstarf Fréttabréf Grunnskólans í Borgarnesi. Útgefandi: Grunnskólinn í Borgarnesi. Ábm.: Hilmar Már Arason.