ÍBÚINN frétta- og auglýsingablað
Netfang: olgeirhelgi@islandia.is Útgefandi: Fjölritunar- og útgáfuþjónustan Ritstj. og áb.: Olgeir Helgi Ragnarsson Íbúanum er dreift með Íslandspósti á öll heimili og fyrirtæki í póstnúmer 301, 310, 311, 320 & 356. Upplag 2.000 eintök. Íbúinn kemur að jafnaði út á fimmtudögum. Skilafrestur auglýsinga kl. 12 á þriðjudögum.
Auglýsingasími: 437 2360
ÍBÚINN
frétta- og auglýsingablað
18. tbl. 13. árgangur
31. maí 2018
Fylgið víxlaðist í Borgarbyggð B-Guðveig Anna Eyglóardóttir
B-Davíð Sigurðsson
B-Finnbogi Leifsson
B-Sigrún Sjöfn Ámundadóttir
D-Lilja Björg Ágústsdóttir
D-Silja Eyrún Steingrímsd.
V-Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir
V-Sigríður Júlía Brynleifsdóttir
S-Magnús Smári Snorrason
Meirihlutaviðræður í Borgarbyggð hófust strax og úrslit kosninganna voru ljós á kosninganótt. Fulltrúar flokkanna þriggja sem eiga í viðræðum eru sammála um að góður gangur sé í þeim og töluverðar líkur á að úr meirihlutasamstarfi verði. „Ég hringdi í oddvita VG og Samfylkingar þegar niðurstöður lágu fyrir til að heyra í þeim hljóðið,“ segir Lilja Björg Ágústsdóttir efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins. „Ég hafði frumkvæði að því. Við mátum stöðuna þannig að það væri allavega rétt að heyra í þeim hljóðið því mikill samhljómur hafði verið í okkar málflutningi. Við hittumst strax um nóttina og og áttum svo formlegan fund daginn eftir og framhald hefur síðan orðið á því góða samtali,“ segir hún „Þetta var það fyrsta sem við vildum skoða eftir að haft var samband við okkur,“ segir Magnús Smári Snorrason efsti maður á lista Samfylkingar og óháðra. Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir efsti maður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs sagði aðspurð að það hefði vel getað spilast þannig að VG ræddi við Framsóknarflokkinn í ljósi
þess að báðir flokkar unnu sigur í kosningunum. „En við fengum boð um að tala við þennan hóp mun fyrr en hinn. Boðið kom eftir að tölur voru ljósar um nóttina. Við mátum stöðuna þannig í ljósi samstarfs á síðasta kjörtímabili að við vildum láta reyna á hversu miklu við kæmum af áherslum VG í gegn í þriggja flokka samstarfi,“ segir Halldóra. „Við erum einstaklega ánægð með úrslitin. Þetta var glæsilegur árangur, við nutum góðrar kosningabaráttu og hittum mikið af fólki bæði á fundum og viðburðum,“ segir Guðveig Anna Eyglóardóttir efsti maður á lista Framsóknarflokksins. „Það er aldrei á vísan að róa í pólitíkinni og hvaða leiðir hún fer. Mér hefði þótt það heiðarlegra gagnvart kjósendum að þeir hefðu vitað að þessir flokkar hefðu verið búnir að læsa sig saman fyrir kosningar,“ segir hún aðspurð um afstöðuna til þess að Framsókn er ekki í meirihlutaviðræðum þrátt fyrir góðan árangur í kosningunum. Guðveig segist hafa fengið þetta staðfest á fleiri en tveimur stöðum. „Það staðfestist líka með þeim
hætti að það var aldrei svigrúm til að hafa nein samskipti við okkur. En ég óska þeim velfarnaðar í þeirra störfum.“ Það er athyglisvert að fylgið skiptist niður í mjög svipuðum hlutföllum og fyrir fjórum árum en víxlast milli flokka. Lætur nærri að B-listi Framsóknar hafi fengið svipað fylgi og D-listi Sjálfstæðisflokks fyrir fjórum árum eða þriðjung atkvæða nú en það er lítillega meira fylgi en D-listi Sjálfstæðismanna fékk fyrir fjórum árum. Að sama skapi fékk D-listi Sjálfstæðismanna svipað fylgi og B-listi fyrir fjórum árum eða tæplega fjórðung atkvæða nú, en B-listi Framsóknar fékk ríflega fjórðung atkvæða fyrir fjórum árum. V-listi Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs fékk nú nánast sama fylgi og S-listi Samfylkingar fékk fyrir fjórum árum og Samfylking fékk tæpum tveimur prósentustigum minna fylgi nú en V-listinn fyrir fjórum árum. Til vinstri eru myndir og nöfn þeirra sem hlutu kosningu í Borgarbyggð. Sjá nánar á bls. 3.