ÍBÚINN frétta- og auglýsingablað
Netfang: olgeirhelgi@islandia.is Útgefandi: Fjölritunar- og útgáfuþjónustan Ritstj. og áb.: Olgeir Helgi Ragnarsson Íbúanum er dreift með Íslandspósti á öll heimili og fyrirtæki í póstnúmer 301, 310, 311, 320 & 356. Upplag 2.000 eintök. Íbúinn kemur að jafnaði út á fimmtudögum. Skilafrestur auglýsinga kl. 12 á þriðjudögum.
Auglýsingasími: 437 2360
ÍBÚINN
frétta- og auglýsingablað
1. tbl. 15. árgangur
9. janúar 2020
Jólin voru kvödd á þrettándahátíð í Borgarnesi á sunnudaginn var. Bjarki Pétursson golfari var valinn íþróttamaður Borgarfjarðar við hátíðlega athöfn í Hjálmakletti. Eftir hátíðina var fjölmenn skrúðganga með logandi kyndla þar sem gengið var frá Menntaskóla Borgarfjarðar niður í Englendingavík. Þar bauð Borgarbyggð ásamt björgunarsveitunum Brák og Heiðari gestum upp á glæsilega flugeldasýningu. Mynd: Olgeir Helgi
Rafmagnsleysi í Borgarfirði Rafmagnslaust varð í fyrrinótt í Stafholtstungum og Norðurárdal. „Það var að detta inn og út í gærkvöldi og svo fór það einhvern tíma í nótt en kom aftur um tólf leytið,“ sagði Hlynur Klemenzson á Dýrastöðum í samtali við Íbúann í gær. Þá var loks hægt að mjólka kýrnar. Spurður hvort þetta hefði skapað þeim vandræði svaraði Hlynur pollrólegur: „Ekki ef það er ekki lengri tími en þetta.“ „Norðurárdalslína fór út í nótt en við komum á rafmagni frá Deildartungu inn á Varmaland og áfram þaðan upp í Bifröst,“ sagði Björn Sverrisson hjá Rarik í Stykkishólmi.
Brotinn væri einangrari á línunni frá Vatnshömrum í Varmaland. Þá væri einnig bilun á línunni í Hreðavatn. Ofankoma, illviðri og lítið skyggni gerði bilanaleit erfiða og naut Rarik aðstoðar björgunarsveita. Vatnsleysi gerði vart við sig í Borgarnesi. Ólöf Snæhólm Baldursdóttir upplýsingafulltrúi Veitna sagði dælur hafa stoppað vegna rafmagnsleysis og þrýstingur fallið í um 30 mínútur. Varaafl væri ekki fyrir dælubúnað. „Ekki fyrir svona stuttan tíma, en ef um langvarandi rafmagnsleysi væri að ræða væri hægt að leysa það með færanlegu varaafli.“
Starfsmenn Rarik setja saman slitna raflínu á milli Litlu-Grafar og Valbjarnarvalla í fyrrinótt. Mynd: Arnar Grétarsson