Reikningar Nótubækur Eyðublöð Fjölritunar- og útgáfuþjónustan s: 437 2360
ÍBÚINN
frétta- og auglýsingablað
37. tbl. 9. árgangur
20. nóvember 2014
Tónlistarkennarar við Tónlistarskóla Borgarfjarðar fóru á fund sveitarstjórnar Borgarbyggðar síðasta þriðjudag og afhentu ályktun vegna kjaraviðræðna tónlistarkennara við sveitarfélögin. Á myndinni eru frá vinstri: Jónína Erna Arnardóttir píanókennari, Theodóra Þorsteinsdóttir söngkennari og skólastjóri, Alexandra Chernyshova söngkennari, Birna Þorsteinsdóttir píanókennari, Hafsteinn Þórisson gítarkennari, Gunnar Ringsted gítarkennari og trúnaðarmaður tónlistarkennara, Bjarki Þorsteinsson forseti sveitarstjórnar, Finnbogi Leifsson 1. varaforseti, Kolfinna Jóhannesdóttir sveitarstjóri og Geirlaug Jóhannesdóttir 2. varaforseti Borgarbyggðar. Mynd: Olgeir Helgi
Verkfall í fjórar vikur Verkfall tónlistarkennara hefur nú staðið í fjórar vikur. Þegar Íbúinn fór í prentun voru viðræður hafnar að nýju en engin niðurstaða komin. Töluverðrar óþolinmæði er farið að gæta, bæði meðal tónlistarkennara og tónlistarnemenda. Hópur tónlistarkennara við Tónlistarskóla Borgarfjarðar fór á fund sveitarstjórnar Borgarbyggðar á þriðjudaginn og afhenti ályktun frá kennurum skólans. Þar segir m.a. að það sé sanngirnismál að launakjör kennara og stjórnenda í tónlistarskólum verði leiðrétt sem nemur því gapi sem tók
að myndast á milli stéttarinnar og félagsmanna KÍ í öðrum aðildarfélögum í tengslum við mismunandi gildistíma kjarasamninga á árinu 2008. Tónlistarkennarar hafi lent í því að taka á sig þyngri byrðar en aðrir kennarar eftir hrunið og sitji ennþá í þeirri súpu. Þá var byggðaráði einnig afhent ályktun frá nokkrum tónlistarnemendum við Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Þar sagði m.a.: „Tónlistarnám er mikilvægur þáttur í samfélaginu. Nemendur sem stunda tónlistarnám verða oft skipulagðir í námi og margar rannsóknir hafa verið gerðar og sýna þær fram á að nemendum
í tónlistarnámi gengur almennt betur í stærðfræði.“ Tónlistarnemarnir benda á að í verkfalli missi þau úr kennslutíma en mikilvægt sé að vera í stöðugri æfingu með tilsögn kennara í tónlistarnámi. Í niðurlagi ályktunar tónlistarnemanna segir: „Tónlistarnám á það til að gleymast því það er ekki skylda eins og grunnskólanám. Mikilvægt er að semja við tónlistarkennara eins og alla aðra kennara þar sem tónlistarnám er ekki síður mikilvægt en almennt skólanám. Okkur finnst að það þurfi að ljúka deilum um laun tónlistarkennaranna sem allra fyrst.“