ÍBÚINN frétta- og auglýsingablað
Netfang: olgeirhelgi@islandia.is Útgefandi: Prentþjónusta Vesturlands Ritstj. og áb.: Olgeir Helgi Ragnarsson Íbúanum er dreift með Íslandspósti á öll heimili og fyrirtæki í póstnúmer 301, 310, 311, 320 & 356. Upplag 2.000 eintök. Íbúinn kemur að jafnaði út á fimmtudögum. Skilafrestur auglýsinga kl. 12 á þriðjudögum.
Auglýsingasími: 437 2360
ÍBÚINN
frétta- og auglýsingablað
2. tbl. 16. árgangur
18. febrúar 2021
Mikil hætta á eldi og slysum og því lokað Öll starfsemi í gömlu sláturhúsbyggingnunum í Brákarey var stöðvuð um síðustu helgi með skömmum fyrirvara í kjölfar mjög alvarlegra athugasemda frá eldvarnareftirliti Slökkviliðs Borgarbyggðar og byggingafulltrúa sveitarfélagsins. Áður hafði verið ákveðið að flytja starfsemi Öldunnar sem var í húsnæði gamla sláturhússins eftir athugasemdir frá eldvarnareftirliti. Í kjölfarið fór fram heildarúttekt á sláturhúsbyggingunum við Brákarbraut 25-27. „Það er mat eldvarnareftirlits við byggingaryfirvöld að loka skuli fyrir alla starfsemi í húsum Borgarbyggðar við Brákarbraut
25 og 27. Mikil hætta er á eldi og slysum og ekki viðunandi að starfsemi sé í húsnæði á meðan ástandið er líkt og það er í dag,“ segir m.a. í heildarmati eldvarnareftirlitsins á húsunum. Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri segir í samtali við Íbúann að leigutakar hafi heimild til að geyma muni í húsnæðinu í óákveðinn tíma.“Við reynum að vera í góðu samstarfi og samskiptum við leigutaka og upplýsa þá um stöðu málsins hverju sinni.“ Í dag, fimmtudag, verður fundur byggðaráðs þar sem farið verður yfir stöðuna. Í kjölfarið verða skýrsla eldvarnarfulltrúa og bréf byggingarfulltrúa til Borgarbyggðar gerð opinber.
Lokunin hefur mikil áhrif á fjölbreytta starfsemi fyrirtækja og félagasamtaka en dágóður hópur er með starfsemi í húsunum. Þeir aðilar sem voru með starfsemi í húsinu eru: Eygló Harðardóttir, glerlist, Lions klúbbur Borgarness, Körfuknattleiksdeild Skallagríms, Trélausnir, Sláturhús Vesturlands, Fornbílafjelagið, Bílapartasala, Skotfélag Vesturlands, Golfklúbbur Borgarness, Skátafélag Borgarness, Áhaldahús Borgarbyggðar, Safnahús Borgarfjarðar, Aldan og Frumkvöðlasetur. Sjá nánar upplýsingar úr skýrslu eldvarnareftirlits á baksíðu Íbúans.