ÍBÚINN frétta- og auglýsingablað
Netfang: olgeirhelgi@islandia.is Útgefandi: Prentþjónusta Vesturlands Ritstj. og áb.: Olgeir Helgi Ragnarsson Íbúanum er dreift með Íslandspósti á öll heimili og fyrirtæki í póstnúmer 301, 310, 311, 320 & 356. Upplag 2.000 eintök. Íbúinn kemur að jafnaði út á fimmtudögum. Skilafrestur auglýsinga kl. 12 á þriðjudögum.
Auglýsingasími: 437 2360
ÍBÚINN
frétta- og auglýsingablað
4. tbl. 16. árgangur
4. mars 2021
Nýkjörinn forseti Ferðafélags Borgarfjarðar, Gísli Einarsson, í pontu á fjölsóttum stofnfundi sem haldinn var á Hótel B59 á mánudagskvöldið. Mynd: Björn Bjarki Þorsteinsson
Glæsilegasti stofnfundur deildar FÍ „Við ferðafélagarnir erum sammála um að þetta er glæsilegasti stofnfundur sem við höfum séð við stofnun deildar í Ferðafélagi Íslands,“ sagði Ólafur Örn Haraldsson forseti Ferðafélags Íslands (FÍ) þegar hann ávarpaði stofnfund Ferðafélags Borgarfjarðar (FFB) sem haldinn var á Hótel B59 mánudagskvöldið 1. mars sl. en hann fór fyrir hópi fulltrúa frá FÍ á fundinum. Þar tilkynntu fulltrúar FÍ að hið nýstofnaða félag fengi eina milljón króna til skiltagerðar við gönguleiðir á svæði félagsins.
Lá við að skipuleggjendur stofnfundarins lentu í vandræðum þar sem skipulögð höfðu verið fyrirfram tvö sóttvarnarhólf, hvort með rými fyrir fimmtíu manns. Þau fylltust bæði og þurfti í skyndi að bæta við þriðja sóttvarnarhólfinu til að pláss væri fyrir alla stofnfundargesti. Gísli Einarsson fjölmiðlamaður sem sjá má á meðfylgjandi mynd var kjörinn forseti nýstofnaðs félags en alls voru 19 einstaklingar kjörnir til hinna ýmsu starfa hjá FFB á stofnfundinum.
Stofnfélagar í FFB eru nú þegar orðnir yfir hundrað en áhugasamir geta gerst stofnfélagar út þetta ár. Hægt er að senda beiðni um skráningu á netfangið ffb@ffb.is en taka þarf fram fullt nafn, kennitölu, heimilsfang, símanúmer og netfang ásamt því að láta vita hvort viðkomandi er félagi í Ferðafélagi Íslands eða deildum þess. Nýja félagið hefur opnað vefsíðuna www.ffb.is. Árgjald er það sama og hjá FÍ eða kr. 7.900 og njóta félagar í FFB sömu réttinda og kjara og félagar í FÍ.