ÍBÚINN frétta- og auglýsingablað
Netfang: olgeirhelgi@islandia.is Útgefandi: Prentþjónusta Vesturlands Ritstj. og áb.: Olgeir Helgi Ragnarsson Íbúanum er dreift með Íslandspósti á öll heimili og fyrirtæki í póstnúmer 301, 310, 311, 320 & 356. Upplag 2.000 eintök. Íbúinn kemur að jafnaði út á fimmtudögum. Skilafrestur auglýsinga kl. 12 á þriðjudögum.
Auglýsingasími: 437 2360
ÍBÚINN
frétta- og auglýsingablað
7. tbl. 16. árgangur
29. apríl 2021
Slökkviliðsmenn úr öllu Borgarfjarðarhéraði voru kallaðir út til að fást við eldinn í þaki Hyrnunnar og skiptust menn á að vinna á þakinu. Hér kasta nokkrir þeirra mæðinni eftir vaktina á þakinu. Á innfelldu myndinni eru þeir Heiðar Örn Jónsson varaslökkviliðsstjóri og eldvarnarfulltrúi, Gísli Már Kristjánsson og Þórður Sigurðsson varðstjóri sem hélt körfubílnum gangandi. Sjá fleiri myndir á bls. 2. Myndir: Olgeir Helgi
Eldur í þaki Hyrnunnar Eldur kom upp í þaki Hyrnunnar (N1) í Borgarnesi rétt fyrir kl. 11 á þriðjudagsmorguninn þegar verið var að ganga frá þakpappa og þakdúk með hita. Skemmdir urðu á þaki Hyrnunnar vegna vatns og elds og tjón innandyra vegna vatns. Þrátt fyrir það var hluti starfseminnar kominn aftur í gang síðdegis í gær, miðvikudag. „Útkallið var þess eðlis að um heildarútkall var að ræða hjá Slökkviliði Borgarbyggðar.
Þetta er stórt fyrirtæki og samfélaginu mikilvægt og þar fyrir utan er bensínstöð á staðnum svo viðbragðið þurfti að vera mikið. Við náðum tökum á eldinum mjög fljótt og komum í veg fyrir gríðarlegt tjón,“ segir Heiðar Örn Jónsson varaslökkviliðsstjóri í samtali við Íbúann. Fjórir reykkafarar voru komnir upp á þak nokkrum mínútum eftir útkall. „Slökkvistarf gekk mjög vel og er það að þakka hárréttum
viðbrögðum starfsmanna N1, góðum eldvörnum hússins og vel þjálfuðum og öflugum slökkviliðsmönnum sem kunna vel til verka,“ segir Heiðar. Magnús Fjeldsted stöðvarstjóri N1 segir að engin hætta hafi verið á ferðum varðandi slys á fólki innandyra. „Það var lítil reykur sem kom inn og við vorum fljót að rýma húsið. Það er stutt síðan við vorum með brunaæfingu og allir starfsmenn vissu sitt hlutverk.“