FRÉTTABRÉF
BORGARBYGGÐAR 18. tbl. 8. árg. Febrúar 2014
Í ágúst var 100 fundur sveitarstjórnar Borgarbyggðar haldinn í Reykholti. Á fundinum var samþykkt að endurgera styttuna “Hafmeyjan” eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal, sem kvenfélagskonur létu reisa í Skallagrímsgarði árið 1952. Stefnt er að því að styttan verði sett upp í sumar.
Háskólar í héraði
Mikið hefur verið rætt og ritað um stöðu og framtíð háskólanna okkar hér í Borgarfirði. Mörgum er í fersku minni barátta sem háð var fyrir sjálfstæði Háskólans á Bifröst haustið 2010 en þá voru uppi hugmyndir um að sameina skólann Háskólanum í Reykjavík. Barátta og samstaða heimamanna og hollvina Háskólans á Bifröst bar góðan árangur. Þar er vel hlúð að grunnnámi og fetaðar nýjar slóðir varðandi námsframboð og starfssemi. Nú er önnur barátta í gangi hjá okkur í Borgarbyggð þar sem hinn háskólinn okkar, Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri er í eldlínunni. Menntamálaráðherra og ráðuneyti hans, í samstarfi við Háskóla Íslands og að því er virðist æðstu stjórn Landbúnaðarháskólans, hafa um nokkra hríð unnið að því að sameina skólann á Hvanneyri Háskóla Íslands. Komust þessi áform í hámæli á seinni hluta ársins 2013. Heimamenn í Borgarfirði hafa mótmælt þessum áformum og mörgum er í fersku minni fjölmennur og kröftugur fundur sem haldinn var í Hjálmakletti í nóvember s.l. Þar héldu heimamenn vel ígrundaðar og rökstuddar ræður og töluðu fyrir sjálfstæðum skóla á Hvanneyri. Mennta-
málaráðherra, nánast einn fundarmanna, talaði í aðra átt og því miður virtist hann lítið vilja hlusta á rök heimamanna. Byggðarráð Borgarbyggðar samþykkti samhljóða á fundi sínum 2. janúar s.l. eftirfarandi tillögu: „Byggðarráð Borgarbyggðar samþykkir að setja á stofn vinnuhóp um framtíð háskólanna í Borgarbyggð. Óskað verður eftir aðild fulltrúa frá Háskólanum á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Bændasamtökum Íslands og atvinnulífinu, auk þess sem fulltrúar frá sveitarfélaginu verða í hópnum. Verkefni hópsins er að leita allra leiða til að styrkja starfsemi Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands með það að markmiði að þeir verði áfram sjálfstæðar og öflugar stofnanir sem hér eftir sem hingað til bjóði nemendum sínum upp á góða menntun sem er undirstaða framfara í þjóðfélaginu. Auk þess verði skoðað sérstaklega hvort skólarnir geti styrkt stöðu sína með auknu samstarfi og fetað nýjar brautir í rekstri og skipulagi. Skólarnir hafa verið helsti vaxtarbroddurinn í Borgarbyggð undanfarin ár og starfsemi þeirra er gríðarlega mikilvæg fyrir nærumhverfi sitt. Sterk tenging
þeirra við atvinnulífið gerir að verkum að atvinnulífið á þátttakendur í vinnuhópnum“ . Hópurinn hefur nú haldið nokkra fundi og fengið til liðs við sig sérfræðinga frá KPMG, Dr. Vífil Karlsson og fleiri heimamenn sem hafa verið sveitarstjórnarmönnum til ráðgjafar. Það er mikill samhljómur meðal heimamanna og velunnarra skólans á Hvanneyri, sjálfstæði skólans er gríðarlega mikilvægt, skólans vegna og héraðsins okkar, og því mikilvægt að hlusta á allar raddir. Nú ræðir menntamálaráðherra um að verja auknum fjármunum til Hvanneyrarstaðar ef hann sameinast Háskóla Íslands. Við Borgfirðingar segjum að það sé fagnaðarefni að fjármunir séu til í eflingu skólahalds og stoðþjónustu á Hvanneyri en við viljum að þeim fjármunum sé varið til eflingar á sjálfstæðum Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Annað er sérkennileg byggðarstefna. Baráttan heldur áfram og mikið ríður á að sú mikla samstaða sem um verkefnið er haldi áfram órofa - skólahaldi í héraðinu til heilla ! Björn Bjarki Þorsteinsson formaður byggðarráðs