1 minute read
Inngangur
Frá ritstjóra
Kæru hrossaræktendur og aðrir áhugamenn um íslenska hestinn, gleðilegt sumar.
Stóðhestabók Eiðfaxa, biblía hrossaræktandans, hefur nú litið dagsins ljós en hún er örlítið seinna á ferðinni en undanfarinn ár sökum þess ástands sem ríkir í heiminum. Veiran skæða virðist þó vera á undanhaldi, sem betur fer. Við hestamenn eins og aðrir höfum fengið að kynnast ýmsu á þessum tímum og ber þar hæst að búið er að fresta Landsmóti sem fara átti fram á Rangárbökkum við Hellu til ársins 2022. Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott og hefur framsýni hestamanna komið í ljós á þessum tímum og hafa margir nýtt sér tæknina við miðlun efnis auk þess að sjaldan eða aldrei hefur sést til jafn mikils fjölda fólks á útreiðum og núna seinni part vetrar og byrjun sumars. Hesturinn hefur reynst mörgum sáluhjálp og félagi á erfiðum tímum og þá erum við heppin að hafa getað stundað okkar íþrótt undanfarið umfram aðra íþróttamenn. Kynbótasýningar ársins eru á dagskrá auk Landssýningar þar sem hæst dæmdu hross í hverjum flokki verða verðlaunuð og kynnt auk þess að stóðhestar sem hljóta afkvæmaverðlaun í ár koma fram. Við hjá Eiðfaxa ætlum að taka þátt í því að aðstoða hestamenn við það að koma sínum gripum á framfæri og höldum Ræktunardag Eiðfaxa hátíðlegan þann 9.maí en honum verður streymt um heim allan og verður lýst á þremur tungumálum. Stóðhestabókin hefur verið eitt vinsælasta rit ársins í Íslandshestamennskunni og miðað við áhuga virðist árið í ár ekki vera undantekning.
Með ræktunarkveðju Gísli Guðjónsson ritstjóri Eiðfaxa
Útgefandi: Eiðfaxi ehf. Ritstjóri: Gísli Guðjónsson Framkvæmdastjóri: Magnús Benediktsson Rekstrarstjóri: Snorri Kristjánsson Hönnun og umbrot: Björn Kristjánsson Prentun: Prenttækni Höfundar efnis: Halla Eygló Sveinsdóttir og Þorvaldur Kristjánsson Auglýsingar: Eiðfaxi og Herdís Karlsdóttir Forsíðumynd: Liga Liepina Myndir og annað efni sem birtist í stóðhestaauglýsingum er sent inn af umráðamönnum stóðhestanna og því á þeirra ábyrgð að höfundarréttur sé virtur.