Þrír sneru aftur eftir Guðberg Bergsson

Page 1


Á þessum einangraða stað var oftast skýjað og dumbungur í lofti og það gerðist aldrei neitt, enda leiddist stúlkunum sem voru komnar að fermingu. Þótt hér sé ekki mikið um að vera megið þið þakka fyrir að hafa nóg að bíta og brenna, það fá ekki allar jafnöldrur ykkar í kreppunni í útlöndum, sagði gamli maðurinn og reis upp til hálfs þegar hann sá ólundina í svipnum á stúlkunum sem horfðu þrjóskulega á móti, enda höfðu þær heyrt þetta þúsund sinnum og það sem hann bætti við: Við höfum ekkert til annarra að sækja. Eftir að hafa sagt þetta seig líkaminn með stunu á dívaninn þar sem hann lá næstum frá morgni til kvölds. Stúlkurnar dröttuðust syfjaðar frá borðinu til að ganga í verkin með ömmu sinni sem signdi sig á móti austri. Þær signdu sig líka. Sonurinn kom á eftir þeim en virti hvorki þær né móður sína viðlits. Þetta var snemma morguns og auk þess bjart sólskin. Frá því að stúlkurnar þuldu morgunbænina við rúmstokkinn, „Nú er ég klædd og komin á ról“, og þangað til þær háttuðu og lásu kvöldbænina undir sænginni, „Nú legg ég augun aftur, ó Guð, þinn náðar kraftur mér veri vörn í nótt“, stálust þær hvað 7


eftir annað til þess að líta upp frá vinnu og svipast um í leit að einhverju óvæntu í umhverfinu og tilbreytingarleysi daganna. Þær renndu oftast augum fram með fjallinu og vonuðu að einhver maður væri þar á ferðinni með fréttir af fólki á sléttlendinu handan við hraunbreiðuna í austri. Og fyrir gistinguna segði hann, rétt fyrir háttinn, æsandi sögur af atburðum í löndum þar sem heimskreppan var og fólk barðist á götum borganna og heimtaði brauð. Gamli maðurinn hlustaði þá af athygli og sagði alltaf það sama: Við erum heppin að búa í landi sem er laust við óaldarlýð. Hér eigum við í okkur og á þótt undirlendið sé ekki mikið. Stúlkurnar þreyttust á þessu. Heimsókn var svo mikill viðburður að þær langaði að strjúka með gestinum, en það var enginn hægðarleikur. Fyrir bragðið lifðu þær áfram í óljósri þrá. Ef þær fóru í þannig ham urðu þær ýmist daufar eða þær hlupu um sandinn nálægt sjónum og jusu honum með lófunum hvor á aðra. Í lokin stóðu þær á öndinni, settust á fjörustein og hlógu kjánalega út í loftið uns þær sefuðust með gráti. Eftir stutta stund risu þær skömmustulegar á fætur og fóru aftur að vinna og skildu ekkert í sjálfum sér. Amma þeirra lét sem hún tæki ekki eftir látunum. Hún hélt bara að þeim heilræðavísum og bænum en oftast biblíusögum. Stundum sagði hún skrýtnar dæmisögur, að Jesús hefði ekki gengið á vatni heldur ís og fólk ekki þekkt muninn, enda var á dögum hans frostavetur í fyrsta sinn í sögu Landsins helga og gangan vakti furðu og var talin vera kraftaverk, en við gætum lært af þessu að ekki er allt sem sýnist. Ísinn gæti brotnað undir fótum ykkar á lífsleiðinni, enda leikið þið ekki sama leik og Jesús í heiminum okkar. 8


Stúlkunum fannst jafn þreytandi að hlusta á dæmisögur ömmunnar og þrálátt röfl afans í þeim og langaði bara í sígarettur og silkisokka og að fá peninga fyrir vinnuna en ekki lömb, þær höfðu enga þörf fyrir þau og fannst lítið til um loforð um að eftir ferminguna fengi hvor um sig folald. Að býlinu lágu engir vegir, en undir fjallinu voru stígar eftir sauðfé milli stórgrýtis sem féll úr berginu í jarðskjálftum. Að finna jörðina bifast í öldum undir fótunum, heyra ógnandi dynki frá grjóthruninu og gaggið í hræddum hænunum vakti sérstaka gleði en öðru fremur eftirvæntingu, að sjá hvar hrundi úr berginu, hvort steinarnir væru stórir og leggja lófa á nýja kletta og finna hvort þeir væru volgir af því að leirhver hefði myndast við umbrotin inni í fjallinu eða á svæðinu þar sem rúgbrauðið var bakað í rúgbrauðsstampi ofan í rjúkandi gjótu. Gesta var ekki að vænta nema úr tveimur áttum: yfir hraunið í austri eða lágu, gróðurlausu hálsana í vestri. Fyrir norðan var fjallið ófært og í suðri brotnaði sjórinn á skerjum. Mánuðum saman var við engu að búast á þessum stað nema veðrið breyttist en yfirleitt var skýjað. Varla nokkur annar en gamli flækingurinn lagði leið sína um auðnina á veturna og endurtók við komuna hvað hann hefði séð á ferðum sínum. „Ekkert nema innihaldslaust landslag,“ sagði hann, með gamlan hund og kött í strigapoka sem hann hafði tjaslað saman úr tveimur og smeygði yfir höfuðið. Oftast bar hann köttinn að framan en hundinn á bakinu og hausarnir á þeim stóðu út um op þannig að stúlkunum fannst hann vera á vissan hátt þríhöfða ófreskja sem heillaði þær og hratt þeim frá sér í senn. Stundum trítlaði hundurinn við hliðina á honum, en kötturinn fór aldrei úr 9


pokanum nema til að lepja mjólk úr blikkskál. Á bænum höfðu allir skömm á og gaman af hvað flækingurinn var kynlegur, en hann var þvílíkur dýravinur að hann orti liprar stökur og innihaldsrík kvæði um hundinn og köttinn, sem vakti virðingu, en fólkið vissi að háttalagið tengdist harmleik. Maðurinn hafði verið bóndi en einn vetur lenti hann í ofsaveðri á leið yfir fjöll og gróf sig í fönn. Það varð honum til lífs, en eitthvað af heilanum fraus svo hann varð það sem er kallað kynlegur kvistur. Og eftir að hann hafði náð líkamlegri heilsu eftir hrakningana varð hann þvílík mannafæla að hann skildi við konuna og hvarf frá jörðinni og börnunum en tók með sér hundinn og köttinn, ákveðinn í að lifa ekki lengur en húsdýrin. Vegna háttalags og þess hvað hann var sóðalegur fékk hann ekki að sofa í húsinu heldur lagðist á heypoka í skemmu, enda vildi hann hafa dýrin hjá sér. En hann borðaði með fólkinu og mátti hafa hundinn við fæturna meðan hann sagði sögur sem urðu stöðugt einkennilegri. Í miðri frásögu setti oft að honum svo mikinn harm að hann emjaði, en hundurinn stökk þá í fangið á honum og sleikti hann í framan. Við það hélt hann áfram, en hundurinn lagðist aftur við fætur hans og sleikti út um af ánægju. Kötturinn fékk aldrei að vera innandyra og eigandinn sagði þess vegna blíðlega við hann: Vert þú nú bara úti hjá hagamúsunum. Stúlkunum þótti vænt um manninn, heimsóknum hans fylgdi tilbreyting, en þær forðuðust að hann kæmi of nálægt þeim, jafn hræddar við nálægðina og þær voru heillaðar af hinu dularfulla háttalagi. Hann hvarf alltaf skyndilega með hundinn og köttinn án þess að kveðja en skildi eftir handa þeim á ólíklegustu stöðum furðulega gripi sem hann skar í 10


bein og málaði með rauðum lit. Það tók þær oft langan tíma að finna gripina sem þær gáfu heitið nefmenni og geymdu innan klæða á daginn en földu undir koddanum sínum á nóttinni.

11


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.