Aftur á kreik - Timur Vermes

Page 1


ii.

Þ

egar ég komst aftur til meðvitundar, lá ég á jörðinni. Ég fann að einhver brá rökum klút á enni mitt. „Hvernig líður þér?“ Maður nokkur bograði yfir mig, hann var á að giska fjörutíu og fimm ára gamall, eða jafnvel kominn yfir fimm­ tugt. Hann var í köf lóttri skyrtu og einföldum buxum, rétt eins og hver annar verkamaður. Að þessu sinni vissi ég hver fyrsta spurning mín yrði. „Hvaða dagur er í dag?“ „Það er, mmm – 29. ágúst. Nei, bíddu, þrítugasti.“ „Hvaða ár?!“ orgaði ég og settist upp. Raki klúturinn féll í kjöltuna á mér. Maðurinn leit á mig og hrukkaði ennið. „2011,“ sagði hann og horfði á búninginn minn. „Hvað, hélstu kannski að það væri 1945?“ Ég kunni ekkert svar við spurningunni, en reis á fætur. „Þú ættir kannski að liggja áfram,“ sagði maðurinn, „eða fá þér sæti. Ég er með hægindastól inni í skúrnum.“ Ég var að því kominn að segja að ég hefði engan tíma til þess að slaka á, en skalf enn í hnjánum og elti manninn því inn í blaðaturninn. Hann fékk sér sjálfur sæti á stól við lúguna og horfði á mig. „Vatnssopa? Viltu súkkulaði? Orkustöng?“ 19


Ég kinkaði kolli, ringlaður. Hann stóð á fætur, sótti f lösku af kolsýrðu vatni og hellti úr henni í glas. Hann tók ofan úr hillu eitthvað sem líktist súkkulaðistykki í skraut­ legum umbúðum. Hann fjarlægði umbúðirnar og í ljós kom kornstöng sem virtist hafa verið pressuð í verksmiðju. Hann lagði hana í lófann á mér. Brauðskorturinn virtist enn viðvarandi. „Þú verður að fá þér almennilegan morgunverð,“ sagði hann. Svo fékk hann sér sæti á ný. „Er verið að skjóta hérna einhvers staðar?“ „Skjóta …?“ „Já, heimildarmynd? Kvikmynd? Það er alltaf verið að skjóta eitthvað hérna í hverfinu.“ „Kvikmynd …?“ „Heyrðu, félagi, þú ert alveg úti á túni!“ Hann hló og benti á mig. „Ertu vanur að ganga um í þessari múnder­ ingu?“ Ég gaumgæfði búninginn minn. Ég kom ekki auga á neitt óvenjulegt, að undanskildu rykinu auðvitað og bensín­ lyktinni. „Það má segja það,“ sagði ég. Kannski var ég særður í andliti? „Áttu spegil?“ spurði ég. „Ekki málið,“ sagði hann og benti með fingrinum. „Spegillinn er við hliðina á þér, fyrir ofan Focus.“ Hann benti á rauðgulan ramma. Neðsti hluti hans hvarf inn á milli einhverra tímarita. Ég leit í hann. Það kom mér á óvart hversu fullkomin spegilmynd mín var, meira að segja búningurinn minn virtist nýpressaður – sennilega hjálpaði lýsingin í blaðasölunni til. „Ertu að spá í forsíðumyndina?“ spurði maðurinn. „Þeir 20


eru alltaf öðru hvoru með einhverjar sögur af Hitler. Ég held að það þurfi ekki að f likka upp á þig frekar. Þú ert fínn eins og þú ert.“ „Takk,“ sagði ég annars hugar. „Nei, í alvöru talað,“ sagði hann. „Ég sá þarna Unter­ gang. Tvisvar. Bruno Ganz var frábær, en þú ert betri en hann. Líkamsbeitingin … maður gæti haldið að þetta værir þú.“ Ég leit upp. „Haldið að ég væri hvað?“ „Haldið að þú værir Foringinn.“ Svo lyfti hann báðum höndum, krosslagði löngutöng og vísifingur og gaf ein­ hvers konar merki með þeim. Ég átti bágt með að trúa því, en nú þegar liðin voru sextíu og sex ár virtist þetta vera það eina sem lifði af hinni gömlu og kórréttu, þýsku kveðju. Það var hræðilegt til þess að vita, en það eimdi þó enn eftir af henni. Ég lyfti hendinni og sagði: „Ég er Foringinn!“ Hann rak aftur upp hlátur. „Meiri háttar, þetta er svo eðli­legt!“ Ég átti erfitt með að henda reiður á þessari einbeittu kátínu mannsins. Ég gerði mér smám saman grein fyrir kringumstæðum mínum. Ef þetta var ekki draumur – og ástandið hafði sannarlega varað of lengi til þess að svo gæti verið – þá var ég kominn fram til ársins 2011. Það þýddi að ég var staddur í heimi sem var mér fullkomlega fram­ andi og það mátti því gera ráð fyrir að ég væri sjálfur heldur framandi vera í þeirri veröld. Væri gengið út frá því að þessi heimur lyti kunnuglegum forsendum og rökum, taldist ég annaðhvort vera 122 ára gamall eða – sem var nú öllu sennilegra – steindauður fyrir löngu. 21


„Leikurðu eitthvað annað?“ spurði maðurinn. „Hef ég séð þig í einhverju öðru hlutverki?“ „Ég leik ekki,“ svaraði ég, eilítið hryssingslega. „Nei, auðvitað ekki,“ sagði hann og varð furðu alvar­ legur á svipinn. „Hvar getur maður séð þig? Ertu með eitt­ hvað á stefnuskránni?“ „Auðvitað,“ svaraði ég, „Stefnuskráin var lögð fram árið 1920! Þú sem ríkisþegn hlýtur að kannast við atriðin 25.“ Hann kinkaði ákaft kolli. „Ég man samt ekki eftir að hafa séð þig. Ertu nokkuð með bækling? Eða nafnspjald?“ „Því miður,“ sagði ég, döprum rómi, „bæklingarnir eru á skrifstofunni.“ Ég reyndi að ímynda mér næstu skref. Það virtist deg­ inum ljósara að Foringinn, 56 ára gamall að aldri, myndi aðeins mæta vantrú í Stjórnarráðinu og jafnvel í sjálfu Byrginu. Ég varð að vinna tíma, fá tækifæri til að greina alla möguleika í stöðunni. Mig skorti samastað. Þeirri skelfilegu hugsun laust niður að ég var með öllu peninga­ laus. Skyndilega rifjaðist upp fyrir mér óþægileg minn­ ingin um dvölina í gistiskýlinu árið 1909. Ég efaðist ekki um að dvölin hafði verið nauðsynleg; hún veitti mér innsýn sem ég hefði aldrei hlotið með því einu að ganga á háskóla. Ég hafði aftur á móti ekki náð að njóta lífsins í öllum þess­ um harðindum. Mér varð hugsað til hinna myrku mán­ aða, tillitsleysisins, vanvirðingarinnar, óöryggisins, óttans við að eiga ekki fyrir nauðþurftum, ekki brauðskorpu. Ég beit annars hugar í þetta undarlega pressukorn. Sætkennt bragðið kom mér á óvart. Ég virti vöruna fyrir mér. 22


„Ég er líka mjög hrifinn af þessu,“ sagði blaðasalinn. „Má bjóða þér eitt til viðbótar?“ Ég hristi höfuðið. Ég stóð frammi fyrir f lóknum vanda. Ég varð með einhverjum hætti að tryggja mér lifibrauð. Ég þurfti þak yfir höfuðið og dálitla peninga þar til ég væri búinn að gera mér betur grein fyrir hlutunum, kannski þyrfti ég að fá mér vinnu, tímabundið, þar til ég vissi hvort og hvernig ég gæti tekið aftur við stjórnartaum­ unum. Ég varð einhvern veginn að vinna fyrir mér þangað til. Sem málari jafnvel, eða á arkitektastofu. Auðvitað myndi ég ekki koma mér undan því að vinna erfiðisvinnu ef ég þyrfti þess með. Þekking mín hefði reyndar komið þýsku þjóðinni betur, hefði mér gefist færi á að stýra henni til stórsóknar á vígvellinum, en í svo annarlegri stöðu voru vangaveltur sem þessar aðeins draumórar. Ég vissi ekki einu sinni hvar landamæri ríkisins lágu nú um stundir; hvaða þjóðir það voru sem storkuðu mögulega þeirri landa­ mæraskipan og á hvern skyldi skotið. Ég myndi því neyð­ ast til að starfa í sveita míns andlits, kannski við lagningu hersýningarvallar eða hraðbrautarkaf la. „Í alvöru talað,“ heyrði ég blaðasalann segja alveg upp við eyrað á mér: „Þú ert enginn amatör, það getur ekki ver­ið! Ekki með þetta númer uppi í erminni?!“ Mér þótti þetta einfeldningsleg athugasemd. „Nei, ég er enginn amatör!“ hreytti ég út úr mér. „Ég er ekki borgara­ legur letihaugur eins og sumir!“ „Það sagði ég aldrei,“ kvað við í manninum sem ég var nú farinn að líta á sem einlægan og heiðarlegan þegn. „Ég meina, hvað starfarðu?“ Ja, hvað starfaði ég? Hvað skyldi segja? 23


„Ég … það hefur ekki borið mikið á mér, ekki upp á síð­ kastið,“ svaraði ég og fór eins og köttur í kringum heitan graut. „Þú mátt ekki misskilja mig,“ sagði kaupmaðurinn ákafur, „mér finnst bara svo ótrúlegt að það skuli enginn hafa …! Ég meina, hingað koma margir, borgin er full af um­­ boðsskrifstofum, full af bíógaurum og sjónvarpsliði sem er alltaf að leita að nýjum andlitum. En ef þú ert ekki með nafnspjald – ég meina, hvar nær maður í þig? Ertu með síma? Netfang?“ „A …“ „Hvar býrðu?“ Þar kom maðurinn við veikan blett. Á hinn bóginn virtist hann ekki hafa neitt óheiðarlegt í hyggju. Ég ákvað því að taka áhættuna og svaraði: „Íbúðin … það er nú dálítið … ég veit ekki hvað skal segja … óskýrt, sem stendur …“ „Þú átt kannski kærustu og býrð hjá henni?“ Allt í einu varð mér hugsað til Evu. Hvar skyldi hún vera niðurkomin? „Nei,“ muldraði ég og hljómaði venju fremur niður­ dreginn, „ég á engan lífsförunaut. Ekki lengur.“ „Ææ,“ sagði kaupmaðurinn, „ég skil. Eitthvað sem gerð­ ist nýlega?“ „Já,“ sagði ég, „þetta er allt saman … fremur nýtt fyrir mér.“ „Og gekk illa hjá ykkur undir það síðasta?“ „Það má segja það,“ sagði ég og kinkaði kolli, „Steinerfylkið heyktist á því að gera gagnárás, það var ófyrirgefan­ legt með öllu.“ 24


Hann horfði á mig, óþreyjufullur: „Ég var að tala um kærustuna þína. Hverjum er þetta að kenna?“ „Ég veit það ekki,“ sagði ég, „kannski Churchill.“ Hann hló. Svo horfði hann á mig um stund, hugsi. „Mér finnst þú tækla þetta alveg rétt. Hérna, ég er með smá tillögu.“ „Tillögu?“ „Ég veit ekki hversu miklar kröfur þú gerir, en ef þér er sama, þá máttu gista hér í eina eða tvær nætur.“ „Hér?“ Ég leit í kringum mig í blaðaturninum. „Eða varstu kannski að hugsa um að fara á fimm stjörnu hótel?“ Hann hafði rétt fyrir sér. Ég varð niðurlútur. „Ég má heita slyppur og snauður maður,“ játaði ég. „Einmitt. Og það er ekkert skrítið að þú skulir ekki voga þér út fyrir hússins dyr, þú ert það hæfileikaríkur. En það þýðir ekkert að fela sig.“ „Ég var ekki í felum!“ andmælti ég. „Það rigndi sprengj­ um!“ „Jájá,“ sagði hann og bandaði með hendinni. „Þá er það ákveðið: þú verður hér í nokkra daga og ég set mig í sam­ band við nokkra kúnna sem ég þekki. Nýjasta heftið af „Theater Heute“ var að koma út, líka blað um kvikmynd­ ir; þeir fara að tínast hingað, einn af öðrum. Kannski náum við að láta eitthvað gerast. Annars er ekkert sem segir að þú þurfir að kunna eitthvað, þú ert algjörlega frábær í þessum búningi …“ „Á ég sem sagt að vera hér?“ „Til að byrja með. Þú verður hjá mér yfir daginn, ef ég skyldi þurfa að kynna þig fyrir einhverjum. Og þó að eng­ 25


inn láti sjá sig, þá ertu mér að minnsta kosti til skemmt­ unar. Áttu annars í einhver önnur hús að venda?“ „Nei,“ dæsti ég. „Jú, Byrgið náttúrlega …“ Hann hló. Svo þagnaði hann. „Hérna, þú ferð ekki að stela frá mér, er það?“ Ég leit á hann, sármóðgaður: „Lít ég út fyrir að vera glæpa­maður?“ Hann horfði á mig: „Þú lítur út eins Adolf Hitler.“ „Einmitt,“ sagði ég.

26


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.