Alex eftir Pierre Lemaitre

Page 1


3 Hún vaknar við kuldann. Og marblettina, því þetta hafði verið löng ferð. Hún var bundin á höndum og fótum, gat ekki skorðað sig af, rúllaði fram og til baka og skall upp að innra byrði bílsins. Og þegar bíllinn var loksins stöðvaður opnaði maðurinn dyrnar og vafði hana inn í nokkurs konar segldúk og batt snæri utan um hana. Síðan snaraði hann henni upp á öxlina. Það er skelfilegt að verða þannig að nokkurs konar byrði, en líka skelfilegt að þurfa að eiga allt sitt undir manni sem skellir manni þannig upp á öxlina á sér. Það bendir til þess að hann hafi eitthvað illt í hyggju. Síðan var hann ekkert að gæta sín þegar hann lagði hana á gólfið eða dró pokann á eftir sér, ekki heldur þegar hann rúllaði henni niður stiga. Brúnin á tröppunum skarst alls staðar í hana og hún gat ekkert gert til að verja höfuðið á sér. Alex öskraði en maðurinn hélt áfram sína leið. Þegar hún fékk annað höfuðhögg, í hnakkann, missti hún meðvitund. Hún hefur ekki hugmynd um það hve langt er síðan þetta gerðist. Nú heyrist ekkert hljóð lengur, en kuldinn smýgur inn í axlirnar og handleggina. Og ískalda fæturna. Límbandið er svo fast strekkt um hana að það stoppar blóðrásina. Hún opnar augun. Reynir í það minnsta að opna þau, því það vinstra er límt saman. Hún getur ekki heldur opnað munninn. Málningarlímband. Hún man ekki eftir þessu. Meðan hún var í yfirliði. Alex liggur á gólfinu, á hliðinni, með hendur bundnar fyrir aftan bak og samanreyrða fætur. Henni er illt í mjöðminni sem hún liggur á af fullum þunga. Hún kemur smám saman 36

Alex.indd 36

28.9.2014 13:36


til sjálfrar sín, henni er illt alls staðar eins og hún hafi lent í bílslysi. Hún reynir að átta sig á því hvar hún er, hún rótar sér og tekst að velta sér á bakið, hana sárverkjar í axlirnar. Núna tekst henni loksins að opna hitt augað, en það nemur enga mynd. Augað í mér er sprungið, hugsaði Alex með sér skelfingu lostin. Eftir nokkrar sekúndur sendir hálfopið auga hennar þó óskýra mynd sem virðist koma frá hnetti í margra ljósára fjarlægð. Hún þefar út í loftið, reynir að einbeita sér, hugsa. Þetta er skemma eða geymsla. Stórt, tómt húsnæði og smáskíma berst að ofan. Gólfið er hart, rakt, lykt af skítugu regni, pollum, þess vegna er henni svona kalt: Á þessum stað er allt gegnsósa. Það fyrsta sem rifjast upp fyrir henni er minning um mann sem þrýstir henni þétt upp að sér. Stæka, sterka, dýrslega svitalyktina af honum. Á sorgarstundum flögra oft að okkur léttvægar hugsanir: Hann hárreytti mig, það var það fyrsta sem kom upp í huga hennar. Hún sér fyrir sér höfuðið á sér með stórum, hárlausum bletti, hnefafylli hefur verið rifin í burtu, hún brestur í grát. Í rauninni er það ekki endilega þessi tilhugsun sem veldur því að hún brestur í grát, heldur ekki síður allt sem hafði komið fyrir hana, þreytan, sársaukinn. Og hræðslan. Hún grætur, og það er erfitt að gráta svona, með málningarlímband fyrir munninum, hún er að kafna, hóstar og það er líka mjög erfitt að hósta, henni svelgist á, augun fyllast af tárum. Henni er flökurt. Getur ekki ælt. Munnurinn er fullur af einhvers konar galli sem hún verður að kyngja. Það ætlar aldrei að ganga hjá henni. Henni finnst það ógeðslegt. Alex reynir að anda, reynir að skilja, greina stöðuna. Þrátt fyrir að staðan sé vonlaus reynir hún að vera róleg. Það er stundum ekki nóg að halda ró sinni, en án hennar er allt glatað. 37

Alex.indd 37

28.9.2014 13:36


Alex reynir að bíta á jaxlinn, slappa aðeins af. Skilja hvað gerst hefur, hvað hún er að gera þarna, hvers vegna hún er þarna. Hugsa. Hún þjáist en hlandblaðran, þanin, full, er líka að trufla hana. Hún hefur aldrei verið með mikla samkvæmis­ blöðru. Hún þarf ekki nema tuttugu sekúndur til að taka ákvörðun, hún lætur vaða, mígur lengi. Þessi léttir er ekki ósigur vegna þess að þetta vildi hún. Ef hún gerir þetta ekki á hún eftir að þjást lengi, kannski engjast tímunum saman en enda svo með því að þurfa samt að pissa á sig. Hún er búin að meta stöðuna, hún hefur um nóg annað að hugsa, það að vera mál að míga er óþarfa vandamál. Nema að nokkrum mínútum síðar er henni orðið enn kaldara og það hafði ekki hvarflað að henni. Alex skelfur og veit ekki hvers vegna, úr kulda, af hræðslu. Hún sér tvennt fyrir sér: Manninn í jarðlestinni, innst í vagninum, sem brosir til hennar, og andlit hans þegar hann þrýstir sér upp að henni, rétt áður en hann treður henni inn í sendiferðabílinn. Hún sárfann til þegar hún skall í gólfið. Skyndilega er dyrum skellt í fjarska svo glymur í. Alex hættir strax að gráta, sperrir eyrun, öll uppspennt, þanin til hins ýtrasta. Síðan hnykkir hún sér til, leggst aftur á hliðina og lokar augunum og býst við að fá á sig fyrstu höggin vegna þess að hann kemur til með að berja hana, þess vegna rændi hann henni. Alex heldur niðri í sér andanum. Hún heyrir hvernig maðurinn kemur gangandi í áttina til hennar, þungum, hægum skrefum. Loks nemur hann staðar fyrir framan hana. Út á milli augnháranna greinir hún skóna hans, stóra, vel burstaða skó. Hann segir ekkert. Hann gnæfir yfir hana án þess að segja eitt einasta orð og er þannig drykklanga stund eins og hann sé að athuga hvort hún sé sofandi. Hún ákveður sig loks, glennir upp augun og lítur upp til hans. Hann er með hendur fyrir aftan bak, lítur niður á hana, það er ekki hægt að lesa neitt úr 38

Alex.indd 38

28.9.2014 13:36


svip hans, hann hallar sér bara yfir hana eins og hún væri ... hlutur. Neðan frá séð er hann ansi svipmikill, svartar og miklar augabrúnirnar mynda skugga og hylja augu hans að hluta, en einkum er hann með svo breitt enni að það er eins og það nái út fyrir andlitið. Það gerir það að verkum að hann lítur út fyrir að vera vangefinn, frumstæður. Þrjóskur. Hún leitar að rétta orðinu. Finnur það ekki. Alex langar að segja eitthvað. Límbandið kemur í veg fyrir það. Enda gæti hún bara sagt: „Gerðu það ...“ Hún veltir fyrir sér hvað hún gæti sagt ef hann losar hana. Hana langar virkilega að finna eitthvað annað en að biðja hann vægðar en henni kemur ekkert í hug, ekkert, engin spurning, engin ósk, bara þessi örvæntingarfulla bæn. Orðin koma ekki, heilinn í Alex er alveg frosinn. Þó örlar á þessari hugsun: hann rændi henni, batt hana, henti henni hingað, hvað ætlar hann að gera við hana? Alex grætur, hún getur ekki haldið aftur af sér. Maðurinn gengur frá henni án þess að segja orð og inn í horn. Sviptir segldúk af einhverju, ómögulegt að sjá hvað er undir honum. Og enn og aftur þessi göldrótta, órökrétta ósk: bara að hann myrði mig ekki. Maðurinn snýr baki í hana, lýtur fram, tekur með báðum höndum um eitthvað og dregur það fram, eitthvað þungt, kassa? Sem ískrar í þegar hann er dreginn eftir steingólfinu. Hann er í dökkgráum buxum, röndóttri peysu, víðri, pokalegri, það er eins og hann hafi átt hana í mörg ár. Eftir að hafa togað þannig aftur á bak nokkra metra stansar hann, lítur upp eins og hann sé að miða eitthvað út, setur hendur á mjaðmir og veltir fyrir sér hvernig hann eigi að fara að þessu. Loks snýr hann sér við. Og horfir á hana. Hann gengur í áttina til hennar, beygir sig niður, krýpur niður svo annað hnéð á honum nemur við andlit hennar, réttir fram 39

Alex.indd 39

28.9.2014 13:36


handlegginn og ristir með snöggu hnífsbragði sundur límbandið sem hann hafði vafið um ökkla hennar. Síðan tekur hann með stórri hendinni um endann á límbandinu sem er fyrir munninum á henni og rífur það snöggt af. Alex stynur af sársauka. Hann lyftir henni upp með annarri hendinni. Alex er auðvitað ekkert sérlega þung, en samt sem áður, að gera það með annarri hendinni! Hún er gripin svima sem hríslast út um allan líkama hennar, blóðið stígur henni til höfuðs þegar hún er svona upprétt, hún riðar aftur. Enni hennar er á móts við bringuna á manninum. Hann heldur um axlirnar á henni, mjög fast, snýr henni við. Hún nær ekki að segja neitt, með snöggu hnífsbragði ristir hann á böndin um úlnliðina á henni. Alex herðir upp hugann, hugsar sig ekkert um heldur segir bara það sem henni er efst í huga: „Gerðu ... þ ... það ...“ Hún þekkir ekki eigin rödd. Auk þess stamar hún eins og barn, eins og unglingur. Þau standa hvort á móti öðru, nú er stóra stundin runnin upp. Alex er svo skelfingu lostin við tilhugsunina um það sem hann gæti gert við hana að skyndilega langar hana að deyja, strax, án þess að fara fram á neitt, að hann drepi hana núna, strax. Það sem hún óttast mest er biðin sem ímyndunarafl hennar hrapar ofan í, hún hugsar um það sem hann gæti gert við hana, hún lokar augunum og sér fyrir sér líkama sinn, það er eins og hann sé ekki lengur hluti af henni, endilangur líkami, í stellingunni sem hann var í áðan, allur í sárum, það blæðir ákaft úr honum, hann þjáist, það er eins og þetta sé ekki hún en samt er þetta hún. Hún sér sjálfa sig fyrir sér dána. Kuldinn, hlandlyktin, hún skammast sín, er hrædd, hvað gerist núna, vonandi drepur hann mig ekki, bara að hann drepi mig ekki. 40

Alex.indd 40

28.9.2014 13:36


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.