Andartak eilífðar - Paul Kalanithi

Page 1


FOR M Á LI Webster lét sig dreyma um dauðann og vissi af beinum undir skinni. Brjóstvana verur neðanjarðar án vara glottu afvelta. – T.S. Eliot, „Ódauðleikans hvísl“

Ég

fletti hr att

gegnum tölvusneiðmyndirnar og sjúk-

dómsgreiningin blasti við: lungun voru morandi í æxlum, hryggurinn afmyndaður, stór hluti lifrarinnar ósýnilegur. Krabbi og hann hafði dreift sér víða. Ég var taugaskurð­ læknanemi á lokaári starfsþjálfunar. Á undanförnum sex árum hafði ég skoðað fjöldann allan af sneiðmyndum af þessu tagi, í veikri von um að einhver aðferðin mætti gagn­ ast sjúklingnum. Í þessu tilviki var annað upp á teningn­ um: þetta voru myndir af mér. Ég var ekki á röntgendeildinni, ég var ekki í skurð25


stofufötunum og hvíta sloppnum. Ég var í sjúkrasloppi, bundinn við vökvastatívið með næringu í æð, með tölvuna sem hjúkrunarfræðingurinn hafði skilið eftir á sjúkrastofunni hjá mér, við hlið mér var Lucy, konan mín, sem er lyflæknir. Ég fór yfir hverja lotu aftur: lungnagluggann, beinagluggann, lifrargluggann, og skrunaði ofan frá og niður, svo frá vinstri til hægri, svo fram og aftur, eins og mér hafði verið kennt, ef eitthvað fyndist sem breytt gæti sjúkdómsgreiningunni. Við lágum saman á sjúkrarúminu. „Gæti þetta verið eitthvað annað?“ sagði Lucy stillilega, eins og hún væri að lesa kvikmyndahandrit. „Nei,“ sagði ég. Við föðmuðumst innilega eins og ungir elskendur. Síðasta árið hafði okkur bæði grunað að innra með mér væri krabbi að hreiðra um sig, en við neituðum að trúa því, neituðum að ræða það. Um hálfu ári áður hafði ég byrjað að léttast og fengið heiftarlegan bakverk. Þegar ég klæddi mig á morgnana þrengdist beltið um eitt gat, og svo tvö. Ég fór til heimilislæknis míns, skólasystur minnar frá Stanford. Bróðir hennar hafði dáið skyndilega þegar hann var taugaskurðlæknanemi eftir að hafa hunsað vísbendingar um bráða 26


sýkingu, þannig að hún fylgdist mjög grannt með heilsufari mínu. Þegar þangað kom var að vísu annar læknir á stofunni hennar – skólasystir mín var farin í fæðingarorlof. Ég var í þunnum, bláum slopp á köldu skoðunarborðinu og lýsti einkennunum fyrir henni. „Eitt er víst,“ sagði ég, „ef þetta væri prófspurning – þrjátíu og fimm ára gamall maður tapar þyngd upp úr þurru og fær samtímis verk í bakið – lægi svarið í augum uppi. Krabbi. Kannski er þetta bara of mikið vinnuálag. Ég veit það ekki. Ég vil fara í segulómun til öryggis.“ „Ég held að við ættum að byrja á röntgenmyndatöku,“ sagði hún. Segulómun kostar sitt og nýlega hafði verið lögð rík áhersla á það að í heilbrigðiskerfinu yrði að spara óþarfar myndatökur. Gildi skönnunar veltur líka á því að hverju maður leitar: röntgenmyndir eru að miklu leyti gagnslausar þegar krabbi er annars vegar. Þó er það svo að mörgum læknum þykir það jaðra við trúníð að mæla fyrir um segulómun strax í upphafi. Hún hélt áfram: „Vissu­ lega eru röntgenmyndir ekki fullkomnar, en það er rökrétt að byrja á þeim.“ „Getum við þá beðið um röntgenmyndir við sveigju og teygju, kannski væri spondylosithesis vegna brots sennilegri greining?“ 27


Ég sá í speglinum að hún var að gúgla það. „Það er brot í hryggjarlið sem veldur samfalli og hrjáir um fimm af hundraði manna og er algeng orsök bakverkja hjá ungu fólki.“ „Gott og vel, ég skal þá biðja um þær.“ „Takk,“ sagði ég. Ég sem var svo valdsmannslegur í læknasloppnum, hvers vegna var ég svona bljúgur í sjúkrasloppnum? Sannleikurinn var sá að ég var fróðari um bakverki en hún – sérhæfing mín sem taugaskurðlæknis laut að veilum í hryggnum. Ef til vill var samfall í hryggjarliðum sennilegri tilgáta. Hún hrjáði þó nokkuð marga unga, fullorðna einstaklinga, en var krabbi í mænu hjá einstaklingi á fertugsaldri líklegri? Líkurnar gátu varla verið nema einn á móti tíu þúsund. Jafnvel þótt hann væri hundrað sinnum tíðari væri hann samt fágætari en samfall í hryggjarliðum. Kannski var ég bara að gera úlfalda úr mýflugu. Á röntgenmyndunum var allt með felldu. Við kenndum vinnuálagi og öldrun um einkennin, mæltum okkur mót til eftirfylgni, og ég fór aftur að sinna síðasta tilviki dagsins. Þyngdin var ekki lengur áhyggjuefni og bakverkurinn varð bærilegur. Með vænum íbúprófenskammti gat ég klárað daginn, og nú voru ekki mjög margir erfiðir, fjórtán stunda 28


vinnudagar eftir. Ferð minni sem læknanema til stöðu taugaskurðlæknis var nærri lokið. Eftir tíu ára þrotlausan undirbúning var ég staðráðinn í að þrauka fimmtán mánuði til viðbótar þar til starfsþjálfun lyki. Ég hafði áunnið mér virðingu eldri starfsbræðra, unnið til glæsilegra verðlauna á landsvísu og var nú að taka við atvinnutilboðum frá mörgum helstu háskólanna. Leiðbeinandi minn hjá Stanford hafði nýlega sest hjá mér og sagt: „Paul, ég held að þú njótir forgangs til hvers þess starfs sem þú sækir um. Ég get sagt þér í trúnaði að við hefjum hér innan skamms rannsóknarverkefni fyrir mann á borð við þig. Ég lofa auðvitað engu, en þessu ættirðu að velta fyrir þér.“ Ég var þrjátíu og sex ára og kominn á tindinn. Fram undan sá ég fyrirheitna landið, frá Gilead til Jeríkó og þaðan til Miðjarðarhafsins. Ég sá fyrir mér fallega tvíbytnu á þessu sama hafi, og við Lucy gætum siglt á henni um helgar með væntanlegum börnum okkar. Ég sá fyrir mér að spennan í bakinu mundi minnka þegar drægi úr vinnuálagi og lífið yrði viðráðanlegra. Ég sá fyrir mér að ég yrði loks sá eiginmaður sem ég hafði skuldbundið mig til að verða. Nokkrum vikum síðar fór ég að finna fyrir sárum verk í brjóstinu. Hafði ég rekið mig utan í eitthvað í vinnunni? 29


Kannski brotið rifbein? Ég vaknaði stundum á nóttunni á rennblautu laki, löðrandi í svita. Ég fór að léttast aftur, og nú örar en fyrr, úr 80 kílóum í 65 kíló. Svo var ég kominn með þrálátan hósta. Nú var nánast enginn vafi lengur. Það var síðdegis á laugardegi að við Lucy lágum í sólinni í Dolores Park í San Francisco og biðum þess að hitta systur hennar. Hún sá skjáinn á farsímanum mínum, þar sem birtust leitarniðurstöður úr gagnagrunni: „tíðni krabbameins í aldursflokknum þrjátíu til fjörutíu ára“. „Ha?“ sagði hún. „Ég gerði mér ekki grein fyrir því að þú hefðir áhyggjur af þessu.“ Ég svaraði engu. Ég vissi ekki hvað ég ætti að segja. „Viltu ræða þetta við mig?“ spurði hún. Hún var miður sín vegna þess að hún hafði líka haft áhyggjur af þessu. Hún var miður sín vegna þess að ég ræddi þetta ekki við hana. Hún var miður sín vegna þess að ég hafði heitið henni tilteknu lífi og veitt henni annað. „Viltu gjöra svo vel að segja mér hvers vegna þú trúir mér ekki fyrir þessu?“ spurði hún. Ég slökkti á símanum. „Fáum okkur ís,“ sagði ég.

30


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.