Bónusstelpan - skáldsaga

Page 1


Hún var vön að setja híbýli sín á þjóðbraut þvera og stóðu þar jafnan borð og matur á handa hverjum er hafa vildi. Sjálf sat hún á stóli fyrir framan bæinn og laðaði inn gestina. Hið sama gerði hún þegar hún kom út til Íslands. Fátt þótti henni betra en hús fullt af gestum. Henni gekk líka merkilega vel að fá þá til að gjalda greiðann. Hennar bestu gestir færðu henni búfénað á vorin og þannig efnaðist hún nóg til að geta haldið áfram að veita gestum og gangandi. Aðrir voru í fæði án þess að gjalda neitt á móti en engan krafði hún um greiðslu, hvorki ríkan né fátækan. Þetta þótti henni vera líf. Móðir mín unni öllu fólki. Einnig mér en ekki öðrum fremur. Samt held ég að hún hafi verið góð við mig þó að ég muni það ekki vel. Í hvert sinn sem ég heyri barnsgrát hugsa ég til bernsku minnar. Börnin gráta af því að þau hafa ekki ennþá lært að öllum er sama þótt þau gráti. Móðir mín skildi heiminn betur en flestir. Aðeins í einu brást henni bogalistin og það var þegar hún átti að velja sér eiginmenn. Faðir minn var ódráttur sem hét Björn Bölverksson. Faðir hans hét Bölverkur blindingatrjóna, að sögn kallaður svo vegna þess að hann neytti þess bragðs í orustu að blinda andstæðinga sína með því að reka nefið á hjálmi sínum í augu þeirra. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti; kannski laug ódrátturinn faðir minn þessu öllu. Ég hitti aldrei þennan Bölverk; hann var í víking þegar ég var barn og féll að lokum þar. Sagt er að þeir víkingar sem felldu hann hafi hengt illa leikið líkið í rána og siglt með það hangandi yfir sér mánuðum saman til að hræða andstæðinga sína. Mér var eitt sinn sagt að höfuðið héngi 52


enn á vegg á Hálogalandi. Þannig átti að egna mig norður að hefna hans en þá var móðir mín flutt til Íslands svo að ég skeytti þessu í engu. Hvað varðaði mig um það hvar hausinn á þessu gerpi væri niður kominn? Sjálfur þóttist ódrátturinn faðir minn vera víkingur eins og faðir hans. Aldrei fór hann þó í víking heldur ferðaðist milli kaupstaða dulbúinn sem gerskur maður og seldi þræla sem hann hafði unnið af öðrum kaupmönnum í hneftafli. Aldrei lærðu Arnkell og Geirríður að meta föður sinn. Þó var ég mun betri og blíðari faðir en ég átti sjálfur. Hann kom síðan til okkar í fjörðinn á hverju hausti og lá þar uppi á móður minni eins og sveitarlimur, flæmdi burt góða gesti og sló okkur bæði. Ég forðaðist hann eftir megni enda reyndi hann að slæma hrömmunum í átt til mín í hvert sinn sem hann sá mig. Hann var stór maður og sterkur. Þó var hann mesti níðingur. Hjarta hans var eflaust blautt og feitt og bifaðist í brjóstholinu því að hann var huglaus sem kerlingarhró. Kannski gekk ég aftur vegna þess að ég hata hann ennþá. Jafnvel í gervi nauts get ég ekki annað en rekið upp heljarinnar baul þegar ég hugsa til hans. Eitt sinn dró hann niður um mig brækurnar og ætlaði að nauðga mér, syni sínum. Þá gólaði ég svo hátt að móðir mín kom hlaupandi og hann hrökk frá. Daginn eftir greip hann mig uppi í holtinu og barði mig sundur og saman þannig að ég var marblár svo vikum skipti. Í mörg ár dreymdi mig hann þrífa í mig og halda mér föstum. Ég vaknaði svo skelfdur að ég gat ekki æpt. Eftir það flúði hann í kaupskap í trausti þess að allt yrði fyrirgefið haustið eftir. Þá kom hann aftur og móðir mín tók honum opnum örmum. 53


Ég sagði ekkert. Það hlustaði enginn á kvartandi börn í þessum firði, fremur en annarstaðar. Sem betur fór veiktist hann eitt haustið. Þá hafði hann verið að dufla við konu á nágrannabæ og fór reglulega til hennar að lemja hana og son hennar líka. Ég man eftir augum stráksins þegar við mættumst einu sinni og hann leit þar son ófétisins sem spillti dögum hans. En eitt sinn skall á óveður og ódrátturinn varð næstum því úti milli bæja. Komst heim við illan leik og móðir mín reyndi sitt besta til að hjúkra honum. Hún var ekki mönnum sinnandi, svo föst var hún við beð hans. Fyrst eftir að hann var andaður taldi ég mér trú um að hún hefði aðeins þóst reyna að líkna honum en hefði í raun kælt hann á laun uns hann drapst. Ég trúði þessu í mörg ár en síðar rann sá barnaskapur af mér. Það var verst að ég náði ekki að sarga af honum hausinn þegar hann lá á börum andaður. Ég hefði getað sett þann ljóta haus við þjó hans. Eða haft hann á vegg heima í Hvammi löngu síðar. Þá hefði nú heimilisfólkinu verið skemmt. En ekki tók betra við. Ekki var ódrátturinn fyrr andaður en móðir mín tók saman við annan níðing sem hét Hallvarður og þóttist vera kaupmaður. Í raun var hann landeyða sem reyndi allt hvað hann gat að komast yfir fé hennar. Hann stal ýmsu frá henni og þegar hann var drukkinn barði hann okkur bæði. Ég var aðeins þrettán vetra þegar hann kom á heimilið og lítill eftir aldri. Alltaf blár og marinn eftir þessa menn sem móðir mín unni mest. Góðu heilli hrapaði Hallvarður fyrir björg í einni af þessum ímynduðu kaupferðum sínum haustið eftir 54


að hann kom fyrst til okkar. Sjálfsagt kófdrukkinn sem endranær. Ekki syrgði ég hann. Vorið eftir komu móðurbræður mínir í fjörðinn og buðu mér að fara með sér í víking. Þeir hétu Sigtryggur og Guttormur og klæddust kápum nýskornum af hinum dýrasta guðvef tvílitum en aðrar eins gersemar hafði ég aldrei snert fyrr. Guttormur var hár og grannur en Sigtryggur lágur og sver. Sigtryggur var hissa þegar hann hugðist klappa mér um herðarnar og ég hrökk frá. En Guttormur skildi hvernig í öllu lá og tók mig í fangið og sagði: Eigi er högg í hverjum hrammi, Þórólfur minn. Hann kallaði mjög sinn hvern þann er hann talaði við. Aldrei fyrr hafði fullorðinn maður rætt um áverka mína eins og þeir væru ekki mín sök. Móðir mín hafði aldrei minnst á það hvernig þeir væru komnir til. Ég þorði aldrei að halla orði á ódráttinn eða níðinginn Hallvarð nálægt henni því að hún átti til að fleygja fólki úr húsi fyrir það eitt að fara með hrakyrði um þá. Guttormur og Sigtryggur voru góðir menn. Ég var með þeim í víking í sjö vetur og aldrei lagði nokkur einasti maður á okkar skipi hendur á mig. Aðeins þeir bræður klöppuðu mér reglulega uns ég hætti að hrökkva undan. Ég var feginn að fara úr firðinum. Þá var ég ekki enn orðinn Bægifótur en mér þótti líf mitt lítils virði. Enda vissi ég ekki þá hvers virði æskan er; það skilur líklega enginn fyrr en það er um seinan.

55


∞ 4 ∞

Líf víkingsins er ekki fyrir skræfur eða geðlitla guma. Þeir eru harðsnúnir menn. Hins vegar hafa þeir kristnu logið ýmsu misjöfnu upp á víkinga. Vissulega saddi ég hrafnana á þessum árum. Við vorum bardagamenn og mannvíg voru liður í okkar starfi. En yfirleitt deyddum við aðeins fjóra eða fimm á sumri, það sló sjaldan í brýnu. Ekki man ég hversu margir þeir urðu að lokum, ég taldi þá ekki. Guttormi og Sigtryggi þótti engin virðing í að hafa vegið marga. Oftast rændum við smáþorp þegar vopnfærir menn voru víðs fjarri og þá drápum við fáa. Við stjaksettum jafnan einn eða tvo til að hræða hina til uppgjafar. Það skiptir miklu máli að líkin séu höfð til sýnis og séu hroðalega útleikin. Það skelfir heimamenn. Í víkingaferðum er mikilvægast að kunna að vekja ótta. Best er að hræða andstæðinginn til uppgjafar svo að bardagar séu óþarfir. Yfirleitt er að hægt að ná óttanum upp með því að brenna nokkur hús og drepa tvo eða þrjá heimamenn á hroðalegan hátt. Það þurfti ekki að deyða marga enda þótti okkur enginn akkur í mannvígum. Hins vegar reyndum við að drepa nokkra með sem mestum pínslum svo að fréttist um allan fjórðunginn. Þá gáfust næstu þorp ósjaldan upp baráttulaust. Stundum drápum við einstaka konur og börn; það var mikilvægt að enginn gæti talið sig óhultan og jafnvel þeir sem óttast ekki um eigið líf fallast á hvað sem er til þess að vernda konur sínar og börn. Örfáa menn þurfti að pynta til sagna um gull sem þeir höfðu falið. Yfirleitt létum við aðra í friði. En vitaskuld 56


fóru einhverjir á vergang þegar við brenndum þorp þeirra og rændum matnum. Okkur var alveg sama um kristna menn, munka og aðrar skæluskjóður Hvítakrists. Við lögðum alls ekki sömu fæð á þá og þeir á okkur; Guttormur sagði eitt sinn að sér væri nákvæmlega sama hvaða guð menn blótuðu, það væri silfrið þeirra sem hann girntist en ekki sálin. Síðan hló hann dátt. Munkarnir voru vitanlega auðvelt skotmark. Bæði vopnlausir og fégjarnir með afbrigðum þannig að hjá þeim var auðæfin að finna. Þessum auðæfum höfðu þeir sjálfir rænt frá fólkinu í kring en um það skrifa þeir fátt í tröllasögum sínum á látínu. Ég les ekki slíka bábilju en menn hafa sagt mér frá þessum lygisögum. Ekki kvörtuðum við raunar undan þeim. Þeim mun meira sem munkar lugu upp á okkur, þeim mun auðveldara var að ræna næstu þorp því að óttinn fór á undan okkur eins og eldur í sinu og vann hálfan sigurinn. Það þótti Guttormi og Sigtryggi harla gott. Þess vegna kom aldrei til greina að eyða heilu þorpi. Þvert á móti var mikilvægt að skilja fólk eftir lífs sem gat síðan breitt út óttann. Á Íslandi tíðkast að býsnast og barma sér yfir víkingum og láta sem þeir séu vondir menn og til vandræða í siðuðu mannfélagi. Mér þóttu þeir góðir félagar. Enginn sem var með mér í víking naut þess að drepa. Við gerðum það af nauðsyn en aldrei að óþörfu. Enginn berserkur var með í för; slík tröll þekkti ég aðeins af afspurn. Stundum hljópu menn þó í bardagaham og þá hlaut allt kvikt að forða sér. Það var þegar við mættum mótstöðu og við vopnaða andstæðinga var að eiga. Við níddumst aldrei á vopnlausum 57


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.