2
16 árum fyrir Daginn (júní 1995) Ég gróf fingurna inn í armbríkurnar og þrýsti mér eins fast aftur á bak og ég komst í sætinu þegar flugleið 4867 til Lissabon tók hressilega vinstri dýfu en þeyttist svo umsvifalaust til hægri. Þetta var ástæðan fyrir því að ég hataði að fljúga. Það var út af þessu sem ég hafði íhugað vel og vandlega hvort ég þyrfti í raun og veru að „komast burt“. Ég hafði hreint ekki verið viss um að þörfin fyrir pásu frá kvíðanum og streitunni heima væri nægilega mikil til að réttlæta þessar pínslir. Hvort það væri á sig leggjandi að vera læst inni í málmkassa og vita ekki hvort vélin myndi rétta sig af og svífa skýjum ofar eða hrapa lóðbeint niður til heljar á meðan ég öskraði, gréti og bæði til almættisins. Farðu til Portúgal, hafði ég sagt ákveðin við sjálfa mig. Bara tveggja tíma flug, hafði ég sagt, þetta verður allt í fína, bara eitt hundrað og tuttugu mínútur. Það getur því ekki orðið mjög slæmt. Þú nærð varla að horfa á eina bíómynd á þessum tíma. Þetta reddast, Saffron. Þetta verður allt í lagi. Þetta var allt annað en í lagi. Ég hélt dauðahaldi í armbrík á flugvélarsæti og reyndi að einbeita mér að núinu, neitaði að leyfa sjálfri mér að endurlifa alla ævi mína til þessa því gæti ég komið í veg fyrir það myndi allt hitt, öskrin og gráturinn og bænakvakið, svo ekki sé minnst á yfirvofandi bana, ekki heldur verða að veruleika. Maðurinn við hliðina á mér, sem var með krumluna pikk fasta í járngreipum kærustunnar sinnar, sneri sér að mér um leið og vélin hallaðist hressilega til annarrar hliðarinnar, og 13
rétti mér hægri höndina. „Þú mátt hanga í þessari, ef þú vilt,“ sagði hann. Ég leit af þessari stóru hendi, með ferkantaðar, vel snyrtar neglur, yfir á kærustuna. Græn augu hennar voru uppglennt og full af skelfingu, rautt, slétt hárið virtist hafa ýfst af tómri hræðslu, en henni tókst samt að kinka kolli til mín, eins og til að segja: „Svona, bjáninn þinn, taktu hana og kreistu nú þétt. Við sitjum öll í sömu súpunni.“ Vélin tók djúpa dýfu og við kærastan kreistum báðar aftur augun og æptum „æææææ“ í samhljóða kór. Ég þreif samstundis í höndina sem mér stóð til boða og hélt dauðahaldi í hana á meðan við nálguðumst Lissabon með vaggi og veltum. Ég hef enn einu sinni dottið niður kanínuholu og farið á tímaflakk, heimsótt einn af áfangastöðunum í fortíð okkar Joels, og nú er ég aftur komin til dagsins í dag og finn ógleð ina svella og ólga í maganum. Þegar ég stekk inn í minningabókina sem er helguð lífi okkar Joels fram að Deginum fylgir því oftast óvænt gleðivíma, smáskot sem gerir mér kleift að halda mínu striki í dagsins önn, en ekki í þetta skipti. Í þetta skipti heldur seiðpotturinn, sem er þar sem maginn í mér ætti að vera og er alltaf barmafullur af áhyggjum og kvíða, áfram að bulla og sjóða þar til út úr flóir, vegna þess að nú er ég orðin þannig móðir. Þannig móðir. Foreldri af því tagi sem maður les um í blöðunum þegar eitthvað hræðilegt kemur fyrir börnin þeirra og hristir hausinn yfir og hugsar Hvað var þetta fólk að spá? Ég veit að núna er ég slík móðir því nú sit ég hér með hendur í skauti og steinrunnin í framan og í huga mér velkjast hræðileg tíðindin sem þessi bláókunnugi maður var rétt í þessu að færa mér. Ég þoli ekki að vera óglatt. Ég þoli ekki að vera óglatt, það er miklu ógeðslegra en að kasta upp því þegar maður er búinn að æla hefur maður þó að minnsta kosti losað sig við allt, nema auðvitað eymslin í 14
rifbeinunum og sviðann í vélindanu; þá er þetta afstaðið, farið. Ógleðin býr um sig innst inni í manni, hún kraumar hægt en örugglega, hún blandast og hrærist, hrærist og bland ast, smátt og smátt, og verður þéttari og megnari með hverri mínútunni. Núna er mér óglatt. Dóttir mín, sem enn er í skólabúningnum sínum, sem ég þarf að fara með í bæinn til að kaupa á hana skó, sem er enn með tuskubangsa á rúminu sínu, er ólétt. „Ætlar þú að segja eitthvað, Phoebe?“ spyr ég dóttur mína og sný mér á stólnum í áttina að henni. Grannvaxinn fjórtán ára líkami hennar, sem vísar hálfur frá mér, kiprar sig svolítið saman – það er eins og vöðvarnir herpist ósjálfrátt – þegar hún heyrir röddina í mér, en hún hreyfir hvorki legg né lið og virðist ætla að láta eins og hún sjái mig ekki. „Phoebe?“ Ég segi nafnið hennar blíðlega, varfærnislega. Ekkert. Dóttir mín sýnir engin viðbrögð. Ég beini sjónum mínum aftur að karlmönnunum fyrir framan mig og sérstaklega að þeim yngri, þessum myndarlega. Hinum eina sanna hr. Bromsgrove. Af hverju kaus hún að segja honum þetta? Af öllum mönnum í heiminum, í þessari borg, í þessum skóla, af hverju valdi hún hann? Hann er ungur, en enginn unglingur, reyndar er hann sennilega á aldur við mig. Hann er að minnsta kosti alveg nógu gamall til að vera pabbi hennar. Hann er með pottþétta stælklippingu, andlitsdrættirnir eru sterklegir – þetta er maður sem virðist ekki taka hvaða kjaftæði sem er umyrðalaust, en lítur um leið út fyrir að geta verið bæði skilningsríkur og góður í næstu andrá. Hann er grannur, næstum horaður, og klæddur í aðsniðna, hvíta skyrtu, dökkbláan jakkafatajakka og ljós brúnar kakíbuxur. Augun, eða það sem af þeim sést fyrir innan gylltu málmspangagleraugun, eru í sama dökka hnotu 15
brúna litnum og hörundið, og þau virðast góðleg. Þetta er í fyrsta sinn sem ég virði hann almennilega fyrir mér, tek eftir honum, og núna skil ég hvað konurnar á skólalóðinni hafa verið að pískra um. Af hverju þær eru svona skotnar í hon um. Af hverju ég myndi vera skotin í honum ef ég væri unglingur. Ætli dóttir mín sé það? Er það þess vegna sem hún leitaði til hans fyrst? Hélt hún að það yrði til að mynda tengsl á milli þeirra? Eða er það út af einhverju öðru og miklu verra, hefur hann kannski eitthvað með þetta ástand að gera? Ég lít á yfirkennarann. Hvernig gastu látið þetta gerast? langar mig að spyrja hann. Þegar hún er ekki heima er hún hérna, í skólanum, svo þessi ósköp hljóta að hafa átt sér stað hér, á skólatíma. Ég grandskoða Hinn eina sanna Bromsgrove einu sinni enn. Hefur hún kannski nefnt hann óþægilega oft á nafn heima fyrir? Hef ég rekið augun í eitthvað sem nafnið hans er krotað á þegar ég hef skotist inn til hennar til að tékka á tölvunni hennar? Ég gref djúpt í minnið, reyni að muna hvort þar leynist einhver svipmynd þar sem þessum manni, þessum hugsanlega barnsföður dóttur minnar, kynni að hafa brugðið fyrir. Ekkert. Mér kemur ekkert í hug, engar bjöllur hringja. Það vottar ekki einu sinni fyrir grun um að eitthvað óviðeigandi hafi átt sér stað á milli þeirra. Þetta gæti hafa gerst hvar sem er, árétta ég við sjálfa mig. Og með hverjum sem er, því þú veist ekki nákvæmlega hvað Phoebe er að bauka þær stundir sem líða á milli þess að hún yfirgefur skólalóðina og gengur inn í húsið okkar heima. Heima er hún alltaf að læra, senda SMS eða hanga á Facebook og Twitter og öllu þessu dóti sem ég hef aldrei almennilega nennt að skoða. Hún er heima og þess vegna hef ég alltaf haldið að hún væri örugg. Allt þetta ljóta og vonda gerist „úti“. Á meðan hún heldur sig þar sem ég sé til hennar hlýtur hún að vera örugg. 16
„Phoebe neitar að segja okkur hver faðirinn er,“ segir Hinn eini sanni. Út undan mér sé ég að höfuðið á henni hreyfist örlítið og hún lítur á hann. Er hún fúl eða reið við hann fyrir að vera að segja mér þetta, eða er hún furðu lostin yfir því að hann, sem er á einhvern hátt viðriðinn málið, skuli segja þetta? Það veit ég ekki fyrir víst því hún felur andlitið fyrir mér. „Frú Mackleroy, ég veit ekki alveg hvað þú vilt gera á þessari stundu …“ Yfirkennarinn lætur vera að botna setning una og virðist ætla að láta mig um það. „Ætlarðu að segja félagsmálayfirvöldum frá þessu?“ segi ég til að stoppa í gatið. Yfirkennarinn gýtur augunum til herra Bromsgrove og ég velti því fyrir mér hvort þeir heyri Phoebe grípa andann ofurlágt á lofti. Eða vita þeir nú þegar að við mæðgurnar erum löngu komnar inn á radarinn hjá féló og að uppljóstrun á borð við þessa myndi hrinda öllu ferlinu af stað á nýjan leik? Bromsgrove starir á yfirkennarann, svo á Phoebe, svo aftur á yfirkennarann. Hann hleypur yfir mig í þessu allsherjar stöðumati og raunar hefur hann forðast að horfa beint á mig síðan ég kom inn í herbergið. Ég sá að hann tók snögga yfirferð þegar ég kom inn en eftir það hefur áhugaleysi hans á mér verið sláandi. Þetta er allt í lagi, dauðlangar mig að segja, ég veit að ég er óhæf móðir, þú þarft ekki að forðast að líta á mig ef ske kynni að þú gætir ekki leynt fyrirlitningunni. Ég fyrirlít sjálfa mig alveg nóg fyrir okkur bæði. Nú beinir yfirkennarinn athyglinni loks aftur að mér. „Ég held að við ættum að spila það eftir eyranu í bili, finnst þér það ekki? Okkur finnst að þú ættir að ræða við Phoebe, svo að þið áttið ykkur á því hvað þið viljið gera í málinu, og svo höldum við annan fund þar sem við getum rætt valkostina.“ Andlitið á honum er að verða rauðglóandi. „Ég á við valkost17
ina sem skólinn býður upp á, með hliðsjón af skólagöngu Phoebe, auðvitað, hu-humm!“ Hann fer að stafla pappírun um sínum í ofboði. Seiðpotturinn í iðrunum á mér herðir á sér. Blandast og hrærist.
18