1. kafli
Hverskonar bók? Tímanum er hægt að þjappa saman eins og fiðri. Hann getur líka þanið sig eins og frek harmonika sem aldrei fær nóg af lofti. Geirfuglarnir (11)
Þrítugasti og fyrsti mars árið 2011. Ég vaknaði snemma í morgun við það að þessari hugsun sló niður í höfuðið: Ég byrja í dag að skrifa ævisögu mína. Ekki í tveim stórum bindum. Heldur þétta og sem stysta sögu um þá gæfu í bland við trega að hafa lifað í fögrum og þó grimmum heimi og hafa séð margar borgir og þekkt menn sem í þeim bjuggu og kynnst bókum og list, fagnað ást og vináttu og átt mér von um að munur sé að mannsliði við þá þörfu iðju að hnika veröldinni til. Fyrsti apríl er ekki fyrr en á morgun svo ég er hvorki að gabba sjálfan mig né aðra. Ég hefi skrifað eina og hálfa bók um sjálfan mig áður: heila bók um námsár mín í Moskvu (Miðvikudagar í Moskvu 1979) og hálfa bók á móti konu minni Lenu (Blátt og rautt 1986) – en þar segir hvort um sig frá bernsku- og uppvaxtarárum í tveim ólíkum heimum, þeim íslenska og þeim sovétrússneska. Í Listin að lesa (2006) segi ég, áður en þeirri bók lýkur, mína eigin sögu sem bókaorms og lestrarhests og í Glíman við Guð (2008) greini ég meðal annars frá eigin glímu við eilífðar málin. Síst mundi ég neita því að margt úr eigin ævi laumar sér líka inn í skáldsögur mínar fjórar og tvær barnabækur. Ég skrifaði á þrjátíu árum þúsund og eina grein í Þjóðviljann og þær segja einnig mína sögu ~7~
Eitt á ég samt
eins og allt sem ég hefi gert, hugsað og vanrækt. Er þá ekki meira en nóg komið af sjálfum þér? gæti ég spurt. Hvað heldurðu að þú sért? Rússnesk skáldkona, Nína Berberova, segir í ævisögu sinni: „Ég hefi skrifað 600 síður um sjálfa mig og nú gæti ég byrjað upp á nýtt og skrifað allt aðra bók jafnlanga um sama efni.“ Auðvitað er þetta rétt: alltaf er margt ósagt. En ekki þýðir að bregðast við því með því að gera vonlausa tilraun til að safna öllu saman sem hægt er að forða frá gleymsku. Marcel Proust leitaði að liðnum tíma af ótrúlegu kappi og smámunasemi og í hans föt fer enginn. Samt þekkjum við vel freistingar hégómleikans: þær verða til þess að sá sem gerst hefur rithöfundur kann sér ekki hóf. Hann lætur einatt sem hann sé enn einn Johann Wolfgang von Goethe eða Halldór Laxness og gerir ráð fyrir því að ótal gestir úr framtíðinni muni vilja heimsækja hans minningahús og rýna í hvert snifsi sem hann lét eftir sig. Hann heldur að menn nenni að velta við hverjum steini til þess að rekja saman skáldskap og sannleika, til dæmis þá Lottu sem Goethe sjálfur þekkti og Lottu sem Werther ungi í fyrstu metsöluskáldsögu Evrópu unni svo heitt að hann gat ekki lifað. Eða þá til að finna Erlend í Unuhúsi bæði í Organistanum í Atómstöðinni og Jóni í Brauðhúsum. En fyrir utan feimnismál eins og vonir rithöfunda um að eiga forvitni annarra vísa í óvissri framtíð þá erum við öll dæmd til að þola miklar sveiflur frá því að allt skipti máli til þess að ekkert skipti máli. Allt skiptir máli fyrir okkur sjálf því hvert okkar er heill heimur. Ekkert skiptir máli því við erum óendanlega smá og dæmd til að falla í gleymsku og dá. Nóbelsskáldið Josif Brodskij segir í kvæði um sína „löngu ævi“ – og er þá aðeins rúmlega fertugur: Þeir sem nú hafa gleymt mér gætu fyllt heila borg …
Og ég veit ofurvel að svo lengi sem þessi bók verður í smíðum mun ég hrekjast á milli andstæðna. Minnið segir: án mín ert þú ekki til, þú ert það sem þú manst. Þú rifjar upp menn og staði og orð og það er hin góða barátta við gleymskuna. Satt er það: mér stendur stuggur af gleymskunni, hún er djúpt og svart vatn sem drekkir mér þegjandi. Ef til vill er Paradís hvers og eins þessi: þar finnur þú allt sem þú vildir ~ 8 ~
Hverskonar bók?
ekki gleyma. En ég man það líka að frá öðru sjónarhorni er gleymskan góður kostur. Í sögum Hassída, dulhyggju-Gyðinga sem svo nefnast, er gleymskan beinlínis guðs gjöf. Rabbí Barúkh frá Medzhibozh rifjar upp þá sögn, að rétt áður en barn fæðist danglar verndarengill þess í höfuð barnsins til að það missi meðfæddan hæfileika sinn til að muna alla hluti. „Þetta er,“ sagði hann, „gert vegna þess að sá sem ekki getur gleymt vissum hlutum getur ekki lifað sem maður meðal manna. Ef hann man allar stundir sem líða og dauðann sem nálgast gæti hann hvorki plægt sinn akur né reist hús yfir sig og börn sín.“ Ég vil ekki að þessar andstæður slíti mig í sundur. Hvorki vil ég bæta kynstrum öllum við minningasjóðinn né hafna því sem þangað leitar. Skást er að skoða allt sem þar er saman komið í von um að finna í hverfulli óreiðu samhengi og merkingu. Það er meir en erfiður starfi. Hvernig skef ég allan óþarfa burt af blaðsíðunum, hvernig fæ ég styrk til að virða í verki þann aga sem skilur kjarna máls einan eftir? Skáldið William Blake vildi sjá heilan heim í einu sandkorni – en hvaða sandkorni? Hvaðan kemur mér vit til að gera upp á milli þeirra sandkorna sem yfir mig hafa fokið og ganga svo vel frá að þau renni ekki saman í rykmökk sem engum tíðindum sætir? Svo er annað: við völdum því ekki að vera hreinskilin. Við getum gert gys að okkur sjálfum eins og Þórbergur Þórðarson gerir oft. En það er góðlátlegt gys þegar að er gáð, kannski lúmsk aðferð til að vekja samúð lesandans og upphefja sjálfan sig. Hreinskilni er ekki möguleg, sagði Tolstoj gamli, ekki heldur í dagbókum. Það er alltaf einhver ósýnilegur lesari að gægjast yfir öxlina á manni. Þó hélt Tolstoj fleiri en eina dagbók, eina sem konan hans mátti sjá og aðra sem hann faldi fyrir henni. En vitanlega fann hún þá dagbók líka – í stígvéli karlsins. Ég rakst á samtal nokkurra merkra rithöfunda frá árinu 1972 um þetta efni, en þeir héldu allir dagbækur. Einn þeirra var Elias Canetti, síðar Nóbelsskáld. Hann lofaði dagbókina því hún tæki við jafnvel hræðilegustu hlutum um okkur sjálf sem engum væri trúandi fyrir og gæfi kost á því að rifja einnig þá upp síðar. En hann bætti við: „Ég get alls ekki haldið dagbók nema hún sé fullkomið leyndarmál og þess vegna nota ég leyniletur.“ Samt játar hann nokkru síðar í samtalinu á sig tvískinnung: hann verði að reikna með því að síðar meir gæti einhver ráðið leyniletrið og dagbókin komi þá fyrir almennings sjónir. „Reyndar get ~ 9 ~
Eitt á ég samt
ég ekki haldið áfram að halda dagbók,“ sagði Canetti, „nema vegna þess að ég óttast þennan möguleika.“ Ég vil og vil ekki segja allt. Er þá ekki auðveldara að vera grimmur við aðra en sjálfan sig? Nei. Sumir deila minningum með mér sem ég á ekki einn rétt á. Ég verð að sýna þeim tillitssemi. Svo eru það allir hinir, þeir fjarlægu. Er ekki freistandi að tæta þá í sig með sannri heift, horfa reiður um öxl? Hvað verður ef ég hleypi í mig fólsku og hrópa hátt: illt er það allt og bölvað, mannkindin svikul og lítilfjörleg, fjandmenn í hverju fleti, saga okkar heimskuleg skrýtla, kerfið óþolandi, skipulagið djöfullegt? Því ekki að taka mið af Jeremíasartölum manna eins og þess fúllynda og stórmerka austurríska rithöfundar Thomasar Bernhard sem spýr beisku galli yfir landa sína og samtíð alla af ótrúlegri þrákelkni? En ég sé fljótt að það gæti ég ekki. Ég er of glaður til þess. Ég er ekki beiskur og reiður gamall maður og verð það varla úr þessu. Ég vísa vonandi ekki frá mér ógnum og skelfingum, hvorki fjær né nær. Ekki heldur því hve brothætt líf manns á mínum aldri hlýtur að vera. En ég er þakklátur. Mér finnst ég hafa verið undarlega heppinn og allt að því ofverndaður á þessum sjötíu og sex árum sem ég hefi lifað. Raunir mínar svo smáar að það er blygðunarefni að minnast á þær. Síst við hæfi að kvarta. En ég skyrpi þrisvar um leið og ég set þessi orð á blað, það er hjátrúarsiður sem tengdamóðir mín kenndi mér og er ætlað að bægja burt óláni sem hver sá kallar á sem hrósar sér af velgengni. Baudelaire skáld bað um styrk og hugrekki til að skoða sjálfan sig, „hjarta mitt og sál“ án viðbjóðs. Mér dettur ekki í hug að stíga í fótspor hans. Ég bið um styrk og þolinmæði til að skoða sjálfan mig án skammarlegrar sjálfumgleði og til að setja mig í spor samferðarmanna. Um leið bið ég um glaðværð sem nægi til þess að ég verði ekki öðrum til leiðinda. Er hvað á barnið að heita? Ef til vill „Til vinstri þar sem hjartað slær“? Ég setti þessi orð einu sinni á útsíðu Þjóðviljans sem einskonar stefnuyfirlýsingu og fór ekki illa á því. En þegar að er gáð hæfir þessi titill varla bókinni sem nú vill verða til, það verður svo margt annað í henni en tvískipting í vinstri og hægri, eða þrískipting ef við höfum miðjuna með. Hitt er þó kannski ~ 10 ~
Hverskonar bók?
lakara að titlinum er stolið frá ágætum þýskum rithöfundi, Leonard Frank, sem lengi var á flótta undan þjóðrembumönnum í sínu landi sem ekki kunnu við vinstrisinnaða friðarhyggju hans í skáldsögum sem hann skrifaði og gaf út á árunum milli stríða. En Frank lauk svo ritferli sínum með því að gefa árið 1952 út sjálfsævisögulega skáldsögu sem hann kallaði Links wo das Herz ist. Svo gæti ég látið kverið heita „Sjálfskipaður menningarviti“. Vegna þess að ég var einn þeirra sem svo voru kallaðir og þótti ekki beinlínis sómi að. Slíkt bókarheiti gæti gefið til kynna að ég væri tilbúinn til að beita sjálfan mig háði ef aðstæður vildu svo vera láta. En samt líst mér ekki vel á svo klúðurslega nafngift. Þessu næst fer ég að fletta ljóðakverum og sé að mörg bestu stef þjóðkvæða og danskvæða er búið að nota sem bókatitla. Blítt lætur veröldin. Man ég þig löngum. Og margt úr kvæðum Jónasar Hallgrímssonar hefur líka verið notað til að draga athygli að bókum. Fýkur yfir hæðir. Hrímhvíta móðir. Samt er það tvennt sem freistar mín úr kvæðum hans á þessari stundu. Annarsvegar þessi orð úr eftirminnilegri sonnettu sem Jónas yrkir um áramótin 1845: „Eitt á ég samt“. Skáldið hefur kvartað yfir því að „tíminn vill ei tengja sig við mig“ og heldur áfram: Eitt á eg samt, og annast vil eg þig, hugur mín sjálfs í hjarta þoli vörðu, er himin sér, og unir lágri jörðu, og þykir ekki þokan voðalig.
Það er einhver tilveruþrjóska í þessum orðum sem gott er að verða hluti af: ég vil annast hug mín sjálfs – sem ann þessu lífi hve smátt sem það getur sýnst og villugjarnt um daga þess, líka vegna þess að hugurinn sér um leið himin, hann sér ofar, utar, lengra, út fyrir. Kannski væri slíkur titill um leið yfirlýsing um það að sá sem yrkir eða skrifar og rifjar upp vill ekki láta undan þeirri freistingu að skella allri skuld á „tímann“ – eða heiminn, eða þjóðfélagsástandið, eða „aðra“ ef eitthvað á bjátar. Hann á sér alltaf þá uppsprettu í sjálfum sér sem hann getur sótt til og kostað hugann að herða. Eða eins og Jónas segir á öðrum stað: „Einstaklingur, vertu nú hraustur!“ ~ 11 ~
Eitt á ég samt
Það mætti líka taka þrjú orð úr Ferðalokum eftir Jónas sem ein og sér gefa frá sér hógværan hljóm: „Öll yfir æviskeið“. Sem bókartitill segja þau ekki annað en það sem satt er: ég reyni að fylgja sjálfum mér yfir öll æviskeið en ekki aðeins þau fyrstu sem mest freisting verður hverjum manni að rifja upp. Um leið man lesandinn vonandi samhengið: þessi orð eru úr ástarkvæði, Jónas minnist þeirrar tilfinningar að hann gæti „blómknapp“ borið og varið öll yfir æviskeið. Með öðrum orðum: stúlkuna sem hann varð samferða fyrir margt löngu og vill halda að hann hafi elskað allar götur síðan. Og lesandinn verður kannski forvitinn: hver er sá „blómknappur“, hver eru þau djásn og dýrmæti sem minningasafnarinn reynir að taka með sér yfir öll sín ár og daga? Ég veit ekki. Má vera að eitthvað allt annað leiti á hugann þegar á líður? Því að skrifa er alltaf að reyna sig við galdur hins ófyrirsegjanlega. Ég talaði við Olgu dóttur mína og spurði hana um áform mitt og hún svaraði: „Nú set ég mig í kennarasess og segi við þig: Hugsaðu ekki um það hver verði niðurstaðan af þessum ásetningi, hugsaðu um ferlið sjálft.“ Vel mælt hjá Olgu. Ég er á leiðinni, alltaf á leiðinni, segir í slagaran um. „Vegurinn er alltaf betri en kráin,“ sagði Don Quijote. „El camino es siempre mejor que la posada.“ Einhversstaðar rakst ég á þessa setningu þegar ég var skólastrákur og safnaði merkilegum ívitnunum til að slá um mig með og áttu þær helst að vera á tungumálum sem ég ekki kunni. Vegurinn er alltaf betri … það er betra að vera á leiðinni en komast í áfangastað. Nú fer ég að ráðum dóttur minnar og geri þetta að einkunnarorðum þeirrar vinnu sem byrjar í dag.
~ 12 ~