1
Þ
egar ég er spurð að því við hvað ég starfi – t.d. spyrja leigubílstjórar eða tannfræðingar að því – segist ég vinna á skrifstofu. Á tæpum níu árum hefur enginn spurt nánar um skrifstofuna eða hvað ég geri þar. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að ég smellpassa við þær hugmyndir sem viðkomandi gerir sér um það hvernig skrifstofustúlka líti út, eða hvort það er vegna þess að þegar fólk heyrir orðin vinna á skrifstofu fyllir það ósjálfrátt upp í eyðurnar: þetta er kona sem ljósritar, maður sem potar í lyklaborð. Ekki kvarta ég. Mér finnst dásamlegt að þurfa ekki að fara út í flækjustig fjárhagsbókhalds við þetta fólk. Þegar ég hóf hér störf sagðist ég alltaf vinna hjá hönnunarfyrirtæki þegar einhver spurði mig, en þá gerði fólk ráð fyrir því að ég væri skapandi persóna. Það var leiðigjarnt að sjá velþóknunina hverfa af andlitinu á því þegar ég útskýrði að ég væri bara á kontórnum, að ég fengi ekki að nota fína filtpenna eða spennandi myndvinnsluforrit. Ég er tæplega þrítug og ég er búin að vinna hérna frá því að ég var tuttugu og eins árs gömul. Bob, eigandinn, réð mig skömmu eftir að skrifstofan var opnuð. Líklega hefur hann kennt í brjósti um mig. Ég var með háskólapróf í klassískum fræðum og nánast enga starfsreynslu. Ég mætti í starfsviðtalið með glóðarauga, það vantaði í mig nokkrar tennur og ég var handleggsbrotin. Líklega hefur hann fund9
ið það á sér að ég mundi aldrei stefna á neitt háleitara en illa launað skrifstofustarf, að ég gæti gert mér að góðu að vinna hjá fyrirtækinu til langs tíma og sparað honum það ómak að auglýsa eftir starfsmanni til að taka við af mér. Kannski sá hann það líka að ég þyrfti aldrei að taka mér frí til að fara í brúðkaupsferð eða fæðingarorlof. Ég veit það ekki. Á skrifstofunni ríkir greinileg stéttaskipting. Þeir sem eru skapandi eru eins og kvikmyndastjörnur, við hin erum bara aukaleikarar. Maður sér á augabragði í hvorn flokkinn við föllum. Satt að segja er þetta launatengt. Starfsfólkið á kontórnum fær skítakaup og við höfum ekki efni á flottum klippingum og nördagleraugum. Föt, tónlist, græjur – þótt hönnuðirnir þykist allir vera frjálsir og frumlegir í hugsun klæðast þeir alltaf einkennisfötum. Í raun hef ég engan áhuga á grafískri hönnun. Ég gæti verið að útbúa reikninga fyrir hverju sem er. Þetta gæti verið vopnaútflutningur eða sala á smjörsýru eða kókoshnetum. Frá mánudegi til föstudags mæti ég klukkan hálfníu. Ég tek klukkutíma í mat. Áður kom ég með samlokur að heiman, en heima skemmdist maturinn alltaf áður en ég gat klárað allt, og nú kaupi ég mér snarl í aðalgötunni. Svo geri ég mér alltaf ferð í Marks og Spencer á föstudögum, og þar með lýkur vinnuvikunni. Ég sest inni á matstofu starfsfólksins með samlokuna og les dagblaðið spjaldanna á milli, svo klára ég krossgátuna. Ég vel Daily Telegraph, ekki vegna þess að ég sé hrifin af blaðinu, heldur vegna þess að þar er besta krossgátan með torráðnum skýringum. Ég tala ekki við neinn. Þegar ég er búin að kaupa mér hádegistilboð, lesa blaðið og leysa báðar krossgáturnar er matartíminn nánast 10
búinn. Ég sest aftur við skrifborðið og vinn til hálfsex. Ég er hálftíma að fara heim með strætó. Ég elda kvöldmat og borða hann og fylgist með þættinum Archers á meðan. Yfirleitt fæ ég mér pasta með pestói og salat – einn pottur, einn diskur. Æska mín einkenndist af matrænum mótsögnum og ég hef bæði snætt fjörutínda hörpuskel og þorsk í suðupoka um dagana. Eftir ítarlega umhugsun um pólitískar og félagslegar hliðar borðhaldsins hef ég komist að því að ég hef alls engan áhuga á mat. Helst vil ég hafa fæðið ódýrt, einfalt, nærtækt og fljótlegt, en einnig þarf það að innihalda þau næringarefni sem þarf til þess að halda manni á lífi. Þegar ég er búin að þvo upp les ég bók, stundum horfi ég á sjónvarp ef eitthvað er í því sem mælt er með í blaðinu þann daginn. Mamma hefur samband á miðvikudagskvöldum og við tölum yfirleitt (tja, alltaf) saman í tíu mínútur eða svo. Ég fer í háttinn um tíuleytið, les í hálftíma og slekk ljósið. Ég á yfirleitt ekki í vandræðum með svefn. Á föstudögum fer ég ekki beint heim með strætó, heldur fer ég á Tesco Metro rétt hjá vinnunni og kaupi mér pitsu margaríta, Chianti-vín og tvær stórar flöskur af Glen’s vodka. Þegar heim kemur borða ég pitsuna og drekk vínið. Svo fæ ég mér vodka. Ég þarf ekki mikið á föstudegi, bara nokkra gúlsopa. Yfirleitt vakna ég í sófanum um þrjúleytið og staulast upp í rúm. Ég drekk það sem eftir er af vodkanu yfir helgina og læt það endast báða dagana, þannig að ég er hvorki drukkin né edrú. Mánudagurinn er lengi á leiðinni. Síminn hringir ekki oft – ég hrekk við þegar hann hringir – og yfirleitt er það einhver að spyrja hvort mér hafi verið seld röng greiðslutrygging. Ég hvísla bara Ég veit hvar þú býrð 11
og legg svo ofurvarlega á. Enginn hefur heimsótt mig á þessu ári nema þjónustuaðilar. Ég hef ekki boðið neinum inn fyrir þennan þröskuld nema til að lesa af mælinum. Það er með ólíkindum, ekki satt? Þó er þetta staðreynd. Ég er nú einu sinni til. Stundum finnst mér ég ekki vera hér, eins og ég sé bara eigin ímyndun. Suma daga er ég svo laustengd við jörðina að þræðirnir sem festa mig við reikistjörnuna eru ofurþunnir, eins og sykurfrauð. Sterk vindhviða gæti feykt mér burt, ég mundi takast á loft og fjúka út í buskann eins og biðukollufræ. Þræðirnir styrkjast þó örlítið frá mánudegi til föstudags. Fólk hringir á kontórinn til þess að semja um greiðslufrest og ég fæ tölvupóst um samninga og áætlanir. Starfsfólkið sem ég deili með skrifstofu – Janey, Loretta, Bernadette og Billy – tæki eftir því ef ég mætti ekki. Eftir nokkra daga (ég hef oft velt því fyrir mér hversu marga) færu þau að hafa áhyggjur af því að ég hefði ekki tilkynnt um veikindi. Það væri svo ólíkt mér. Svo mundu þau grafa upp heimilisfangið mitt í starfsmannabókhaldinu. Líklega mundu þau hringja í lögregluna, eða hvað? Brjóta lögreglumennirnir upp útihurðina? Koma þeir að mér, halda fyrir vit sér og kúgast vegna fýlunnar? Þá hefðu þau eitthvað um að tala á skrifstofunni. Þau þola mig ekki, en þau vilja mig ekki feiga. Það held ég að minnsta kosti ekki. Ég fór til læknis í gær. Það er eins og síðan sé liðin heil eilífð. Í þetta sinn lenti ég á unga lækninum, þessum fölleita með rauða hárið, og ég var ánægð með það. Því yngri sem þeir eru, þeim mun ferskari er starfsmenntunin, og það hlýtur að vera af hinu góða. Ég þoli ekki að lenda á henni gömlu Wilson lækni, hún er um sextugt og ég get ekki ímyndað 12
mér að hún kunni skil á nýjustu lyfjum og læknisfræðilegum uppgötvunum. Hún rétt ræður við tölvuna. Læknirinn beitti þeirri aðferð að tala við mig án þess að líta á mig, lesa um mig á skjánum og berja á lyklinum af síauknum krafti þegar hann skrunaði niður eftir skjalinu. „Hvað get ég gert fyrir þig í dag, ungfrú Oliphant?“ „Ég er með bakverk,“ sagði ég. „Alveg að drepast.“ Enn leit hann ekki á mig. „Hvað hefur hann staðið lengi?“ spurði hann. „Í tvær, þrjár vikur,“ sagði ég. Hann kinkaði kolli. „Ég tel mig vita hvað veldur honum,“ sagði ég, „en ég vildi leita álits hjá þér.“ Hann hætti að lesa og leit loksins á mig. „Hverja telurðu orsökina vera, ungfrú Oliphant?“ „Ég held að það séu brjóstin, læknir,“ sagði ég. „Brjóstin?“ „Já,“ sagði ég. „Sjáðu til, ég vigtaði þau,“ sagði ég „og þau eru rúm þrjú kíló – sko, samanlagt, ekki hvort um sig!“ Ég hló. Hann starði á mig og hló ekki. „Það er heilmikill þungi sem maður þarf að burðast með, ekki satt?“ sagði ég. „Sko, ef ég mundi festa þrjú kíló af holdi til viðbótar á bringuna á þér og neyða þig til þess að burðast með þau allan daginn, þá fengirðu nú sennilega í bakið líka, ekki satt?“ Hann starði á mig og svo ræskti hann sig. „Hvernig ... hvernig gastu ...?“ „Með eldhúsvigt,“ sagði ég og kinkaði kolli. „Eiginlega með því að setja annað þeirra á hana. Ég vigtaði þau ekki bæði, ég gerði bara ráð fyrir því að þau væru nokkurn veginn jafnþung. Að vísu var það ekki mjög vísindalegt, en ... “ 13
„Ég læt þig þá fá lyfseðil fyrir fleiri verkjalyfjum, ungfrú Oliphant,“ flýtti hann sér að segja og fór að vélrita. „Hafðu þau sterk í þetta sinn,“ sagði ég ákveðin, „og nóg af þeim.“ Þau höfðu áður reynt að afgreiða mig með örlitlum skömmtum af aspiríni. Ég þurfti að bæta kröftugum lyfjum á lagerinn hjá mér. „Get ég líka fengið endurnýjaðan lyfseðil fyrir exemlyfinu? Það tekur sig alltaf upp við streitu eða spennu.“ Hann virti þessa kurteislegu fyrirspurn ekki svars og lét nægja að kinka kolli. Við þögðum bæði meðan prentarinn spýtti út úr sér blöðunum, sem hann síðan rétti mér. Hann leit aftur á skjáinn og fór að skrifa. Þögnin varð vandræðaleg. Félagslegri færni hans var mjög ábótavant, sérstaklega miðað við þetta starf sem fólst í samskiptum við annað fólk. „Vertu þá sæll, læknir,“ sagði ég, „þakka þér innilega fyrir mig.“ Raddblærinn fór alveg fram hjá honum og hann kinkaði bara kolli, niðursokkinn í skrif sín. Það er eini gallinn við yngri læknana. Þeir kunna ekki mannasiði. Þetta var í gær, í öðru lífi. Nú var annar dagur, eftir það, og strætisvagninn komst greiðlega leiðar sinnar þegar ég fór í vinnuna. Það var rigning og öllum öðrum virtist líða illa, menn voru hoknir í yfirhöfnunum og súr morgunandremman þéttist sem gufa á gluggunum. Lífið geislaði í átt til mín í gegnum regndropana á glerinu, það ljómaði ilmandi yfir fnyknum af rökum fötum og blautum fótum. Ég hef alltaf lagt stolt mitt í að sjá um mig sjálf. Ég kemst af ein míns liðs – ég, Eleanor Oliphant. Ég þarf ekki á neinum öðrum að halda. Það er engin eyða í lífi mínu, það vantar ekkert stykki í mitt persónulega púsluspil. Ég er sjálf14
bær eining. Það hef ég að minnsta kosti alltaf talið mér trú um. Í gærkvöldi fann ég hins vegar stóru ástina í lífi mínu. Þegar ég sá hann stíga á sviðið vissi ég það bara. Hann var með mjög fallegan hatt, en það var ekki það sem heillaði mig. Nei, svo yfirborðsleg er ég ekki. Hann var í þrískiptum jakkafötum og neðsta talan á vestinu hans var óhneppt. Sannur herramaður hneppir aldrei neðstu tölunni, sagði mamma oft, það var ein af vísbendingunum sem rétt var að gá að og bar vitni um að viðkomandi væri fágaður og smekkvís maður af réttri stétt og stöðu. Laglegt andlitið, röddin ... hér var þá loks kominn maður sem hægt var að lýsa með nokkurri vissu sem „vænu mannsefni“. Nú yrði mamma glöð.
15