Fyrsta orðið sem Indverjinn Ajatashatru Kýrskýr Patel sagði þegar hann kom til Frakklands var sænskt. Ja hérna! „IKEA.“ Hann hvíslaði það hálfpartinn. Að því sögðu lokaði hann dyrunum á gamla, rauða Bensanum, lagði hendurnar settlega á silkimjúk hnén eins og stillt og prútt barn, og beið. Leigubílstjórinn var ekki viss um að hann hefði heyrt rétt, vatt sér í áttina að farþeganum svo brakaði í litlu trékúlunum í sætishlífinni á bílstjórasætinu. Í aftursætinu sá hann mann á miðjum aldri, hávaxinn, horaðan, kræklóttan eins og tré, dökkan yfirlitum og með þykkt yfirvaraskegg. Hann var kinnfiskasoginn og kinnarnar voru alsettar smágerðum örum eftir heiftarlegar unglingabólur. Hann var með marga hringi í eyrum og vörum, svona eins og hann vildi geta rennt þessu öllu aftur með rennilási. Frábært kerfi! hugsaði Gustave Bobbi með sér og sá þarna aldeilis einstaka leið til að loka þver rifunni á konunni sinni og losna við endalaust röflið í henni. Grá og gljáandi jakkaföt mannsins, rautt bindið sem hann var með um hálsinn, þótt hann hefði ekki hnýtt það á sig heldur bara nælt því saman, hvít skyrtan, allt var þetta svo hryllilega krumpað að hann hlaut bara að vera ~ 11 ~
að koma úr margra klukkustunda flugferð. Þó var hann ekki með neinn farangur. Annaðhvort er maðurinn hindúi eða hefur fengið svona heiftarlegt höfuðhögg, hugsaði leigubílstjórinn þegar hann kom auga á stóran, hvítan vefjarhöttinn. Hann hallaðist þó heldur að því að hann væri hindúi, það gerði dökkt andlitið og þykkt yfirvaraskeggið. „IKEA?“ „IKEA,“ endurtók Indverjinn og dró seiminn á síðasta sérhljóðanum. „Hverja þeirra? Hérna … What IKEA?“ stamaði Gustave sem var alveg eins og belja á svelli í enskunni. Farþeginn yppti öxlum til að láta í ljósi að sér væri alveg skítsama. DjöstIKEA, endurtók hann, dosntmaterdeondat betersvítstjúaredeparisjan. Þetta var nokkurn veginn sú óskiljanlega runa af framgómmæltum hljóðum sem bílstjórinn heyrði. Látum það liggja á milli hluta hvort hljóð in voru framgómmælt eða ekki, þetta var í fyrsta sinn á þrjátíu ára starfsferli hans hjá Sígaunaleigubílum að viðskiptavinur, sem nýkominn var út úr flugvallarálmu C2 á Charles-de-Gaulle-flugvelli, bað hann um að aka sér rakleiðis í húsgagnaverslun. Hann vissi í það minnsta ekki til þess að IKEA hefði opnað hótelkeðju nýverið. Gustave hafði oft fengið óvenjulegar beiðnir í vinnunni, en þessi sló öllum við. Ef mannkertið var í raun og veru kominn alla leið frá Indlandi hafði hann borgað væna fúlgu og verið átta tíma á ferðalagi í flugvél, allt til þess eins að kaupa Billy-hillur eða Poäng-stól. Frábært! Eða öllu heldur, ótrúlegt! Hann varð að skrá þetta í minnisbókina sína, milli Demis Roussos og Salmans Rushdie sem ~ 12 ~
höfðu einu sinni veitt honum þann heiður að tylla sínum háttvirta sitjanda í hlébarðamunstraða aftursætið í leigubílnum hans. Aðallega varð hann þó að muna að segja konunni sinni frá þessu yfir kvöldmatnum. Hann hafði yfirleitt ekki frá neinu að segja og þess vegna sá eiginkona hans, sem var með þrýstnar varir sem ekki hafði enn verið settur indverskur rennilás á, alfarið um að halda uppi samræðum undir borðum og á meðan sendi dóttir þeirra illa stafsett textaskilaboð til ungra jafnaldra sinna sem voru ekki einu sinni læsir. Nú yrði heldur betur breyting á því. „Ókei!“ Sígaunaleigubílstjórinn hafði ásamt ofangreindum kvenpersónum eytt síðustu þremur helgum í að þræða bláa og gula ganga sænsku verslunarinnar í leit að húsgögnum í nýja hjólhýsið fjölskyldunnar og vissi mætavel að næsta IKEA-verslun var í Roissy Paris Nord, í aðeins 8,25 evru fjarlægð. Hann setti því stefnuna á verslunina í Paris Sud Thiais, sem var aftur á móti alveg hinum megin í borginni, en þangað var þriggja kortera akstur. Enda bað farþeginn bara um að láta aka sér í einhverja IKEA-versl un. Hann hafði ekki tiltekið hvaða. Hann var auk þess klæddur í flott silkijakkaföt og með bindi og hlaut því að vera vellauðugur, indverskur iðnjöfur. Og slíkur maður færi varla að horfa í nokkra tugi evra, eða hvað? Gustave var bara ansi drjúgur með sig, reiknaði í snatri út hvað hann myndi græða á ferðinni og nuddaði saman lófunum. Setti síðan gjaldmælinn í gang og ók af stað. Dagurinn byrjaði bara nokkuð vel.
~ 13 ~
Ajatashatru Kýrskýr, sem var fakír að atvinnu, hafði ákveðið að láta lítið fyrir sér fara í fyrstu Evrópuferðinni. Af þessum sökum hafði hann skipt út „einkennisbún ingnum“ sínum, gríðarmikilli lendaskýlu sem var eins og ungbarnableia í laginu, fyrir sallafín silkijakkaföt og bindi sem hann leigði fyrir smápening af Dhjamal (framborið Djamm-Alli), gamlingja í þorpinu sem á sínum yngri árum hafði verið umboðsmaður þekkts sjampóvörumerkis og hafði æ síðan verið með fallega, gráa lokka. Þegar Indverjinn skrýddist þessari múnderingu, sem hann ætlaði bara að vera í dagana tvo, þann tíma sem skreppitúrinn hans átti að vara, hafði hann undir niðri vonað að menn myndu líta á hann sem vellauðugan, indverskan iðnjöfur og þess vegna hafði hann ekki farið í þægilegri föt, það er að segja mussu og sandala, áður en hann hélt upp í þriggja tíma ferðalag í rútu og átta tíma og fimmtán mínútna flugferð. Raunar fólst starf hans sem fakír í því að þykjast vera annar en hann var. Af trúarástæðum hafði hann því aðeins haldið eftir vefjarhettinum á höfðinu. Undir honum óx hárið á honum statt og stöðugt, hann giskaði á að það væri orðið fjörutíu sentimetra sítt og að í því hefðust við um það bil þrjátíu þúsund lífverur, og þá væru ýmsar örverur og lýs meðtaldar. Þegar Ajatashatru (borið fram æ-varst-a-þú) steig inn í ~ 14 ~
leigubílinn þennan dag tók hann strax eftir því að útgangurinn á honum hafði tilætluð áhrif á Evrópubúann og það þrátt fyrir að bindishnútinn vantaði, enda gat hvorki hann sjálfur né frændi hans hnýtt slíkan hnút, ekki einu sinni með aðstoð hins parkinsonsveika Dhjamals, og þess vegna höfðu þeir krækt bindið saman með bleiunælu, smáatriði sem enginn myndi taka eftir, enda var hann að öðru leyti einkar glæsilega búinn. Það var ekki nóg fyrir Frakkann að líta sem snöggvast í baksýnisspegilinn til að njóta allra herlegheitanna og því hafði hann meira að segja snúið sér við í sætinu til að geta dáðst að honum, en þá brakaði hátt í hálsinum á honum eins og hann væri að sýna fettu- og brettuatriði. „IKEA?“ „IKEAaa.“ „Hverja þeirra? Hérna … What IKEA?“ stamaði bílstjórinn sem virtist vera eins og (heilög) belja á svelli í enskunni. „Just IKEA. Doesn’t matter. The one that better suits you. You’re the Parisian.“ Bílstjórinn glotti, nuddaði saman lófunum og ók af stað. Hann beit á agnið, hugsaði Ajatashatru (borið fram, æja-skalt-þú) ánægður. Nýja útlitið var greinilega að svínvirka. Ef hann yrði heppinn og þyrfti ekki að opna munninn of oft myndi fólk jafnvel halda að hann væri innfæddur.
~ 15 ~
Ajatashatru var víðfrægur um allt Rajasthan-ríki fyrir að gleypa sverð sem hægt er að brjóta saman, borða glerbrot úr gervisykri, stinga gervinálum í handleggina á sér og ýmis önnur brögð sem hann og frændur hans kunnu einir, hann kallaði þau gjarna töfrabrögð til að ganga í augun á áhorfendum. Þannig að þegar kom að því að borga leigubílinn, alls 98,45 evrur, rétti fakírinn okkar fram eina peningaseðilinn sem hann hafði meðferðis, falsaðan seðil upp á 100 evrur sem aðeins var prentað á öðrum megin, og gaf bílstjóranum um leið til kynna með kæruleysislegri handarsveiflu að hann mætti bara hirða afganginn. Í sama mund og bílstjórinn smeygði seðlinum ofan í veskið truflaði Ajatashatru hann og benti honum á gríðarlega stóra, gula stafina I-K-E-A sem blöstu stoltir við á blárri byggingunni. Bílstjórinn leit upp nægilega lengi til að viðskiptavinur hans næði að kippa snögglega í ósýnilega teygju sem var hnýtt í litla fingurinn á honum og í græna seðilinn. Þannig komst seðillinn á örskotsstundu aftur í hendurnar á upphaflegum eiganda. „Hérna, gerðu svo vel!“ sagði bílstjórinn stundarhátt, fullviss um að seðillinn væri kominn í örugga geymslu í veskinu sínu, „hér er símanúmerið á stöðinni hjá mér. Bara svona ef þú skyldir þurfa að hringja á leigubíl á baka~ 16 ~
leiðinni. Við erum líka með sendibíla, svona ef þú verður með mikið af dóti. Húsgögn eru alveg rosalega plássfrek, jafnvel þótt þau séu ósamsett, það get ég sko sagt þér.“ Hann komst aldrei að því hvort Indverjinn hefði skilið hann. Hann leitaði í hanskahólfinu og náði í lítið nafnspjald þar sem gat að líta mynd af flamengódansmey sem lék listir sínar á fræga plastþríhyrningnum sem festur er á þak leigubílanna. Hann rétti honum nafnspjaldið. „Merci,“ sagði útlendingurinn á frönsku. Þegar rauði Bensinn frá Sígaunaleigubílum var horfinn, án þess þó að töframaðurinn, sem var bara vanur að láta indverska fíla með lítil eyru hverfa, hefði neitt komið nálægt því, stakk Ajatashatru nafnspjaldinu í vasann og virti fyrir sér gríðarstóra verslunarbygginguna. Árið 2009 hætti IKEA við áform um að opna fyrstu verslanirnar á Indlandi vegna þess að þá urðu sænsku stjórnendurnir, samkvæmt landslögum þar, að deila völdum með stjórnendum af indversku þjóðerni, auk þess sem innfæddir urðu að eiga meirihlutann í fyrirtækinu, en það hugnaðist norræna risanum alls ekki. Hann ætlaði ekki að deila þessari (heilögu) mjólkurkú með nokkrum manni, síst af öllu slöngutemjurum með yfirvaraskegg sem voru síglápandi á einhverja sykursæta söngleiki. Samhliða þessum áformum hafði þetta leiðandi fyrirtæki á sviði ósamsettra húsgagna gert samkomulag við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna um að leggja samtökunum lið í baráttunni gegn barnaþrælkun. Verkefnið snerti fimm hundruð þorp í Norður-Indlandi og fólst í því að reisa fjölmargar heilsugæslustöðvar, matardreifingarmiðstöðvar og skóla í öllu héraðinu. Ajatashatru hafði lent ~ 17 ~
í einum þessara skóla eftir að hafa verið rekinn með mikl um hávaða og látum strax eftir fyrstu vinnuvikuna úr hópi maharaja Klikkaha Feita Bollhan (borið fram klikk aða feitabollan) þar sem Ajatashatru hafði þá nýhafið störf sem fakír og skemmtikraftur. Hann hafði verið svo óhepp inn að stela bita af sesambrauði, fitusprengdu smjöri og tveimur klösum af lífrænt ræktuðum vínberjum. Í rauninni hafði hann bara verið svo óheppinn að vera svangur. Í refsingarskyni var því yfirvaraskeggið rakað af hon um, í sjálfu sér ansi hörð refsing (jafnvel þótt hann hefði orðið unglegri fyrir vikið), en síðan þurfti hann að velja milli þess að vinna að forvarnarstarfi með börnum gegn stuldi og afbrotum í skólum, eða að láta höggva af sér hægri höndina. Þegar öllu er á botninn hvolft getur fakír ekki verið smeykur við sársauka eða dauða … Áhorfendum, sem Ajatashatru hafði sýnt ýmsar líkamsmeiðingar (kjötprjónar í handleggina, gafflar í kinnarnar, sverð í magann), til mikillar furðu hafnaði hann tilboðinu um aflimun og valdi fyrri valkostinn. „Fyrirgefðu, herra, geturðu sagt mér hvað klukkan er?“ Indverjanum krossbrá. Maður um fertugt í æfingagalla og á sandölum hafði staðnæmst fyrir framan hann með innkaupakerru þar sem einum tíu kössum var svo herfilega illa staflað upp að annaðhvort hafði tetrismeistari eða geðsjúklingur séð um það. Í eyrum Ajatashatru hljómaði spurningin einhvern veginn svona: Fyrirgefðerrageturrusattmérhvaklukaner. Sem sagt, algerlega óskiljanleg runa sem aðeins var hægt að svara með WHAT? Þegar maðurinn sá að þetta var útlendingur bankaði ~ 18 ~
hann létt á vinstri úlnliðinn með vísifingri hægri handar. Fakírinn skildi undireins hvað hann átti við, leit til himins, enda þaulvanur að taka sólarhæðina á Indlandi, reiknaði hana út í snatri með tilliti til tímamismunar upp á þrjár og hálfa klukkustund og sagði Frakkanum síðan hvað klukkan væri. Viðmælandinn skildi ensku betur en hann talaði hana og áttaði sig strax á því að hann væri orðinn allt of seinn að sækja krakkana í skólann og gefa þeim að borða og stökk eins og óður maður út í bíl. Þegar Indverjinn virti fyrir sér fólkið sem var á leiðinni inn og út úr versluninni tók hann eftir því að mjög fáir, ef nokkrir, voru klæddir eins og hann, í gljáandi silkijakkaföt. Og þaðan af síður að einhverjir væru með vefjarhött. Þetta með felubúninginn var því ekki alveg að gera sig. Hann vonaði bara að það myndi ekki eyðileggja alla ferðina fyrir honum. Það hefði virkað miklu betur að vera í íþróttagalla og á sandölum. Þegar hann kæmi aftur heim ætlaði hann að ræða málið við frænda sinn Suhr Joghurt (borið fram súr jógúrt). Hann hafði lagt alveg sérstaka áherslu á að Ajatashatru klæddi sig svona. Ajatashatru horfði um stund á það hvernig glerdyrnar fyrir framan hann opnuðust og lokuðust. Reynslu sína af nútímanum hafði hann alfarið úr kvikmyndum frá Hollywood og Bollywood sem hann hafði séð í sjónvarpinu heima hjá fósturmóður sinni, Sihringh, (borið fram sí hring, eða The Ring fyrir þá sem eru meira fyrir enskuna). Það var alveg makalaust hvað þessi útbúnaður, sem honum fannst vera ein allra merkasta tækni nútímans, virtist alveg hræðilega ómerkilegur í augum Evrópubúanna, þeir tóku ekki einu sinni eftir honum lengur. Ef slíkt ~ 19 ~
og þvílíkt tækniundur hefði fyrirfundist heima í þorpinu hans, Kishanyogoor (borið fram kissa jógúrt), hefði hann ekki getað haft augun af því. En Frakkar voru greinilega alveg hryllilega ofdekraðir. Dag nokkurn, hann var þá bara tíu ára, þetta var löngu áður en nokkrar framfarir höfðu átt sér stað í þorpinu hans, sýndi enskur ævintýramaður honum kveikjara og sagði: „Öll þokkalega þróuð tækni er töfrum líkust.“ Hann var bara barn þegar þetta var og skildi þetta ekki. „Þetta þýðir einfaldlega,“ útskýrði maðurinn þá fyrir honum, „að það sem mér finnst vera hversdagslegt geta verið galdrar í þínum augum, allt fer það eftir tæknistigi þjóðfélagsins sem þú býrð í.“ Litlir neistar spruttu út frá þumalfingri útlendingsins, síðan kviknaði myndarlegur, blár, heitur og skínandi logi. Áður en hann fór lét maðurinn hann hafa þennan töfrahlut, sem þá var enn framandi fyrir íbúa þessa afskekkta smáþorps í jaðri Thar-eyðimerkurinnar, í skiptum fyrir ansi undarlegan greiða sem nánar verður sagt frá síðar. Ajatashatru notaði kveikjarann til að fremja fyrstu töfrabrögðin og þannig kviknaði löngun hans til að verða fakír þegar hann yrði stór. Hann hafði fengið svipaða óraunveruleikatilfinningu um borð í flugvélinni daginn áður. Ferðalagið var ótrúleg lífsreynsla fyrir hann sem hafði bara rétt hafið sig á loft á básnum hjá (heilögu) kúnum, bara sem svaraði hæð búnaðarins sem falinn var undir rassinum á honum og hann hafði margoft notað til að lyfta sér upp fyrir framan agndofa áhorfendur, það er að segja tuttugu sentimetra, svona þegar best lét. Og hann hafði meginhluta ferðarinnar horft út um kýraugað, með uppglennt augu og galopinn munn. ~ 20 ~
Þegar Indverjinn hafði notið kyrrðarstundarinnar fyrir framan sjálfvirku rennihurðina ákvað hann að ráðast til inngöngu. Þvílík þverstæða! hugsaði hann með sér þegar hann sá barnagæslusvæðið í anddyrinu, IKEA byggir skóla og munaðarleysingjahæli á Indlandi, en hefur ekki opnað eina einustu húsgagnaverslun þar! Þá rifjaðist upp fyrir honum að hann var nýkominn úr rúmlega ellefu klukkustunda ferðalagi, þegar rútuferðin og flugferðin voru lagðar saman, og hefði ekki langan tíma til að ljúka erindinu. Hann átti bókað flugfar til baka daginn eftir. Hann skundaði því af stað upp gríðarmikla stigana sem lagðir voru bláum gólfdúki og lágu upp á næstu hæð fyrir ofan.
~ 21 ~