Fimbulkaldur

Page 1


Lee Child

Fimbulkaldur Salka Guðmundsdóttir þýddi


Fimbulkaldur Titill á frummáli: 61 Hours © Lee Child 2010 Íslensk þýðing © Salka Guðmundsdóttir 2011 Hönnun kápu: Stephen Mulcahey Ljósmyndir á kápu: SUV Alaska Stock LLC/Alamy, Ianni Dimitrov/Alamy, Shutterstock og iStockphoto Uppstilling kápu: Emilía Ragnarsdóttir / Forlagið Umbrot: GÞ / Forlagið Letur í meginmáli: Sabon 10,4/12,8 pt. Prentun: Ísafoldarprentsmiðja Printed in Iceland JPV útgáfa · Reykjavík · 2011 Öll réttindi áskilin. Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis útgefanda. ISBN 978-9935-11-186-9 JPV útgáfa er hluti af www.forlagid.is

Forlaginu ehf.


1 Klukkuna vantaði fimm mínútur í þrjú síðdegis. Nákvæmlega sextíu og ein klukkustund þangað til. Lögfræð­ ingurinn beygði inn á autt bílastæðið og lagði bílnum. Á jörðu var nýfallinn snjór svo hann eyddi smástund í að fálma til og frá um fótarýmið þar til skóhlífarnar voru komnar á sinn stað. Svo steig hann út, bretti upp kragann og gekk að gestainnganginum. Það var napur norðan­ vindur. Loftið var mettað stórum, silalegum snjókornum. Það var stormur í hundrað kílómetra fjarlægð. Í útvarpinu hafði varla verið talað um annað. Lögfræðingurinn gekk inn um dyrnar og stappaði snjóinn af fótum sér. Það var engin biðröð. Þetta var ekki venjubundinn heimsóknadagur. Það var ekkert fyrir framan hann nema autt herbergi, autt gegnumlýsingartæki og málmleitarhlið, sem og þrír iðjulausir fangaverðir. Hann kinkaði kolli til þeirra jafnvel þótt hann þekkti þá ekki. Hann leit á sig sem samherja þeirra og það var gagnkvæmt. Fangelsið var tvískiptur heimur. Annaðhvort sat maður inni eða ekki. Þeir sátu ekki inni. Hann ekki heldur. Enn sem komið var. Hann tók gráan plastbakka ofan af stafla sem riðaði til falls og lagði samanbrotinn frakkann í hann. Hann klæddi sig úr jakkanum, braut hann saman og lagði ofan á frakkann. Það var heitt í fangelsinu. Ódýrara að kynda dálítið betur upp en að úthluta föngunum bæði sumar- og vetrar­ fatnaði. Framundan heyrði hann lætin í þeim, glamur í málmi og steinsteypu og einstaka sturluð hróp, öskur og lágvært muldur annarra óvinsamlegra radda; öll hljóðin dempuð af kröppum göngum og ótal luktum dyrum. -5-


Hann tæmdi buxnavasana af lyklum, veski, farsíma og smápeningum, og kom þessum hreinu, hlýju persónulegu eigum sínum fyrir ofan á jakkanum. Hann lyfti gráa plastbakkanum. Bar hann ekki yfir að gegnumlýsingartækinu heldur rogaðist með hann þvert yfir herbergið að litlum glugga á veggnum. Þar beið hann meðan einkennisklædd kona tók við bakkanum og afhenti honum númeraðan miða í skiptum fyrir hann. Hann tók sér stöðu fyrir framan málmleitarhliðið. Klapp­ aði á vasana og skimaði fram fyrir sig með eftirvæntingar­ svip, líkt og hann biði þess að vera boðið að ganga í gegn. Lærð hegðun úr flugferðalögum. Verðirnir létu hann standa þarna stutta stund; þennan smávaxna, taugaveiklaða mann á skyrtunni, tómhentan. Engin skjalataska. Engin minnis­ bók. Ekki einu sinni penni. Hann var ekki kominn til að veita ráðgjöf. Hann var kominn til að fá hana. Ekki til að tala heldur hlusta, og það hvarflaði sannar­lega ekki að honum að festa það sem hann heyrði á blað. Verðirnir bentu honum að ganga í gegn. Grænt ljós og ekkert píphljóð, en engu að síður renndi fyrsti vörðurinn sprotanum yfir hann og annar leitaði á honum. Sá þriðji fylgdi honum lengra inn í bygginguna, gegnum dyr sem voru þannig gerðar að þær opnuðust aldrei nema dyrnar á undan og eftir væru lokaðar, og fyrir kröpp horn sem hönnuð voru til að hægja á manni á hlaupum, og framhjá þykkum, grænum glergluggum en fyrir framan þá sáust árvökul andlit. Anddyrið var stofnanalegt, með dúklögðu gólfi, myntu­ grænum veggjum og flúrljósum í loftinu. Og anddyrið var tengt við umheiminn; það blés kaldur gustur inn þegar dyrnar voru opnaðar og á gólfinu voru saltblettir og pollar af bráðnum snjó. Fangelsið sjálft var öðruvísi. Það hafði engin tengsl við umheiminn. Enginn himinn, ekkert veður. Engin viðleitni til innanhússhönnunar. Þarna var ekkert nema hrá steinsteypan, sem hafði þegar fengið á sig fituslikju undan snertingu erma og axla en var annars ennþá -6-


fölgrá og rykug. Undir fæti var stöm, grá málning, eins og gólf í bílskúr bílaáhugamanns. Það ískraði í skóhlífum lögfræðingsins. Þarna voru fjögur viðtalsherbergi. Hvert og eitt var glugga­laus steypukassi sem skipt var nákvæmlega til helminga með borði sem náði veggja á milli og var í skrif­borðs­ hæð, í því miðju öryggisgler. Í loftinu fyrir ofan borðið skinu vírbundin ljós. Borðið var steinsteypt. Í því mátti enn sjá trefjarnar úr timburmótinu. Öryggisglerið var þykkt og grænleitt og skiptist í þrjú þil sem sköruðust svo til urðu tvær hlustunarraufar. Neðst á miðþilið hafði verið skorin rauf fyrir skjöl. Eins og í banka. Báðum megin í herberginu voru stóll og dyr. Fullkomin samhverfa. Lögfræðingarnir komu inn öðrum megin og fangarnir hinum megin. Seinna fóru þeir til baka sína leið, hvor á sinn áfangastaðinn. Vörðurinn opnaði dyrnar inn af ganginum og steig inn í herbergið til að athuga hvort allt væri eins og það átti að vera. Síðan færði hann sig til hliðar og hleypti lögfræðingnum inn. Lögfræðingurinn gekk inn og beið þar til vörðurinn hafði lokað á eftir honum og látið hann einan. Þá settist hann niður og leit á úrið. Hann var átta mínútum of seinn. Hann hafði ekið hægt vegna færðarinnar. Yfirleitt hefði hann talið það mistök að koma of seint á fund. Ófagmannlegt og dónalegt. En því var öðruvísi farið með fangelsisheimsóknir. Tíminn hafði enga þýðingu fyrir fanga. Að öðrum átta mínútum liðnum opnuðust hinar dyrnar, á veggnum hinum megin við glerið. Annar vörður steig inn, litaðist í kringum sig og steig síðan aftur fram, og fangi kom lötrandi inn. Skjólstæðingur lögfræðingsins. Hann var hvítur og gríðarlega feitur, mynstaður af fitu og algjörlega sköllóttur. Hann var í appelsínugulum samfestingi. Um úlnliðina, mittið og ökklana bar hann járn sem virtust jafn fíngerð og skartgripir. Augu hans voru sljó og svipurinn auðsveipur og tómlegur, en munnurinn hreyfðist -7-


örlítið, eins og þegar einfeldningur rembist við að muna flóknar upplýsingar. Dyrnar á veggnum handan við rúðuna lokuðust. Fanginn settist. Lögfræðingurinn færði stólinn sinn nær borðinu. Fanginn gerði slíkt hið sama. Samhverfa. Lögfræðingurinn sagði: „Afsakaðu hvað ég kem seint.“ Fanginn svaraði ekki. Lögfræðingurinn spurði: „Hvernig hefurðu það?“ Fanginn svaraði ekki. Lögfræðingurinn þagnaði. Það var heitt í herberginu. Fanginn beið í mínútu og tók svo til máls, þuldi upp og fór yfir lista og fyrirmæli, setningar og málsgreinar sem hann hafði lagt á minnið. Við og við sagði lögfræðingurinn: „Hægðu örlítið á þér,“ og í hvert sinn dokaði náunginn við, beið og byrjaði síðan aftur á næstu setningu á undan, án þess að breyta nokkuð hraðanum eða sönglandi framsögninni. Það var líkt og hann gæti ekki tjáð sig á nokkurn annan hátt. Lögfræðingurinn taldi sig frekar minnugan eins og flestir lögfræðingar eru, sérstaklega á smáatriði, og hann fylgdist vel með því það dró athygli hans frá innihaldi fyrir­mæl­ anna að einbeita sér. Engu að síður hafði hann í einhverju hugskoti sínu talið fjórtán mismunandi glæpsamlegar tillögur áður en fanginn loks lauk máli sínu og hallaði sér aftur á bak í stólnum. Lögfræðingurinn sagði ekkert. Fanginn spurði: „Náðirðu þessu öllu saman?“ Lögfræðingurinn kinkaði kolli og yfir fangann lagðist aftur sauðsleg þögn. Eða öllu heldur var hann eins og asni úti á akri, óendanlega þolinmóður. Tíminn hafði enga þýðingu fyrir fanga. Sérstaklega ekki þennan. Lögfræðingurinn ýtti stólnum aftur á bak og stóð á fætur. Dyrnar hans megin voru ólæstar. Hann gekk fram á ganginn. Klukkuna vantaði fimm mínútur í fjögur. Sextíu klukkustundir til stefnu. -8-


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.