Flækingurinn - Kristín Ómarsdóttir

Page 1


I Í húsi Laufeyjar

Flaekingurinn.indd 7

13.2.2015 17:55


*** Ég þekki ekki mótherjann enda ber hann skjólgóða grímu úr myndarskýi, kápan er einnig úr skýi, möttull og skegg. Hann snýr sverðinu hraðar en ég, lyftir og heggur – ég er svifaseinn og þótt ég sé hávaxinn og gildur er hann hávaxnari og alltumvefjandi og gnæfir yfir mér þegar ég fell á grundina, skríð á fjóra fætur, reisi mig upp, lyfti sverðinu og hegg en þar er aðeins loft. Þessari glímu mun ég tapa. Skýjarisinn stýrir spjótinu einbeittur í átt að hjarta mínu. Ég verst en of seint, hrasa í sömu svipan og fell á völlinn áður en spjótborinn spúlar gegnum hjartað. Reisi mig og renn á rassinn, blotna í gegn, aurvotur og renn endurtekið í hálli leðjunni. Mótherjinn gnæfir yfir mér, augnaráðið gatar augun og ofurbirtan streymir inn um götin – ég blindast, nudda augun, óttast þau séu hol að innan, vona að út fljúgi drónar sem pirri mótherjann eins og flugur gera, muldra: „Ert þú guð?“ Þá hlær veran svo undir tekur í fjöllunum sem ég vissi ekki af úti við sjóndeildarhringinn. Jörðin undir okkur titrar og skelfur. Ég vakna, horfist í augu við stúlkuna Telmu. Höfuðið gnæfir yfir mér. Ég óttast að munnvatn renni út um munninn á henni en varirnar eru þurrar, ég tek eftir frunsu, hún hvíslar: „Ég hélt þú værir dáinn. Gott þú opnir augun. Hvað kom fyrir?“ Ég þori ekki að reisa mig upp – ó, ég ligg á gólfinu! – þarna sést í Jóhönnu – hún prjónar. Telma úrskurðar:

9

Flaekingurinn.indd 9

17.2.2015 17:33


„Hann vaknaði.“ Laufey kemur aðvífandi, hún sem flest kann: „Ertu vaknaður, Krummi?“ „Krummi er vaknaður,“ endurtekur Telma og rogast á lappir, missir áhugann fyrir aðstæðum mínum, einbeitingin hefur lítið úthald. Rám spyr Lísa: „Er hann vaknaður?“ Telma svarar: „Hann er vaknaður.“ „Mikið var,“ svarar Lísa. „Er Krummi vaknaður?“ spyr Helgi. „Hann er vaknaður,“ svarar Lísa. „Hvað kom eiginlega fyrir?“ spyr ókunnug rödd. „Örugglega flog,“ segir Lísa. Laufey lyftir undir höfuðið og hellir ofan í mig vatni úr glasi. Ég drekk. Hún leggur yfir mig teppi, hvíslar: „Við Jóhanna drögum þig inn á klósett.“ Þær taka undir handarkrikana, draga mig eftir gólfinu. Augun lokast, ilmur af brennandi blómum fyllir vit. Vinir Helga rækta þessa tegund í litlu gróðurhúsi sem staðsett er hvergi. Á móti okkur tekur lyktin af lavendersápunni sem Laufeyju er kær um leið og dyrnar inn á baðherbergið opnast. Mér líður eins og augnlausum sleða. „Færðu þig, Unnur,“ biður Laufey vingjarnlega, „lyftum honum.“ Ætli þær þekki stærri og sterkari mann? Ég dett út. Vatnið úr sturtuhausnum skellur á fötin, áferðin herðist eða herpist, drunurnar eru dýpri en ef rignir á steinsteypu og plast. Vatnið kalt, svo heitt, svo kalt, svo heitt. Laufey leitar hins fullkomna hitastigs. Ljóskúlan fyrir ofan vaskspegilinn skín lík sól á vísindastað. „Ég hef ímugust á kynlífi,“ heyri ég Unni segja, hún bleytir hár mitt – afhverju þvo þær mér? – ef til vill afvegaleiða vatnsdrunurnar orðin. 10

Flaekingurinn.indd 10

13.2.2015 17:55


„Sæði mitt er heilagt,“ muldra ég, „sama hvað hver segir.“ Jóhanna svarar: „Kynlíf er fínt í hófi.“ Ég heyri óm. ***

1 Fyrsti vetrardagur 2013 „Hefðbundið íslenskt heimili prýðir grænn stóll,“ las ég í bók á safninu þegar ég var í betra jafnvægi en nú. Tilvonandi flugstjóri hjá Flugfélagi framtíðarinnar – Air Future de Luxe – situr í græna stólnum og prjónar sokk á kornabarn sem hlakkar til að fæðast og klæðast handgerðum sokkum á plánetunni Jörð. Amma Jóhönnu réð barnabarnið til verksins. Á mánudögum selur hún ömmu vikuskammt af nýprjónuðum sokkum – líkt og eggjastúlkan í ævintýrunum egg – um tuttugu pör sem kaupandinn straujar og selur á basar líknarfélags sem rekur barnaspítala. Nú þarf að bretta upp ermarnar fyrir væntanlegan jólabasar. Evelyn Alexander liggur útaf í gylltum sófa. Við sumarmál hét Evelyn Erna Hans- og Hennardóttir en Gylfi skírði hana upp á nýtt – héti hún Erna gengi hún í skóla eða ynni sem flugfreyja, Ernur gera það, en stúlkan yfirgaf nafnið fyrir ástina á heiminum, kom hingað: kærastinn leiddi hana yfir þröskuldinn sem við Laufey tylltum inn í dyrahúsið síðasta vetur. Hér dvelur hún löngum stundum, sér í lagi á næturnar. Stólar með sjómannablárri setu bjóða gesti velkomna. Við sitjum samt sem áður á gólfparketinu sem ég bónaði nýlega, kringum kaffiborðið – ofan á því liggur borðspilið sem í síðustu 11

Flaekingurinn.indd 11

13.2.2015 17:55


viku átti lögheimili annars staðar. Við fögnum fyrsta vetrardegi 2013 með spurningaleik. Telma les spurningar af spilaspjaldi: „Hvað hét fyrsti forseti Bandaríkjanna?“ Mjóir fingurnir veifa spjaldinu, varirnar titra, varirnar vilja tala. Við Laufey eigum svarréttinn og auðvitað veit Laufey svarið – ég færi spilakarlinn eftir línu á borðinu – Telma dregur nýtt spjald, fingurnir þrá að segja eitthvað meira. Eitt aðalhlutverk guðs og félaga á haustin er að slíta laufin af trjánum og stroka út freknurnar í andliti Telmu – hún les: „Í hvernig bifreið ók John F. Kennedy síðasta spölinn?“ Bítur í neðri vörina, bítur í sig þögn – eins og ég þegar ég kefla munninn á fólki – fjólublá augu Unnar horfa líkt og köttur, augnlokin bera sama lit og hreistur. „Ég vildi að ég kynni að lesa svona vel,“ viðurkennir Unnur. „Pabbi Telmu kenndi henni að lesa við eldhúsborðið eftir kvöldmat á meðan mamman fletti Biblíunni,“ útskýrir Lísa og setur sig í stellingar fréttaskýrandans. Hún fylkir liði með Helga og Gylfa sem fengu ekki að heita Sid og Johnny þar eð nöfnin festust ekki við þá, eins og nafnið Evelyn við fyrrverandi Ernu. „Faðirinn kennir afkvæminu lestur en fjarvera hans af íslenskum heimilum orsakar lélegan lesskilning íslenskra drengja,“ segir velgjörðakona mín. „Raunverulegir feður eru aðeins til í bókum, eins og jólasveinninn,“ útskýrði hún í löngu máli síðla kvölds á meðan við horfðum út um gluggann: á snjókornin, snjókornin, stjörnurnar, stjörnurnar, mánann, útsýnið úr lestarklefanum Jörð. Ég mun ekki kenna barni mínu lestur en ég mun ef til vill fletta Biblíunni á meðan móðirin (eða einhver annar) kennir því að lesa. Ef til vill kenni ég því skrift. Vonandi verður það þolinmótt. Mamma Telmu er prestur. Ljósakrónan fyrir ofan eldhúsborðið á prestssetrinu í meðalstóru húsi við sjávarsíðuna horfði mildum augum á litlu fjölskylduna. Refsiglaðar ljósaperur lýstu 12

Flaekingurinn.indd 12

17.2.2015 17:34


upp heimili mitt á öðrum stað við sjávarsíðuna. Perur sem éta heilafrumur. Vonandi lýsa indælar ljósaperur lestrarborð dóttur minnar eða sonar. *

2 Hvað tekur framtíðin marga daga? Laufeyju Árnadóttur vinkonu minni þykir leitt að vinur hennar viti ekki hvernig bíl JFK ók í síðasta spölinn. Um alla framtíð hindruðu faðir minn og bræður að ég læsi spurningar upphátt af spjöldum og svaraði munnlega spurningu sem annar les af spjaldi. Mamma ein skilur hrafnasparkið, klessukeyrðar setningar sem drollast eða mallast út úr mér. Aukaspurning fyrir liðið sem veit meira en önnur lið en svarar engum: „Hvað tekur framtíð mín marga daga? Lifir hr. Hrafn Freyr Hrafnsson, mállaus og ofbeldishneigður óviti, nýjan vetur af?“ Laufey sér fegurð þar sem aðrir sjá grimmd, lýti og útskúfun. Af óskiljanlegri ástæðu tók hún ástfóstri við mig og því fylgir hlýja – ég kvíði endalokum væntumþykju hennar – hún snertir handarbak mitt laust, henni þykir gaman að toga í hárin og undrar sig á stærð krumlanna, svarar: „Blár Lincoln limmosína.“ Hreykinn færi ég rauðan karl eftir gráum vegi. Telma dregur nýtt spjald úr bunkanum, les hratt: „Í hvaða borg eru höfuðstöðvar CIA til húsa?“ „Lestu spurninguna aftur,“ biður Unnur, „þú flýttir þér of mikið núna.“ Hún starir enn kattarlega á Telmu, hendurnar pínulitlar, 13

Flaekingurinn.indd 13

13.2.2015 17:55


svo litlar að stórir karlmenn láta sig dreyma en ekki ég: ég ber virðingu fyrir kvenkyninu. Lísa fyrirskipar að nú fái lið þeirra svarréttinn. „Þú lest rosalega vel,“ endurtekur Unnur og hverfur inn á baðherbergið, læsir hurðinni varlega, eins og hún haldi að enginn muni heyra, en ég veit hvað hún aðhefst inni á klósetti, við vitum það öll en grunurinn fer hljótt. Heima hjá Laufeyju fær Unnur að vera í friði með sitt: hún vill eitthvað meira, þráir dýpri nálgun við hið óræða en við hin. Gylfi hnyklar brýnnar karlmannlega. „Langley í Virginíu,“ svarar hann. „Rétt svar!“ hrópar Telma. Lísa sparkar í Telmu: „Ekki vekja Evelyn.“ Augnlokin hreyfast og minna á halta silfurskottu, dreymnum augum horfir Evelyn í kringum sig, varirnar bólgnar, vínrauðar, kinnarnar þrútnar, augnhárin blá, silurlitaðar sokkabuxur, silfurlitað hár. *

3 Lækning við lifrarbólgu Þegar Evelyn sem áður hét Erna prófaði eiturlyf í fyrsta skipti féll hún fyrir heiminum og sérhverju smáatriði hans að mér undanskildum; hún sér mig ekki. Um leið og augun finna Gylfa hvíslar hún: „Hæ, ást.“ Skyldurækinn kyssir hann heitmeyna, silfrað hárið fellur niður herðarnar. Lyfin sem hún tekur fara munúðarferð um vegakerfi ástríks líkama á meðan þau skrölta inni í okkur hinum. 14

Flaekingurinn.indd 14

13.2.2015 17:55


„Ég nenni ekki að spila!“ Telma fleygir spurningaspjaldi ofan á borðspilið. „Er spurningaleikurinn búinn?“ spyr Laufey undrandi. Jóhanna veit það ekki. Lísa réttir upp hönd: „Allir sem eru með lifrarbólgu C rétti upp hönd,“ kallar hún. Gylfi réttir upp hönd. „Telma hefur ekki lifrarbólgu,“ uppljóstrar Lísa, „og það er mér að þakka. Það má margt misjafnt um mig segja en ég vernda Telmu. Ég geri það fyrir múttuna hennar,“ bætir hún við hlæjandi. Telma rís á fætur, snúðug. Helgi útskýrir að komin séu betri lyf við lifrarbólgu C, enn hafi ekki fengist leyfi fyrir þeim á Íslandi, hin gömlu reynist erfið, ekki miklar líkur á bata, hin nýju lofi bata í 95% tilvika án aukaverkana. Vinkona mín hleypur fram: vatnið í katlinum sýður. Ég óska þess að verða ástfanginn af lífinu líkt og Evelyn en í mig vantar ástríður: Í. Mig. Vant-Ar. Ást. Ríður. Á meðan kærustuparið í sófanum kyssist og Laufey lagar kaffi frammi í eldhúsi, Unnur dreifir huganum inni á baði og Helgi leitar í vösum sínum, Lísa talar um lifrarbólgu við bróður sinn í símann og fátt truflar Jóhönnu við prjónaskapinn, skrifa ég mömmu eftirfarandi símskeyti: Himininn vantar ástríður. Í dag hét hann: Stúlka með falskt bros. Þakklát hetja í líkbúningi óskar mömmu sinni gleðilegs vetrar. *

15

Flaekingurinn.indd 15

13.2.2015 17:55


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.