Fyrirvari - Renée Knight

Page 1


1 Vorið 2013

Catherine kúgast en hefur ekkert meira til að kasta upp. Hún grípur um kaldan postulínshúðaðan vaskinn og réttir úr sér til að líta í spegilinn. Andlitið sem horfir á hana á móti er ekki það sem hún fór með í rúmið. Hún hefur séð þetta andlit áður og hafði vonað að hún sæi það aldrei aftur. Hún virðir sjálfa sig fyrir sér í þessju nýja, kalda ljósi, bleytir þvottapoka, þurrkar sér um munninn og þrýstir pokanum svo að augunum eins og hún geti með því þurrkað út ótt­ ann í þeim. „Er allt í lagi?“ Hún hrekkur við þegar hún heyrir rödd bónda síns. Hún hafði vonað að hann svæfi áfram. Léti sig í friði. „Mér líður betur núna,“ segir hún og slekkur ljósið. Svo skrökvar hún aftur: „Þetta hlýtur að vera skyndibitinn frá í gærkvöld.“ Hún snýr sér að honum, hann er eins og skuggi í næturskímunni. „Farðu aftur í rúmið. Þetta er allt í lagi,“ hvíslar hún. Hann er hálfsofandi en samt réttir hann út höndina og legg­ ur hana á öxlina á henni. „Ertu viss?“ ~ 5 ~


„Já, ég er viss,“ segir hún. Það eina sem hún er viss um þessa stundina er að hún vill fá að vera ein. „Robert, ég meina það. Ég kem rétt bráðum.“ Fingur hans hvíla á handlegg hennar smástund, svo gerir hann eins og hún biður um. Hún bíður þangað til hún er viss um að hann sé sofnaður; þá fer hún aftur inn í svefn­ herbergið. Hún lítur á hana, liggjandi á hvolfi og enn opna þar sem hún skildi við hana. Bókina sem var svo sakleysisleg. Fyrstu kaflarnir höfðu fyllt hana áhyggjulausri velþóknun, henni hafði liðið vel yfir vísbendingum um þægilega spennu sem væri í vændum, bara rétt næga til að halda henni við efnið, en ekki hafði hvarflað að henni hvað lá þarna í leyni. Bókin leiddi hana áfram, plataði hana inn á síður sínar, lengra og lengra þangað til hún áttaði sig loks á því að hún var lent í gildru. Orðin þeyttust til og frá í höfði hennar og skullu á brjóstinu, hvert á fætur öðru. Það var eins og hópur fólks hefði stokkið í veg fyrir lestina og hún, hjálparvana lestar­ stjórinn, gæti ekkert gert til að hindra banvænan árekstur­ inn. Það var of seint að hemla. Það var ekki hægt að snúa við. Catherine hafði, gjörsamlega óvænt, rekist á sjálfa sig á síðum bókarinnar. Öll líkindi við fólk, lífs eða liðið … Yfir fyrirvarann var dregið grannt, rautt strik. Skilaboð sem hún hafði ekki tekið eftir þegar hún opnaði bókina. Það var ekki hægt að horfa fram hjá líkindunum við hana sjálfa. Hún var aðalpersón­ an, lék lykilhlutverkið. Þótt nöfnum hefði verið breytt voru öll atriði eins, meira að segja hvernig hún hafði verið klædd þetta síðdegi. Smábútur af lífinu sem hún hafði þag­að yfir. Leyndarmál sem hún hafði ekki sagt neinum, ekki einu sinni bónda sínum og syni – þeim tveimur sem héldu að ~ 6 ~


þeir þekktu hana betur en nokkur annar. Enginn lifandi maður hefði getað spunnið upp það sem Catherine var ný­ búin að lesa. Samt stóð það þarna með bókstöfum sem allir gátu lesið. Hún hélt að hún hefði losað sig við þetta, að það væri gleymt og grafið. En nú er það komið upp á yfirborðið. Í svefnherbergi hennar. Í höfðinu á henni. Hún reynir að útiloka það með því að hugsa um kvöldið áður. Ánægjuna yfir að koma sér fyrir á nýja heimilinu: þau fengu sér vín og mat, hreiðruðu um sig í sófanum, dottuðu yfir sjónvarpinu og fóru loks í rúmið. Kyrrlát hamingja sem hún hafði tekið sem sjálfsögðum hlut en of kyrrlát til að nægja henni. Hún getur ekki sofið svo að hún fer fram úr og röltir niður. Þau eru enn með neðri hæð, þótt ekki sé hún stór. Tveggja hæða íbúð, ekki lengur hús. Þau fluttust úr húsinu fyrir þrem­ur vikum. Tvö svefnherbergi í stað fjögurra. Tvö svefn­ herbergi hentuðu þeim betur, henni og Robert. Annað handa þeim, hitt fyrir gesti. Nú eru þau líka með opið rými. Engar hurðir. Þau þurfa ekki að loka neinum dyrum leng­ur fyrst Nicholas er farinn. Hún kveikir ljósið í eldhúsinu, tek­ ur glas úr skápnum og fyllir það. Ekki úr krananum. Kalt vatn eftir þörfum úr nýja ísskápnum. Hann er líkari fata­ skáp en ísskáp. Geigurinn gerir það að verkum að hún svitnar í lófunum. Henni er heitt, næstum eins og hún sé með hita og hún er þakklát fyrir svalann frá nýju gólfflís­ unum. Vatnið hjálpar svolítið. Um leið og hún svelgir það í sig lítur hún út um gríðarstóran gluggann á bakhlið þessa nýja, framandlega heimilis. Úti er bara myrkur. Ekkert að sjá. Hún er ekki búin að setja upp nein gluggatjöld. Hún er berskjölduð. Það er fylgst með henni. Þeir geta séð hana en hún sér þá ekki. ~ 7 ~


2 Tveimur árum fyrr

Ég var miður mín yfir því sem gerðist, það er alveg satt. Hann var bara barn, ekki nema sjö ára. Og ég gekk honum í raun í foreldrisstað, þótt það væri hálfklikkað og ég vissi vel að engir foreldrar hefðu viljað að ég kæmi í stað þeirra. Þegar þetta gerðist var ég býsna djúpt sokkinn: Stephen Brigstocke, ömurlegasti kennari skólans. Ég held að minnsta kosti að krökkunum hafi fundist það og foreldrunum líka, samt ekki öllum: Ég vona að sumir hafi munað eftir mér frá fyrri tíð, þegar ég kenndi eldri börnum þeirra. Ja, hvað sem um það er þá varð ég ekkert hissa þegar Justin kallaði mig inn á skrifstofuna sína. Ég hafði verið að bíða eftir því. Hann var heldur lengur að koma sér að því en ég hafði búist við en þannig eru þessir einkaskólar. Þeir eru sín eigin litlu lénsveldi. Foreldarnir halda kannski að þau ráði af því að þau borga brúsann en auðvitað ráða þau engu. Lítið til dæmis á mig – ég var varla tekinn í viðtal út af starfinu. Við Justin höfðum verið saman í Cambridge og hann vissi að mig vantaði peninga og ég vissi að hann vantaði yfirkenn­ ara í ensku. Einkaskólar borga meira en ríkið, sjáið þið til, og ég hafði margra ára kennarareynslu í ríkisskóla. Veslings ~ 8 ~


Justin, það hlýtur að hafa verið mjög erfitt fyrir hann að láta mig fara. Vandræðalegt, þið skiljið. Og ég var látinn fara, ekki rekinn. Það var vel gert af honum, ég er þakklátur fyrir það. Ég hafði ekki efni á að missa eftirlaunin og var að kom­ ast á aldur svo að hann flýtti bara svolítið fyrir. Við vorum reyndar báðir að komast á aldur en brottför Justins var allt öðruvísi en mín. Ég frétti að sumir nemendur hefðu meira að segja tárfellt. Ja, hvers vegna hefðu þeir ekki átt að gera það? En ég átti ekki skilið þess konar tár. Ég vil ekki að þið fáið neinar ranghugmyndir um mig. Ég er ekki barnaníðingur. Ég káfaði ekkert á drengnum. Ég snerti hann ekki einu sinni. Nei, nei, ég snerti drengina aldrei. Sannleikurinn er sá að mér fannst þeir alveg hræði­ lega leiðinlegir. Er skelfilegt að segja slíkt um sjö ára börn? Ég geri ráð fyrir að svo sé þegar kennari segir það. Ég varð hundleiður á að lesa þessar þreytandi sögur þeirra sem ég er raunar viss um að sumir þeirra lögðu mikla vinnu í. En það var álitið sem þeir höfðu á sjálfum sér: að þeir, sjö ára, hefðu eitthvað að segja sem ég gæti haft áhuga á. Og eitt kvöldið var ég búinn að fá yfir mig nóg. Ég fékk ekki lengur næga útrás með rauða pennanum og þegar ég kom að ritgerð þessa drengs, ég man ekki hvað hann hét, lét ég honum í té nákvæma skýringu á því hvers vegna mér væri í rauninni skítsama um sumarleyfi fjölskyldu hans á Suður-Indlandi þar sem hún hafði dvalist í litlu þorpi. Það hafði áreiðan­ lega verið alveg andskoti dásamlegt fyrir þau. Auðvitað varð hann miður sín. Og auðvitað sagði hann foreldrum sínum þetta. Ég er ekkert leiður yfir því. Það flýtti fyrir brottför minni og það er enginn vafi á því að ég þurfti að fara; ekki síður mín vegna en drengjanna. Svo að hér var ég staddur, heima með kappnógan tíma. ~ 9 ~


Enskukennari við annars flokks einkaskóla, kominn á eftir­ laun. Ekkjumaður. Ég hef áhyggjur af að kannski sé ég ein­ um of hreinskilinn – að það sem ég hef sagt veki andúð. Það gæti litið út fyrir að ég sé grimmlyndur. Og það sem ég gerði drengnum var grimmilegt, ég viðurkenni það. En að öðru jöfnu er ég ekki grimmur maður. Eftir að Nancy dó hef ég reyndar látið reka svolítið á reiðanum. Jæja, þá það, heilmikið. Það er erfitt að trúa því að einu sinni var ég kosinn vin­ sælasti kennari ársins. Ekki af nemendum einkaskólans held­ ur nemendum í ríkisskólanum þar sem ég kenndi áður. Og það var ekki bara í eitt skipti, það var allmörg ár í röð. Eitt árið, ég held að það hafi verið 1982, fengum við Nancy þessi verðlaun bæði, í skólunum þar sem kenndum. Ég hafði fylgt á eftir Nancy í kennsluna. Hún fylgdi syni okkar þegar hann byrjaði í leikskóla. Hún kenndi fimm og sex ára börnum í leikskóla Jonathans og ég kenndi fjórtán og fimmtán ára börnum í grunnskólanum sem var við sömu götu. Ég veit að sumum kennurum finnst erfitt að eiga við þennan aldurshóp, en mér fannst það gaman. Gelgjuskeiðið er ekki mjög skemmtilegt og ég var á þeirri skoðun að það ætti að gefa greyjunum svolítinn séns. Ég neyddi þau aldrei til að lesa bók ef þau vildu það ekki. Saga er nú einu sinni saga. Það þarf ekki endilega að lesa hana í bók. Kvikmynd, sjónvarpsþáttur, leikrit – það þarf líka að fylgjast með slík­ um sögum, túlka þær, njóta þeirra. Þá var ég áhugasamur. Mér var ekki sama. En það var þá. Ég er ekki kennari leng­ ur. Ég er á eftirlaunum. Ég er ekkjumaður.

~ 10 ~


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.