1. Kaffið var löngu búið úr pappabollanum. Sonja stóð kyrr við kringlótt borðið og þóttist sötra upp um gatið á plastlokinu á meðan hún fylgdist með innritunarröðinni. Það var rólegt á Kastrup svona seint og einungis örfá flugfélög áttu enn eftir að senda vélar á loft. Samsonite-ferðatöskubæklingurinn lá á borðinu fyrir framan hana og hún fletti honum öðru hverju þó það væri óþarfi. Hún kunni hann utan að og mundi glöggt við hvaða myndir hún hafði merkt síðast þegar hún fór í gegnum þennan flugvöll. Enn voru röskir tveir tímar í brottför til Íslands en Sonja var í huganum farin að búa sig undir að fresta fluginu og nota sætið sem hún átti með morgunvélinni daginn eftir. Varaplan. Það þurfti alltaf að vera varaplan. Það skipti hana engu máli hvort hún færi með kvöldvélinni eða morgunvélinni, allur undirbúningur stóð óhaggaður. Hún hafði oft frestað ferð eða hætt við og tekið aðra flugleið ef eitthvað gekk ekki upp eða ef hún fékk á tilfinninguna að eitthvað væri ekki í lagi. Það bjóst enginn við henni heima og hún var vön að gista á flugvallarhótelum. Á meðan Sonja gíraði sig inn á varaplanið sá hún konuna
7
Gildran.indd 7
17.8.2015 09:32
koma gangandi inn í flugstöðina. Hún gekk hratt en hægði á sér þegar hún sá að enn var löng röð í innritunina og Sonju fannst hún næstum geta heyrt hana andvarpa af feginleika. Hún virtist vera tilvalin. Hún var hávaxin og ljósskolhærð eins og margir Íslendingar og þegar Sonja kom sér fyrir í röðinni fyrir aftan hana fékk hún sting í magann. Þessi ókunnuga kona hafði ekki gert henni neitt og undir venjulegum kringumstæðum hefði Sonja jafnvel drepið tímann með því að spjalla við hana um daginn og veginn. En það þýddi ekkert að vera með sektarkennd. Konan passaði inn í planið. Út af töskunni sem hún var með. Þetta var silfurlituð Samsonite-titanium flugfreyjutaska og hún hafði aðra smærri handtösku á öxlinni svo það hlaut að þýða að hún ætlaði að innrita Samsonite-töskuna. Það var heppilegt hvað Íslendingar voru tískumiðaðir, meira að segja í ferðatöskum. Röðin mjakaðist áfram og Sonja fylgdist með konunni á meðan áminningin til farþega um að láta farangurinn sinn ekki eftir litslausan ómaði í hátalarakerfi flugvallarins. Konan virtist vera annars hugar og annaðhvort heyrði hún ekki tilkynninguna eða tengdi hana ekki við sjálfa sig, því hún hreyfði höfuðið ekki einu sinni til þess að hvarfla augunum á töskuna sína, eins og stór hluti hinna farþeganna gerði líkt og ósjálfrátt þegar tilkynningin glumdi. Það var gott að hún var ekki stressuð týpa. Það gerði Sonju auðveldara um vik. Hún brosti með sjálfri sér þegar barnafjölskylda bættist aftan við hana í röðina. Þetta ætlaði að verða næstum of auðvelt. „Geriði svo vel,“ sagði hún. „Endilega farið fram fyrir.“ „Í alvöru?“ spurði pabbinn en var þegar farinn að ýta kerr unni með yngra barninu framar. „Sjálfsagt að barnafólk fari á undan,“ sagði Sonja vingjarnlega. „Hvað eru þeir gamlir?“
8
Gildran.indd 8
17.8.2015 09:32
„Tveggja og sjö,“ svaraði pabbinn og svarinu fylgdi þetta bros sem oft kom fram á varir feðra þegar þeir töluðu um börnin sín. Sonja hafði oft reynt að greina innihaldsefnin í þessu brosi en komst alltaf að þeirri niðurstöðu að meginuppistaðan væri stolt. Hún velti fyrir sér hvort Adam brosti ennþá svona þegar hann talaði um Tómas en hún hafði ekki séð Adam í tvö ár, nema í sjónhendingu. Öll þeirra samskipti fóru fram með smáskilaboðum og snerust bara um klukkan hvað Tómas yrði sóttur og hvenær honum yrði skilað. Hún virti fjölskylduna fyrir sér þar sem þau böksuðu farangrinum og börnunum áfram jafnóðum og röðin mjakaðist og fannst eins og það væru margir áratugir síðan þau Adam voru á ferðalagi í útlöndum með Tómas lítinn. Þau höfðu svo oft verið stressuð út af svo litlu og vissu ekki hversu dýrmætt það var að þurfa ekki að hafa raunverulegar áhyggjur. Smáatriðin sem þau höfðu áhyggjur af þá virtust svo innilega ómerkileg núna. Eftir að Sonja lenti í gildrunni. Það var einkennilegt hvað umhugsunin um fortíðina var ennþá sár. Börn gátu svo auðveldlega slegið hana út af laginu. Eldri drengurinn var bara sjö ára en örugglega jafn stór og Tómas. Síðast þegar hún sá hann, það er að segja. Hann hafði örugglega vaxið síðan. Hann virtist hreinlega stækka í hverri viku. Ljóshærða konan með Samsonite-töskuna var komin að innritunarborðinu og barnafjölskyldan gaf Sonju færi á að standa nógu lengi í röðinni til þess að hún gæti fullvissað sig um að hún myndi innrita flugfreyjutöskuna. Um leið og sú gráa rann af stað á færibandinu var komið að Sonju að innrita sig og hún fann hjartsláttinn aukast. Fyrst eftir að hún lenti í gildrunni fékk hún alltaf sektarkennd yfir hjartslættinum og spennunni og vellíðaninni sem fylgdi í kjölfarið en núna vissi hún að það
9
Gildran.indd 9
17.8.2015 09:32
var ekki hægt að gera þetta án þess að njóta spennunnar. Þeir sem ekki þoldu álagið fóru að skjálfa og urðu flóttalegir til augnanna og komu þannig upp um sig. Hinir, sem entust í þessu, voru eins og Sonja: rólegt fólk, fremur venjulegt í útliti og með óvenju háan streituþröskuld. Svo spillti ekki að vera klár og varfærin. Það skipti öllu máli að vera varfærin. „Enginn farangur?“ spurði innritunardaman og Sonja hristi höfuðið og brosti. Hún rétti konunni vegabréfið sitt og þegar hún tók við því til baka ásamt brottfararspjaldinu gat hún næstum heyrt sinn eigin hjartslátt líkt og taktfast trommustef í eyrunum.
10
Gildran.indd 10
17.8.2015 09:32
2. Tómas braut saman tvo stuttermaboli og setti ofan í töskuna sína og ákvað svo að taka líka appelsínugulu peysuna sem mamma hafði gefið honum. Þetta var stelpulitur, sagði pabbi, en Tómas og mamma voru ekki sammála því, þau vissu að þetta var landsliðstreyja Hollands í knattspyrnu. Pabbi hafði ekkert vit á fótbolta. Hann hugsaði bara um golf og Tómas var í raun feginn vegna þess að fyrst eftir skilnaðinn, eftir að mamma flutti til Reykjavíkur, hafði pabbi komið með á fótboltaæfingarnar, staðið á kantinum og öskrað fullum hálsi hallærislegar athugasemdir sem snerust allar um að hann ætti að hjóla í hinn og þennan, ekki sparka eins og aumingi og ekki hlaupa eins og kelling. Tómasi fannst betra að fara einn á æfingarnar en þegar það voru fótboltamót gat hann stundum séð mömmu á áhorfendapöllunum, þar sem hún veifaði í hann með þumalinn á lofti og hann gat séð á brosi hennar að hún var stolt af honum og að henni fannst gaman að sjá hann hlaupa um völlinn þó að hann skoraði aldrei mark. Hann vonaði að einhvern tíma myndi pabbi leyfa mömmu að vera með honum á fótboltamótunum, svo að hún þyrfti ekki að laum-
11
Gildran.indd 11
17.8.2015 09:32
ast til þess að horfa á hann úr fjarska. Þá gæti hún verið með hinum mömmunum, með nesti í boxi og knúsað hann á milli leikja. Tómas tók Jatsíið og setti það í töskuna. Hann hafði spurt mömmu í síðasta mánuði hvort hún vildi spila Jatsí og hún hafði orðið miður sín yfir því að eiga enga Jatsí-teninga. Nú ætlaði hann að bæta úr því og skilja Jatsí-teningana eftir hjá mömmu. Hjá pabba spilaði enginn Jatsí hvort sem var. „Ertu að pakka núna strax?“ Pabbi var argur í röddinni eins og hann var alltaf þegar talið sneri að mömmu og mömmuhelgunum. „Já, ég vildi bara vera tilbúinn,“ sagði Tómas og lokaði töskunni svo pabbi sæi ekki Jatsíið og appelsínugulu treyjuna. Það varð alltaf eitthvert mál úr því hvað var í töskunni ef pabbi fór að skipta sér af því. Tómasi fannst best að pakka sjálfur með góðum fyrirvara svo að þegar kom að því að mamma sótti hann þá gat hann kysst pabba snöggt, sagt „ég er tilbúinn“ og hlaupið út í bíl.
12
Gildran.indd 12
17.8.2015 09:32
3. Í öryggisleitinni dró Sonja af sér beltið, rúllaði því upp og lagði það í bakkann ásamt kápunni sinni og skónum. Í beltinu var eini málmurinn sem hún var með á sér. Hún var þegar búin að taka úr sér eyrnalokkana og draga af sér hringana og setja í kápuvasann. Hún vissi að þetta var óþarfi en vildi ekki hætta á líkamsleitina þó að pakkinn væri kirfilega festur milli fótanna eins og dömubindi og öryggisverðirnir færu aldrei alveg upp í klofið þegar þeir leituðu. Allur var varinn góður. Best var að vera hundrað prósent á öllu. Hún hélt niðri í sér andanum á meðan hún gekk í gegnum vopnaleitarhliðið þó að hún vissi að það myndi ekki baula. Hún brosti snöggt til varðanna og tók við töskunni sinni af færibandinu. Í töskunni var ekkert grunsamlegt, bara seðlaveskið hennar, passinn, brottfararspjaldið, varasalvi, púðurdós, greiða, opinn tyggjópakki, þvæld kilja með brotið upp á síðuhornið þar sem hún las síðast og svo auðvitað Samsonite-bæklingurinn. Sonja horfði á eftir fjölskyldunni hverfa inn í flugstöðina og flýtti sér í gagnstæða átt, að töskubúðinni. Það var fámennt á verslunarganginum og eitt augnablik greip hana skelfing
13
Gildran.indd 13
17.8.2015 09:32
þegar hún sá hversu margar búðir voru lokaðar. Flugvallarbúðir áttu það til að opna og loka eftir því hversu mikil umferð var um flugstöðina. En nú var A-planið komið af stað svo það var engin leið til baka. Þetta varð að ganga upp eins og hún hafði ætlað. Hún gekk eins hratt og pakkinn í klofinu leyfði og þegar hún sá opna framhlið töskubúðarinnar dró hún andann djúpt og um líkama hennar fór næstum vímukennd bylgja léttis. Hún bauð afgreiðslustúlkunni gott kvöld um leið og augun skimuðu um hillurnar í flýti. Þarna var hún, úti í horni í neðstu hillunni, Samsonite-titanium flugfreyjutaska. Sonja dró hana út úr hillunni og hristi höfuðið við ábendingum stúlkunnar um að hún gæti fengið nýrra módel fyrir betra verð. Þessi taska var sú eina rétta. Sonja dró tóma töskuna á eftir sér inn á kvennaklósettið og lokaði sig með hana inni í stóra básnum sem var ætlaður mæðrum með ung börn. Þar opnaði hún töskuna, kroppaði af henni límmiðann og setti handtöskuna sína í heilu lagi ofan í með öllu nema bókinni, seðlaveskinu með brottfararspjaldinu og passanum. Þá var ekkert í handtöskunni sem tengdist nafni hennar. Svo fletti hún upp um sig þröngu dragtarpilsinu, tók niður um sig sokkabuxurnar og svo aðhaldsbuxurnar og tók pakkann úr klofinu. Hann var blautur af svita en hún þurrkaði af honum með klósettpappír og setti hann í rennda hólfið í ferðatöskunni. Nú þurfti hún bara að fylla hana af drasli. Frammi skimaði Sonja eftir einhverju umfangsmiklu til að fylla fljótt upp í töskuna og eins og venjulega hugsaði hún um Tómas. Hún keypti handa honum bangsa með danska fánanum á, stóran bauk af kexi með dönsku konungsfjölskyldunni og risavaxinn poka með alls konar litlum súkkulaðistykkjum sem hann gæti geymt fram að afmælinu sínu. Við kassann bætti hún
14
Gildran.indd 14
17.8.2015 09:32
við röndóttum stuttermabol og einu af þessum tímaritum með límmyndum af fótboltamönnum sem hann hafði svo gaman af. Hún settist á bekk og þegar hún var búin að koma innkaupunum fyrir í töskunni var hún full. Sonja stóð á fætur og dró töskuna á eftir sér að ilmvatnsstandi sem hún hafði séð á leiðinni í töskubúðina, því það var einhvern veginn svo sjálfsagt að kona eins og hún væri með að minnsta kosti einn poka frá snyrtivörubúð í hendinni. Uppáhaldsstund Sonju í þessum ferðum rann upp þegar vélin spyrnti af stað í flugtak. Kannski var það ógnarkraftur vélarinnar sem hún fann fyrir í líkamanum þegar hún þrýstist niður í sætið sem gerði hana auðmjúka eða þá vitneskjan um það að nú væri hún sloppin í gegnum einn flugvöll klakklaust. Framundan var hæglát sigling um háloftin þar sem hún var utan lögsögu nokkurs manns. Hún stakk upp í sig tyggjóplötu og kom bókinni fyrir í sætisvasanum framan við sig og fletti á skjánum til að sjá hvort það væri komin einhver ný bíómynd í Evrópuflugið. Hún var búin að sjá þær allar, enda var dagskránni bara skipt út um mánaðamót. Hún fór yfirleitt tvær ferðir í mánuði. Hún myndi lesa í þessari ferð. Áður en flugfreyjurnar fóru á stjá með veitingarnar ríkti ró í vélinni og Sonja hallaði sér örlítið fram á ganginn og taldi hendurnar sem ríghéldu í stólarmana. Það var undarlegt til þess að hugsa að hún hefði sjálf einu sinni verið flughrædd. Áður en þetta byrjaði allt saman.
15
Gildran.indd 15
17.8.2015 09:32