Kona fer undir vatn - Hallgrímur Helgason

Page 1


Hallgrímur Helgason

Kona fer undir vatn Guðrún frá Lundi. Nafnið hljómar eins og Forni Hvammur, ilmar eins og taða, og bragðast eins og soðbrauð, eitthvað gamalt og gott, sem vekur upp ljúfa væntumþykju, fortíðarþrá og kveikir bros. Ég hef tekið eftir því: Alltaf þegar Guðrún frá Lundi er nefnd á nafn fer fólk að brosa, að hlæja. Laxness lætur fólk kasta aftur höfði, Þórbergur framkallar hneigingu, Steinn gerir menn steinhljóða, Guðbergur gerir fólki stút á munn og alltaf þegar Dagur er nefndur á nafn fara menn umsvifalaust að gyrða sig (ekki spyrja mig hversvegna) en þegar sú gamla frá Lundi dúkkar upp í samræðum fer fólkið að hlæja og slakar á. Öllum þykir vænt um hana en enginn tekur hana alvarlega. Dalalíf. Lengsta skáldsaga Íslands en léttvæg fundin. Hversvegna? Ekki kennd í skólum. Ekki með í miðjunni. Ófáanleg í bókabúðum. Hálfsársbið á bókasöfnum. Það þurfti heilt málþing til að maður færi að lesa. Og það var ekki auðvelt. Því fyrst var að útvega sér eintök. Það tók hálfan vetur að hafa upp á manni sem vildi selja. (Sjálfsagt hefði verið auðveldara að redda sér tveimur kílóum af heróíni í Reykjavík en fimm bindum af Dalalífi.) Röddin í símanum sagði: „Ég verð á hvítum sendiferðabíl á bílastæðinu fyrir utan Snælandsvídeó klukkan fimm á morgun. Kondu með cash.“ Og áhrifin voru svipuð og af dópi. Þegar maður var byrjaður var erfitt að hætta. Og þó er bókin 2.189 blaðsíður að lengd. Kæmi sagan út í dag yrði sagt í Kiljunni: „Jú jú, hún er ágæt. En það hefði mátt stytta hana um svona 1500 blaðsíður.“ Dalalíf er í raun ekki bók heldur dalur fullur af bæjum og fólki, veröld sem var, því þrátt fyrir allt trúir maður því að svona hafi lífið á Íslandi verið á torfbæjaröldunum fyrir þá tuttugustu. Það litla sem maður vissi um Dalalíf áður en lesturinn hófst var að í þeirri bók væri „alltaf verið að drekka kaffi“. Flestar bækur fá sínar klisjur, með réttu og með röngu, og það virðist nánast engin leið að hrista þær af. Sjálfstætt fólk er „hetjusaga hins sjálfstæða Íslendings“ TMM 2012 · 1

45


Hallgrímur Helgason

(úff), Tíminn og vatnið er „fyrsta atómljóðið“ (kannski ekki alveg), og Dalalíf er einn kaffiuppáhellingur út í gegn (kjaftæði). Körlunum hefur þótt þetta fyndið á sínum tíma. Þetta var þægileg afgreiðsla á bók sem þeir sáu konurnar drekka í sig, á meðan þeir sjálfir lágu í atómljóðum og ættum hrúta. Það er svo aftur rannsóknarefni hversvegna Íslendingum er svo gjarnt að niðra hlutum með því að tengja þá við kaffi. Því hér erum við að tala um ansi ramma hefð, sem vörðuð er orðum eins og „kaffibollaþvaður“ (eins og sagt var um Dalalíf) „Kaffibrúsakarlarnir“, „kaffihúsaspekingar“ og nú síðast „lattelepjandi lopatreflar í 101“… Já, hvað er þetta með kaffið? Alvöru karlmenn drekka bjór og brennivín. Kaffi er fyrir kellingar. Kellingabækur eru fullar af kaffi. Alvöru karlmenn lesa ekki bækur, og alls ekki langar bækur. Þeir eru búnir að drekka svo mikið að athyglisgáfan dregur ekki lengra en í fjórar línur. Ferskeytlan er þeirra form. Þeir kasta fram vísum, keyra á jöklum, skjóta hreindýr og sökkva landi. Kona fer undir vatn. Vatn til að þvo í þvottinn, vatn til að vaska upp, vatn til að hita í kaffi. Og vatn til vinna úr rafmagn. Hve táknrænt er það ekki að sögusvið Dalalífs, átthagar Guðrúnar frá Lundi, Stífla í Fljótum, skuli hafa horfið undir uppistöðulón. Fegursta dal landsins var fórnað til að framleiða fegursta rafmagn landsins. Rétt áður en bókin kom út. Og Þóra í Hvammi, Jón á Nautaflötum, Lísibet og Borghildur, Lína, Þórður og Ketilríður urðu að neðansjávarverum í íslenskum bókmenntum. Ósýnilegar á yfirborðinu en svamlandi um í þjóðardjúpinu, eins og ódrepandi fiskar. Guðrún Baldvina Einarsdóttir fæddist árið 1887 á Lundi í Fljótum og fór snemma undir vatn. Eins og allar konur af hennar kynslóð, menntaðar og ómenntaðar, var hún kaffærð af bústýringum og barneignum. Þrátt fyrir að hafa skrifað frá fermingu brenndi hún allt „handritadraslið“ daginn sem hún gifti sig, 23 ára gömul. Og sökkti sér í lífið. Ekki fyrr en seint og um síðir kom upp úr því kafi bók. Fyrsta bindi Dalalífs kom út árið 1946. Er það ekki ótrúlegt? Ímyndum okkur að sem unglingur hafi Guðrún frá Lundi verið fengin til að passa sveinbarn að nafni Halldór Guðjónsson — síðar Kiljan og Laxness. Hún er fimmtán ára þegar sá drengur fæðist. Þegar hann er fimm ára er hún tvítug. Þegar hann heldur út í heiminn verðandi skáld er hún þrítug þriggja barna móðir. Þegar hann er búinn að skrifa Vefarann, Sjálfstætt fólk, Sölku Völku, Heimsljós, Íslandsklukkuna og Atómstöðina … þá byrjar sú gamla loks að gefa út bækur. Og skrifar þó jafnmargar blaðsíður og hann, áður en yfir lýkur. 46

TMM 2012 · 1


K o n a f e r u n d i r va t n

Sumir koma seint en koma þó, með sálina fulla af sögum. „Hún var í kollinum á mér allan tímann,“ sagði Guðrún um Dalalíf. Og lesandinn skynjar að sagan hefur átt sér langa meðgöngu. Við skynjum að höfundurinn kann þessa sögu, kannski einum of vel. Stundum gleymir hann jafnvel að kynna persónur til leiks. Skyndilega tekur einhver Sigga til máls og við vitum ekkert hver það er. Stundum er því skotið inn eftir að persónan hefur tjáð sig að þetta sé strákurinn á bænum. Hvaða strákur? Hvaðan kom hann? Hver á hann? Höfundurinn má ekki vera að því að útskýra það, því sögunni vindur svo hratt fram. Guðrún stendur við framvinduna og hamast við að snúa henni, sá forkur sem hún er. Krafturinn virðist endalaus, persónur halda áfram að koma og fara, deyja og gifta sig, fram á síðustu blaðsíðu, rétt eins og í lífinu sjálfu. Aldrei hlé. Aldrei stopp. Stundum finnst manni eins og þessi bók sé stórt boð (nei, ég ætla ekki að segja kaffiboð) þar sem gestgjafinn er á þönum og má ekki vera að því að kynna alla gestina. Á tvö þúsund blaðsíðum stíga fram tugir manna og kvenna, sumir aðeins nefndir á nafn, en flestir fá að tala og allar eru þær persónur ákaflega sannferðugar og lifandi. Og er þar kominn helsti styrkleiki höfundar. Guðrún frá Lundi skapar persónur eins og að drekka vatn. Og gerir það á mjög athyglisverðan hátt. Ekki með því að lýsa þeim, ekki með því að dæma þær, ekki með því að fara með ættir þeirra eða segja sögu þeirra, heldur með því einu að láta þær tala. Dalalíf er einn látlaus díalógur. Það væri gaman að gera rannsókn á því og telja línurnar út. Minn grunur er sá að jafnvel meira en tveir þriðju hlutar textans sé bein ræða. Sagan gerist í orðum persónanna. Og því nánast eins og fullbúið handrit að sjónvarpsseríunni sem hlýtur að verða gerð. Og það sem meira er: Hér þarf ekki að hnika til orði, né aðlaga neitt. Vinur minn gerði kvikmyndahandrit upp úr Vefaranum og þar var díalógurinn höfuðvandamál því persónurnar töluðu svo fjálglega skáldlega. Þær fengu sér ekki morgunmat, heldur „gengu til dögurðar“. Þetta vandamál er ekki fyrir hendi hér. Maður trúir því allan tímann að persónur Dalalífs tali eðlilegt talmál síns tíma, og hver með sínum hætti. Og sál hverrar persónu speglast í orðum hennar. Í þessu eina orði „dévoðans“, sem Ketilríður tönnlast á, er allur hennar karakter saman kominn. Leiðréttið mig ef þið getið en ég man ekki eftir mörgum útlitslýsingum á þeim Jóni á Nautaflötum og Þóru í Hvammi sem verða þó að teljast aðalpersónur þessa mikla verks. Í tilfelli hennar er eitt sinn talað um tvær svartar fléttur. Um Lísibetu er einungis sagt að hún sé „glæsileg TMM 2012 · 1

47


Hallgrímur Helgason

kona, há og grönn, með mikið hrafnsvart hár“. Um Önnu Friðriksdóttur að hún sé „óttalegur pappírsbúkur“. Samt sem áður smjúga þessar persónur auðveldlega inn í vitund lesandans. Það lýsir vel karakternæmi höfundar að í hvert sinn sem greyið Anna Friðriksdóttir birtist framan af sögu fylgir henni þessi einstaki andblær af vængbrotnum hressleika, þessi angistarfulla jákvæðni hinnar veikburða stúlku, og allt er það einungis birt í orðum hennar. Og sama má segja um hitt fólkið. Maður sér það fyrir sér þótt höfundurinn sýni manni aldrei mynd af því. Lesandinn svamlar um í sagnadjúpinu líkt og í myrkri, en heyrir það sem sagt er og teiknar upp sína eigin mynd. Og hér blasir við fjölbreytt gallerí. Dekurprinsinn Jón og durturinn Siggi, skapsveiflandi Þóra og skyldurækin Magga, jafnlyndur Jakob og stuðmaðurinn séra Hallgrímur, búlynd Borghildur og lokkandi Lína. Og svo er það Ketilríður, kapítuli útaf fyrir sig. Í nýlegu hefti Stínu ritaði Bergsveinn Birgisson um norskan höfund að hann láti sér annt um bresti mannfólksins. (Sem er ansi góð lýsing á starfi rithöfunda, þessari stétt manna sem nærist á ógæfu mannfólksins.) Það sama má segja um Guðrúnu frá Lundi. Hún tekur fólki eins og það er. Og sýnir okkur eins og það er: Þessi er svona og svona og getur ekki öðruvísi verið. Hún hefur kjarna hvers og eins í greip sinni, og eðli hverrar persónu speglast því í orðum hennar með mjög nákvæmum hætti. Jafnvel í einni línu sem höfundur lætur upp í gamla konu nær hann að teikna upp allt hennar líf og sálarlíf, jafnvel líf heillar þjóðar. Eða hvað segir svona setning okkur ekki um þúsund ára stöðu íslenskra kvenna á grjóthellugólfum hlóðaeldhúsanna: Bls. 356: „Hvað er að heyra þetta, manneskja! Heldurðu að þú fáir að sjóða slátur brúðkaupskvöldið þitt!“ skrækti Magga.

Jafnvel börnin fá hér að tala á sínu máli og verða fyrir vikið sprelllifandi á síðunni. „Jakob á edda. Eggi daga edda,“ segir Jakob litli á bls. 544. Slíkur hæfileiki til persónusköpunar er ekki algengur meðal höfunda, og kúnstin að skrifa talmál (jafn auðveld og sjálfsögð hún virðist) er jafnvel enn sjaldgæfari. Er hér að líkindum kominn lykillinn að velgengni bókanna um lífið í dalnum. Lesendum finnst þetta vera lifandi fólk, alvöru fólk, og forvitnin verður því endalaus. Á tímabili var maður jafnvel farinn að velta því fyrir sér hvernig Jón væri í rúminu, svo raunverulegur var hann. Og þá veit ég ekki hversu oft ég hrópaði niður stigann, útum gluggann, í miðjum lestri: „Heyrðu, þau voru að missa barnið!“ Eða „Nei, nú eru Þórður og Lína farin að 48

TMM 2012 · 1


K o n a f e r u n d i r va t n

búa saman.“ – „Ha? Í alvöru? Eftir allt það sem er á undan gengið? Og hvað segirðu? Buðu þau Jóni í reisugillið? Djöfussins fokking meðvirkni er þetta maður.“ Annar lykill er svo líklega hið breiða sjónarhorn. Lesandinn flögrar í sífellu af burst á bæ, inní baðstofu og út á engjar, eins og fuglinn frjáls. Í einu vetfangi erum við horfin frá „aðalpersónum“ yfir til vinnufólksins og fáum álit þess á gangi mála. Þegar gesti ber að garði bíður vinnukonan jafnan á bakvið skemmu til að ná tali af þeim er þeir halda heim á leið, og þá fyrst fær fólk að heyra hvað er í gangi á bænum. (Smáatriði eins og þetta eru dýrmæt innlegg í sögu Íslands.) Og fyrir vikið verður sagan breiðari þjóðlífslýsing, fjölbreyttari og blæbrigðaríkari, og höfðar til allra. Höfundur leyfir fleiri en einum að opna sig; líkt og persónur á sviði stíga þær fram og fá að tjá sig milliliðalaust. Allir eru mannlegir, enginn er alvondur eða algóður. Höfundurinn er það stór í sér að hann dæmir ekki börnin sín. Og þetta veldur því líka að við vitum í raun aldrei hver tekur næst til máls, sem skapar spennu og eftirvæntingu. Á köflum vitum við varla um hvern sagan er. Höfuðatburði í lífi ungu hjónanna á Nautaflötum, fæðingu hins feiga stúlkubarns Lísibetar, er til dæmis aldrei lýst beint heldur fáum við aðeins fregnir af honum í gegnum tal vinnukvenna á bænum. Þrátt fyrir almennt „lýsingaleysi“ höfundar minnir frásagnartæknin því oft á kvikmynd með hröðum klippingum, og jafnvel á nýjustu tísku í þeim bransa, að segja frá sama augnablikinu frá sjónarhorni margra persóna, tækni sem við könnumst til dæmis við úr myndum Tarantinos. Frásögnin af því þegar lýst er með þeim Þóru í Hvammi og Sigurði hinum rauðhærða í kirkjunni á Nautaflötum er ágætt dæmi um þetta. Við fáum sjónarhorn Sigurðar, sem fer til messu, sem og vinnukonu hans Möggu, sem einnig er í kirkjunni, en einnig Þóru sem heldur sig heima. Þá fáum við líka viðbrögð nær allra kirkjugesta við þessu reginhneyksli. Þeir flykkjast inn í kokkhúsið að messu lokinni og byrja að hneykslast hástöfum. Sigurður er kallaður út undir vegg af Jakobi hreppstjóra, Magga gamla ætlar inn í húsið en hættir við vegna kjaftagangsins sem þar fer fram. Og hér fáum við bæði sjónarhorn Möggu þegar hún sér hvar Sigurður er á tali við Jakob, og það hvernig hún hættir við að fara inn í kokkhúsið, en einnig sjónarhorn Sigurðar þar sem hann ræðir við Jakob og svo líka sjónarhorn fólksins í kokkhúsinu sem sér Möggu snúa við í gættinni. Úr verður allt að því kviksjá fremur en kvikmynd, þar sem sjónarhornin skjótast að lesandanum sem sér í gegnum síðuna og spegilmynd hennar í þeirri næstu. Það sem gerir þó útslagið með Dalalíf er náttúrlega sagan sjálf. TMM 2012 · 1

49


Hallgrímur Helgason

Um hvað er þessi bók? Að miklu leyti fjallar hún um sálrænt ofbeldi, ævilangt einelti, ofríki karlmannsins og þjáningu kvenna. Framan af er meginsagan um Þóru í Hvammi og baráttu hennar við æskuástina. Jón Jakobsson er aðalgæinn í dalnum, sjálfur Dalaprinsinn, fallegastur og fjörugastur, situr best hest og leikur á harmóníku, eftirherma góð og dansherra með afbrigðum, sem og erfingi stærstu og bestu jarðarinnar. Herra Fullkominn. Og þar af leiðandi elskaður af öllum stúlkum, Þóru þar á meðal. Og líkt og slíkum mönnum er gjarnt kann hann manna best þá kúnst að halda þeim öllum heitum — hleypur á milli hellna eins og kokkur í stóru eldhúsi og kyndir undir hverjum potti — og ekki bara fram að brúðkaupi heldur að því loknu líka. Þetta kann að hljóma klisjulega en lýsingin á Jóni er þó sálfræðilega djúp og hárnákvæm. Ofbeldi hans er alltaf á ljúfu nótunum og vinalega fram borið. En í raun er hann illa dekraður egóisti sem fer sínu fram án tillits til annarra, ótruflaður af því sem samviska nefnist. Við getum sagt að hann sé siðleysingi. Drykkfelldur partýhrútur sem lætur sér ekki nægja að fá fallegustu stúlkuna á svæðinu heldur vill líka fá að geta börn með öllum hinum og líður engri þeirra að eiga annan mann. Hann gengur jafnvel svo langt að koma viðhaldinu sínu fyrir sem vinnukonu hjá Þóru sem þjáist í Hvammi og læðist svo um nætur inn í eldhúsið á bæ hennar til að fá gagn af stúlkunni. Hann vill ríkja yfir öllu og að allt lúti sér. Í raun má segja að hann sé hinn klassíski íslenski forkólfur, með Blackberry-símann í vöðlunum og laxeldiskerið aftan á pallbílnum. (Það mætti halda að þessi karakter hefði verið styrktur af Byggðastofnun.) Og Þóra er að eilífu föst í landhelgi þessa manns. Hún kemst aldrei undan ást sinni á þessum oflátungi, sem henni er þó fullvel ljóst að er meinvaldur lífs hennar. Hún reynir þó hvað hún getur að útiloka hann úr lífi sínu, að giftast öðrum manni, eignast börn og eiga sér líf, en verður sífellt að lúta í lægra haldi fyrir þessum veikleika sínum. Fyrstu bindi Dalalífs gætu í raun heitið Kvalalíf. Þóra sjálf virðist meðvituð um þetta og á erfitt með að horfa á kynsystur sínar falla í sömu gryfju. Þegar hún fréttir að mágkonan María ætli að lúffa fyrir lífinu og ekki fylgja ástinni sinni til Ameríku heldur taka að sér gamlan ekkjumann úti á Strönd, gerir hún sér tveggja daga ferð til hennar til að reyna að telja henni hughvarf. Og þá má spyrja: Var Guðrún frá Lundi með þessu að gagnrýna feðraveldið? Var hún að fjalla beint um undirokun kvenna? Var hún femínískur höfundur? Ja, hún skrifaði allavega sársaukasögu konu sem var að eilífu föst í Hrútadal. Í raun má segja að þessi hluti Dalalífs sé Sjálfstætt fólk frá sjónarhorni 50

TMM 2012 · 1


K o n a f e r u n d i r va t n

kvenna. Bók Laxness er saga um mann sem sáði í akur óvinar síns allt sitt líf. Bók Guðrúnar er saga konu sem þráir hjarta óvinar síns allt sitt líf. Hvort um sig eru þau Bjartur og Þóra föst í sínu þrældómskoti og í sífellu terroríseruð af yfirburðaljómanum og græskugæskunni sem stafar frá höfuðbólinu, Rauðsmýrarmaddömunni annarsvegar og Lísibetu Helgadóttur hinsvegar. Að öðru leyti eru bækurnar auðvitað gjörólíkar. Önnur er meðvituð metafóra hins „lærða“ og þaulsiglda höfundar, hins „frjálsa karlmanns“, tæknilega fullkomna orðfimleikamanns, sem sér hlutina í stóru samhengi og getur speglað örlög smælingjanna í stórviðburðum sögunnar, en hin rennur fram eins og bæjarlækurinn heima, sem aldrei fór neitt nema niður hlíðina, hrein og tær alþýðufrásögn, bein útsending úr lífinu í inndölum Íslands, borin fram af dalvísri dóttur þeirra alls ósigldri og alls ólærðri, auðmjúkri konu sem aldrei fór neitt nema í næsta dal, sem aldrei gat borið sig upp við heimshöfunda og talaði við blaðamenn eins og uppáþrengjandi símasölumenn. Hvað er þá Guðrún frá Lundi? Er hún bókmenntir eða er hún afþreying? Að mínu mati er hún kona sem fór undir vatn. Hún er góð sem slík en hér og þar skín á línur sem segja manni að hæfileikinn sem henni var gefinn hafi verið stærri en sá sem hún fékk að njóta. Af og til lyftist hún óvænt upp úr atinu þar sem hún stendur við framvinduna eins og handsterk vinnukona sem þeytir frá sér þremur nýjum persónum á dag og slettir í eina jarðarför í bland. Af og til glampar á annan og enn stærri höfund. Bls. 410: „Ætlarðu að fara að byggja?“ spurði Magga. „Já, auðvitað strax í vor.“ Sigurður leit til Þóru, hún drakk kaffið án þess að líta upp eða láta það sjást, að hún heyrði, hvað þau sögðu. „Ég hef glugga sunnan á stafninum og svo annan þarna hjá eldavélinni.“ Hann benti á, hvar eldavélin ætti að vera. Magga horfði í sömu átt. „Hvaða svosem umturnun er þetta í stráknum? Hefur hann ekki nema rifið ofan af rúminu? Er ég nú aldeilis hissa“ sagði Magga og lést vera alveg forviða. Þóra gaut hornauga til rúmsins með sama svip og krakki til brotins bolla, sem hann hefur tekið út hirtingu fyrir.

Þetta er ótrúlega næm lýsing á einu augnaráði. Bls. 530: Svo var tekin stór gröf, hlaðin innan með grjóti, svo moldin hryndi ekki ofan á kistuna litlu, sem var látin síga niður í þetta gímald, alþakin blómum, og sýndist svo ákaflega einmana. Svo var stór tréfleki lagður yfir gröfina eins og skilrúm milli lifandi og dauðra. TMM 2012 · 1

51


Hallgrímur Helgason

Þetta er flott. Eins og skilrúm milli lifandi og dauðra. Á næstu síðu er einnig að finna snjalla línu. Bls. 531: „Það fer eins og ég hef sagt að hún lognast útaf á eftir barninu, áður en langt um líður,“ sagði Sigga gamla einn morguninn við Finn úti á hlaðinu. Finnur gamli athugaði bæjarbustina vandlega áður en hann svaraði. „Ónei, Sigríður sæl. Það verður einhver á undan henni í garðinn, sem hraustari sýnist vera.“

Hér er enginn venjulegur afþreyingarhöfundur á ferð. Gamli maðurinn þaulskoðar bæjarburstina áður en hann svarar. Þið afsakið, en þetta minnir helst á Laxness. En Guðrún bætir um betur. Með þessu trixi, að láta Finn gamla horfa svona vel á bæjarburstina áður en hann svarar, fær hún okkur til að trúa orðum hans. En tekur okkur svo í bólinu tuttugu síðum síðar með því að láta húsfreyjuna deyja, þvert á orð þess gamla. Andláti Lísibetar er síðan lýst á mjög athyglisverðan hátt. Jón sonur hennar er inni hjá henni. Bls. 555: „Andardrátturinn var þungur og hryglukenndur. Hann flýtti sér að opna húsið. Baðstofan var mannlaus en framan úr kokkhúsinu heyrðist glaðvær hlátur stúlknanna. Þær höfðu verið að fá sér aukakaffi [ókei, smá kaffi hér] og ætluðu að láta Siggu lesa í bollana.“

Jón biður síðan Borghildi að fylgja sér inn til móður sinnar. Stuttu síðar kemur hún aftur fram: „Borghildur fór fram í kokkhúsið og sagði, hvað var orðið skipt um inni. Bollarnir voru settir harkalega niður, eins og þeir hefðu átt sök á því, að látið var svona kjánalega á þessari alvörustundu.“

Maður heyrir í þeim hljóðin, þegar postulín skellur á tré, og senan lifnar við um leið og dauðinn er staðfestur. Svona sérstæða og nákvæma mynd málar ekki miðlungshöfundur. Eftirminnileg er einnig lýsingin á viðhaldinu Línu þegar Þóra kemur að henni og Jóni í sínu eigin eldhúsi um miðja nótt. Stúlkan kýs að hreyfa sig ekki en heldur þétt um hálsinn á hreppstjóranum. Bls. 999: „Lína sat alltaf í sömu stellingunum, með lokuð augun, og líktist helzt sofandi barni.“

52

TMM 2012 · 1


K o n a f e r u n d i r va t n

Þá má einnig nefna sterka senu sem gerist í Reykjavík, þegar hinn illyrmislegi Páll Þórðarson, þá orðinn ræsisróni í sunnansollinum, sér óvænt Nautaflatafjölskylduna á götu í miðbænum. Og hér kemur loksins lýsing: Bls. 2053: „Ójá, þetta er nú konuskepnan. Ekki ósköp þrælkunarleg, sýnist manni. Andlitið er eins og því hefði verið stungið ofan í mjólkurtunnu. […] Hvað svosem skyldi það að vera að gera hér í Reykjavík, þetta pakk? […] Þetta er víst sonurinn, einbirnið. Alveg eins og maður sjái sundurskotinn hausinn á honum Friðriki kaupmanni.“

Aðeins stór höfundur getur liðið að svona sé talað um fólk sem hann hefur skrifað um 2000 blaðsíður. Fræg er líka flott athugasemd um Ameríku: Bls. 618: „Ameríka er nú áþekkust himnaríki, að mér finnst,“ sagði Katrín. „Það eru fögur fyrirheit, en það eru fáir sem geta sannað þá alsælu.“

Ég veit satt að segja ekki hvort finna megi betri uppsúmmeringu á því ágæta landi. Að lokum ber síðan að nefna Ketilríði en persónan sú verður að teljast eitt af afrekum íslenskrar bókmenntasögu. Þar hefur höfundur skapað heilt eldfjall, tröllaukinn karakter sem heltekur söguna og huga lesandans af svo miklu afli að leita verður til mjög stórra höfunda eftir samanburði. Svo mikill og stór er lífskrafturinn í þessari skáldsagnapersónu að kerlingin bókstaflega tekur mann hálstaki, maður finnur líkamlega fyrir henni. Mig dreymdi hana í þrjár nætur að lestri loknum. Kannski er Ketilríði best lýst í þessari stuttu setningu: Bls. 697: „Svo kyssti hún Sigþrúði svo fast að hana verkjaði í andlitið.“ Sagt hefur verið um Rómeó og Júlíu að höfundurinn hafi orðið að kála eftirlætinu sínu, hinum ofurmælska og ofurskemmtilega Merkútsíó, strax í þriðja þætti, annars hefði hann stolið öllum senum eftir það. Konan frá Lundi virðist hafa lent í sömu vandræðum með Ketilríði og jarðar þessa meistarasköpun sína áður en hún yfirtekur Dalalíf. Kerlingin sú er einn dévoðans húmor út í gegn. Fyndni er annars sjaldan í forgrunni sögunnar en liggur þó undir mörgum senum einsog hundur undir rúmi og rýkur svo upp með gelti á stöku stað. Kaflinn þar sem rauðhærðar systur Sigurðar birtast skyndilega í Hvammi með hávaða og hundrað spurningum er fyndinn, sem og lítið atvik í fyrrnefndri lýsingarathöfn í kirkjunni á Nautaflötum. Siggi hefur um skeið TMM 2012 · 1

53


Hallgrímur Helgason

verið vinnumaður hjá Þóru í Hvammi og engan grunaði að neitt væri á milli þeirra þegar skyndilega er lýst með þeim við messu á Nautaflötum, að viðstöddu fjölmenni. Brúðkaup er semsagt í bígerð. Magga gamla, vinnukonan í Hvammi, situr þar líka, jafn grunlaus og aðrir. Bls. 327: Nú varð fólkið fyrir alvöru hissa. Enginn þó eins og Magga gamla, hún leit hræðslulega í kringum sig, alveg eins og hún ætti von á, að allur söfnuðurinn gæfi sér utan undir fyrir að hafa ekki hugmynd um hvað verið hafði að gerast á hennar eigin heimili.

Semsagt: Guðrún Baldvina er magnaður höfundur. En hvernig höfundur hefði hún orðið hefði hún gert eins og Laxness, sett sig í skip á sautjánda ári og haldið út í heim? Reynum að sjá fyrir okkur Guðrúnu frá Lundi á kaffihúsi í París árið 1910, með verðandi dúndurskáldum og dadaistum. Laus við börn og bústörf hefði hún auðvitað orðið annarskonar höfundur, líkast til meira á heimsvísu en dalvísu, og við hefðum eignast tvo alþjóðlega stórhöfunda á tuttugustu öld, talað væri um von Lund und Laxness. En allt er það ef og hefði. Þessi mikli rithöfundur fékk ekki að fóstra og næra sinn stóra hæfileika þegar hann þurfti þess mest. Hún var föst í torfbæjareldhúsinu og fékk hvorki yfirlestur né ritstjórn, hvað þá að njóta þeirrar dýrmætu uppörvunar sem fylgir samneytinu við aðra höfunda. Fyrir vikið fengum við „alþýðubókmenntir“ í hæsta gæðaflokki og fráleitt að sýta það. Rétt eins og Hrútdælingarnir eru eins og þeir eru ber okkur að taka þykkustu bók Íslands eins og hún er. Við verðum að leggja frá okkur hefðbundinn mælikvarða á bókmenntir, kveðja kallinn, finna í okkur konuna og fara undir vatn, reyna þar að kalla fram í okkur sundtökin í annarskonar lestrarheimi en við eigum að venjast. Því þessi saga er unique. Það sem kom þó kannski mest á óvart við lestur Dalalífs var að ná óvænt sambandi við annan heim, því hér liggur leyndur þráður aftur til Íslendingasagnanna, þær einu heimsbókmenntir sem þekktust í afskekktum byggðum Íslands um margra alda skeið. Sú er hefðin sem Guðrún sprettur úr. Það er engu líkara en að síðasti sagnaritarinn hafi falið eldinn að lokinni ritun síðustu sögu á skinn og sautján kynslóðir geymt hann handa Guðrúnu frá Lundi: Já, svona líta Íslendingasögurnar út eftir átta aldir í súr. Margt hefur breyst en annað ekki. Þær sem fyrrum réðu drauma spá nú í bolla og þeir sem áður hefndu húskarla sinna hefna nú hrúta sinna. Knýja kolbrjálaðir dyra á næsta bæ með 54

TMM 2012 · 1


K o n a f e r u n d i r va t n

höfuðið af eftirlætishrútinum sínum. Og mæta þar Ketilríði hálfklæddri í gættinni. Bls. 685: „Góðan daginn,“ sagði hún með lævísu uppgerðarbrosi. „Hvað gengur að þér, nágranni góður? Ertu svínfullur eða hringlandi vitlaus?“

Já, það er hér skyldleiki við skinnsögurnar. Sami skýrleiki í persónu­ sköpun, sama lifandi aflið. Eða um hvaða sögupersónur tala Íslendingar? Þeir tala um Gunnar og Njál, Hallgerði og Bergþóru, Gretti og Egil, Bjart í Sumarhúsum, Sölku Völku og Snæfríði Íslandssól. Þóru í Hvammi, Jón á Nautaflötum og Kötluna sem gýs. Guðrún frá Lundi hefði getað orðið betri höfundur, ef tíminn hefði gefið henni friðinn til þess. En hún er samt afreksmanneskja fyrir því. Okkur ber að þakka að konu sem fór undir vatn hafi tekist að koma svona miklu á þurrt, hafi tekist að skrifa dalinn sinn upp úr óminnisdjúpinu. Dalalíf er dýrmæt bók, því hún fangar lífið á Íslandi eins og það var á öldunum fyrir rafmagn; lífið eins og það var þegar engar skáldsögur voru hér skrifaðar; hún brúar bilið á milli Íslendingasagna og Halldórs Laxness. Guði sé lof fyrir G. frá Lundi.

TMM 2012 · 1

55


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.