Hamingjuvegur - Liza Marklund

Page 1


MĂĄnudagur 13. maĂ­



Það fyrsta sem hún veitti athygli var þögnin. Hundurinn gelti ekki. Yfirleitt stóð hann við bílskúrsdyrnar og gólaði svo að hann froðufelldi, hann rykkti í hálsólina þar til þrýstingurinn á barkann breytti geltinu í þvingað hvæs. Það var eitthvað að hundinum, það hafði henni alltaf fundist. Ef hann hefði verið manneskja þá hefði hann verið með eitthvert skammstöfunarheilkenni, það var hún alveg viss um. Hann var reyndar bara sætur að sjá, kolsvartur á feldinn, með stórar loppur, en hann pírði alltaf augun og tennurnar voru of stórar. Henni fannst hann agalaus og ekki traustvekjandi. Það að hann skyldi ekki gelta vakti með henni óljósan létti. Léttirinn hvarf eins og hendi væri veifað þegar hún uppgötvaði að bakdyrnar voru ólæstar. Hún opnaði þær hljóðlaust, dokaði við í dyragættinni, fann þurrt og heitt inniloftið skella á andlitinu. Tómleikinn bergmálaði í íbúðinni. Svo kom lyktin. Hún var ekki óþægileg, bara framandi. Eilítið sæt og beisk í senn. Hún átti ekki heima hérna. Hún steig snöggt þetta eina skref inn í þvottaherbergið og lokaði dyrunum á eftir sér eins hljóðlega og hún gat. Óþægindatilfinningin varð sterkari. Allt var ofurhljótt. Hún heyrði hjartslátt sinn dynja í höfðinu á sér. Hægt og hljóðlega beygði hún sig niður og fór úr stígvélunum. Það hafði þegar myndast lítill vatnspollur í kringum þau. Ósjálfrátt teygði hún sig í klút á borðinu og þurrkaði upp vatnið. Töfflurnar hennar stóðu hjá þvottavélinni en af ein13


hverri ástæðu lét hún þær eiga sig. Hún tróð vettlingunum í kápuvasann, fór úr kápunni, tók af sér húfuna og trefilinn og hengdi allt saman ásamt handtöskunni á snagann við bakdyrnar. Gekk síðan í átt að eldhúsinu á sokkaleistunum. Lykt­ in varð sterkari. Ljósið undir diskaskápnum var kveikt. Það þriðja sem kom á óvart, hugsaði hún. Hundurinn. Bakdyrnar. Ljósið undir diskaskápnum. Umhverfissinnaður, hugsaði hún. Maður varð að vera um­ hverfis­­sinnaður. Spara rafmagnið. Það er nauðsynlegt ef stjórn­ málamaður á að þykja trúverðugur. Hann verður að vera góð fyrirmynd fyrir kjósendurna. Til eftirbreytni. Hún slökkti ljósið, gekk með fram eldhúsbekknum og fram í forstofuna. Þar lá hundurinn. Hún hélt fyrst að þetta væri einhver annar hundur. Hann sýndist svo lítill. Dauðinn hafði minnkað hann. Súrrandi kraftur­inn sem hafði leikið um hann í lífinu var gufaður upp og nú lá hann þarna eins og tuska á forstofuteppinu með persneska mynstrinu, óekta. Það var gersamlega ómögulegt að þrífa það með ryksugunni, hún þurfti alltaf að moppa það á eftir. Blóðið úr hundinum hafði ekki sogast niður í plast­ akrýlefnið heldur myndað poll ofan á teppinu og þornað þar í brúna skorpu. Henni varð þungt um andardráttinn. Hún svitnaði í handar­ krikunum eins og hún var vön að gera í miklum hávaða, eins og hún hafði alltaf gert þegar skólasystkini hennar í barnaskólanum hættu að einbeita sér að bókunum og stöppuðu fótunum í steingólfið. Hún reyndi að herða sig upp. Í rauninni hafði henni aldrei litist á hundinn. Stefan hét hann víst. Hvernig gat fólk eiginlega nefnt skepnu slíku nafni? Hún færði sig þétt upp að veggnum og gekk inn í dagstofuna. Gardínurnar voru dregnar fyrir. Hún deplaði augunum 14


nokkrum sinnum inn í rökkrið. Þar var enginn. Loftið var heitt og kæfandi. Hún kyngdi. Hún átti að koma sér burt héðan. Undireins. Einhver hlaut að hafa drepið hundinn. Þetta var ekkert slys. En af hverju hafði hann verið drepinn? Hún heyrði eitthvert hljóð. Einhver stundi. Eða hóstaði kannski. Hálfkæft hljóð eins og frá manni. Hún stirðnaði upp. Það hafði borist að ofan, frá svefnherbergjunum. Hún leit í átt að stiganum. Eiginmaðurinn mátti ekki sjá hana. Hvernig átti hún að útskýra þetta fyrir honum? Veru sína hér? Fyrst dyrnar höfðu verið opnar, ólæstar. Hver sem var hefði getað farið inn. Hún leit aftur á hundinn. Hann hlaut að hafa drepið hundinn. Hvers vegna hafði hann drepið hundinn? Hafði eitthvað komið fyrir börnin? Hvað ef börnin væru þarna uppi! Henni fannst hún aftur heyra eitthvert hljóð að ofan en hún var ekki viss. Hvað átti hún að gera? Húsið átti að vera mannlaust. Læst, ljóslaust. Hún stóð hreyfingarlaus í forstofunni í margar mínútur eða kannski var það ekki svo lengi. Loks þurrkaði hún svitann úr lófunum á buxnaskálmunum, tók nokkur hröð skref fram hjá hundshræinu og flýtti sér andstutt upp stigann, áður en henni gafst tóm til að sjá sig um hönd. Hún forðaðist að stíga á fimmta og sjöunda þrepið, því það brakaði í þeim. Dyrnar á barnaherberginu voru lokaðar. Hún opnaði þær varlega, vissi að það myndi ekki ískra í hjörunum. Það voru aðeins nokkrar vikur síðan hún hafði smurt þær með olíu. Rúllugluggatjöldin með kanínunum voru dregin niður. Brúð­ ur og tuskudýr lágu í rúmum sínum. Að öðru leyti var her15


bergið tómt. Rúm barnanna umbúin og óhreyfð, Isaks, Samuels og svo Elisabethar litlu, úti við gluggann. Hún andvarpaði af létti, lokaði dyrunum og gekk að stóra svefnherberginu. Eiginmaðurinn lá í hjónarúminu, ef þetta var þá hann. Hún hafði aðeins séð hann á brúðkaupsmyndinni og þekkti ekki andlit hans aftur. Munnur hans var galopinn, framtennurnar horfnar. Líkamsstaðan var óeðlileg, hún vissi ekki til þess að handleggir og fótleggir gætu verið í þessum stellingum. Hann var í skyrtu og buxum. Engir sokkar. Iljar hans voru sprungnar. Hún starði á manninn og fann líkama sinn fyllast af einhverju þungu og hlýju sem kom innan frá og fyllti hana alla og gerði henni erfitt um andardrátt. Einhver hafði gert manninum þetta. Hvað ef hann væri ennþá staddur í húsinu? Surgandi hljóð barst upp úr hálsi mannsins. Þyngslin slepptu takinu á fótum hennar, hún hrasaði aftur á bak út á ganginn, náði jafnvæginu á ný og fór fram hjá barnaherberginu, niður stigann, fram hjá hundshræinu, fram í eldhúsið og síðan þvotta­ herbergið. Svitinn rann niður eftir líkama hennar á meðan hún baksaði við að hneppa að sér kápunni. Grátandi læsti hún bakdyrunum á eftir sér, tárin voru brennandi af söknuði og kannski líka af sektarkennd.

16


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.