Það var ekki fyrr en fyrsta líkið fannst að upptakan var tekin alvarlega. Þetta var vídeóbútur á Youtube og hlekkur á hann hafði verið sendur á netfang Rannsóknarlögreglu ríkisins. Honum fylgdi enginn texti og ekki reyndist unnt að rekja hvaðan hann kom. Ritararnir á skrifstofunni unnu vinnuna sína, smelltu á hlekkinn og horfðu á filmubútinn. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að um óskiljanlegt grín væri að ræða en færðu samt allt til bókar. Tveimur dögum síðar voru þrír reyndir rannsóknarlögreglumenn staddir í litlu herbergi á áttundu hæð í aðalstöðvum rannsóknarlögreglunnar í Stokkhólmi vegna þessarar sömu upptöku. Sá elsti sat á lélegum skrifborðsstól, hinir stóðu. Upptakan sem þeir skoðuðu á tölvuskjánum var aðeins fimmtíu og tveggja sekúndna löng. Hún var tekin úr felum með óstöðugri myndavél í gegnum svefnherbergisglugga konu á fertugsaldri sem var að klæða sig í svartar sokkabuxur. Mennirnir þrír fóru hjá sér við áhorfið og fylgdust þegjandi með undarlegum tilburðum konunnar. Til þess að fá sokkabuxurnar til að sitja vel klofaði hún hátt yfir ósýnilegar hindranir en stóð síðan flennigleið og hneigði sig og beygði. Næsta mánudagsmorgun fannst þessi sama kona í eldhúsi í raðhúsi á Lidingö rétt fyrir utan Stokkhólm. Hún sat á gólfinu með munn-
Hrellirinn_11 pt.indd 5
7.8.2015 15:21
6 ~ inn einkennilega galopinn. Blóðið hafði spýst upp á gluggarúðuna og yfir hvíta orkídeu í potti. Konan var aðeins klædd í brjóstahaldara og sokkabuxur. Réttarkrufning í sömu viku leiddi í ljós að henni hafði blætt út vegna skurða og stungusára í hálsi og andliti sem henni höfðu verið veitt af mikilli grimmd.
Hrellirinn_11 pt.indd 6
7.8.2015 15:21
~ 7 Orðið stalker (eltihrellir) hefur verið til í sænsku frá því snemma á átjándu öld. Í upphafi þýddi það flækingur eða veiðiþjófur. Árið 1921 gaf franski geðlæknirinn de Clérambault út niðurstöður rannsóknar sinnar á sjúklingi sem átti í ímynduðu ástarsambandi. Þetta er af mörgum álitið vera fyrsta nútímalega greiningin á eltihrelli. Nú til dags merkir hugtakið eltihrellir persónu sem þjáist af umsátursheilkenni, sjúklegri áráttu til að fylgjast náið með annarri persónu. Næstum því tíu af hundraði landsmanna hafa einhvern tíma í lífinu lent í ofsóknum af einhverju tagi. Algengast er að eltihrellirinn eigi eða hafi átt í sambandi við fórnarlamb sitt en mjög oft er það tilviljunum háð hver verður fyrir ofsóknum ef þær beinast að ókunnugum eða fólki sem hefur unnið sér eitthvað til frægðar. Þótt yfirleitt sé óþarfi að grípa til aðgerða lítur lögreglan athæfi sem þetta mjög alvarlegum augum vegna þess að sjúkleg árátta eltihrellis getur leitt til hættulegs atferlis. Rétt eins og skýin milli uppstreymis og niðurstreymis geta í þrumuveðri breyst í fellibyl geta tilfinningar eltihrellisins sveiflast milli tilbeiðslu og haturs og snögglega brotist út með miklum ofsa.
Hrellirinn_11 pt.indd 7
7.8.2015 15:21
1 Klukkuna vantar korter í níu föstudaginn tuttugasta og annan ágúst. Eftir draumkennt húm og bjartar nætur skellur myrkrið á undrafljótt. Það er þegar komið niðamyrkur fyrir utan glervegginn á anddyrinu að höfuðstöðvum ríkislögreglustjóra. Margot Silverman kemur út úr lyftunni og stefnir í átt að öryggisdyrunum í anddyrinu. Hún er klædd í svarta hneppta peysu, hvíta blússu sem er fullþröng yfir brjóstin og svartar síðbuxur. Hátt mittið á buxunum strekkist yfir framstæðan og stækkandi kviðinn. Hún gengur rólega í átt að snúningshurðinni á glerveggnum. Vaktmaður situr við afgreiðsluborðið og fylgist með á skjá. Öryggismyndavélar eru um allt í þessu stóra húsi og þær eru í gangi allan sólarhringinn. Margot er með ljóst hár sem minnir á fínslípað birki. Það er tekið saman í þykka fléttu sem nær niður á bak. Hún er þrjátíu og sex ára gömul og gengur með sitt þriðja barn. Hún er blómleg með skær augu og rjóðar kinnar. Í lok erfiðrar vinnuviku er hún á leið heim. Hún hefur unnið yfirvinnu á hverjum degi og tvisvar fengið snuprur fyrir. Hún er nýráðin við rannsóknarlögregluna sem sérfræðingur í raðmorðum, morðæði og eltihrellum. Morðið á Mariu Carlsson er fyrsta verkefni hennar sem rannsóknarfulltrúi. Það eru engin vitni að verknaðinum og enginn er grunaður. Hin myrta var einstæð, átti engin börn og vann sem framleiðslufulltrúi í Ikea. Hún hafði flutt í skuldlaust raðhús foreldra sinna þegar móðir hennar flutti á elliheimili eftir lát föðurins. Maria var vön að fá far með samstarfskonu sinni í vinnuna en þennan morgun stóð hún ekki og beið niðri á Kyrkveginum. Samstarfskonan ók heim til hennar,
Hrellirinn_11 pt.indd 8
7.8.2015 15:21
~ 9 hringdi dyrabjöllunni, leit inn um gluggana og sá hana inn um einn þeirra. Hún sat á gólfinu, andlitið var sundurskorið, höfuðið lá út á hlið, næstum afhöggvið og munnurinn undarlega gapandi. Samkvæmt fyrstu upplýsingum eftir réttarkrufningu er álitið að munnurinn hafi verið galopnaður eftir dauðann en það er líka fræðilegur möguleiki að hann hafi opnast af sjálfu sér. Dauðastjarfi byrjar í hjartanu og þindinni en kemur fram í hálsi og kjálkum eftir aðeins tvo tíma. Það er föstudagskvöld og aðeins sárafáir á ferli í stóru anddyrinu. Tveir lögregluþjónar í dökkbláum peysum standa og tala saman og þreytulegur saksóknari kemur út úr herbergi þar sem ákvarðanir eru teknar um gæsluvarðhald. Þegar Margot var ráðin sem rannsóknarfulltrúi vissi hún vel af því að henni hætti til að vera of metnaðargjörn, hún vildi of mikið og hugsaði of stórt. Það yrði hlegið að henni ef hún opinberaði sterkan grun sinn um að hér væri raðmorðingi á ferð. Þessa viku hefur Margot Silverman oftar en tvö hundruð sinnum horft á Mariu Carlsson klæða sig í sokkabuxur. Allt bendir til þess að hún hafi verið myrt strax eftir að upptakan var sett inn á Youtube. Margot hefur reynt að ráða í merkingu myndskeiðsins en hún getur ekki séð neitt sérstakt út úr því. Sokkabuxnablæti er ekki óalgengt en ekkert í sambandi við morðið bendir til slíkrar tilhneigingar. Myndin sýnir bara stutt atvik úr lífi venjulegrar konu sem býr ein, er í góðu starfi og á leið út á kvöldnámskeið í teiknimyndagerð. Það er engin leið að geta sér til um ástæðu þess að morðinginn var í garðinum hjá Mariu. Hvort hann var þar af tilviljun eða hvort atburðarásin hafi verið vandlega skipulögð en nokkrum mínútum fyrir morðið gerir hann vídeóupptöku af henni og fyrir því hlýtur að vera einhver ástæða. Úr því að hann sendir lögreglunni hlekkinn vill hann sýna henni eitthvað. Morðinginn vill vekja athygli á einhverju í fari einmitt þessarar
Hrellirinn_11 pt.indd 9
7.8.2015 15:21
10 ~ konu eða annarra vissra kvenna. Ef til vill á það við um allar konur, jafnvel allt samfélagið. En í augum Margotar er ekkert sérstakt að sjá við hegðun konunnar eða útlit. Hún einbeitir sér bara að því með hrukku á enni og stút á munni að fá sokkabuxurnar til að sitja almennilega. Margot er búin að fara tvisvar í raðhúsið við Bredablicksveginn eftir að hafa skoðað vídeómyndir tæknifólksins sem teknar voru á vettvangi áður en hreyft hafði verið við nokkru. Myndskeið morðingjans er næstum ástúðlegt í samanburði við myndir lögreglunnar. Myndirnar sýna hrátt og vægðarlaust ummerkin eftir villimannslega árásina. Hin látna er mynduð frá ýmsum hliðum þar sem hún situr útglennt á gólfinu í dökkum blóðpolli. Brjóstahaldarinn er í henglum og lafir til annarrar hliðar, hvítt brjóst liggur á þrútnum fitufellingum á maganum. Það er næstum ekkert eftir af andlitinu, bara gapandi munnur í rauðri kássu. Eins og af tilviljun nemur Margot staðar við ávaxtaskálina á sófaborðinu, hún lítur á vaktmanninn sem talar í símann og snýr svo baki við honum. Hún fylgist stutta stund með spegilmynd hans á glerveggnum út að upplýstum skálanum en svo tekur hún sex epli úr skálinni og stingur þeim í veskið sitt. Sex er of mikið, hún veit það, en hún gat ekki hætt fyrr en hún hafði tekið öll eplin sem voru þarna. Henni dettur í hug að Jenny geti kannski búið til eplapæ í kvöld með karamellubráð úr smjöri, kanil og sykri. Síminn hennar hringir og hún hrekkur upp úr hugsunum sínum. Hún sér á skjánum mynd af Adam Youssef sem er í rannsóknarhópnum hennar. – Ertu enn í húsinu? spyr hann. Segðu já, af því að við höfum ... – Ég er í bílnum á Klarastrandsleden, lýgur hún. Hvað ætlaðir þú að segja? – Við höfum fengið nýja upptöku. Hún finnur kipp í maganum og tekur hendi undir þungann. – Nýja upptöku, endurtekur hún. – Kemurðu?
Hrellirinn_11 pt.indd 10
7.8.2015 15:21
~ 11 – Ég sný við, segir hún og leggur af stað til baka. Láttu gera eintak handa okkur. Margot hefði getað haldið áfram út gegnum anddyrið, farið heim og ákveðið að láta Adam um þetta. Hún þarf bara að hringja eitt símtal til þess að fá heilsárs barnsburðarleyfi á launum. Hún hefði ef til vill gert það ef hún hefði vitað hversu hrottalegt fyrsta málið hennar yrði. Framtíðin er okkur hulin en afstaða plánetnanna er að verða hættuleg. Á þessari stundu fljóta örlög Margotar eins og laufblað á kyrru vatnsyfirborði. Lýsingin í lyftunni lætur hana sýnast eldri en hún er. Mjóa svarta blýantslínan í kringum augun er næstum horfin. Þegar hún hallar höfðinu aftur á bak sér hún hvað félagar hennar eiga við þegar þeir segja að hún líkist föður sínum, Ernest Silverman, fyrrverandi sýslumanni. Lyftan nemur staðar á áttundu hæð og hún gengur inn auðan ganginn eins hratt og hún getur með bumbuna sína. Þau Adam fluttu inn á skrifstofu Joona Linna í sömu viku og lögreglan hélt minningarathöfn um hann. Margot kynntist aldrei Joona svo hún tók það ekki nærri sér. – Þú ert á hraðskreiðum bíl, segir Adam þegar hún kemur inn og oddhvassar tennur hans koma í ljós þegar hann brosir. – Já, heldur betur, svarar Margot. Adam Youssef er tuttugu og átta ára en andlit hans er kringluleitt eins og á táningi. Hann þyrfti að láta klippa sig og stutterma skyrtan lafir yfir buxnastrenginn. Hann er af sýrlenskum uppruna, en alinn upp í Södertälje og hefur spilað fótbolta í fyrstu deild norður. – Hve lengi hefur myndin verið á Youtube? spyr hún. – Þrjár mínútur, svarar Adam. Hann er þarna núna. Fyrir utan gluggann og ... – Það vitum við ekki en ... – Ég held það, grípur hann fram í. Ég held það, það hlýtur að vera. Margot leggur þungt veskið frá sér á gólfið, sest á stólinn sinn og hringir í tæknideildina. – Hæ, þetta er Margot. Eruð þið búin að senda okkur eintak? spyr
Hrellirinn_11 pt.indd 11
7.8.2015 15:21
12 ~ hún stressuð. Taktu nú eftir, ég verð að fá staðsetningu eða nafn, reynið að bera kennsl á staðinn eða konuna ... Takið á öllu sem þið eigið til núna, þið fáið fimm mínútur, gerið hvern fjandann sem þið viljið en gefið mér eitthvað að vinna með og þá lofa ég að sleppa ykkur snemma svo þið komist heim í helgarfrí. Hún leggur símann frá sér og opnar pitsukassa á skrifborði Adams. – Ertu búinn að fá nóg? spyr hún. Það klingir í pósthólfinu og Margot treður í flýti upp í sig pitsusneið. Óþolinmæðishrukkan hefur dýpkað á enninu. Hún smellir á myndina og stækkar hana á skjánum, slengir fléttunni aftur á bak, byrjar að spila myndskeiðið og rennir stólnum til svo að Adam geti líka séð. Það fyrsta sem sést er óstöðug mynd af upplýstum glugga í myrkrinu. Myndavélin færist hægt nær og lauf strýkst við linsuna. Það fer hrollur um Margot. Þarna stendur kona í upplýstu herbergi, skáhallt fyrir framan sjónvarpið og borðar ís úr boxi. Hún hefur dregið æfingabuxurnar niður og stígur úr annarri skálminni, sokkurinn fylgir með. Hún kíkir á sjónvarpið, hlær að einhverju og sýgur ísinn upp í sig úr skeiðinni. Það eina sem heyrist á skrifstofunni á lögreglustöðinni er hljóðið í tölvuviftunni. Gefðu mér einhverja vísbendingu, hugsar Margot og virðir andlit konunnar fyrir sér, fallegar línur við augun, kinnbeinin og ávalan hnakkann. Hún er sveitt og virðist vera nýkomin úr líkamsrækt. Teygjan í hvítum buxunum er slöpp eftir marga þvotta og það markar fyrir brjóstahaldaranum í gegnum svitablautt efnið í bolnum. Margot hallar sér nær skjánum, maginn þrýstist að lærunum og fléttan rennur aftur fram yfir öxlina. – Ein mínúta eftir, segir Adam. Konan setur ísboxið á sófaborðið og fer út úr herberginu, hún dregur buxurnar á eftir sér hangandi á öðrum fætinum. Myndavélin fylgir henni eftir, flyst til hliðar fram hjá mjórri
Hrellirinn_11 pt.indd 12
7.8.2015 15:21
~ 13 svalahurð og nálgast svefnherbergisglugga þar sem ljósið er kveikt og konan kemur í ljós. Hún losar sig úr buxunum og sparkar þeim í átt að hægindastól með rauðum púða. Buxurnar svífa í loftinu, lenda í veggnum hinum megin við stólinn og detta á gólfið.
Hrellirinn_11 pt.indd 13
7.8.2015 15:21