Krakkaskrattar - Anne-Carthrine Riebnitzsky

Page 1


Formáli E F ÉG ÆTTI AÐ SEGJA frá staðnum þar sem ég ólst upp myndi ég byrja á hafinu og blíðum öldunum sem daginn áður höfðu drekkt enn einum sjómanninum. Ég myndi segja frá frelsiskenndinni þegar ég lét mig vaða niður brattar brekk­ urnar á sunnanverðri strönd skagans. Þeirri tilfinningu að fæturnir ráði ferðinni, maður veit að ekki er hægt að stansa í miðjum klíðum, maður neyðist til að halda áfram að hlaupa meðan mölin gusast í allar áttir, í trausti þess að brekkan láti ekki undan, í trausti þess að maður komist alla leið. Ég myndi segja frá sólarlaginu sem breytti smáeyjunum í skuggamyndir á haffletinum, á meðan þögnin neðan úr eldhúsinu varð þrúgandi. Ég myndi sýna hvernig maður klifrar yfir handriðið á klunnalegum svölunum, með sleipu hálffúnu gólfborðunum. Það var Ivan stóri bróðir minn sem kenndi mér að klifra niður af svölunum. Hann var hugrakkari en ég. Það kom mér ekki á óvart að hann lét sig dreyma um að verða orrustu­ flugmaður, að drottna í háloftunum yfir eyjunum og sjón­ um sem við ólumst upp við. Þar var fullt af orrustuvélum. Okkur fannst stundum að þarna væri eftirlætisleikvangurinn þeirra. Djarfar og drynjandi eltu vélarnar hver aðra yfir höfðum íbúanna sem virtust ekkert skeyta um umheiminn. Blóðið ólgaði í æðum mínum og hestinum undir mér þar sem við þeystum yfir nýslegin túnin, og fólk og vélar, ryk, ~ 7 ~


sviti og uppskera lágu enn í hlýju ágústloftinu sem fól í sér tilfinninguna um eilíft sumar þrátt fyrir barnslega minninguna um að veturinn kæmi samt aftur. Svo gleymdi ég öllu á meðan enn eitt steingerðið hvarf í voldugu stökki og hrolli. Í uppskeruryki sumarkvöldsins hjólaði ég eftir malarvegunum á gömlu ljósbláu strákahjóli og smávölurnar spýttust undan dekkjunum. Hljóðið frá gúmmíi á möl sem skýst burt dýpkaði kyrrðina. Ég hjólaði eins hratt og ég gat. Sú tilfinning að ég byggi yfir takmarkalausri orku, sú tilfinning að enginn í heiminum hefði nokkurn tíma hjólað jafn hratt, gagntók mig alla. Græn trén, gulir fullþroska akrarnir og fölbleikt kvöldskinið að baki trjákrónunum komu út á mér tárunum. Ein og óséð skaut ég pedölunum snöggt til baka svo að hjól­ ið skransaði til. Það marraði í mölinni og rykið frá bremsu­ farinu hékk lengi í loftinu eftir að smásteinarnir settust. Ég fleygði hjólinu frá mér í grasið og hressandi beisk angan smáranna umlék mig. Handan við ilminn var jarðarberja­ akurinn. Ég dró djúpt að mér andann á meðan ég skotraði augum að húsinu. Leiftrandi blátt ljósið frá stofuglugganum var merkið mitt. Ég hóf berjaránið. Ég tíndi aðeins þau stærstu, sætustu og bestu. Ég át og át meðan ég gjóaði augum yfir langa hálmstígana og endalaus beðin þar sem uxu fleiri ber en ég gæti torgað á heilu sumri. Hitinn frá moldinni steig eins og langdreginn andardrátt­ ur upp af ökrunum og myndaði mistur í dældunum innan um kornið, gullið og sperrt. Hátt yfir öllu saman stungu stjörnurnar göt á himinhvolfið. Ég lá lengi og horfði upp í botnlausan dimmblámann og lyktin af mold, rotnuðu laufi og smádýrunum sem skríða um á jörðinni steig upp allt í kringum mig. Þegar ég reis á fætur hafði rakinn laumast gegn­ ~ 8 ~


um fötin mín á sama hátt og vissan um að ég yrði að fara heim þrengdi sér inn í sál mína. Á haustin var þétt moldin á plægðum ökrunum næstum blá af leir sem plógurinn skar í gljáandi köggla. Þegar dráttarvélin landaði plógnum á vinnuvélaplaninu og gargandi mávarnir voru þagnaðir blöstu berar eggjarnar við, jafn hvassar og nóttin. Á veturna var landslagið hvítt og frosið. Moldin hvíldist og fólkið sinnti sínu í kyrrð og ró. Ég fæddist á þeim tíma vetrar þegar fólki finnst vorið aldrei ætla að koma og veturinn sé orðinn allt of langur. Ég fæddist eftir langa bið. Ég var hljóðlát stúlka sem fæddist á eftir háværum stóra bróður. Svo eignaðist ég tvö systkini til viðbótar, Peter, litla bróður minn, og Marie, litlu systur okkar. Sem elsta stelpan í barnahópnum bar ég ábyrgð á systkin­ um mínum og ég var hægri hönd móður minnar í öllu sem viðkom heimilinu, hreingerningum og matseld, meðan bræð­ ur mínir hjálpuðu pabba í útihúsunum og á ökrunum. Hljóðin í svínunum, sem rýttu og emjuðu af óþoli á með­ an pabbi ýtti fóðurvagninum gegnum stíuna klukkan sex á morgnana og klukkan fimm síðdegis, mörkuðu vinnudaginn hjá mér eins og flóð og fjara. Ofar þeim sjávarföllum ríkti skapið í mömmu eins og veðrakerfi sem hafði áhrif á allt í kringum sig með fárviðrum sínum og góðviðri. Ég lít í áttina til þín. Við erum á leið vestur, frá Afganistan til Danmerkur. Kvöldið er að renna sitt skeið. Við tókum á loft um sólarlag og nú fylgir það okkur eftir á leið okkar vestur. Það er eins og tíminn standi kyrr. Augu þín eru skærblá. Það er eins og þau risti gegnum allt en þau eru ekki óvingjarnleg lengur. Varir þínar eru þrýstnar og kyssilegar í stuttu, stríðu skegginu. Ég hef ekki tekið eftir ~ 9 ~


munninum á þér fyrr en núna. Kviður minn sogast inn á við í áttina að hryggsúlunni. Ég er búin að skipuleggja þetta allt saman. Ég ákvað að sitja við hliðina á þér á þessari löngu leið okkar heim. Ég er þreytt inn í merg og bein eftir sex mánuði í stríði og sér­ staklega eftir það sem hefur gerst í fjölskyldunni. Samt vil ég reyna að bjarga því sem bjargað verður – og þú ert eina manneskjan sem mér finnst ég geta treyst núna. Vegna hinnar köldu skynsemi þinnar og þess að þú, á þessum örfáu dögum sem ég hef þekkt þig, hefur bjargað lífi besta vinar míns. Um leið trúi ég því að þú getir allt eins sneitt hjarta mitt í tvennt. Ég er í rauninni búin að ákveða að segja þér frá öllu. Ég verð að segja einhverjum frá því. Og tilhugsunin um að frásögn mín bæði hefjist og henni ljúki á meðan við erum hér um borð í flugvélinni, hún róar mig. Ég hef ákveðið að segja þér frá morðinu og líka frá ráninu sem átti sér stað á undan. „Hvar ólstu upp?“ spyrð þú mig aftur. En sagan hefst ekki þar, hugsa ég með sjálfri mér. Hún hófst fyrir tveimur mánuðum í kaldri eyðimörk.

~ 10 ~


ÞAÐ BRESTUR í mölinni undir fótum mínum. Tunglsljósið er skært. Stakt tré stendur á miðju hlaðinu við afganska bóndabæinn sem við höfum lagt hald á. Mjó blöð þess sindra eins og silfur, og það skrjáfar lágt í þeim í golunni. Það minnir mig á hafið og staðinn þar sem við ólumst upp. Ég ber kennsl á skuggamynd Ivans. Stóri bróðir minn hef­ ur vaknað til að kveðja mig. Andlit hans er fölt í kaldri birtunni. Hann brosir þrátt fyrir þreytuna. Allir tala í hálfum hljóðum. Bílalestin eru löngu tilbúin en ennþá gengur allt hægt og hljótt fyrir sig. Ég faðma hann að mér. Hann strýkur mér um hárið. Við höldum hvort utan um annað. Líkami hans er stinnur og hlýr, og hann heldur fast utan um mig. „Hvar værirðu eiginlega nema fyrir þína frábæru systur?“ hvísla ég. Hann lítur á mig með alvörusvip. „Í fangelsi. Og hvar væri mín indæla litla systir nema fyrir mig?“ spyr hann. „Á lokuðu deildinni.“ Hann sleppir mér. „Ivan Hesselholm, í dag ertu víðkunn stríðshetja. Hvernig voru æskuár þín?“ spyr ég. „Fyrri heimsstyrjöld. Margir dauðir, margir sárir, fáir land­ vinningar.“ „Og unglingsárin?“ ~ 11 ~


„Seinni heimsstyrjöld, löng og erfið barátta gegn brjáluð­ um einræðisherra sem enginn þorði að mótmæla. Baráttan gegn heimsyfirráðum eftirlaunaþeganna.“ Ég brosi. Ég hef gaman af stríðsmyndlíkingum Ivans sem taka alltaf örlitlum breytingum. Heimsyfirráð eftirlaunaþega þriðja ríkisins. „En þú, litli fugl, hvernig hefur líf þitt verið?“ spyr hann mig. „Eins og að alast upp austan megin við Berlínarmúrinn, horfa á allt draslið rifið niður og uppgötva að maður hefur lifað í lygi.“ Ég hika. Mér líður öðruvísi en vanalega þegar ég er á leið í eftirlitsferð. Ég er vön að vera í góðu skapi en ég sé ennþá fyrir mér kisturnar sem við sendum heim í síðustu viku. Óvænt koma Ivans hingað vekur mér í senn gleði og ugg. „Þú mátt ekki deyja,“ hvísla ég. „Ekki ein einasta kúla mun hitta mig. En þú ættir að passa þig á helvítis sjálfsmorðssprengjuvörgunum. Engar kurteisisheimsóknir til að útdeila styrkjum frá danska hernum, ha?“ Rödd Ivans virðist glaðleg. „Ég hlýði því.“ „Og segðu Christian að ég muni slíta af honum handleggina og ata hann út með blautu endunum ef hann keyrir ekki almennilega. Og að ég pissi í kaffið hans.“ Ég hlæ lágt. Christian er bílstjórinn minn. „Þetta er bara smátúr, venjulegt eftirlit,“ segi ég. „Það er ekki neitt „bara“ í þessu stríði.“ Við göngum yfir að hleðslurörunum. Ég sting hlaupinu ofan í plaströrið með vinstri hendinni, gríp skothylki upp úr ystu skothylkjatöskunni, skelli því á sinn stað og spenni byss­ una. Ryklokið opnast og messinggul patrónan leiftrar á leið sinni upp í skothólfið. Ég skelli lokinu aftur og læt vopnið ~ 12 ~


renna í rétta stöðu með fram vinstri síðunni. Með hægri hendi tek ég um byssuna. Ég beini stuttu hlaupinu niður í plaströrið og ýti skothylkinu á sinn stað. „Þú ert meira afstyrmið,“ segir Ivan rólega og glottir. „Er það kannski mér að kenna að ég er rétthent en sé betur með vinstra auganu?“ segi ég. „Svona svona. Þú ert flott.“ Hann klappar mér á öxlina. „Farðu varlega. Og mundu: Þeir sem við skjótum í dag valda okkur ekki vandræðum á morgun.“ „Þú skýtur, ég tala.“ Við göngum yfir að bílunum. Ég skima eftir Christian. Glóð­ in af sígar­ettunni lýsir upp ljósa skeggbroddana. Ég sé ekki augu hans í myrkrinu en ég veit hvernig augnaráð hans er, þekki rósemi hans. Það er enginn sem ég vildi heldur hafa við hliðina á mér á leið út í hið óþekkta á þessum morgni. „Eigum við að leggja í hann, Christian?“ spyr ég og vona að hressilegur tónninn feli viðkvæmnina sem gagntekur mig. Ivan klappar Christian fast á öxlina. „Hvað segirðu, hvernig gengur?“ drynur í honum. „Hægt og vel. En hjá ykkur?“ spyr Christian. „Eigum við að slíta fjölskylduráðstefnunni?“ segi ég. Ég vil helst að Ivan fari núna, áður en hann segir eitthvað sem gerir Christian þungbúinn og þöglan allan tímann. Ég veit ekki hvað málið er með þá tvo. Það er eins og þeir séu alltaf upp á kant hvor við annan. Ivan faðmar mig aftur. Hann hefur ekki sagt mér neitt um verkefni þeirra og það veldur mér áhyggjum. Hann er vanur að halda mér upplýstri. „Við sjáumst fljótt aftur, Systa.“ Ég skynja brosið í rödd hans. Ég stekk upp í sætið og sný byssunni þannig að skothylkið liggi upp við lærið á mér og ~ 13 ~


hlaupið beinist niður að bílgólfinu. Ivan rígheldur í brynvarða hurðina. Brottfararskipunin hljómar í talstöðinni. Það eina sem ég veit er að þeir eiga að leggja af stað eftir nokkra klukkutíma. Ég veit ekki hvenær ég mun sjá stóra bróður minn aftur.

~ 14 ~


VIÐ HÖLDUM okkur nálægt árfarveginum. Mig verkjar í hjartað, eins og stöðug barsmíð sólarinnar og skrælnuð jörðin hafi loks náð að brjótast gegnum varnir mínar eftir þriggja mánaða dvöl á svæðinu. Ég er þreytt og þrái að komast í fríið mitt. Það eru aðeins tvær vikur í það. Um leið vil ég eiginlega ekki fara, ekki núna þegar eftirlitssveit Ivans hefur skyndilega verið send hingað. Fjöllin úti við sjóndeildarhringinn eru næstum fjólublá og eftir nokkrar klukkustundir mun bleikur himinninn milda litinn á grágulri jörðinni þar til landslagið fær á sig fallegan og ævintýralegan blæ stutta stund. Mér finnst ég hafa verið hér lengi. Að flest hafi gengið vel. Að nú sé kannski kominn tími til að fara heim. Að ég eigi kannski að sleppa því að þiggja næsta verkefni sem mér verður boðið. En ég veit um leið að ég hugsa svona í hvert skipti. Og þegar einhver hringir í mig og býður mér að fara með þá segi ég já. Já við félagsskapnum, já við upplifununum, já við möguleik­ anum á því að skipta máli fyrir bláókunnugt fólk. Ég loka augunum. Við erum komin nálægt tjaldbúðunum en ekki svo nærri að við getum slakað alveg á. Niðri í þurr­ um árfarveginum eru strákarnir búnir að setja upp bráðabirgðaskotpall fyrir þungu vopnin sem við flytjum með okkur, þau er ekki hægt að prófa inni í tjaldbúðunum. Ég er hætt að heyra hljóðin í 12.7-skotfærunum, rétt eins og fólk sem býr nærri járnbrautarteinum hættir að heyra hávaðann í ~ 15 ~


lestunum. Innra með mér tekur þverflauta að hljóma, blíðlega og leitandi. Stuttu seinna trítlar píanóið varlega inn á sviðið. Þetta er annar píanókonsert Rachmaninovs, annar þáttur. Næstum ómerkjanlega tekur klarínett við af þverflautunni og flytur áfram raunalegt stefið. Ég sé sama landslagið fyrir mér í hvert skipti: flóann og eyjarnar utan við eldhúsglugga móður minnar. Útvarpið á hillunni er ævagamla B&O-tækið sem foreldrar mínir áttu. Pabbi varð stundum að taka það í sundur þegar það fór að hvískra leyndardómsfullt, eins og það væri að flytja leyniboð til andspyrnufólks á liðinni tíð. Ég sit og sný tökkunum á útvarpinu meðan sjónvarpið glymur inni í stofunni. Það er dimmt í eldhúsinu og ljósin kvikna smám saman hér og þar í bláum skuggunum úti á flóanum. Mjúkt hljóð streymir fram, hljóðfæri sem þjáist innra með sér. Píanótónarnir þéttast smátt og smátt. Þetta er tónlist sem hæfir landslaginu úti, hjartalaga blöðum sírenu­ runnans sem skrjáfa lágt í ljósaskiptunum og fyrstu stjörnunum sem birtast eins og neistar frá óséðu báli. Eldhúsið fyllist af tónum píanósins og tréblásturshljóðfæris sem ég er óviss um hvert er. Er það óbó eða klarínett? Teikningarnar af hljóðfærunum í Lademanns-alfræðibókinni flökta fyrir hugskotssjónum mínum. Ég ímynda mér glansandi svart klarínett með mörgum sindrandi silfurlitum tökk­­um; mjótt og fíngert í laginu, með flókið kerfi af litlum silfur­pípum sem liggja út í holurnar þar sem tilfinningarnar streyma fram. Píanóið verður meira áberandi, eins og það vilji hafa áhrif á klarínettið, eins og það vilji hugga það. Þau mætast í ljúf­ um takti. Píanótónarnir hljóma glitrandi skært við raunalegan bakgrunn tréblásaranna. Það er eins og fingurnir sem ~ 16 ~


renna fram og aftur yfir hvítu og svörtu lyklana hlaupi upp og niður hryggsúluna í mér. Fíngerð líkamshárin vakna skyndilega til lífsins, rétta úr sér og bærast með tónlistinni. Tónarnir stíga hærra og hærra upp glitrandi skalann þar til ég óttast að þeir hljóti að springa. Þeir renna saman í æsandi sársauka og fegurð í höfðinu á mér. Tónlistin hefur stungið á mig gat. Allt sem er falið innra með mér losnar skyndilega úr viðjum. Ég hugsa með mér að fingur sem geta hreyfst svona hratt og leikið svona fallega hljóti að vera mjög sérstakir. Ég er vitni að einhverju sem einhver hefur búið sig undir að koma á framfæri í mörg ár. Og handan þess gæla ómar strokhljóðfæranna og tréblásturs­ hljóðfæranna við mig, þéttir og hægir, eins og sumarandvari. Ég lít til dyranna inn í stofuna. Ég óttast að pabbi komi fram og sjái mig. Eða mamma. Verst væri ef pabbi kæmi. Ivan yrði hissa á mér en myndi samt skilja mig. Peter myndi sækja mömmu og Marie myndi setjast niður og gráta mér til samlætis. Ég óska þess heitt að dyrnar opnist ekki. Christian stekkur inn í bílinn. Hann var niður frá hjá hinum. Skotin gelta taktvisst á ný. Eitthvað í mér hafði skynjað að hann var að koma: lyktin af sígarettureyknum og fótatak hans á mölinni. „Ertu sofandi, drumburinn þinn?“ spyr hann. „Nei, ég er að hugsa.“ „Einmitt það sem foringjarnir eiga að gera,“ segir hann brosandi. Hann setur í gang. Ég rétti úr mér í sætinu. Glugginn, eyjan, píanóið, klarínettið, dimmur sjórinn; allt hverfur í einni svipan. Við tætum upp jarðveginn og þjótum í átt að glampandi malbiki aðalvegarins sem blikar í hitanum. Við erum ógnar~ 17 ~


leg eftirlitssveit. Rykið stendur upp af okkur. Við erum mátturinn og styrkurinn. Christian reykir tvær sígarettur á leiðinni að búðunum. Ferkant­aðir hnefarnir hvíla afslappaðir á stýrinu. Hann er með fallegar hendur, karlmannlegar hendur. Ég reyni að forðast að horfa of mikið á þær. Við spólum inn á planið. Ég horfi yfir hóp hressilegra hermanna í bolum og stuttbuxum. Þeir eru mættir til að bjóða okkur velkomin til baka. Það er góð venja sem sveitin okkar hefur tamið sér. Við leggjum á auðu svæði á planinu. Allir mæna í átt til P.O. sveitarforingja sem kemur stikandi löngum skrefum í átt til okkar. Ég veit að hann hefur notað ferðina í bílnum til að semja greinargerðir handa yfirstjórninni og hann er líka búinn að fara á foringjaskrifstofuna. Hann verður varla meira en fimm mínútur að gefa fyrirskipanirnar. Flestir vita þegar hvaða verkefni þeir munu fá. Byssuhreinsun, viðhald, þvott­ ur, matur, svefn, allt í réttri forgangsröð. Ég kann vel við P.O. Hann er hávaxinn, rauðhærður og þrekinn, bráður í skapi og alltaf reykjandi. Hann horfir yfir til mín. „Lisa, ég þarf að tala við þig á eftir.“ Hvað nú? hugsa ég. Hvað hef ég nú gert af mér? Hugsanir mínar hvarfla til og frá. Ég hef ekki gert neitt vitlaust, er það? „Slakaðu á,“ hvíslar Christian við hlið mér. „Hann ætlar bara að fá þig til að hjálpa sér við að skipuleggja eitthvað.“ Ég skotra augunum til hans. Skynjar hann virkilega hvern­ ig mér líður úr hálfs metra fjarlægð? Sveitin má búast við frídegi á morgun ef allt gengur vel. Sam­ eiginlegt feginsandvarp stígur upp frá hópnum og nokkur ~ 18 ~


glaðleg fagnaðaróp. Flokkurinn leysist upp. P.O. ryður sér leið í áttina til mín. Segðu nú eitthvað, hugsa ég. „Þú átt að hringja heim í móður þína. Eins fljótt og hægt er. Það er auðvitað biðröð í sveitarsímana, svo ég tók þennan með mér.“ Hann réttir mér gervihnattasíma. Ég tek við honum. „Kom eitthvað upp á?“ spyr ég. „Þú átt að hringja heim. Ég veit ekki meira.“ Ég sé á honum að hann er að ljúga. P.O. er lélegur lygari. „Hvar er Ivan?“ spyr ég. „Við náum ekki sambandi við þá í augnablikinu. Komdu og talaðu við mig á eftir.“ Mér verður ljóst að þetta snýst ekki um Ivan, að minnsta kosti ekki í þetta skiptið. Það hefur eitthvað gerst heima. P.O. er þegar lagður af stað að tjöldunum og stjórnstöðinni. Christian horfir spyrjandi á mig. „Mamma hringdi víst í mig.“ „Nú, hún hefur þá að minnsta kosti ekki drepið sig,“ segir hann og brosir skakkt. Hann klappar mér á öxlina. „Ég verð í stjórnstöðinni ef þú þarft á mér að halda, ókei? Láttu mig bara vita og þá hverfum við í rykskýi,“ segir hann. Ég fylgi honum eftir með augunum. Ég get alltaf treyst á hann. Ég slæ inn númerið há mömmu. Christian hverfur á bak við gám á meðan hringitónninn í Danmörku gellur við í eyrað á mér. „Þetta er Laila,“ heyri ég móður mína segja. Hún virðist þreytt, uppgefin. Niðurdregin. ~ 19 ~


„Þetta er Lisa. Hvað kom fyrir?“ Líkami minn er spenntur og reiðubúinn að bregðast við með einum eða öðrum hætti. En hvernig? „Marie var lögð inn.“ Mamma virðist skyndilega mjög róleg. Þúsund myndir fljúga í gegnum huga mér. Var keyrt á litlu syst­ur mína? Ráðist á hana? Hvernig get ég látið Ivan vita? „Hvað kom fyrir?“ „Hún reyndi að fremja sjálfsmorð. Þeir vita ekki hvort hún lifir af.“ Rödd hennar brestur. Hún hvíslar: „Ég veit ekki af hverju hún gerir þetta. Eins og ég hafi ekki nóg um að hugsa, með ykkur Ivan þarna í brennidepli al­ heims­ins.“

~ 20 ~


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.